Magnús Stephensen.

Magnús Stephensen.

Ólafur Stephensen.

Ólafur Stephensen.

Viðeyjar Klaustur

Viðey 1819-1844

Prentsmiðjan í Viðey var eina prentsmiðjan á Íslandi um langt skeið og má segja að Magnús Stephensen hafi verið einvaldur í bókaútgáfu á sinni tíð. Þekktasta og stærsta bókin sem prentuð var í klaustrinu í Viðey var kennd við eyjuna og nefnd í daglegu tali Viðeyjarbiblía og kom út árið 1841. Guðmundur Jónsson Skagfjörð (1758-1844) var ráðinn yfirprentari í Viðey frá stofnun prentsmiðjunnar og gegndi því starfi til 1830. Eftirmaður hans var Helgi Helgason (1807-1862) og var hann yfirprentari í Viðey þar til prentsmiðjan var flutt til Reykjavíkur og fluttist hann með henni þangað. Einar Þórðarson (1818-1888) nam prentiðn í Viðey og fluttist líka með prentsmiðjunni til Reykjavíkur.

Magnús Stephensen sem upphaflega bjó að Leirá flutti síðar að Innra–Hólmi en þaðan til Viðeyjar árið 1813. Hann keypti eyjuna 1817 með öllum þeim eignum er henni fylgdu, en hún hafði verið eign Danakonungs frá siðaskiptum. Prentsmiðjan flutti frá Leirárgörðum að Beitistöðum árið 1814 en fylgdi síðan með Magnúsi til Viðeyjar 1819.

Bókbandið fylgdi hins vegar fyrst með Magnúsi að Innra-Hólmi 1807 og var starfrækt þar til 1819 en var síðan flutt með prentsmiðjunni til Viðeyjar 1819.* Ólafur Stephensen, sonur Magnúsar, fékk síðan prentsmiðjuna leigða árið 1834, ári eftir lát föður síns. Bókaútgáfa var meiri á hans tímabili en hjá föður hans, sem var störfum hlaðinn alla tíð. Ólafur var ritari við Landsyfirréttinn og hlaut því nafnbótina „sekreter“, sem kom fram á titilblöðum margra útgáfubóka hans. Hann bjó í Viðey til æviloka 1872.

*Sigurþór Sigurðsson: Bókband og bókbindarar á Íslandi. (Óútgefið í eigin handriti)