Prentsmiðjur á Íslandi frá 19. til 21. aldar

Inngangur

Hér er ætlunin að draga saman á einn stað sem ítarlegastar upplýsingar um prentsmiðjur og þróun prentiðnaðar á Íslandi frá nítjándu fram á tuttugustu og fyrstu öld eins og kostur er. Fyrri tíðar prentsmiðjum hafa þegar verið gerð greinargóð skil í kaflanum Upphaf prentunar á Íslandi. Til að byrja með verður hér byggt á bókinni Prentsmiðjueintök – Prentsmiðjusaga Íslands, og birtar þaðan upplýsingar um rúmlega 130 prentsmiðjur. Upplýsingar úr bókinni eru þó ekki tæmandi og munu bætast við smátt og smátt nýjar upplýsingar um prentsmiðjur í grunninn þegar á líður. Öllum er velkomið að hafa samband við Prentsögusetur og koma á framfæri vitneskju um prentsmiðjur sem ekki er að finna hér.

Prentsmiðjusaga Íslands

bok-prentUpplýsingar um rúmlega 130 prentsmiðjur eru fengnar með góðfúslegu leyfi úr bókinni Prentsmiðjueintök – Prentsmiðjusaga Íslands efir Svan Jóhannesson sem gefin var út árið 2014. Svanur sat í stjórn Bókbindarafélags Íslands í 16 ár, þar af í 7 ár sem formaður. Hann sat síðan í stjórn Félags bókagerðarmanna í nær tvo áratugi eftir að félög í prentiðnaði sameinuðust árið 1980.

Áhugi landsmanna kviknar – prentverkið springur út!

Nítjánda öldin

Nítjánda öldin byrjaði rólega í prentiðnaði á Íslandi. Fyrri helming aldarinnar er prentsmiðja Magnúsar Stephensen ein starfandi, svo sem verið hafði um langt skeið. Síðustu árin í Viðey. Hún er síðan flutt upp á land til Reykjavíkur 1844 og heitir eftir það Landsprentsmiðjan. Það eru svo liðin tvö ár af seinna helmingi aldarinnar þegar loksins bætist önnur prentsmiðja við, Prentsmiðja Norður- og Austurumdæmisins. Síðan koma þær hver af annarri og í aldarlok höfðu verið stofnaðar fimmtán prentsmiðjur á landinu, langflestar í Reykjavík.

Félagsprentsmiðjan 1919–1921. Mynd: Þjóðminjasafn Íslands.

Félagsprentsmiðjan 1919–1921. Mynd: Þjóðminjasafn Íslands.

Fæstar þeirra lifðu þó að sjá tuttugustu öldina fæðast, þær störfuðu misjafnlega stutt, 3–4 ár var algengur líftími. Ein þeirra starfar þó enn í dag, Ísafoldarprentsmiðja var stofnuð 1877 og er enn að. Félagsprentsmiðjan lifði í 109 ár.

Á síðari helmingi aldarinnar kviknar áhugi landsmanna á prentverkinu og þeim möguleikum sem þessi „nýja“ tækni býður upp á; prentverkið springur út. Áhrifamenn í landsmálum sjá þarna óplægðan akur og vopn í pólitískri baráttu. Áhugafólk um bókaútgáfu stofnar fyrirtæki til að koma á framfæri við almenning kveðskap og óbundnu máli. Landsbyggðin nýtir sér prentverk í heimabyggð til að þurfa ekki að leita suður til Reykjavíkur eftir þjónustu svartlistarmanna.

Samhliða setningu og prentun blómstrar að sjálfsögðu bókband, þar sem prentgripnum var gefið útlit við hæfi, hvort sem um var að ræða fagurlega innbundna bók eða frágangur eyðublaða. Hér héldust í hendur í fagmennskunni setjarar, prentarar og bókbindarar.

Bylting í prentun – offsetið tekur völdin!

Tuttugasta öldin

Tuttugasta öldin er tíminn þegar allt gerðist í bókagerð og prentverki á Íslandi. Prentsmiðjur risu um allt land, fá pláss var svo lítið að ekki væri hægt að reka þar prentsmiðju, a.m.k. í nokkur ár. Tæknin jókst, prentvélarnar stækkuðu og urðu hraðvirkari, prentmyndasmíði kom til landsins og hafði í för með sér stóraukna myndvæðingu prentaðs máls; sinkmót tóku við af dúkristum. Og eftir ótal tilraunir til að gera setninguna hraðari til að halda í við hraðari prentvélar komu setjaravélar frá Linotype og Intertype eins og stormsveipur inn í prentsmiðjurnar. Þær sköpuðu ekki atvinnuleysi meðal setjara eins og óttast var, en juku á hinn bóginn afköst prentsmiðjanna.

Svo kom offsetið hægt og rólega og byrjaði smátt; fyrirbærið sem prentarar og setjarar fyrirlitu af innsta hjartans grunni og kölluðu vatnsprent í fyrirlitningu sinni. En þessari tækni óx fiskur um hrygg og hún gerði sig sífellt meira gildandi eftir því sem árin liðu. Með henni komu ljósmyndarar, skeytingarmenn og plötugerðarmenn. Og einn góðan veðurdag tók offsetið völdin.

„Goss-prentvélin getur afkastað 16.500 eintökum af 16 síðna blaði í fjórum litum“, segir Óðinn Rögnvaldsson, yfirverkstjóri. Mynd: B.B/Vísir

„Goss-prentvélin getur afkastað 16.500 eintökum af 16 síðna blaði í fjórum litum“, segir Óðinn Rögnvaldsson, yfirverkstjóri í Blaðaprenti. Mynd: B.B/Vísir 1972

Dagblöðin – nema Morgunblaðið – sameinuðust um Blaðaprent árið 1972, þar sem offsetið tók endanlega við af gamla þrykkinu. Bókaprentsmiðjurnar fylgdu í kjölfarið. Þar með varð ekki aftur snúið. Setjarar fóru á ritvélanámskeið til að geta starfað sem setjarar á innskriftarborðunum; nokkrir unnu sem slíkir eftir breytingarnar, en þeir voru fleiri sem fluttust milli starfa í prentsmiðjunum eða hreinlega hættu og fóru í önnur störf.  Vélritunarstúlkur tóku við setningunni. Þannig hafði tæknibreytingin á síðasta fjórðungi aldarinnar feiknarleg áhrif á bæði fyrirtækin en ekki á líf þeirra sem þar störfuðu.