Horft norður Aðalstræti. Prentsmiðja landsins var í Bergmannsstofu, fremst til hægri. Fjær vinstra megin götunnar bjó Jón Guðmundsson ritstjóri Þjóðólfs í Aðalstræti 6, tvílyftu timburhúsi með lágu þaki, við hlið Fjalakattarins sem snýr gafli að götunni. Ljósm. Sigfús Eymundsson – Þjóðminjasafn Íslands.

Ólafur Stephensen.

Ólafur Stephensen.

Einar Þórðarson.

Landsprentsmiðjan

Reykjavík 1844–1875

Prentsmiðja landsins sem Ólafur Stephensen dómsmálaritari hafði haft á leigu í Viðey í 10 ár (1834-1844) var flutt til Reykjavíkur sumarið 1844. Ólafur vildi halda starfseminni áfram í Viðey en stiftsyfirvöldum þótti tilboð hans óaðgengilegt. Mestu réði þó að ákveðið var að endurreisa Alþingi í Reykjavík og þótti staðsetning prentsmiðjunnar því ekki hentug í Viðey.

Prentsmiðjan var nefnd Landsprentsmiðjan en stundum stóð á titilblöðunum Prentsmiðja landsins eða Prentsmiðja Íslands. Henni var komið fyrir í svonefndri Bergmannsstofu við Aðalstræti, rétt norðan við gamla kirkjugarðinn. Starfsemin var ekki viðamikil lengi framan af, þrátt fyrir prentun Tíðinda frá Alþingi og annars sem sú stofnun þarfnaðist. Var þó um mikla aukningu að ræða frá því sem verið hafði í Viðey.

Helgi Helgason yfirprentari í Viðey flutti með prentsmiðjunni til Reykjavíkur og gegndi sömu stöðu þar til ársins 1849. Gengið var þannig frá málum að prentsmiðjan var starfrækt sem sérstakt fyrirtæki með sjálfstæðu reikningshaldi undir umsjón yfirvalda. Helgi lærði prentun í Viðey hjá Guðmundi Skagfjörð sem lengst allra hafði stundað iðn sína í mörgum fyrri prentsmiðjum landsins allt frá Hólum. Helgi flutti síðan til Akureyrar og gerðist yfirprentari í Prentsmiðju Norður- og Austurumdæmisins.

Einar Þórðarson prentari tók við af Helga, en hann var útnefndur ráðsmaður prentsmiðjunnar 1852. Árið 1855 gerðu yfirvöld samning við hann um stjórn prentsmiðjunnar, en þó undir yfirumsjón þeirra varðandi hin útgefnu rit. Stóðu málin með þeim hætti þar til hann keypti prentsmiðjuna í lok ársins 1876.