Vilhelm Stefánsson.

Prentstofa Vilhelms Stefánssonar

Vestmannaeyjum 1933–1934

Vilhelm Stefánsson (1891–1954) prentari stofnaði prentstofu í Vestmannaeyjum snemma árs 1933. Vilhelm hóf nám í prentun í Félagsprentsmiðjunni í Reykjavík 1906 og vann þar svo áfram og í fleiri prentsmiðjum til 1927. Þá stofnaði hann Hólaprentsmiðju í Reykjavík ásamt Guðmundi J. Guðmundssyni (1899–1959) prentara og ráku þeir hana saman til ársins 1928. Þá seldu þeir prentsmiðjuna til Hafnarfjarðar og Guðmundur fór þangað en Vilhelm flutti til Vestmannaeyja.

Í Stéttartali bókagerðarmanna (1997) er sagt að hann hafi verið yfirprentari í Vestmannaeyjum 1929–1934. Öllum heimildum ber líka saman um að Vilhelm hafi verið prentari í Eyjum þessi ár. Hann hefur því að líkindum fyrst verið í Prentsmiðju Gísla J. Johnsen eða í Prentsmiðju Vestmannabraut 30 hjá Ólafi Magnússyni eftir að hann tók hana á leigu og svo áfram í Prentsmiðju Víðis og í Eyjaprentsmiðjunni hf eftir að hún var stofnuð í lok ársins 1930.
Það er til nokkuð greinargóð lýsing á því hvernig prentstofa Vilhelms varð til í ritgerð Jóh. Gunnars Ólafssonar sem birtist í Helgakveri (1976). Þar segir: „Hann var prentari hjá Eyjaprentsmiðjunni hf., en fór þaðan í fússi í marsmánuði 1932. Þá hætti Víðir að koma út, og varð alllangt hlé á útgáfu hans.“. Það kemur líka fram í greininni að hann tók með sér handpressu og nokkuð af letri. Tæki og tól voru því af skornum skammti og hann gat aðeins sinnt smáprenti. Það er hægt að tímasetja þetta nokkru nánar því síðasta blað Víðis kom út 19. mars 1932. Blaðið kom svo ekki út aftur fyrr en eftir tæpt ár eða 24. febrúar 1933, þegar Magnús Jónsson tók við ritstjórn þess.

Prentstofu Vilhelms Stefánssonar var komið fyrir í skúr við suðurgafl Þingholts, neðst við Kirkjuveg. Þingholt stóð við Heimagötu 2a, en var alltaf skráð við Kirkjuveg 5. Það var eitt af þeim húsum sem fór undir hraun í eldgosinu 1973.
Eins og fyrr segir þá byrjaði Vilhelm ekki starfsemi sína fyrr en snemma árs 1933 og það fyrsta sem vitað er til að hann hafi prentað er Erfiljóð eftir Hallfreð (Höf. Magnús Jónsson) um Guðrúnu Þ. Jónsdóttur, sem andaðist 5. febrúar 1933.

Ennfremur voru þarna prentaðir tveir litlir pésar sem vitað er um: Frá tanga að tindastól eftir Ísleif Högnason, 20 bls. og kápa, sem kom út um miðjan júní 1933, (aðeins 4 eintök til í söfnum) og Ölgræðgi ráðgjafanna. Smásaga úr Vestmannaeyjum, 16 bls., kostnaðarmaður og (höfundur) var H.(araldur) Sigurðsson. [1933]. — 2. útg. aukin og endurbætt kom út stuttu seinna eftir að hin seldist upp. (aðeins 2 eintök til í söfnum).

Vilhelm Stefánsson flutti síðan frá Vestmannaeyjum og var stuttan tíma í Hafnarfirði en síðan (frá 1935) vann hann lengi í Félagsprentsmiðjunni og síðustu árin var hann verkstjóri í Ísafoldarprentsmiðju.