Thor. E. Tulinius.

Ari J. Arnalds.

Axel Martin
Ström.

Prentsmiðja Dagfara

Eskifirði 1905–1907

Árið 1905 festi kaupmaðurinn og framkvæmdamaðurinn Thor Erlendur Tulinius (1860–1932) kaup á nýrri og vandaðri prentsmiðju með hraðpressu frá Þýskalandi og lét setja hana upp í Schiöthshúsi á Eskifirði. Tilgangurinn var aðallega sá að hefja blaðaútgáfu. Prentari var ráðinn Axel Martin Ström (1876–1948) sem var sænskur maður.
Blaðið fékk nafnið Dagfari og var ritstjóri og eigandi þess Ari J. Arnalds (1872–1957) lögfræðingur og kom blaðið út þrisvar í mánuði og var í svipuðu broti og Austri. Í forsíðugrein 1. tbl. Dagfara sagði að blaðið mundi hafa sömu stefnu í stjórnmálum og landvarnarmenn en þeir börðust fyrir því að auka frelsi, réttindi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar.
Nýlunda var að blaðið birti öðru hverju myndir og í fyrsta tölublaði birtist mynd af Dr. Emil Behring (1854–1917) með grein um nýja lækningu við barnaveiki.
Halldór Stefánsson rithöfundur hóf prentnám í Prentsmiðju Dagfara á Eskifirði 15. mars 1906, en hætti svo um tíma og lauk síðan prentnámi sínu í Prentsmiðju Austra á Seyðisfirði 1912. Þegar fram í sótti fór ekki alveg saman stefna eiganda blaðsins, Ara J. Arnalds, og eiganda prentsmiðjunnar Thors E. Tuliníusar. Thor þótti Dagfari of frjálslyndur og sagði því upp prentsmiðjusamningnum. Hann taldi blaðið hættulegt og óhæfilegt gagnvart Dönum.
Dagfari varð því ekki langlífur og kom ekki út nema í eitt ár. Prentsmiðjan stóð nú verkefnalaus á Eskifirði fram í ágúst 1907, en þá var farið að gefa þar út nýtt blað sem hét Austurland og var prentað í prentsmiðju Thors E. Tuliniusar. Prentsmiðjan fékk þá nýtt nafn og var kölluð Prentsmiðja Austurlands.