Guðmundur Guðmundsson.

Magnús Ólafsson.

Óskar Guðnason.

Sigurþór Árnason.

Júlíus Sigurðsson.

Prentsmiðja Njarðar

Ísafirði 1916–1933

Árið 1916 keyptu nokkrir menn á Ísafirði prentsmiðju Magnúsar Ólafssonar og hófu útgáfu blaðsins Njarðar, en prentsmiðjan var látin heita eftir því og kölluð Prentsmiðja Njarðar. Ritstjóri blaðsins var sr. Guðmundur Guðmundsson (1859–1935) frá Gufudal. Hann hafði fengið lausn frá embætti og flust til Ísafjarðar og kenndi þar fyrst við barnaskólann og var erindreki Stórstúku Íslands en varð síðan forstöðumaður brauðgerðarhúss á Ísafirði. Nokkrir þeirra er stóðu að þessum prentsmiðjukaupum, drógu sig út úr þeim vegna stjórnmálalegs ágreinings. Eignaðist sr. Guðmundur því smátt og smátt prentsmiðjuna að mestu einn.
Blaðið Njörður hætti að koma út 1921. Var prentsmiðjan þá að mestu aðgerðarlaus til 1923, að blaðið Skutull byrjaði. Var sr. Guðmundur ritstjóri þess til 1925. Árið 1933 keypti Jónas Tómasson (1881–1967) bóksali Prentsmiðju Njarðar og sameinaði hana Prentsmiðju Vestfirðinga, sem hann keypti þá líka. Þessa prentsmiðju rak hann síðan áfram sem Prentstofuna Ísrún.
Prentarar sem störfuðu við Prentsmiðju Njarðar voru: Magnús Ólafsson (1875–1967), Óskar Guðnason (1906–1976), Sigurþór Árnason prentnemi (1907–1984), Júlíus Sigurðsson (1894–1960) og Óskar Jensen (1906–2009). Óskar Jensen var færeyskur að uppruna, fæddur á Ísafirði, en fór í fóstur til Þórshafnar 8 ára gamall og nam þar prentiðn. Fluttist aftur til Íslands um tvítugt og vann m.a. í Prentsmiðju Njarðar og síðan í Prentstofunni Ísrúnu í mörg ár.