Sigurður Guðmundsson.

Árni Guðlaugsson.

Prentsmiðjan Helgafellsbraut 19

Vestmannaeyjum 1928

Prentsmiðja Eyjablaðsins, sem þeir fóstbræður Ísleifur Högnason, Haukur Björnsson og Jón Rafnsson ráku um tíma, var til húsa að Helgafellsbraut 19. Það var íbúðarhús Ísleifs Högnasonar (Bolsastaðir). Eyjablaðið hætti að koma út 9. júlí 1927 og hefur þá verið lítið um verkefni fyrir prentsmiðjuna það sem eftir lifði ársins, nema kannski eitthvert smáprent sem ekki hefur varðveist.

Þá hóf göngu sína nýtt blað sem bar nafnið Huginn og er ritstjóri þess og ábyrgðarmaður talinn Sigurður Guðmundsson (1900–1984).
Í blaðhaus Hugins segir að það sé frétta- og auglýsingablað fyrir Vestmannaeyjar. Í ávarpsorðum á forsíðu er tíunduð stefna blaðsins, að blaðið sé óháð öllum stjórnmálaflokkum en ætli að flytja fréttir og fróðleik sem almenning varðar, einkum innanbæjarmál. Þá er talið óheppilegt að í jafn stórum bæ og Vestmannaeyjar eru skuli ekkert blað koma út. Sagt er að það sé víst eini bærinn á Norðurlöndum sem telur yfir 3000 íbúa og ekkert blað hefir.

Á öðrum stað í blaðinu á bls. 3 er tilkynning frá útgefendum sem eru Árni Guðlaugsson og Sigurður Guðmundsson um að þeir hafi tekið á leigu prentsmiðjuna á Helgafellsbraut 19 og þeir ætli að reka hana fyrst um sinn með sama fyrirkomulagi og áður. Talin er upp alls konar smáprentun sem prentsmiðjan geti tekið að sér og að tekið sé á móti verkefnum á Skólavegi 32 og í prentsmiðjunni. — Fyrir ofan tilkynninguna, á sömu síðu, er auglýsing um vönduð hljóðfæri með skrautlegum ramma frá Sigurði Guðmundssyni á Skólavegi 32. Þarna er víst um sama mann að ræða og sama heimilisfang og á afgreiðslu blaðsins. Í 15. tölublaði er sagt frá því, í tilkynningu frá útgefendum, að prentsmiðjan hætti nú störfum vegna þess að hún hafi verið leigð öðrum aðilum.