Prentsmiðja Vesturlands

Ísafirði 1923–1933

Prentsmiðja þessi var keypt ný frá Englandi 1923 af Herbert Sigmundssyni prentsmiðjustjóra Ísafoldarprentsmiðju. Blaðið Vesturland hóf þá göngu sína og var Sigurður Kristjánsson (1885–1968) ritstjóri þess. Stofnað var hlutafélag um prentsmiðjukaupin og söfnuðust um 25.000 kr.

Aðalforgöngumenn voru: Björn Magnússon símstjóri, Jón Auðunn Jónsson (1878–1953) alþm. og Sigurður Kristjánsson kennari og alþingismaður. Prentfélag Vestfjarða hf er skrifað fyrir blaðinu Vesturlandi fyrstu árin, en í janúar 1926 var nafninu breytt í Prentsmiðju Vesturlands. Blaðið var svo prentað þar til 24. des. 1932 en þá varð hlé á útgáfunni í hálft ár og kemur það ekki út fyrr en í júní 1933 og er þá prentað í Prentsmiðju Njarðar en síðan hjá Prentstofunni Ísrún. Þetta var stór hraðpressa, allmikil prentáhöld, og mikil og margbreytt letur, en það vantaði alla íslensku stafina í það, og fengust þeir ekki þótt reynt væri. Varð því bráðlega að kaupa ný letur til prentsmiðjunnar. Aðalvél prentsmiðjunnar var knúin með raforku og var það fyrsta rafknúna vélin í bænum. Í prentsmiðjunni störfuðu þessir prentarar: Júlíus Sigurðsson (1894–1960), Magnús Ástmarsson (1909–1970), Jón Hjörtur Finnbjarnarson (1909–1977) og Einar Ágúst Bjarnason (1889–1930).