Þórður Ingvi Sigurðsson.

Sigurður J. Þorsteinsson.

Prentsmiðja Geislans eða Prentsm. Ing. 19

Reykjavík 1929–

Upp úr hreyfingu Williams Millers (1782–1849) babtistaprests í Ameríku var Kirkja sjöunda dags aðventista stofnuð árið 1863. Kirkjan starfar nú í 209 löndum af þeim 236 sem skráð eru hjá Sameinuðu þjóðunum. Meðlimir eru um 14 milljónir í dag. Trú þeirra fjallar um spádóma kirkjunnar um endurkomu Jesú Krists.

Aðventistahreyfingin barst hingað til lands með sænska trúboðanum og prentaranum Davíð Östlund 1897. Hann keypti fyrst Aldar-prentsmiðju Jóns Ólafssonar 1899 en seldi hana aftur 1901. Þar byrjaði hann að prenta blaðið Frækorn og boðaði þar fagnaðarerindið, en upp frá því var prentsmiðja hans kölluð Prentsmiðja Frækorna. Fluttist hann þá til Seyðisfjarðar og keypti Prentsmiðju Bjarka og rak hana til 1904. Þá hvarf hann aftur til Reykjavíkur og setti þar upp Prentsmiðju Frækorna. Hún brann til kaldra kola 1910 en Davíð Östlund endurnýjaði hana og rak áfram til 1913. Hann fluttist síðan til Ameríku árið 1915.

Þá varð hlé á prentun hjá aðventistum til 1930. Þeir reistu Aðventkirkjuna í Ingólfsstræti 19 árið 1926 ásamt félagsheimili. Hún var teiknuð af sænska arkitektinum Valdemar Johansson (1883–1955). Síðan keyptu þeir prentvél frá Bandaríkjunum og var prentsmiðjan nefnd Prentsmiðja Geislans. Hún var líka nefnd Prentsmiðjan Ingólfsstræti 19 en yfirleitt stóð bara Prentsm. Ing. 19 á prentgripum þaðan. Prentsmiðjan var í kjallara kirkjunnar og var prentað þar nýtt blað aðventista sem hét Bræðrabandið. Þá kom út bókin Frá ræðustóli náttúrunnar eftir E.G. White, en hún var prentuð í Prentsmiðju Geislans 1929.

Magnús Helgason (1896–1976) frá Vestmannaeyjum sá um prentunina í fyrstu en hann var ekki faglærður. Þá var fenginn þangað útlendur maður að nafni Abrahamsen og var hann við prentun á fyrri helmingi síðustu aldar eða um miðja öldina. Englendingur að nafni Reg Burgess sá um prentunina í nokkur ár eftir 1960. Þórður Ingvi Sigurðsson (1930–1998) prentari vann þar oft í ígripum, en stöðugt frá apríl 1970 og til 1973. Þá var ráðinn þangað Sigurður Jóhann Þorsteinsson (1946–) prentari og vann hann þar frá 1973–1981. Á þessum árum var fengin ný stensil-fjölritunarvél í prentsmiðjuna en notuð ritvél til setningar í stað setningarvélar. Bræðrabandið kom út í 50 ár en þá var skipt um nafn á því og heitir það Aðventfréttir í dag. Þeir gáfu svo út fleiri blöð eins og Ljós og sannleikur 1935–1936, en það var líka stundum prentað í Herbertsprenti. Aðvent Æskan kom út 1948 og Viljinn — Blað Aðventæskunnar. Öll þessi blöð voru prentuð í Prentsm. Geislans eða Prentsm. Ing. 19. Starfsemin í Reykjavík var flutt um 1990 í nýtt húsnæði að Suðurhlíð 36.