Steindór Sigurðsson.

Andrés J. Straumland.

Prentsmiðja Vikunnar

Vestmannaeyjum 1928–1930

Haustið 1928 tók Steindór Sigurðsson (1901–1941), prentari og rithöfundur, prentsmiðjuna á Helgafellsbraut 19 á leigu og hóf útgáfu á vikublaðinu Vikunni. Fyrsta tölublaðið kom út 4. nóvember 1928 og var Steindór skráður ritstjóri þess. Prentsmiðjan var nefnd Prentsmiðja Vikunnar.

Í Ávarpi til Vestmannaeyinga sem birtist í blaðinu, var m.a. sagt að blaðið mundi ekki skipa sér í ákveðinn stjórnmálaflokk heldur „verða Vestmannaeyjablað fyrir Vestmannaeyinga“. Þetta gekk ekki eftir, því Jafnaðarmannafélag Vestmannaeyja tók við útgáfu blaðsins, frá og með 4. tölublaði og varð Andrés J. Straumland meðritstjóri. Steindór rak samt prentsmiðjuna áfram, en Andrés átti að sjá um pólitíkina í blaðinu.

Síðan hefur það líklega verið í júlí 1929 sem Steindór ákveður að kaupa prentsmiðjuna og honum tekst að semja við Ísleif Högnason og lánardrottna hans í Landsbankaútibúinu á Selfossi og er hann orðinn prentsmiðjueigandi í byrjun ágúst. Hann gekkst síðan fyrir því að prentsmiðjan var flutt úr húsi Ísleifs á Helgafellsbraut 19 í gamalt timburhús hálft, að Sólheimum við Njarðargötu, sem hann leigði af Helga Benediktssyni. Andrés var síðast skráður sem meðrítstjóri Steindórs 12. nóvember 1929, en eftir það var Steindór einn ritstjóri og útgefandi blaðsins þangað til það hætti að koma út. Alls komu út 54 tölublöð af Vikunni. Síðasta blaðið var dagsett 13. apríl 1930 og var það 6. tbl. 2. árgangs.

Í bók sinni Eitt og annað um menn og kynni, Akureyri, PHJ, 1948, segir Steindór m.a. frá sölu prentsmiðju sinnar á bls. 91: „Nokkru fyrir hátíðar (1930) hafði ég selt prentsmiðju mína með allverulegum hagnaði, svo eigin fjárráð mín voru allnokkur um þessar mundir.“ Það voru Sjálfstæðismenn sem festu kaup á Prentsmiðju Vikunnar og sameinuðu hana Eyjaprentsmiðjunni.