Fullveldið og prentiðnin

eftir Þóru Elfu Björnsson

— og árið er 1918. Sterkar raddir höfðu hljómað langalengi áður en þessu marki var náð. Fullveldinu.

Evrópa var í sárum eftir heimsstyrjöld, margvísleg umbrot í þjóðfélögunum, nýlendur hristu klafann og heimtuðu frelsi, flokkar voru stofnaðir eða leystust upp, allt var á floti, framtíðin óljós.

Á Íslandi var fylgst vel með fréttum og rætt um sjálfstæði sem hafði verið kappsmál lengi. Ekki höfðu allir verið sammála í umræðunni, Íslendingar elskuðu jafn mikið þá að vera ósammála eins og nú. Fundir voru haldnir, bréf skutust milli landshluta og landa og ekkert lát var á skoðunum og þetta stóð yfir árum og áratugum saman einmitt um þetta efni: Fullveldi og sjálfstæði Íslands og margt féll undir þá málaflokka. Og auðvitað vissu menn hvernig best og fljótast var að koma sínum skoðunum á framfæri við sem flesta eða með prentuðu máli, blöðum, smáritum, fregnmiðum, sérprentunum og fleira.

Töfrar fjölföldunaraðferðar Gutenbergs fólust í því að með henni gat þekking, ráðleggingar, ákvarðanir stjórnvalda og hvaðeina annað sem átti erindi til allra dreifst hratt og auðvitað vakið nýjar skoðanir á undraskömmum tíma. Og það var sterkt að eiga blað, málsvara sem gat komið skoðunum á loft og dreift þeim til margra á svipuðum tíma. Að ég tali nú ekki um að eiga prentsmiðjuna, ráða yfir framkvæmdinni og innihaldinu því auðvitað voru eigendur þeirra flestir frekjuhundar og vissu allt best.
Þeir gátu jafnvel ráðið hverjir komu sínum skoðunum á framfæri í miðlinum og þaggað þar með niður í þeim sem ekki voru þóknanlegir. Svei mér, ef við þekkjum þetta ekki líka í dag.

Eða þeir gengu fram af yfirvöldum og var refsað fyrir, eins og ungu frelsishetjunni Jóni Ólafssyni frá Kolfreyjustað sem var eindregið á móti Dönum og birti hinn eftirminnilega Íslandsbrag sinn í blaðinu Baldri 19. mars 1870 ásamt nótum en nótnasetning er sérstakt fyrirbæri og nokkur nýlunda þá að nýtt ljóð ásamt laglínunum kæmi fyrir augu almennings. Jón var ritstjóri blaðsins og fékk á sig kæru fyrir innihald bragsins, síðan dóm og varð að flýja land. Auðvitað hefti þetta hann ekkert í að koma skoðunum sínum á framfæri, ekki síst með prentmiðlum og er löng saga af Jóni sem ekki verður rakin hér. Þó er rétt að geta þess að hann keypti ásamt Benedikt Sveinssyni sem þá bjó á Elliðavatni prentsmiðju og var eldmóðurinn slíkur að Benedikt fór sjálfur til Kaupmannahafnar að velja vélar, letur og fleira og sjá um flutninginn heim. Þetta var kringum 1870 og þeir félagar vildu komast hjá því að þeirra efni færi í Landsprentsmiðjuna, vildu vera sjálfstæðir í þessu eins og öðru en gleymdu því eða sinntu ekki í offorsinu að á þessum tíma þurfti að sækja um leyfi til prentsmiðjurekstrar en yfirvöld brugðust hart við og settu innsigli á prentvélarnar og lítið varð úr prentsmiðjurekstri á Elliðavatni eftir það.

Við skulum hafa í huga að flutningsmátinn voru hestar, skip og burðarmenn. Vélar og annað sem til prentsmiðjurekstrar heyrði var flest úr málmi og mikil þyngsli í öllu, pappír er heldur ekki léttavara og þarna var margt sem var viðkvæmt og þoldi ekki mikið hnjask. Allt þurfti að kaupa að utan, oftast frá Kaupmannahöfn og tók tíma og nokkurt amstur að kaupa inn og sjá um flutningana.

Þau letur sem mest voru notuð vildu slitna og kjagast og oft var torsótt að endurnýja þau. Panta þurfti sérstaklega hina séríslensku stafi. Val á leturgerðum fylgdi notagildinu, 2 gerðir fyrir meginmál með tilheyrandi stílbrigðum af ská- og feitu letri ásamt 2–3 leturgerðum í fyrirsagnir og auglýsingar. Mjög stór fyrirsagnaletur kölluðust stríðsletur og varð að nota í hófi því áhrif leturs á lestur og hughrif voru vel þekkt eða eins og Beatrice Warde, amerískur prent- og leturfræðingur sagði:

Letrið er rödd hinnar prentuðu síðu.

Ekki var ókeypis að senda greinar eða auglýsingar í blöðin og í einu þeirra stendur:

Auglýsingar og greinar um einstakleg efni eru tekin í blað þetta, ef borgaðir eru 3 sk. fyrir hverja línu með smáu letri (5 sk. með stærra letri). Kaupendur fá helmings afslátt. Blaðið er sent kaupendum ókeypis.

Á hverju landshorni var prentsmiðja, jafnt í litlum bæjum sem stórum, sumar stóðu stutt við eða fluttu með eigendum sínum.

Skúli Thoroddsen sýslumaður, þingmaður, útgefandi og fleira rak prentsmiðju á Ísafirði samhliða öðrum störfum en keypti jörðina Bessastaði á Álftanesi og flutti allt sitt þangað suður kringum árið 1900. Hann gerði betur en að flytja milli landshluta því hann reisti tveggja hæða hús yfir prentsmiðjuna við Bessastaðatjörn og má víst enn sjá grunninn. Í þeirri prentsmiðju var líf og fjör, prentaðar bækur og blöð og margir lögðu leið sína þangað út eftir með handrit eða að lesa prófarkir auk þess sem Skúli gaf sjálfur út margar bækur.

Lærlingarnir í prentsmiðjunni fluttu suður með starfinu og meðal þeirra má nefna Jón Baldvinsson síðar þingmann, formann prentarafélagsins og forseti Alþýðusambands Íslands svo fátt eitt sé nefnt. Kannski hefur umræðan í setjarasalnum ýtt undir þátttöku hans í félagsstörfum og að taka þátt í umræðunni og hafa skoðanir.

Og það var spennandi að vinna í prentsmiðjunum, umræðan var sterk, stundum ógnvænleg fyrir ungan dreng sem var áhorfandi þegar menn tókust á í setjarasalnum en Theodór Árnason fiðluleikari segir frá því í endurminningum sínum í Sunnudagsblaði Vísis árið 1944 hvernig Þorsteinn Gíslason og Davíð Östlund sem var sænskur trúboði og prentari tókust á í prentsmiðju Bjarka á Seyðisfirði og hve menn urðu undrandi þegar Þorsteinn sem var skáld og ritstjóri rak trúboðann í vörðurnar með bibliutilvitnunum! Svo það var ekki bara hið prentaða orð heldur líka leiðin að því sem hafði áhrif á umhverfið.

Sumir stigu með varkárni til jarðar og Í Prentaranum árið 1910 er sagt frá því að hlutafélag í eigu sýslanna þriggja: Árnes- Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu hafi keypt Prentsmiðju Hafnarfjarðar og flutt hana á Eyrarbakka svo hægt sé að gefa út héraðsblað, er ræði aðallega áhugamál svæðanna og svo segir:

En laust á það að vera við flokkaríg og lætur »Stórpólitík« alls ekki til sín taka!

Enda lifði blaðið stutt og prentsmiðjan stóð ekki lengi við á Bakkanum.

Árið 1918 lagði drepsótt landið undir sig og víða voru vinnustaðir óstarfhæfir um tíma, lítið var um innflutning og hafði verið meðan á stríðinu stóð svo útgáfa var með minnsta móti. — En umræðan, prentuð eða milli manna hafði borið árangur.

Fullveldið var staðreynd.