Guðmundur Eggerz.

Sigurður S. Scheving.

Magnús Jónsson.

Einar Sigurðsson.

Þorsteinn Einarsson.

Eyjaprentsmiðjan hf.

Vestmannaeyjum 1930–1945

Í lok ársins 1930 keyptu nokkrir menn úr Sjálfstæðisflokknum Prentsmiðju Gísla J. Johnsens af þrotabúi hans og jafnframt Prentsmiðju Vikunnar af Steindóri Sigurðssyni prentara. Varð þá til Eyjaprentsmiðjan hf. — Þar var prentuð ljóðabók Steindórs Sigurðssonar, Skóhljóð og var hún fyrsta bókin sem prentuð var í Vestmannaeyjum. Steindór fluttist um þetta leyti til Noregs til þess að verða rithöfundur á norska tungu.

Fyrsta blaðið af Víði, sem merkt var Eyjaprentsmiðjunni hf var prentað þar 13. desember 1930 og var þá Guðmundur Eggerz ritstjóri. Á miðju sumri 1931 tók Sigurður S. Scheving við og ritstýrði blaðinu til 19. mars 1932. Þá varð um árshlé á útgáfunni, en Magnús Jónsson (1875–1946) á Sólvangi gerðist þá ritstjóri, 23. febrúar 1933, og var hann lengst ritstjóri blaðsins. Hann var faðir Ólafs sem stofnaði Víði 1928 og hélt uppi merki sonarins. Margir fleiri voru ritstjórar Víðis m.a. Einar Sigurðsson (1906–1977) ríki, útgerðarmaður, en alls komu út 25 árgangar af blaðinu. Mörg fleiri blöð en Víðir voru prentuð í Eyjaprentsmiðjunni, þótt það blað væri þar ávallt burðarásinn. Má þar nefna t.d. blaðið Hamar, en ritstjóri og eigandi þess var Guðlaugur Br. Jónsson (1895–1966), en hann hafði að einkunnarorðum „Menning, frelsi og réttlæti“. Það komu þó aðeins 9 tbl. út af því blaði.

Magnús Jónsson var eigandi Víðis, en prentsmiðjan var í raun eign Sjálfstæðisflokksins, eða einstaklinga í honum. Útgáfan tók fjörkipp um hverjar kosningar, en aldrei kom til mála að prenta blöð fyrir aðra flokka. Árið 1934 var prentsmiðjan flutt frá Vestmannabraut 30 í Dagsbrúnarfjósið, sem Gunnar Ólafsson (1864–1961) kaupmaður hafði látið betrumbæta, en hann var þá orðinn eigandi Dagsbrúnar. Þorsteinn Einarsson (1911–2001) kennari við Gagnfræðaskólann, varð þá framkvæmdastjóri fyrirtækisins og keypti hann m.a. nýtt letur og tæki til smáprents. Það var alltaf eitthvað um smáprent að ræða á milli þess sem blöðin komu út. Eyjaprentsmiðjan var nú rekin þangað til á miðju sumri 1939 og var síðasta blað Víðis sem þar var prentað dags. 5. júlí 1939. Hann var síðan prentaður í ýmsum prentsmiðjum í Reykjavík.

Árið 1941 keypti Ingólfur Guðjónsson (1917–1996) prentari frá Oddsstöðum prentsmiðjuna, og keypti hann þá fyrstu setjaravélina sem kom til Vestmannaeyja. Hún var af þýskri gerð og hét Typograph. Þá var aftur byrjað að prenta Víði í Eyjaprentsmiðjunni og var það 23. maí 1941. En þetta sama ár keypti Samkomuhúsið prentsmiðjuna og var hún þá flutt í kjallara Nýja-Bíós við Vestmannabraut. Þar var hún rekin þangað til í júní 1945 og var síðasta tölublað Víðis prentað þar 22. júní 1945 og þar með var lokið merkum áfanga í prentsögu Vestmannaeyja.