Silkiprent

Reykjavík og Hafnarfirði 1972–

Silkiprent var stofnað árið 1972 af Sveinbirni Sævari Ragnarssyni (1944–) og er það elsta fána- og skiltagerð landsins. Fyrirtækið var fyrstu sjö árin í húsnæði við Lindargötu, en þá var flutt í stærri húsakynni að Skipholti 35. Á þessum tíma jókst starfsemin svo hratt að innan skamms var keypt 550 fm húsnæði að Vagnhöfða 14. Þar var rekin alhliða skiltagerð eins og umferðarskilti, bílamerkingar og ýmis konar fánaprentun og silkiprentun magvíslegra hluta. Þá unnu hjá fyrirtækinu 12–14 manns. Enn stækkaði fyrirtækið og þegar fór að líða að aldamótum var keypt 25 m löng vél til að silkiprenta fána og flutt var í 1000 fm húsnæði við Dvergshöfða 27 í Reykjavík.

Þá kom lægð í markaðinn, smákreppa gekk yfir og varð að minnka fyrirtækið og það var flutt til Hafnarfjarðar og leigt húsnæði við Melabraut. Þar var starfsemin rekin í 3–4 ár. Þá var keypt 300 fm húsnæði að Grandatröð 3b í Hafnarfirði og hélt fyrirtækið þar áfram í 4–5 ár. Það húsnæði var síðan selt árið 2015 og 200 fm húsnæði keypt að Kistumel 14, sem er í hverfinu Esjumelar og tilheyrir það Reykjavík. Þar heldur starfsemin áfram og aðaláherslan er lögð á alls konar fánagerð og prentun á þá. Stofnandinn Sveinbjörn Ragnarsson er nú eini starfsmaðurinn.