Þórður H. Bergmann.

Þórður H. Bergmann.

Sigurður Haraldsson.

Sigurður Haraldsson.

Háskólaprent

Reykjavík 2009–

Háskólafjölritun 1976-1990 | Prentgarður / Háskólafjölritun 1990-1998 | Háskólafjölritun 1998-2009

Háskólafjölritun var stofnuð af stúdentum árið 1976. Það var þá til húsa í félagsheimili þeirra sem hét Félagsstofnun stúdenta og var við hliðina á Þjóðminjasafninu. Á þessum tíma voru notaðar litlar offsetvélar og prentað var með prentmótum úr plasti.

Fagmenn störfuðu ekki að neinu ráði í Háskólafjölritun fyrr en Þórður Helgi Bergmann (1945–) prentari fékk atvinnu­tilboð frá Félagsstofnun stúdenta árið 1988 og var hann ráðinn sem deildarstjóri Háskólafjölritunar. Þá voru vinstri menn (Röskva) við völd í Félagsstofnun og þeir vildu gera Háskólafjölritun að alvöru prentsmiðju. Þórður sá því um kaup á nýrri offsetprentvél og hann keypti einnig bókbandsvélar frá bókbandsstofunni Flatey. Þá var byrjað að prenta meira af bókum, blöðum og stærri verkefnum. Þórður var deildarstjóri til ársins 1989, en þá komust hægri menn (Vaka) til valda og þeir vildu ekki standa að svona rekstri eins og Röskva. Þá varð úr að Þórður og Félagsstofnun gerðu með sér samning og Þórður tók við rekstrinum og rak fyrirtækið á eigin vegum 1990–1997 og nefndist það þá Prentgarður/Háskólafjölritun.

Árið 1997 missti Þórður leigusamninginn og hann seldi fyrirtækið til Sigurðar Haraldssonar sem enn starfar þar ásamt Björgvini Ragnarssyni sem kom inn í fyrirtækið 2009 og starfar nú sem framkvæmdastjóri. Sigurður hélt nafninu Prentgarður/Háskólafjölritun í eitt ár, en kallaði það síðan aðeins seinna nafninu og hélst það til ársins 2009 að nafninu var breytt í Háskólaprent. Það er nú staðsett á Fálkagötu 2, á horninu á Fálkagötu og Suðurgötu (gengið inn Suðurgötumegin).

Háskólaprent er einkarekið fyrirtæki og hefur sérhæft sig í að þjónusta skólafólk, ásamt því að sinna allri almennri prentun fyrir almenning. Þar starfa nú þrír starfsmenn auk framkvæmdastjórans.
Háskólaprent var umhverfisvottað með Svansmerkinu árið 2010.