Christian Sørensen.

Christian Sørensen.

Tacheotyp Jafnan talin vera fyrsta setjaravélin. Uppfinning Christian Sørensen fékk gullverðlaun á Heimssýningunni í París 1855.

Tacheotyp – fyrsta setjaravélin.

Prentsmiðja Louis Klein

Kaupmannahöfn 1852-1883

Það er ekki mikið af heimildum til um Louis Klein prentara í Kaupmannahöfn. Þó má finna í upplýsingum úr manntali í Kaupmannahöfn að hann hefur átt heima í Store Kjöbmagergade 65, var fæddur 1810, giftur og átti tvær dætur.

Prentsmiðja Louis Klein var starfandi um og eftir miðja 19. öld á þeim tíma þegar Landsprentsmiðjan starfaði í Reykjavík. Hann hafði þó nokkur viðskipti við Íslendinga og á meðal helstu íslenskra bóka sem prentaðar voru hjá Klein má nefna: Þúsund og ein nótt, Mjallhvít, Sagan af Karla-Magnúsi, Hugleiðingar eftir J. P. Mynster biskup á Sjálandi, Æfiminningar Halldórs Bjarnasonar, Ferðasaga úr Noregi og Ljóðmæli Jóns Þorleifssonar prests á Ólafsvöllum.

Margar af þessum bókum gaf Páll Sveinsson (1818-1874) bókbindari út, en hann hafði mikil samskipti við prentsmiðju Louis Klein. Páll fór ungur til Kaupmannahafnar til að læra bókband, ílentist þar og vann mikið að útgáfu íslenskra bóka í Kaupmannahöfn alla sína tíð. Louis Klein studdi kórstarf á meðal prentara í Kaupmannahöfn, ásamt tveimur öðrum þekktum prentsmiðjueigendum safnaði hann fé til píanókaupa fyrir söngfélag þeirra.

Á sjötta áratug 19. aldar vann danskur prentari hjá Louis Klein. Hann hét Christian Sørensen (1818-1861), en hann fann upp setjaravél (Tacheotyp) og fékk gullverðlaun á Heimssýningunni í París 1855. Sørensen reyndi að koma vélinni í framleiðslu í Frakklandi en það mistókst. Hann snéri þá aftur heim til Danmerkur og fékk vinnu með tvær vélar sínar hjá Prentsmiðju Louis Klein við að setja blaðið Fædrelandet. Þetta mistókst líka en Sørensen varð samt sem áður heimsfrægur maður fyrir uppfinningu sína.