Søren Lauritz Møller.

Søren Lauritz Møller.

Johan Valdemar Møller.

Johan Valdemar Møller.

Prentsmiðja S. L. Møller

Kaupmannahöfn 1827-1983

Prentsmiðja S. L. Møller á rætur sínar að rekja til íslenska prentarans Þorsteins Rangels Einarssonar (1757-1826). Þorsteinn nam prentiðn hjá Hartvig Godiches Enkes Bogtrykkeri í Kaupmannahöfn og fékk sveinsbréf árið 1780. Hann vann síðan í nokkrum prentsmiðjum, m.a. í Vaisenhuset og hjá Schultz en fór að vinna hjá Seidelin árið 1797.

Hann varð forstjóri þar árið 1805 eftir að Seidelin missti prentverkið vegna málaferla og rak hann það sem slíkur til ársins 1811. Þá keypti hann prentverkið og rak það til 1825 að hann seldi það vegna heilsuleysis í hendur syni sínum Einari Mogens Sophus Rangel (1784-1843) og stjúpsyni Søren Lauritz Møller ( – 1872). Þeir Einar og Søren sömdu svo um það að Søren tæki við forráðum fyrirtækisins og var opinber stofndagur þess 9. febrúar 1827.

Eftir að S. L. Møller hafði fengið í hendur leyfisbréfið fyrir rekstrinum lánaði Hið íslenska bókmenntafélag honum 800 ríkisdali sem hann notaði að hluta til að borga Rangel stjúpföður sínum vegna samnings um framfærslu og að hluta til reksturs prentsmiðjunnar. Prentun á íslenskum ritum sem Þorsteinn Rangel útvegaði fyrirtækinu í hálfa öld var mjög mikilvæg fyrir rekstur þess og íslenskir setjarar voru ávallt með í starfseminni.

Johan Valdemar Møller tók við af föður sínum 1872, en hann var ekki faglærður prentari. Hann fékk því L. E. Thomsen prentara sem meðeiganda og þeir skiptu með sér verkum þannig að Møller sá um skrifstofuna og setjara–salinn en Thomsen um verkstjórn í prentsal. Árið 1899 fór L. E. Thomsen út úr fyrirtækinu. Keypt var nýtt húsnæði í Hestemöllestræti 5 og flutt þangað 1904. Synir J. V. Møller, þeir Henning og Max tóku við fyrirtækinu 1918.

Fyrirtækið dafnaði vel og starfsemin jókst, svo keypt var hentugra húsnæði að Rosenorns Allé 29 og prentsmiðjan flutt þangað 1929. Á þessum tíma höfðu þar um 100 manns atvinnu. Síðan eru liðin um 80 ár. Í dag er fyrirtækið S. L. Møller Grafisk rekið á Malmmosevej 9 A í Holte í Danmörku og það er samband á milli þess og Prentsmiðju S. L. Møller sem stofnuð var 1827. Steen Lasse Møller sem stýrir þessu nýja fyrirtæki náði að vera þar í fimmtu kynslóð áður en það var lagt niður 1983. Fyrirtæki hans S. L. Møller Grafisk vinnur nú að grafískri framleiðslu og ráðgjöf.