Sveinn R. Eyjólfsson.

Sveinn R. Eyjólfsson.

Frjáls fjölmiðlun

Reykjavík 1981-2002

Frjáls fjölmiðlun var stofnuð árið 1981 utan um útgáfu dagblaðsins DV. Dagblaðið og Vísir áttu sinn helminginn hvort en Sveinn R. Eyjólfsson (1938–) var stjórnarformaður. Prentsmiðjan Hilmir hætti sem sérstök prentsmiðja 1983, eins og áður er getið, og rann saman við starfsemi Frjálsrar fjölmiðlunar. Fyrirtækið gaf því út nokkrar bækur, en þó aðallega kiljur og tímaritin Vikuna og Úrval, auk DV. Árið 1994 keypti Frjáls fjölmiðlun prentsmiðjurekstur Ísafoldarprentsmiðju og var hann sameinaður rekstri prentsmiðju Frjálsrar fjölmiðlunar að Þverholti 11.

Jafnframt voru keyptar húseignir Hampiðjunnar við Þverholt 9 og Brautarholt 1 og þangað var flutt með starfsemina. Á þessum árum eignaðist Frjáls fjölmiðlun leifar gömlu flokksblaðanna, Tímans, Alþýðublaðsins og Vikublaðsins (arftaka Þjóðviljans) auk Dags á Akureyri. Þau voru sameinuð í eitt dagblað, Dag-Tímann, sem ári seinna var breytt í Dag. Hann kom út til ársins 2001. Þá var ákveðið að hefja útgáfu nýs dagblaðs, Fréttablaðsins, sem dreift yrði ókeypis í hús á höfuðborgarsvæðinu. Þetta varð allt mjög kostnaðarsamt og gekk ekki upp. Frjáls fjölmiðlun varð síðan gjaldþrota árið 2002.
Upp úr þrotabúinu voru svo stofnuð tvö félög, annars vegar um útgáfu Fréttablaðsins og hins vegar um útgáfu dagblaðsins DV. Þá keyptu Kristþór Gunnarsson (1960–) og Kjartan Kjartansson (1955–) Ísafoldarprentsmiðju og var prentsmiðjan flutt suður í Garðabæ.