Davíð Östlund.

Prentsmiðja Frækorna

Reykjavík 1904–1914

Davíð Östlund flutti aftur frá Seyðisfirði til Reykjavíkur árið 1904 og rak þar Prentsmiðju Frækorna til ársins 1914. Hann fór síðan til Ameríku árið eftir og vann þar jöfnum höndum við prentverk og ritstörf. Prentsmiðja Frækorna var stundum nefnd Prentsmiðja D. Östlunds. Hún var til húsa í kjallaranum að Þingholtsstræti 23. Fyrsta blaðið af Frækornum sem þar er prentað, er merkt V, 7, 15. apríl. 1904.
Prentsmiðjan brann til kaldra kola þann 22. janúar árið 1910. Vélar, pappír og letur eyðilagðist allt, en Davíð var ekki af baki dottinn. Hann endurnýjaði vélakostinn og byrjaði að prenta að nýju eftir rúma tvo mánuði. Hann keypti til viðbótar Eskifjarðarprentsmiðjuna sem Thor E. Tulinius (1860–1932) hafði keypt 1906 (Iðnsaga Austurlands, 1989). Þetta var hraðpressa sem síðan endaði í Vestmannaeyjum 1917, þegar Gísli J. Johnsen (1881–1965) kaupmaður keypti prentsmiðju Þ.Þ. Clementz þangað.