Stefán Ögmundsson.

Stefán Ögmundsson.

Prentsmiðjan Dögun

Reykjavík 1933–1935

Stefán Ögmundsson (1909–1989) prentari stofnaði Prentsmiðjuna Dögun í Reykjavík og rak hana árin 1933–1935. Hann seldi þá prentsmiðjuna til hlutafélags er hætti störfum skömmu síðar en Prentsmiðja Jóns Helgasonar keypti vélarnar.

Prentsmiðjan Dögun prentaði bæklinga af ýmsum gerðum og blöð fyrir vinstri hreyfingu verkalýðsstéttarinnar svo sem Rauða fánann, Sovétvininn o.fl. Stefán starfaði í ýmsum prentsmiðjum Reykjavíkur og var einn af stofnendum Prentsmiðjunnar Hóla og vann þar 1942–1944. Ennfremur einn af stofnendum Prentsmiðju Þjóðviljans og vann þar 1944–1958 og prentsmiðjustjóri frá 1948.

Stefán var formaður Hins íslenska prentarafélags um tíma, varaforseti Alþýðusambands Íslands 1942–1948 og formaður Menningar- og fræðslusambands alþýðu, MFA, frá stofnun 1969 og sat í bókasafnsnefnd HÍP frá 1945–1980 og síðan FBM 1981 – dd. 1989. Stefán var heiðursfélagi HÍP og síðar FBM frá 1980.