Jóhannes Gunnarsson.

Jóhannes Gunnarsson.

Prentsmiðja Kaþólsku kirkjunnar

Stykkishólmi 1952–2002

Árið 1952 kom þáverandi biskup Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, Jóhannes Gunnarsson (1897–1972), upp lítilli prentsmiðju við Klaustur St. Franciskussystra í Stykkishólmi. Hún var í húsnæðinu þar sem rafstöðin var áður, útbygging við austurhorn spítalans. Fyrsta prentvélin kom 1. nóvember þetta ár. Þá höfðu nýlega komið frá Belgíu, systir Rósa og systir Renée, sem báðar voru prentlærðar.

Allar vélar og tæki voru í eigu Kaþólska biskupsembættisins, en systurnar lögðu til húsnæðið. Í prentsmiðjunni var prentað allt efni fyrir Kaþólsku kirkjuna og Biskupsembættið, m.a.: Merki krossins, Rómversk-kaþólsk messusöngbók og bók um heilagan Frans frá Assisí. Systurnar prentuðu alls kyns smáverk, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Þá prentuðu þær Frímerkjablaðið og jólafrímerki um tíu ára skeið, samtals um 20 merki. Prentsmiðjan var tekin niður árið 2002 og voru þá vélarnar seldar, m.a. keypti Prentsmiðjan Prentun eina vél en sumt fór á safn.