Steinþór Guðmundsson.

Steinþór Guðmundsson.

Árni Einarsson.

Árni Einarsson.

Stefán Ögmundsson.

Stefán Ögmundsson.

Kristinn E. Andrésson.

Kristinn E. Andrésson.

Prentsmiðja Þjóðviljans

Reykjavík 1945–1972–1992

Dagblaðið Þjóðviljinn hóf að koma út árið 1936 og var fyrst prentað í „Jesúprenti“, Prentsmiðju Jóns Helgasonar til 1938. Síðan var Þjóðviljinn prentaður í Víkingsprenti. Húsnæðið þar var svo lítið að blaðamennirnir kölluðu það „dárakistuna“.

Þá tóku nokkrir frammámenn í sósíalistahreyfingunni sig saman og keyptu Skólavörðustíg 19 fyrir blaðið. Þar var Þjóðviljinn fyrst prentaður 27. júní 1945 í prentsmiðju sem bar nafn blaðsins. Steinþór Guðmundsson (1890–1973) kennari, Árni Einarsson (1907–1979), Stefán Ögmundsson (1909–1989) og Kristinn E. Andrésson (1901–1973) lögðu þar hönd á plóg ásamt þúsundum annarra sem styrktu blaðið fjárhagslega.

Fjöldasamtök mynduðust mjög fljótt um hús og útkomu Þjóðviljans og happdrætti hans var árlegur viðburður. Árni Einarsson var fyrsti framkvæmdastjórinn, en 1948–1958 var Stefán Ögmundsson framkvæmdastjóri. Þá var byrjað að prenta meira en Þjóðviljann, bæði blöð og bækur. Eiður Bergmann (1915–1999) byrjaði að vinna við blaðið 1949 en varð framkvæmdastjóri 1963 og gegndi því starfi í meira en tvo áratugi.

Prentsmiðja Þjóðviljans var síðan til húsa að Skólavörðustíg 19 þar til prentsmiðjur dagblaðanna í Reykjavík: Tímans, Vísis, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins sameinuðust 1972 í Blaðaprenti að Síðumúla 14. Í upphafi annaðist Blaðaprent alla vinnslu blaðanna fjögurra. Þegar frá leið færðist setning, umbrot, útlitshönnun og upplíming, til blaðanna sjálfra, sem síðan var send í Blaðaprent til ljósmyndunar.

Þjóðviljinn lét síðan byggja sitt eigið hús í Síðumúla 6 á árunum 1974–1976 og var þá flutt þangað með ritstjórnarskrifstofur, auk blaðamennsku og afgreiðslu. Einnig fór þar fram forvinnsla blaðsins að nokkru, setning, umbrot, og útlitshönnun. Rekstrarerfiðleikar voru miklir á næstu árum eins og hjá öðrum blöðum og var húsið að Síðumúla 6 að lokum selt og flutt sunnar í Síðumúla 35 þar sem blaðið var síðustu árin, en síðasta blaðið kom út þann 31. janúar 1992. Blaðaprent flutti 1989 að Lynghálsi 9 en Prentsmiðjan Oddi keypti síðan tæki Blaðaprents árið 1990 og þar var Þjóðviljinn prentaður þar til yfir lauk 1992.