Fjölritun Finnboga Jónssonar
Akureyri 1932–1947
Finnbogi Jónsson (1904–1964) póstmaður starfrækti fjölritunarstofu á Akureyri um skeið jafnframt vinnu sinni hjá póstinum. Það sem hann fjölritaði voru aðallega nótur. Finnbogi var ættaður úr Húnavatnssýslu en í Íslendingabók er hann sagður póstur á Akureyri 1930. Í nafnlausu handriti úr gögnum Björgvins Guðmundssonar tónskálds um starfsemi Kantötukórs Akureyrar er sagt að Finnbogi hafi fjölritað allar nótur fyrir kórinn 1932–1933 og í frásögninni árið eftir er hans getið sem nýliða í tenórhópi kórsins.
Í Símaskránni 1939 er Finnbogi skráður á Oddeyrargötu 19 á Akureyri og er sagður póstþjónn, en í skránni 1947–1948 er hann til heimilis að Ægisgötu 11 og þá titlaður póstfulltrúi. Ýmislegt fleira fjölritaði Finnbogi m.a.: Nótur við lög Björgvins Guðmundssonar, Tvö prelúdíum 1932, Jónsmessunótt við ljóð Ingveldar Einarsdóttur 1932, Framleiðsluvörur KEA og SÍS með teikningum Jörundar Pálssonar 1935, Sálmasöngsbók (viðbætir) sem þeir söfnuðu og bjuggu undir prentun, Björgvin Guðmundsson, Páll Ísólfsson og Sigurður Birkis og Kirkjuráð Íslands gaf út 1946 og bókina Landshlutar og merkisstaðir eftir Steindór Steindórsson frá Hlöðum 1947.
Á seinni árum ævi sinnar flutti Finnbogi Jónsson á suðvesturhorn landsins og gerðist póstmeistari í Hafnarfirði en þar mun hann ekki hafa stundað fjölritun svo vitað sé.