Gísli J. Johnsen.

Valdimar B. Hersir.

Prentsmiðja G.J. Johnsen

Vestmannaeyjum 1924–1930

Gísli J. Johnsen kaupmaður og konsúll hélt áfram eignarhaldi sínu á prentsmiðjunni en reksturinn var erfiður. Hann hafði nú ekki lengur ritstjóra á borð við Pál Bjarnason eða Pál V.G. Kolka. Eina leiðin var að prentarinn sinnti báðum störfum. Eftir að blaðið Skjöldur hætti að koma út, um mitt ár 1924 byrjaði Valdimar Brynjólfsson Hersir (1891–1936) prentari að gefa út blað sem hann nefndi Þór. Þetta var þriðja tilraunin með blað í Vestmannaeyjum, en hinar misheppnuðust. Fyrsta blaðið kom út 6. ágúst 1924 og segir í grein frá ritstjóra að blaðið „muni að mestu leyti feta í fótspor fyrirrennara sinna Skeggja og Skjaldar í öllum opinberum málum…“.

En erfitt reyndist að reka þessa prentsmiðju því markaðurinn var svo lítill, að það reyndist illmögulegt. Þór kom ekki út nema í tæpt ár og kom síðasta blaðið 30. apríl 1925. Þá hóf Valdimar enn á ný útgáfu blaðs sem hann nefndi Skeggja og taldi vera 4. árgang gamla Skeggja. Fyrsta blaðið kom út 12. júní 1926. Í auglýsingu frá blaðinu segir að Skeggi sé blað frjálslyndra manna í Vestmannaeyjum, komi út vikulega og kosti árgangurinn 5 kr.

Síðasta blað Skeggja kom út 19. febrúar 1927. Varð þá nokkurt hlé á starfsemi prentsmiðjunnar. Ólafur Magnússon tók hana á leigu í nóvember 1928 og hóf að gefa út blaðið Víði en lést ári seinna. Gísli J. Johnsen varð síðan gjaldþrota 1930 og nokkrir menn í Eyjum keyptu prentsmiðjuna af þrotabúi hans.