Steingrímur Guðmundsson.

Steingrímur Guðmundsson.

Ríkisprentsmiðjan Gutenberg

Reykjavík 1930–1992

Prentsmiðjan Gutenberg í Þingholtsstræti 6 var hlutafélag sem stofnað var af prenturum árið 1904. Ríkissjóður Íslands keypti síðan fyrirtækið, bæði húseign, vélar og tæki árið 1929 og tók Ríkisprentsmiðjan Gutenberg til starfa í byrjun árs 1930. Fyrsti forstjóri prentsmiðjunnar eftir að ríkið keypti hana var Steingrímur Guðmundsson (1891–1981) sem var prentlærður maður og hafði unnið í mörg ár við prentun í Danmörku, meðal annars í prentsmiðju Gyldendals, áður en hann tók við nýja starfinu.

Starfsmenn Gutenbergs voru um 40 talsins á þessum árum, en þegar fyrirtækið flutti í ný húsakynni í Síðumúla árið 1975 hafði þeim fjölgað um helming. Gutenberg prentaði mest fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir, en líka fyrir félög og einstaklinga, t.d. biblíuþýðingu Haraldar Níelssonar, Orðabók Sigfúsar Blöndals, skýrslur Hagstofunnar og útgáfu Fornritafélagsins.
Prentsmiðjan var gerð að hlutafélagi 1991 og síðan seld Steindórsprenti árið eftir og nafninu breytt í Steindórsprent-Gutenberg. Prentsmiðjan Oddi keypti síðan þá prentsmiðju aldamótaárið 2000.