Ólafur Magnússon.

Vilhelm Stefánsson.

Prentsmiðjan Vestmannabraut 30

Vestmannaeyjum 1928–1929

Haustið 1928 byrjaði cand. phil. Ólafur Magnússon (1903–1930) að undirbúa útgáfu vikublaðsins Víðis í Vestmannaeyjum og kom 1. tölublaði út 17. nóvember 1928. Það var prentað í Prentsmiðju Gísla J. Johnsen, en Ólafur tók prentsmiðju hans síðan á leigu og lét flytja hana að Vestmannabraut 30. Það var húsið Viðey, sem var byggt árið 1922, en prentsmiðjan var sett upp á miðhæð hússins og var þar í tveimur herbergjum. Ólafur keypti nokkuð af nýju letri til hennar og lét breyta pressunni þannig að hún gekk nú fyrir rafmagni.

Á árinu 1929 kom Vilhelm Stefánsson (1891–1954) prentari að blaðinu og er sagt frá því í fyrsta tölublaði Þjálfa, sem kom út í maí 1932, að hann hafi stofnað til sýningar á framleiðslu prentsmiðjunnar í glugga bókabúðar Þórðar og Óskars. „Hefur sýningin vakið eftirtekt því margt er þar mjög laglega gert. Þegar tekið er tillit til þess hve prentsmiðjan er illa búin að nauðsynlegustu tækjum, má það teljast undravert hve vel hefur tekist að gera ýmsar prentanir, sem líta má á sýningunni.“ (bls. 6).

Ólafur Magnússon lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1923 og nam læknisfræði við Háskóla Íslands en varð að hætta námi vegna heilsubrests. Hann var berklaveikur, en ritstýrði samt blaðinu Víði allt þar til hann lagðist inn á Vífilsstaðaspítala í mars 1930. Í grein sem sonarsonur hans, Ólafur F. Magnússon (1952–) læknir, ritaði í Morgunblaðið á 100 ára afmæli hans 3. maí 2003 segir: „Allt sem hann skrifaði í blaðið ritaði hann við hné sér í rúminu og las þar allar prófarkir og leiðrétti með sama hætti.“ Ólafur Magnússon var ritstjóri Víðis frá 17. nóvember 1928 til og með 23. febrúar 1930, en nokkrum dögum síðar fór hann á Vífilsstaði.

Fyrsta tölublaðið af Víði var prentað í Prentsmiðju G. J. Johnsen, en frá 2. tbl. 1928, var það prentað í Prentsmiðjunni Vestmannabraut 30 og svo áfram meðan hún hét því nafni, en það var til 18. desember 1929, alls 56 blöð. Þá varð nafnbreyting á prentsmiðjunni og hún var nefnd Prentsmiðja Víðis frá og með sjötta tölublaði 21. desember 1929. Ekki er neins getið í blaðinu um þessa nafnbreytingu og ekki er vitað um ástæðuna. Líklegast er að nafn blaðsins hafi verið orðið svo ríkt í hugum fólks að það hafi verið talið réttara að færa nafn þess yfir á prentsmiðjuna, en þetta skeði um tveimur mánuðum áður en Ólafur lét af störfum sem ritstjóri Víðis.