Prentsmiðja Alþýðublaðsins

Reykjavík 1923–1956–1972

Forsaga málsins er sú að Alþýðublaðið fyrra kom fyrst út 1. janúar 1906, árið viðburðaríka þegar Dagsbrún var stofnuð 28. janúar og Bókbindarafélagið 11. febrúar. Ritstjóri Alþýðublaðsins var Pétur G. Guðmundsson bókbindari og verkalýðsfrömuður, en frumkvæðið að útgáfu Alþýðublaðsins átti hins vegar Ágúst Jósefsson prentari. Alþýðublaðið var prentað í Prentsmiðjunni Gutenberg, sem þá var nýstofnuð (1904) Þetta blað kom aðeins út í rúmt ár, því síðasta blaðið kom út 7. apríl 1907.

Alþýðublaðið seinna kom hins vegar fyrst út 29. október 1919 og var þá líka prentað í Prentsmiðjunni Gutenberg til 1923. Þá var það að Hallgrímur Benediktsson prentari leigði þeim prenturunum og Alþýðuflokksmönnunum, Guðmundi J. Guðmundssyni (1899–1959) og Tómasi Albertssyni (1896–1955) prentsmiðju sína að Bergstaðastræti 19. Prentvélin þar hafði verið keypt til landsins árið 1879 til Ísafoldar og var fyrsta svokallaða hraðpressan á landinu. Þarna var blaðið prentað þar til Prentsmiðja Alþýðublaðsins tók til starfa í Alþýðuhúsinu á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu 1926. Hún hét reyndar Alþýðuprentsmiðjan, en var stofnuð til að prenta Alþýðublaðið og prentsmiðjustjórinn var enginn annar en Hallbjörn Halldórsson (1888–1959), sá mæti prentari.

Árið 1956 var prentsmiðjunni skipt í sundur og Prentsmiðja Alþýðublaðsins sem var staðsett í Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu 8–10 prentaði Alþýðublaðið eingöngu. Hinn helmingurinn fór upp á Vitastíg 10 og prentaði fyrir flokkinn og allan almenning. Prentmyndagerð Alþýðublaðsins var sett á stofn 1958 en starfaði aðeins til 1959 og var þá seld til Jóns Stefánssonar, Páls Finnbogasonar og Stefáns Gylfa Valdimarssonar. Hún var síðan verið rekin undir ýmsum nöfnum og af ýmsum eigendum: Prentmyndagerð J&G, Nýja prentmyndagerðin og síðast Prentmyndastofan.

Á sínum tíma var Alþýðuhúsið við Hverfisgötu reist fyrir samskotafé og áheit frá verkamönnum og alþýðufólki í Reykjavík. Þá var þarna til húsa Alþýðusamband Íslands, Alþýðuflokkurinn og Alþýðublaðið, allt á sama stað. Árið 1968 hætti Alþýðuflokkurinn að vera formlegur rekstraraðili Alþýðublaðsins. Þetta voru erfið rekstrarár fyrir flokksblöðin og 1972 var Blaðaprent stofnað með sameiginlegri prentsmiðju að Síðumúla 14. Eftir að Blaðaprent hætti að prenta blaðið var Alþýðublaðið prentað í Odda á tímabili og síðast í Ísafoldarprentsmiðju, en það hætti að koma út 1998.