Björn Jónsson eldri.

Björn Jónsson eldri.

Sveinn Skúlason.

Sveinn Skúlason.

Aðalstræti 50 þar sem prentsmiðjan var til húsa.

Aðalstræti 50 þar sem prentsmiðjan var til húsa.

Prentsmiðja Norður- og Austurumdæmisins

Akureyri 1852-1879

Árið 1852 var stofnuð prentsmiðja á Akureyri sem hét Prentsmiðja Norður- og Austurumdæmisins, stundum nefnd Norðra-prentsmiðjan. Hafði þá ekki verið starfrækt prentsmiðja á Norðurlandi í um hálfa öld eða síðan prentsmiðjan á Hólum var sameinuð prentsmiðjunni í Leirárgörðum árið 1799.

Aðalhvatamaðurinn að stofnun þessarar prentsmiðju var Björn Jónsson eldri (1802-1886). Prentsmiðjuleyfið var dagsett 14. apríl 1852, en prentun hófst ekki fyrr en í febrúar 1853. Þetta var sjálfseignarfyrirtæki og hafði farið fram fjársöfnun, en gefendur voru hátt á annað þúsund. Helgi Helgason var yfirprentari frá upphafi og fram til 1861. Prentsmiðjan prentaði fyrsta málgagn Norðlendinga, Norðra, og var það meginritið sem prentað var þennan tíma. Bókaútgáfan var frekar fátækleg og bar vitni um erfiða tíma þessara ára. Voru helst prentuð og gefin út sálma- og bænakver, svo og rímur og ljóð.

Vegna rekstrarerfiðleika var ákveðið að leigja Sveini Skúlasyni (1824-1888) prentsmiðjuna og var hann forstöðumaður hennar 1856-1862. Hann hafði fengið Norðra til eignar, en svo illa gekk reksturinn að hann afsalaði sér honum og sagði upp leigusamningnum um prentsmiðjuna.

Björn Jónsson eldri tók þá prentsmiðjuna á leigu, breytti nafni blaðsins í Norðanfara, en allt fór á sömu leið og skuldir urðu svo miklar að leita varð eftir stuðningi ýmissa aðila til að greiða þær upp.

Skafti Jósefsson (1839-1905) tók nú prentsmiðjuna á leigu og fór að gefa út nýtt blað sem hét Norðlingur. Allt sat hins vegar við hið sama og fyrr, lítið prentað annað en hið nýja blað Skafta. Það var síðan á fundi 30. ágúst 1878 að prentsmiðjustjórnin ákvað að selja prentsmiðjuna. Kaupandinn var Björn Jónsson yngri (1854-1920) og salan fór fram þann 21. júní 1879.