Stefán Th. Jónsson.

Guðmundur G. Hagalín.

Guðmundur H. Pétursson.

Prentsmiðja Austurlands

Seyðisfirði 1919–1924

Á árinu 1919 var stofnað hlutafélag á Seyðisfirði sem hét Prentsmiðjufélag Austurlands. Það hafði það markmið að koma á fót prentsmiðju og hefja útgáfu vikublaðs sem átti að heita Austurland. Forsvarsmenn hlutafélagsins voru: Stefán Th. Jónsson (1865–1937) úrsmiður og kaupmaður, Eyjólfur Jónsson (1869–1944) ljósmyndari, klæðskeri og bankastjóri og Jón Jónsson (1874–1958) í Firði. Keypt var ný prentsmiðja frá Þýskalandi, en mikill dráttur varð á afhendingu hennar sem átti að vera 1. september. Það tókst því ekki að koma út fyrsta blaðinu fyrr en á nýársdag 1. janúar 1920. Ritstjóri var ráðinn Guðmundur G. Hagalín (1898–1985), en forstöðumaður prentsmiðjunnar var Guðmundur Helgi Pétursson (1895–1943) prentari.

Prentsmiðjufélagið festi kaup á fremur litlu húsi að Borgarhóli á Fjarðaröldu, en byggja varð skúr fyrir pappír og skurðarhníf. Steypt var undir stóru prentvélina og komið fyrir leturkössum, en leturbúnaður var nokkuð góður. Keypt var lítil prentvél fyrir smáprent, prófarkapressa, rifgötunarvél og vírheftivél. Prentsmiðjan sinnti bæði bóka- og blaðaprentun auk ýmiss konar smáprents. Blaðið Austurland var prentað þarna fram á sumarið 1922, en þá leysti annað blað, Austanfari það af hólmi og Guðmundur G. Hagalín var ritstjóri þess. Það kom aðeins út fram í október 1923, en þá tók blaðið Hænir við og kom út fram á árið 1930 undir ritstjórn Sigurðar Arngrímssonar (1885–1962).

Sigurður Þ. Guðmundsson (1899–1958) prentari, sem hafði unnið í Prentsmiðju Austurlands frá 1919, keypti prentsmiðjuna 1924 og rak hana sem einkafyrirtæki undir heitinu Prentsmiðja Sigurðar Þ. Guðmundssonar til ársins 1934 og var hún til húsa alla tíð á sama stað, Borgarhóli á Seyðisfirði.