Fjölritunarstofan Óðinn
Reykjavík 1927
Í bókinni Prentsmiðjueintök sem kom út 2015 er getið um þessa fjölritunarstofu, en lítið sem ekkert var vitað um hana annað en það að Bogi Ólafsson kennari við Menntaskólann í Reykjavík lét fjölrita þar bók eftir sig, sem sagt er frá og heitir: Stutt ágrip af enskri bókmenntasögu. Nú hefur aðeins bæst við þekkingu okkar. Við fundum annað rit sem þar var fjölritað sem heitir Gallus 2. Þar segir að Fjölritunarstofan Óðinn sé til húsa að Bergþórugötu 45. Í Gegni stendur að Gallus sé skólablað Menntaskólans í Reykjavík.
Á bakhlið ritsins er teikning sem auðsjáanlega á að vera Halldór Kiljan Laxness. Textinn undir myndinni hljóðar svo: „Hirðvefari vor — hinn mikli „fræbúðingur“ frá Kasmír, sem vjer birtum af mynd, „af eintómum prakkaraskap“. Vefarinn mikli frá Kasmír kom fyrst út 1927 og er því líklegt að þetta rit komi líka út sama ár.
Skólablað Menntaskólans kom fyrst út 1926, en hét þá Pottlok Gallusar 1. Það er fjölritað í Fjölritunarstofu Pjeturs G. Guðmundssonar, en í Gegni segir að Pottlok komi út 1926–1927.