Prentsmiðjur í Kaupmannahöfn
Inngangur
Þegar prentverk var komið til Íslands, og spurst hafði út hvers konar galdur var hér á ferðinni, leið ekki á löngu áður en fróðleiksfúsir og handlagnir ungir menn voru komnir þar í vinnu. Og eins og gengur ílentust sumir en aðrir gáfust upp. Svo voru þeir sem vildu læra meira um fagið og komu sér út í heim, flestir til Danmerkur, sumir sneru heim, aðrir þvældust milli landa eða settust að ytra. (Sjá lista hér að neðan)
Í Kaupmannahöfn, þangað sem flestir leituðu, voru margar prentsmiðjur. Þar kynntust menn nýjum leturtegundum, ólíkum aðferðum í prentstörfunum og verkefnin voru miklu fjölbreyttari en heima. Sumir piltanna voru góðir málamenn sem nýttist þeim vel við setninguna, aðrir þýddu og gáfu út. Margir hlutu vináttu og velvild Íslendinga fyrir vel unnin störf, en í þá daga voru höfundar eða útgefandi í beinu sambandi við starfsmenn prentsmiðjunnar.
Á 19. öld voru margir prentsveinar í Kaupmannahöfn og í sumum prentsmiðjum voru prentaðar bækur fyrir Íslendinga svo fengur var að því fyrir prentsmiðjur að hafa íslenskan setjara á sínum snærum. Um Stefán Eyjólfsson sem vann hjá S. L. Møller segir í bókinni Íslendingar í Danmörku: Hann var vel liðinn, orðlagður fyrir vandvirkni og uppáhald Hafnar-Íslendinga er við bókagerð fengust.
Annar Íslendingur vann hjá S. L. Møller um tíma en það var Ágúst Jósefsson og hefur hann sagt nokkuð frá því í ævisögu sinni sem út kom árið 1959.
Þóra Elfa Björnsson
Íslenskir prentnemar á erlendri grund
Hér má skoða lista yfir þá prentnema sem fóru utan til að læra betur um prentverk á árunum 1600–1890. Þeir eru fæddir á tímabilinu 1570–1876 og upplýsingarnar að mestu fengnar úr Prentaratali 1530–1950 og víðar. Sumir á þessum lista urðu þekktir fyrir störf sín í prentiðnaðinum hér heima eins og t.d. Guðmundur Skagfjörð, Björn Gottskálksson, Sigmundur Guðmundsson og Páll Sveinsson en hann var bókbindari og útgefandi i Kaupmannahöfn.
Nafn | Fæddur | Lærði | Nám/Vinna/Staður | Kom aftur |
---|---|---|---|---|
Guðmundur Finnsson | 1570 | Hólum | Hamborg | Nei |
Halldór Ásmundsson | um 1600 | Hólum | Danzig | Já |
Brandur Jónsson | 1630 | Hólum | Danmörk | Já |
Magnús Eyjólfsson | 1665 | Skálholti | Danmörk | Nei |
Marteinn Arnoddsson | um 1675 | Skálholti | Danmörk | Já |
Henrik Kruse | 1689 í Dk | Danmörku | Danmörk | ? |
Björn Einarsson | 1697 | Kaupmannahöfn | Danmörk | Nei |
Eiríkur Guðmundsson Hoff | 1738 | Hólum | Danmörk | Já |
Ásmundur Einarsson | 1741 | Kaupmannahöfn | Danmörk | Nei |
Magnús Móberg | 1748 | Kaupmannahöfn | Berlín/Kaupmannahöfn | Dó hér |
Þorsteinn Rangel Einarsson | 1757 | Hartvigs Godiche Trykkeri | Danmörk | Nei |
Guðmundur Skagfjörð | 1758 | Hólum | Danmörk | Já |
Björn Gottskálksson | 1765 | Hrappsey | Danmörk | Já |
Benedikt Halldórsson | d. 1777 | Hólum | Danmörk | Nei |
Magnús Th. Jónsson | 1793 | Kaupmannahöfn | Kaupmannahöfn | Nei |
Helgi Helgason | 1807 | Viðey | Danmörk | Já |
Stefán Guðmundsson | 1814 | Viðey | Danmörk | Nei |
Þorkell Þ. Clementz | 1817 | Einar Þórðarson | Danmörk | Já |
Einar Þórðarson | 1818 | Viðey | Danmörk | Já |
Jónas Sveinson | 1837 | Akureyri | Danmörk | Já |
Jón Jónsson | 1840 | Breiðabólsstað | Danmörk | Já |
Sigmundur Guðmundsson | 1853 | Einar Þórðarson | London | Já |
Gunnlaugur Stefánsson | 1854 | Landsprentsmiðjan | Vesturheimur | Nei |
Stefán Eyjólfsson | 1859 | S. L. Møller | Kaupmannahöfn | Nei |
Magnús Ingvarsson | 1864 | Sigmundur Guðmundsson | Ameríka | Nei |
Oddur Sigurðsson | 1867 | Sigfús Eymundsson | London | Nei |
Stefán Pétursson | 1867 | Akureyri | Vesturheimur | Nei |
Stefán Magnússon | 1874 | Sigmundur Guðmundsson | Kaupmannahöfn | Nei |
Ólafur Jóhannesson | 1876 | Ísafoldarprentsmiðja | Ameríka/Ástralía | Nei |
Kaupmannahöfn – Prentað og bundið inn fyrir Íslendinga
Eftir Svan Jóhannesson. Kort: Páll Svansson.
Vaisenhus-prentsmiðja
Vaisenhusets Bogtrykkeri — Kaupmannahöfn 1728–1831
Á árunum 1715–1728 var þessi prentsmiðja rekin undir nafninu Trúboðsskóla-prentsmiðjan (Missionskollegiets Trykkeri). Þar voru aðallega prentaðar biblíur og sálmabækur. Prentsmiðjan var undir stjórn prentarans G. F. Kisel en þar vann líka einn bókbindari frá 1717. Prentsmiðjan var til húsa í Elersskólanum í Store Kannikestræde í elsta borgarhluta Kaupmannahafnar, þar sem nú er göngugata. Árið 1727 gaf konungurinn Friðrik IV út tilskipun til Trúboðsskólans að hann skyldi styðja við stofnun munaðarleysingjaskóla í Kaupmannahöfn. Hann lagði til húsnæði fyrir starfsemina í riddaralegu háskólabyggingunum við Nytorv. Vaisenhuset opnaði 11. október 1727. Kóngurinn veitti þeim einkaleyfi fyrir verksmiðjurekstri, apóteki, prentsmiðju og bóksölu.1https://da.wikipedia.org/wiki/Det_Kongelige_Vajsenhus – Sótt í febrúar 2016 En árið eftir brann prentsmiðjan í Kaupmannahafnarbrunanum mikla 1728, þegar Háskólabókasafnið brann, alls 35.000 bindi.2https://da.wikipedia.org/wiki/Københavns_brand_1728 – Sótt í febrúar 2016 Þessi bruni var fyrirmynd Halldórs Laxness í skáldverki hans Íslandsklukkunni.
Eftir brunann var prentsmiðjan endurreist við Nytorv. Árin 1732–1757, voru prentuð 39.000 eintök af biblíunni, en það var einmitt á þeim árum sem Vaisenhus prentaði biblíuna fyrir Íslendinga, sem kom út 1747 og var kölluð Vaisenhus-biblían. Henderson-biblían, sem líka var kölluð „Grútarbiblían“ var einnig prentuð í Vaisenhúsi, en það var árið 1813.3Hið íslenzka biblíufélag. Afmælisrit 1815–1965. Rv. 1965, bls 21 og 67.
Eftir að Kisel lést 1765 tók tengdasonur hans G. G. Salicath við stjórn prentsmiðjunnar til 1781, að hann fór á eftirlaun. Eftirmaður hans hét H. C. Schrøder, en hann dó 1788. Eftir hann kom Carl Fridrich Schubart 1788–1797 og þar næst sonur hans Carl Fr. Schubart yngri 1797–1830. Vaisenhus hélt áfram framleiðslu á biblíum og sálmabókum en það endaði með því að þeir voru komnir með svo stóran lager að það horfði til vandræða. Þeir áttu rúm 90.000 eintök á lager í júní 1787. En örlögin leystu þá vandamálin af sjálfsdáðum, þegar byggingin við Nytorv brann í júní 1795.
Engin prentsmiðja í allri Kaupmannahöfn vildi nú taka að sér prentun biblíunnar svo það var ákveðið að prentsmiðjan skyldi endurbyggð á hinum gamla grunni Nytorv. Árið 1801 varð hin nýuppbyggða prentsmiðja samt að víkja fyrir nýrri ráðhúsbyggingu. Prentsmiðjan leigði sér þá húsnæði í Studiestræde og var þar til ársins 1807, þegar ný Vaisenhus-bygging var tekin í notkun við Købmagergade. Schubart yngri dó í nóvember 1830 og árið eftir var prentsmiðjan lögð niður og innanhússmunir seldir á uppboði.4Harald Ilsøe: Bogtrykkerne I København ca. 1600-1810. København 1992.
Bókaprentsmiðja Berlinga
Det Berlingske Bogtrykkeri – Kaupmannahöfn 1733–1990
Bókaprentsmiðja Berlinga var stofnuð 1733 af Ernst Heinrich Berling (1708-1750)5Vor Tids Leksikon: Bind 3, bls. 21. Berling, Carl og Ernst Heinrich. prentara og blaðaútgefanda (Berlingske Tidende). Hann var fæddur í Meklenborg í Þýskalandi, en flutti til Danmerkur 1731. (Á sama tíma flutti bróðir hans Carl Gustaf Berling (1716-1789) til Svíþjóðar og stofnaði þar aðra bókaprentsmiðju í Lundi undir nafni Berlinga).
Prentsmiðjan í Kaupmannahöfn varð fljótlega með þeim bestu og fínustu í Danmörku. Ættin hélt stjórnartaumunum styrkum höndum og tók hver við af öðrum. Í ársbyrjun 1836 tók sonur Carl Christian Berling við fyrirtækinu. Hann hét Johan Carl Ernst Berling (1812-1871) en hann var af 4. kynslóð Berlinga. Hann hafði lært prentfagið í prentsmiðju forfeðranna, innleiddi nýjustu tækni og keypti nýjar prentvélar. Árið eftir setti hann á fót letursteypu og 1838 fékk hann þrjú einkaleyfi til að framleiða Congreve-litaprentun, hæðarprentun og vissa tegund af Stereo-typering. Við þetta bætti hann svo lithografískri stofnun, útgáfu og útstillingarfyrirtæki.
Það var á þessum árum sem Fornritafélag Norðurlanda var stofnað og lét prenta nokkrar íslenskar bækur hjá Berlingum. Má þar nefna Söguna af Helga og Grími Droplaugarsonum 1847 og var gefin út af Konráð Gíslasyni. Þá var Lögbók Íslendinga Grágás prentuð þar og útgefin af Vilhjálmi Finsen og sama félagsskap. Neðst á titilblaði þeirrar bókar stendur þó: Trykt i Brødrene Berlings Bogtrykkeri 1850.6Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga, Rv. 1995. Bls. 306-307.
Á fyrri hluta 20. aldar eða árið 1923 var Aksel Vilhelm Conrad Danielsen (1903-1968) ráðinn til fyrirtækisins og varð hann framkvæmdastjóri 1925. Hann byggði fyrirtækið upp þar til það varð ein af stærstu prentsmiðjum Kaupmannahafnar og flutti frá Pilestræde að Heimdalsgade 32. Aksel lagði mikla áherslu á að gefa út fallegar bækur og kom á samvinnu við grafíska hönnuðinn Povl Christensen, listsagnfræðinginn Christian Elling og rithöfundinn Kai Friis Møller. Á 6. og 7. áratugnum þegar Aksel stjórnaði fyrirtækinu voru gefnar út hjá Berlinger þær fallegustu bækur sem út komu í Danmörku á þessum tíma og var hann þess vegna heiðraður af félaginu Forening for boghaandværk 1965.7https://tidsskrift.dk/index.php/bogvennen/article/viewFile/54019/98623 Prentsmiðjan var lögð niður 1990.8http://www.detstoredanske.dk – Det Berlingske Bogtrykkeri.
Bókaprentsmiðja J. H. Schultz
J. H. Schultz Bogtrykkeri – Kaupmannahöfn (1661) 1783-
Árið 1783 keypti Johan Frederik Schultz (1756-1817) litla prentsmiðju í Kaupmannahöfn og byrjaði að gefa út bækur. Prentsmiðjan stækkaði ört og árið 1795 keypti hann Høpfners háskólaprentsmiðju en hún rakti aldur sinn aftur til 1661. Um 1800 var prentsmiðjan orðin sú stærsta í Kaupmannahöfn með tilheyrandi forlagi og bókaverslun.
Eftir að Johan Frederik dó rak ekkja hans fyrirtækið áfram og sonur þeirra, Jens Hostrup Schultz (1782-1849), yfirtók reksturinn 1821 og gaf fyrirtækinu það nafn sem það hefur síðan borið. 1868 tók fyrirtækið við prentun á Ríkisdagstíðindum og varð upp úr því stærsta prentsmiðja landsins. Fyrirtækinu var breytt í hlutafélag árið 1906 og varð brátt stærsta prentsmiðjan á Norðurlöndum með 150 manna starfsliði. J. H. Schultz stofnaði einnig bókaútgáfu og sérhæfði sig í útgáfu á stórum ritverkum og fékk útgáfuréttinn á Salmonsens Konversationsleksikon 1910 og gaf út í 25 bindum á árunum 1915-1930. Á stríðsárunum 1941-1943 gaf fyrirtækið út Sögu Danmerkur í 6 bindum.
Haldið var upp á 300 ára afmæli fyrirtækisins árið 1961. Sama ár var Ole Trock-Jansen (1923-) ráðinn ritari stjórnar, en hann var útlærður prentari frá Schultz en fór síðan í framhaldsnám til Stokkhólms, Englands og Bandaríkjanna. Fyrirtækið flutti til Møntergården í miðborg Kaupmannahafnar 1963 samtímis því að Ole Trock-Jansen var útnefndur tæknilegur forstjóri. Hann varð síðan framkvæmdastjóri 1967 og eignaðist þá meirihlutann í fyrirtækinu. Tíu árum seinna varð hann eini eigandi fyrirtækisins.
1986 var samsteypunni deilt upp í fjölda dótturfélaga í eigu Schultz Holding, sem aftur er eign Schultz-sjóðsins. Á þessum árum gekk fyrirtækið í gegnum miklar tæknibreytingar og fjárfesti í nýjum offsetprentvélum og tölvutækni. Møntergården var selt 1988 og fyrirtækið flutti til Valby. Til að tryggja þróunina innan samsteypunnar keypti Schultz fyrirtækið SynergiData árið 1996 og nokkru seinna nettæknifyrirtækið Dansk Internet Selskab. Árið 1998 fékk Schultz Norræna umhverfismerkið Svaninn og 2004 evrópsku umhverfisvottunina EMAS.
Síðustu ár hafa verið miklar breytingar innan dótturfélaga samsteypunnar og leitað meira inn á svið tölvutækni. Starfsmenn samsteypunnar voru um 250 árið 2007. Dótturfélagið Schultz Grafisk var yfirtekið af Rosendahl-samsteypunni 2009. Haldið var upp á 350 ára afmæli Schultz árið 2011.
Poppska prentsmiðja
Det Poppska officin – Kaupmannahöfn 1786-1838*
Árið 1786 stofnaði Sebastian Popp (1754-1828) prentari sína eigin prentsmiðju í Rosengaarden 115 í Kaupmannahöfn. S. Popp var frá Noregi en nam prentiðn í Kaupmannahöfn hjá J. R. Thiele. Prentsmiðja Popps hét á dönsku „det Poppska officin“ sem útleggst á íslensku: Poppska prentsmiðja. Hún dafnaði vel og Popp flutti með hana í eigið húsnæði 1791 í Store Fiolstræde 179. Fimm árum síðar átti hann fimm prentpressur og var með 24 manneskjur í vinnu. Hann flutti síðan árið 1798 í Østergade 54 og árið 1810 í nr. 72 í sömu götu. Um aldamótin 1800 var Poppska prentsmiðja orðin ein af þremur stærstu prentsmiðjunum í Kaupmannahöfn. Hinar voru Schultz og Seidelin.
Sonur Sebastians, Hartvig Frederik Popp, tók svo við af föður sínum 1815 og rak fyrirtækið til dd. 1829. Faðir hans hafði látist árið áður, svo ekkja Hartvig tók við og rak fyrirtækið í nokkur ár. Hún réð sem framkvæmdastjóra Johan Jørgensen Jomtu (1791-1866). Hann var lærður vefari og lögfræðingur, hafði verið leikari og stundað ritstörf. Þegar hann hætti hjá ekkjunni 1835 var prentsmiðjan afhent J. G. Salomon eins og segir í heimildinni, en Jørgensen keypti letursteypu prentsmiðjunnar, en gaf það líka upp á bátinn og snéri sér eftir þetta eingöngu að ritstörfum.
Bækur eru til úr prentsmiðjunni frá 1838 og er líklegt að þær séu með því síðasta sem prentað var þar. Nafn J. G. Salomons er á einni bókinni. Mörg af ritum danska málfræðingsins Rasmus Kristjáns Rasks (1787-1832) voru prentuð í Poppsku prentsmiðju, en Rask hafði sérstök tengsl við Ísland og hafði lært íslensku af bókinni Heimskringlu.
*Ekki er vitað fyrir víst hvenær Poppska prentsmiðja hætti en ekki er ólíklegt að það hafi verið um 1838 því ekki er hægt að finna bækur með hennar nafni eftir það ártal.
Prentsmiðja Þorsteins Rangel Einarssonar
Thorstein E. Rangel – Kaupmannahöfn 1811–1825
Íslenski prentarinn Þorsteinn Rangel Einarsson (1757-1826) nam prentiðn hjá prentsmiðju Hartvigs Godic í Kaupmannahöfn 1774 – 1780.9Bókagerðarmenn, Prentarahluti. Ari Gíslason. Rv. 1976. Bls. 519. Hann vann síðan við prentun í Vajsenhusets Bogtrykkeri til 1787. Þá fór hann að vinna við kertasteypun og var við það til ársins 1795, þegar hann fór að vinna aftur í faginu og var setjari hjá Prentsmiðju J. H. Schultz til 1805.
Þorsteinn Rangel Einarsson fékk prentsmiðjuleyfi 1805, en nýtti það ekki strax því hann tók við forstjórastarfinu hjá Prentsmiðju Claus (Klaus) Henrik Seidelin (1761-1811) þegar hann hætti hjá Schultz og stjórnaði henni til 1811 að hann keypti prentsmiðjuna og rak hana á Østergade 66 í Kaupmannahöfn til 1825, en þá varð hann að hætta vegna heilsuleysis.
Hjá Prentsmiðju Rangels var allmikið prentað af íslenskum bókum m.a. fyrir Hið íslenska bókmenntafélag s.s. Árbækur Jóns Espólíns.10Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga, Rv. 1995. Bls 312. Þá seldi hann prentsmiðju sína í hendur syni sínum og stjúpsyni og er sagt nánar frá þessum gjörningum hér að neðan um Prentsmiðju S. L. Møller. Stjúpsonur Rangels, Søren Lauritz Møller tók við forráðum prentsmiðjunnar og er opinber stofndagur hennar 9. febrúar 1827.11Svanur Jóhannesson: Prentsmiðjueintök, Rv. 2014. Bls 20.
Prentsmiðja S. L. Møller
S. L. Møller’s Bogtrykkeri – Kaupmannahöfn 1827-1983
Prentsmiðja S. L. Møller á rætur sínar að rekja til íslenska prentarans Þorsteins Rangels Einarssonar (1757-1826). Þorsteinn nam prentiðn hjá Hartvig Godiches Enkes Bogtrykkeri í Kaupmannahöfn og fékk sveinsbréf árið 1780. Hann vann síðan í nokkrum prentsmiðjum, m.a. í Vajsenhusets Bogtrykkeri og hjá J. H. Schultz en fór að vinna hjá Seidelin árið 1797.
Hann varð forstjóri þar árið 1805 eftir að Seidelin missti prentverkið vegna málaferla og rak hann það sem slíkur til ársins 1811. Þá keypti hann prentverkið og rak það til 1825 að hann seldi það vegna heilsuleysis í hendur syni sínum Einari Mogens Sophus Rangel (1784-1843) og stjúpsyni Søren Lauritz Møller (- 1872). Þeir Einar og Søren sömdu svo um það að Søren tæki við forráðum fyrirtækisins og var opinber stofndagur þess 9. febrúar 1827.
Eftir að S. L. Møller hafði fengið í hendur leyfisbréfið fyrir rekstrinum lánaði Hið íslenska bókmenntafélag honum 800 ríkisdali sem hann notaði að hluta til að borga Rangel stjúpföður sínum vegna samnings um framfærslu og að hluta til reksturs prentsmiðjunnar. Prentun á íslenskum ritum sem Þorsteinn Rangel útvegaði fyrirtækinu í hálfa öld var mjög mikilvæg fyrir rekstur þess og íslenskir setjarar voru ávallt með í starfseminni.
Johan Valdemar Møller tók við af föður sínum 1872, en hann var ekki faglærður prentari. Hann fékk því L. E. Thomsen prentara sem meðeiganda og þeir skiptu með sér verkum þannig að Møller sá um skrifstofuna og setjarasalinn en Thomsen um verkstjórn í prentsal. Árið 1899 fór L. E. Thomsen út úr fyrirtækinu. Keypt var nýtt húsnæði í Hestemøllestræde 5 og flutt þangað 1904. Synir J. V. Møller, þeir Henning og Max tóku við fyrirtækinu 1918.
Fyrirtækið dafnaði vel og starfsemin jókst, svo keypt var hentugra húsnæði að Rosenorns Allé 29 og prentsmiðjan flutt þangað 1929. Á þessum tíma höfðu þar um 100 manns atvinnu. Síðan eru liðin um 80 ár. Í dag er fyrirtækið S. L. Møller Grafisk rekið á Malmmosevej 9 A í Holte í Danmörku og það er samband á milli þess og Prentsmiðju S. L. Møller sem stofnuð var 1827. Steen Lasse Møller sem stýrir þessu nýja fyrirtæki náði að vera þar í fimmtu kynslóð áður en það var lagt niður 1983. Fyrirtæki hans S. L. Møller Grafisk vinnur nú að grafískri framleiðslu og ráðgjöf.
Prentsmiðja Bianco Luno
Bianco Lunos Bogtrykkeri – Kaupmannahöfn 1832 – 2000
Christian Peter Bianco Luno (1795-1852) var danskur prentari sem rak prentsmiðju í Kaupmannahöfn frá 1832 til dauðadags 1852.12https://da.wikipedia.org/wiki/Bianco_Luno – Sótt í febrúar 2016 Eftir að faðir hans dó ári eftir að hann fæddist flutti móðir hans til Kaupmannahafnar og þar ólst Bianco Luno upp við misjafnar aðstæður. Móðurbróðir hans kom honum í prentnám í Álaborg þegar hann var 16 ára gamall. Hann útskrifaðist sem fullnuma sveinn í faginu 1816, en vann síðan í stuttan tíma í Kaupmannahöfn. Fór síðan ári seinna til útlanda og ferðaðist um Evrópu í ein 11 ár. Hann heimsótti Þýskaland, Sviss, Ítalíu og Ungverjaland og vann í fleiri stórum prentsmiðjum í þessum löndum. Hann kom sér allsstaðar vel með dugnaði sínum og líflegri framkomu.
Bianco Luno kom síðan aftur til Kaupmannahafnar 1828, reynslunni ríkari í sínu fagi og var nú svo heppinn 1831 að fá einkaleyfi til að reka nýja prentsmiðju, sem var sjaldgæft í þá daga. Þar sem hann hafði ekkert fjármagn hóf hann samvinnu við prentarann F. W. Schneider, og 1. janúar 1832 var Prentsmiðjan Bianco Luno & Schneider opnuð í Pilestræde 8, sem fyrsta danska prentsmiðjan sem var skipulega uppbyggð og talin fyrirmyndarprentsmiðja.
Eftir að Schneider fór út úr fyrirtækinu 1837 varð Bianco Luno einn stjórnandi. Árið eftir var flutt í rúmgóða og nýtísku vinnusali í Østergade 20. Hjá fyrirtækinu unnu nú um 40 manns og það hafði fleiri pressur en 1840 var fyrsta hraðpressan keypt. Bianco Luno var útnefndur konunglegur hirðprentari 1847. Hann hafði góð sambönd við bókmennta- og vísindasamfélagið í Danmörku, en það varð til þess að prentsmiðja hans varð ein af þeim stærstu í landinu. Þar létu rithöfundar eins og H. C. Andersen og Søren Kierkegaard prenta bækur sínar og þar var einnig prentað danska sagnfræðitímaritið Historisk Tidsskrift sem var stofnað 1840 af Christian Molbech.
Eftir lát Bianco Luno var prentsmiðjan rekin áfram af ekkju hans undir stjórn systursonar hans, Frederik Siegfred Muhle (1829-1884) og Ferdinand Dreyer (1833-1924), sem frá 1873 varð einkaeigandi. Frá árinu 1900 eignaðist hlutafélagið A/S Carl Aller fyrirtækið og rak það áfram til aldamótaársins 2000 þegar það hætti. Carl Julius Aller (1845-1926) var steinprentari og blaðaútgefandi.
Prentsmiðja Louis Klein
Louis Kleins Bogtrykkeri – Kaupmannahöfn 1852-1883
Það er ekki mikið af heimildum til um Louis Klein prentara í Kaupmannahöfn. Þó má finna í upplýsingum úr manntali í Kaupmannahöfn að hann hefur átt heima í Store Købmagergade 65, var fæddur 1810, giftur og átti tvær dætur.
Prentsmiðja Louis Klein var starfandi um og eftir miðja 19. öld á þeim tíma þegar Landsprentsmiðjan starfaði í Reykjavík. Hann hafði þó nokkur viðskipti við Íslendinga og á meðal helstu íslenskra bóka sem prentaðar voru hjá Klein má nefna: Þúsund og ein nótt, Mjallhvít, Sagan af Karla-Magnúsi, Hugleiðingar eftir J. P. Mynster biskup á Sjálandi, Æfiminningar Halldórs Bjarnasonar, Ferðasaga úr Noregi og Ljóðmæli Jóns Þorleifssonar prests á Ólafsvöllum.
Margar af þessum bókum gaf Páll Sveinsson (1818-1874) bókbindari út, en hann hafði mikil samskipti við prentsmiðju Louis Klein. Páll fór ungur til Kaupmannahafnar til að læra bókband, ílentist þar og vann mikið að útgáfu íslenskra bóka í Kaupmannahöfn alla sína tíð. Louis Klein studdi kórstarf á meðal prentara í Kaupmannahöfn, ásamt tveimur öðrum þekktum prentsmiðjueigendum safnaði hann fé til píanókaupa fyrir söngfélag þeirra.
Á sjötta áratug 19. aldar vann danskur prentari hjá Louis Klein. Hann hét Christian Sørensen (1818-1861), en hann fann upp setjaravél (Tacheotyp) og fékk gullverðlaun á Heimssýningunni í París 1855. Sørensen reyndi að koma vélinni í framleiðslu í Frakklandi en það mistókst. Hann snéri þá aftur heim til Danmerkur og fékk vinnu með tvær vélar sínar hjá Prentsmiðju Louis Klein við að setja blaðið Fædrelandet. Þetta mistókst líka en Sørensen varð samt sem áður heimsfrægur maður fyrir uppfinningu sína.
Tilvísanir
1. | ↩ | https://da.wikipedia.org/wiki/Det_Kongelige_Vajsenhus – Sótt í febrúar 2016 |
2. | ↩ | https://da.wikipedia.org/wiki/Københavns_brand_1728 – Sótt í febrúar 2016 |
3. | ↩ | Hið íslenzka biblíufélag. Afmælisrit 1815–1965. Rv. 1965, bls 21 og 67. |
4. | ↩ | Harald Ilsøe: Bogtrykkerne I København ca. 1600-1810. København 1992. |
5. | ↩ | Vor Tids Leksikon: Bind 3, bls. 21. Berling, Carl og Ernst Heinrich. |
6. | ↩ | Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga, Rv. 1995. Bls. 306-307. |
7. | ↩ | https://tidsskrift.dk/index.php/bogvennen/article/viewFile/54019/98623 |
8. | ↩ | http://www.detstoredanske.dk – Det Berlingske Bogtrykkeri. |
9. | ↩ | Bókagerðarmenn, Prentarahluti. Ari Gíslason. Rv. 1976. Bls. 519. |
10. | ↩ | Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga, Rv. 1995. Bls 312. |
11. | ↩ | Svanur Jóhannesson: Prentsmiðjueintök, Rv. 2014. Bls 20. |
12. | ↩ | https://da.wikipedia.org/wiki/Bianco_Luno – Sótt í febrúar 2016 |
Aðrar prentsmiðjur
Þó hér sé aðeins rakin saga átta prentsmiðja þá leituðu Íslendingar til margra annarra, til að mynda:
J. R. Thiele (Johan Rudolph Thiele) 1770 – 1937.
Sander og Schröder 1780.
A. F. Stein (August Friderich Stein) 1787.
C. Græbe (Carl Græbe) 1809 – 1930.
J. D. Qvist ( ) 1835 – 1866.
Hlöðvi Klein 1842 – 1874.
S. Trier ( ) 1847 – 1875.
J. Cohen ( ) 1858.
J. Jørgensen & Co 1917 – 1958.
Prentsmiðjur á Íslandi frá 19. til 21. aldar
Inngangur
Hér er ætlunin að draga saman á einn stað sem ítarlegastar upplýsingar um prentsmiðjur og þróun prentiðnaðar á Íslandi frá nítjándu fram á tuttugustu og fyrstu öld eins og kostur er. Fyrri tíðar prentsmiðjum hafa þegar verið gerð greinargóð skil í kaflanum Upphaf prentunar á Íslandi. Til að byrja með verður hér byggt á bókinni Prentsmiðjueintök – Prentsmiðjusaga Íslands, og birtar þaðan upplýsingar um rúmlega 130 prentsmiðjur. Upplýsingar úr bókinni eru þó ekki tæmandi og munu bætast við smátt og smátt nýjar upplýsingar um prentsmiðjur í grunninn þegar á líður. Öllum er velkomið að hafa samband við Prentsögusetur og koma á framfæri vitneskju um prentsmiðjur sem ekki er að finna hér.
Prentsmiðjusaga Íslands
Upplýsingar um rúmlega 130 prentsmiðjur eru fengnar með góðfúslegu leyfi úr bókinni Prentsmiðjueintök – Prentsmiðjusaga Íslands efir Svan Jóhannesson sem gefin var út árið 2014. Svanur sat í stjórn Bókbindarafélags Íslands í 16 ár, þar af í 7 ár sem formaður. Hann sat síðan í stjórn Félags bókagerðarmanna í nær tvo áratugi eftir að félög í prentiðnaði sameinuðust árið 1980.
Áhugi landsmanna kviknar – prentverkið springur út!
Nítjánda öldin
Nítjánda öldin byrjaði rólega í prentiðnaði á Íslandi. Fyrri helming aldarinnar er prentsmiðja Magnúsar Stephensen ein starfandi, svo sem verið hafði um langt skeið. Síðustu árin í Viðey. Hún er síðan flutt upp á land til Reykjavíkur 1844 og heitir eftir það Landsprentsmiðjan. Það eru svo liðin tvö ár af seinna helmingi aldarinnar þegar loksins bætist önnur prentsmiðja við, Prentsmiðja Norður- og Austurumdæmisins. Síðan koma þær hver af annarri og í aldarlok höfðu verið stofnaðar fimmtán prentsmiðjur á landinu, langflestar í Reykjavík.
Fæstar þeirra lifðu þó að sjá tuttugustu öldina fæðast, þær störfuðu misjafnlega stutt, 3–4 ár var algengur líftími. Ein þeirra starfar þó enn í dag, Ísafoldarprentsmiðja var stofnuð 1877 og er enn að. Félagsprentsmiðjan lifði í 109 ár.
Á síðari helmingi aldarinnar kviknar áhugi landsmanna á prentverkinu og þeim möguleikum sem þessi „nýja“ tækni býður upp á; prentverkið springur út. Áhrifamenn í landsmálum sjá þarna óplægðan akur og vopn í pólitískri baráttu. Áhugafólk um bókaútgáfu stofnar fyrirtæki til að koma á framfæri við almenning kveðskap og óbundnu máli. Landsbyggðin nýtir sér prentverk í heimabyggð til að þurfa ekki að leita suður til Reykjavíkur eftir þjónustu svartlistarmanna.
Samhliða setningu og prentun blómstrar að sjálfsögðu bókband, þar sem prentgripnum var gefið útlit við hæfi, hvort sem um var að ræða fagurlega innbundna bók eða frágangur eyðublaða. Hér héldust í hendur í fagmennskunni setjarar, prentarar og bókbindarar.
Prentsmiðjur á 19. öld
- Viðeyjar Klaustur 1819–1844
- Prentsmiðja S. L. Møller 1827–1983
- Landsprentsmiðjan 1844–1875
- Prentsmiðja Louis Klein 1852–1883
- Prentsmiðja Norður- og Austurumdæmisins 1852-1879
- Prentsmiðja Norðanfara 1875–1886
- Prentsmiðja Einars Þórðarsonar 1876–1886
- Prentsmiðjan Skuld 1877–1880
- Ísafoldarprentsmiðja 1877–
- Prentsmiðja Björns Jónssonar 1879–1987
- Prentsmiðja Sigmundar Guðmundssonar 1883-1887
- Prentsmiðja Sigfúsar Eymundssonar 1887-1890
- Félagsprentsmiðjan 1890-1999
- Prentsmiðja Þjóðviljans unga 1891-189
- Prentsmiðja Dagskrár 1896-1899
- Aldar-prentsmiðja 1897–1899
- Aldar-prentsmiðja 1899-1901
- Glasgow-Prentsmiðjan 1899-1900
- Prentsmiðja Þjóðólfs 1899-1906
Bylting í prentun</FONT COLOR=“#9f8d6b“> – offsetið tekur völdin!
Tuttugasta öldin
Tuttugasta öldin er tíminn þegar allt gerðist í bókagerð og prentverki á Íslandi. Prentsmiðjur risu um allt land, fá pláss var svo lítið að ekki væri hægt að reka þar prentsmiðju, a.m.k. í nokkur ár. Tæknin jókst, prentvélarnar stækkuðu og urðu hraðvirkari, prentmyndasmíði kom til landsins og hafði í för með sér stóraukna myndvæðingu prentaðs máls; sinkmót tóku við af dúkristum. Og eftir ótal tilraunir til að gera setninguna hraðari til að halda í við hraðari prentvélar komu setjaravélar frá Linotype og Intertype eins og stormsveipur inn í prentsmiðjurnar. Þær sköpuðu ekki atvinnuleysi meðal setjara eins og óttast var, en juku á hinn bóginn afköst prentsmiðjanna.
Svo kom offsetið hægt og rólega og byrjaði smátt; fyrirbærið sem prentarar og setjarar fyrirlitu af innsta hjartans grunni og kölluðu vatnsprent í fyrirlitningu sinni. En þessari tækni óx fiskur um hrygg og hún gerði sig sífellt meira gildandi eftir því sem árin liðu. Með henni komu ljósmyndarar, skeytingarmenn og plötugerðarmenn. Og einn góðan veðurdag tók offsetið völdin.
Dagblöðin – nema Morgunblaðið – sameinuðust um Blaðaprent árið 1972, þar sem offsetið tók endanlega við af gamla þrykkinu. Bókaprentsmiðjurnar fylgdu í kjölfarið. Þar með varð ekki aftur snúið. Setjarar fóru á ritvélanámskeið til að geta starfað sem setjarar á innskriftarborðunum; nokkrir unnu sem slíkir eftir breytingarnar, en þeir voru fleiri sem fluttust milli starfa í prentsmiðjunum eða hreinlega hættu og fóru í önnur störf. Vélritunarstúlkur tóku við setningunni. Þannig hafði tæknibreytingin á síðasta fjórðungi aldarinnar feiknarleg áhrif á bæði fyrirtækin en ekki á líf þeirra sem þar störfuðu.
Prentsmiðjur á 20. öld A–Ö
- Aldar-prentsmiðja (Lárus Halldórsson) 1901–1907
- Alþýðuprentsmiðjan 1926–1986
- Ásprent 1975–1995 og 2006–
- Bókamiðstöðin 1964–1995
- Borgarprent 1946–1978
- Einkaprentsmiðja Prentarans 1920
- Endurprent 1961–1994
- Eyjaprentsmiðjan hf. 1930–1945
- Fjölritun Finnboga Jónssonar 1932–1947
- Fjölritunarstofa Daníels Halldórssonar 1927–2001
- Fjölritunarstofa Pjeturs G. Guðmundssonar 1927–1947
- Fjölritunarstofan Óðinn 1927
- Formprent 1970–2016
- Frjáls fjölmiðlun 1981–2002
- G. Ben-Edda prentstofa 1994–1997
- Grafík 1967–1989 og 1997–2002
- GuðjónÓ 1992–
- GuðjónÓ hf 1955–1992
- Gutenberg 2002–2008
- Hafnarprent 1970–1978
- Hagprent 1963–1995–2004–
- Háskólaprent 2009–
- Helluprent 1978–1982
- Héraðsprent 1972–
- Herbertsprent 1929–1959
- Hólaprentsmiðjan 1927–1928
- Hrappseyjarprent 1945–1947
- Ingólfsprent 1946–
- Kassagerð Reykjavíkur 1932–2001
- Letur s/f 1956–1990
- Leturprent 1954–
- Litbrá 1954–2005
- Lithoprent 1938–1972
- Litla prentsmiðjan 1902–1907
- Litlaprent 1964–
- Litmyndir 1953–1997
- Litróf og Litróf-Hagprent 1943–2004 og 2004–
- Norðfjarðarprentsmiðja 1927
- Offsetfjölritun 1977–2006
- Offsetmyndir 1957–
- Prentbær 1990–1998
- Prentberg 1980–2000
- Prentfell 1947–1965
- Prenthús Hafsteins Guðmundssonar 1966–1973
- Prenthúsið 1976–
- Prentmet 1992–2019
- Prentrún 1970–2019
- Prentsmiðja Ágústs Sigurðssonar 1922–2000
- Prentsmiðja Alþýðublaðsins 1923–1956–1972
- Prentsmiðja Árna Valdemarssonar 1961–1994
- Prentsmiðja Arnfirðings 1901–1903
- Prentsmiðja Ásgeirs Guðmundssonar 1928–1934
- Prentsmiðja Austurlands 1907–1908
- Prentsmiðja Austurlands 1919–1924
- Prentsmiðja Austurlands 1945–1950
- Prentsmiðja Dagfara 1905–1907
- Prentsmiðja Eyjablaðsins 1926–1927
- Prentsmiðja Frækorna 1904–1914
- Prentsmiðja Friðriks Jóelssonar 1978–1989
- Prentsmiðja G.J. Johnsen 1924–1930
- Prentsmiðja Geislans eða Prentsm. Ing. 19 1929–
- Prentsmiðja Guðjóns Guðjónssonar 1925–1926
- Prentsmiðja Guðjónsbræðra 1926
- Prentsmiðja Guðmundar Jóhannssonar 1945–1981
- Prentsmiðja Hafnarfjarðar 1907–1910
- Prentsmiðja Hafnarfjarðar 1928–1934
- Prentsmiðja Hafnarfjarðar 1946–2007
- Prentsmiðja Hallgríms Benediktssonar 1920–1940
- Prentsmiðja Jóns Helgasonar 1928–1960
- Prentsmiðja Jóns Helgasonar 1960–1973
- Prentsmiðja Kaþólsku kirkjunnar 1952–2002
- Prentsmiðja Ljósberans 1925–1928
- Prentsmiðja Magnúsar Ólafssonar 1907–1915
- Prentsmiðja Njarðar 1916–1933
- Prentsmiðja Norðurlands 1901–1903
- Prentsmiðja Odds Björnssonar 1904–1995
- Prentsmiðja Reykjavíkur 1902–1904
- Prentsmiðja Seyðisfjarðar 1901–1904
- Prentsmiðja Sigurðar Þ. Guðmundssonar 1924–1934
- Prentsmiðja St. Franciskussystra 1952–2002
- Prentsmiðja Suðurlands 1910–1917
- Prentsmiðja Suðurlands 1957–2006
- Prentsmiðja Sveins Oddssonar 1914–1915
- Prentsmiðja Vestfirðinga 1901–1918
- Prentsmiðja Vestmannaeyja 1917–1924
- Prentsmiðja Vesturlands 1923–1933
- Prentsmiðja Víðis 1929–1930
- Prentsmiðja Vikunnar 1928–1930
- Prentsmiðja Vilhjálms S. Jóhannssonar 1942
- Prentsmiðja Þ.Þ. Clementz 1915–1917
- Prentsmiðja Þjóðólfs 1902–1906
- Prentsmiðja Þjóðólfs 1919–1920
- Prentsmiðja Þjóðviljans 1901–1915
- Prentsmiðja Þjóðviljans 1945–1972–1992
- Prentsmiðja Þorv. Þorvarðssonar 1904–1905
- Prentsmiðjan á Bergstaðastræti 19 1920–1940
- Prentsmiðjan Acta 1919–1936
- Prentsmiðjan Dögun 1933–1935
- Prentsmiðjan Edda 1936–1994
- Prentsmiðjan Eyrún 1944–
- Prentsmiðjan Gutenberg 1904–1930
- Prentsmiðjan Helgafellsbraut 19 1928
- Prentsmiðjan Hilmir 1959–1983
- Prentsmiðjan Hólar 1942–1986
- Prentsmiðjan Klif 1990–1993
- Prentsmiðjan Leiftur 1946–1978
- Prentsmiðjan Oddi 1943–2019
- Prentsmiðjan Rún 1914–1917
- Prentsmiðjan Rún 1950–1960
- Prentsmiðjan Rún 1963–1968 og 1976–1997
- Prentsmiðjan Skuggsjá 1973–1976
- Prentsmiðjan Steinmark 1982–
- Prentsmiðjan Tarsus 1993–2006
- Prentsmiðjan Vestmannabraut 30 1928–1929
- Prentsmiðjan Viðey 1933–1990
- Prentstofa G. Benediktssonar 1967–1994
- Prentstofa JHG 1938–1939
- Prentstofa Vilhelms Stefánssonar 1933–1934
- Prentstofan Ísrún 1933–1990
- Prenttækni 1973–
- Prentverk Akraness 1942–1945
- Prentverk Akraness 1946–2000
- Prisma 1973–1997
- Ríkisprentsmiðjan Gutenberg 1930–1992
- Setberg 1960–1980
- Siglufjarðarprentsmiðja 1916–2005
- Silkiprent 1972–
- Skákprent 1975–1997
- Skálholtsprentsmiðja 1942–1946
- Snorraprent 1947–1949
- Solnaprent 1963–1998
- Stapaprent 1984–
- Steindórsprent 1934–1992
- Steinholt 1974–
- Steinprent 1993–
- Svansprent 1967–
- Svartlist 1996–
- Víkingsprent 1935–1991
- Víkurprent 1976–1978
Kort yfir prentsmiðjur
Staðsetning prentsmiðja á Íslandi og í Kaupmannahöfn
Kaupmannahöfn
Höfuðborgarsvæðið
Upphaf prentunar á Íslandi
Inngangur
Mér er bæði ljúft og skylt að geta hér þeirra brunna sem fróðleik þessum hefur verið ausið úr. Þar ber fyrst að nefna ágrip af sögu íslenskrar prentunar og bókaútgáfu, eftir Einar Sigurðsson háskólabókavörð frá 1971; grein Haraldar Sigurðssonar bókavarðar um skylt efni í tímaritinu Bókaorminum, ritgerð Hallbjörns Halldórssonar prentara um leturval í prentsmiðjum á fyrstu öld prentlistarínnar á Íslandi (Árbók Landsbókasafns 1946–1947), bók Klemens Jónssonar um fjögur hundruð ára sögu prentlistarinnar á Íslandi, ritgerð Einars G. Péturssonar um Guðbrand Þorláksson og bókaútgáfu hans (Árbók Landsbókasafns 1984) og loks Bókagerðarmannatal, þar sem fróðleikur um elstu prentara var fundinn. Þau Þóra Elfa Björnsson kennari við bókiðnadeild Iðnskólans í Reykjavík, Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur og Helgi Sæmundsson lásu handritið yfir og veittu góðar ráðleggingar sem ég kann þeim bestu þakkir fyrir.
Haukur Már Haraldsson
Frá Hólum til Reykjavíkur
Textinn hér á síðunni er fenginn með góðfúslegu leyfi úr bók Hauks Más Haraldssonar: Frá Hólum til Reykjavíkur – Fyrstu 300 árin í prentsögu Íslendinga, sem gefin var út hjá IÐNÚ árið 1992. Bókin var um árabil notuð við kennslu í bókiðngreinum við Tækniskólann – Skóla atvinnulífsins í Reykjavík. Haukur var kennari við Tækniskólann í Reykjavík – Skóla atvinnulífsins frá 1985. Hann sat í stjórn Kennarasambands Íslands frá 1994 og í stjórn Félags framhaldsskólakennara frá 1995.
Frá Hólum til Reykjavíkur – Fyrstu 300 árin í prentsögu Íslendinga
Upphaf prentunar á Íslandi
Þótt ekki sé með fullu víst hvenær prentlistin barst til Íslands, eru menn sammála um að það hafi verið að undirlagi Jóns Hólabiskups Arasonar sem hún kom hingað. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um tímasetninguna og munar tíu árum þar sem lengst er milli ára; nefnd eru árin 1525–26, 1529–31 og 1534–35. Ástæða þessarar óvissu er einkum af því komin að þeir sem næstir stóðu þessum tímamótum og þeir sem skrifað hafa sögu siðaskiptanna eru fáorðir um þennan merka atburð og virðast raunar harla ófróðir um hann.
Elsti vitnisburður um efnið er stutt málsgrein í handriti nokkru í Háskólabókasafninu í Uppsölum. Handritið er talið frá lokum 16. aldar og jafnvel talið að það hafi verið ritað af Sigurði Jónssyni (Arasonar biskups) á Grenjaðarstöðum, enda má þar lesa ættartölu „frá Adam til Sigurðar á Grenjaðarstöðum”. Klausan sem um er að ræða hljóðar svo: „Þá biskup Jón Arason hafði ríkt á stóli sínum Hólum fimm eða sex ár, lét hann fyrstur allra manna inn koma prentverk á Íslandi“. Hér stendur hnífurinn í kúnni, því nokkur ártöl eru talin koma hér til greina:
tók Jón Arason við umsjá Hólastóls;
var Jón Arason kjörinn biskup;
fór Jón Arason utan til vígslu;
var Jón Arason vígður biskup;
kom hann til landsins vígður biskup.
Öll þessi ár koma til greina þegar miðað er við upphaf „ríkis“ Jóns biskups og vitað að eftir 1525 fór hann aldrei utan, en hann var biskup til ársins 1550. Séra Gunnar Pálsson (1714-21) skólameistari á Hólum og síðar prestur að Hjarðarholti í Dölum segir í riti sínu um sögu prentverks á Íslandi, Typographia Islandica, að prentsmiðjan að Hólum hafi verið stofnsett 1530-31. Hann ber þar fyrir sig þann merka fræðimann sr. Eyjólf hinn lærða Jónsson (1670–1745) á Völlum í Svarfaðardal.
Jón Ólafsson Grunnvíkingur, skrifari Árna Magnússonar, segir á einum stað að prentsmiðjan hafi komið til landsins 1523, en á öðrum stað að það hafi verið 1530–32: „Prentverkið var fært inn í Ísland circiter 1530, ellegar 1531 eða 1532, líkast með styrk og forlagi Jóns byskups Arasonar, af Jóni svenska og með hans stýl sett í verk“. Nokkrir aðrir fræðimenn hafa sett fram kenningar um upphaf prentverks á Íslandi, en ekki hefur verið sýnt óyggjandi fram á að eitt ártal sé réttara en annað.
Dr. Páll Eggert Ólason hefur rannsakað þetta tímabil Íslandssögunnar rækilegar en flestir aðrir og hann kemst að þeirri niðurstöðu að prentsmiðjan hafi líklega ekki komið fyrr en 1534 eða 35. Páll tengir þetta utanför Sigurðar biskupssonar 1534 og eins hinu að Jóns Matthíassonar er ekki getið fyrr en 1534, þótt hæpið sé að byggja mikið á því.
Þorkell Jóhannesson er einn þeirra sem skoðað hafa þetta mál. Hann telur líklegt að útvegun prentsmiðju og prentara hafi verið býsna kostnaðarsöm og vandamikil. Því hafi það varla verið leyst af öðrum en biskupi sjálfum eða trúnaðarmanni hans. Líklegt hefur yfirleitt verið talið að prentsmiðjan hafi komið frá Þýskalandi, en þar dvaldist einmitt Jón Arason um tíma veturinn 1525 og kom heim um vorið.
Telur Þorkell að Jón biskup hafi þá annaðhvort haft prentsmiðjuna með sér heim eða þá gengið frá útvegun hennar. Prentsmiðjan hafi komið til landsins 1525–26, fimm eða sex árum eftir að sr. Jón tók við umsjón Hólastóls. Íslenskir prentarar hafa sagt sitt í þessu máli; árið 1930 héldu þeir hátíðlegt 400 ára afmæli prentlistar á Íslandi og var í því tilefni gefin út bókin Prentlistin 400 ára, eftir Klemens Jónsson.
Kaþólskum minjum útrýmt?
Mjög hljótt hefur bersýnilega verið um upphaf prentverks á Íslandi á fyrstu árhundruðum eftir siðaskiptin. Þannig segir séra Jón Egilsson (f. 1548): „Á þeim árum (þ. e. milli 1560–70) sá ég enga postillu prentaða utan Corvini postillu eður þá nokkra gagnsama bók utan biblíu [á dönsku sennilega] og Nýja testamentið“ [þ. e. þýðingu Odds Gottskálkssonar] Jón virðist því ekki hafa þekkt neina af þeim bókum sem Jón biskup Arason lét prenta. Það má efalaust rekja til þess að fyrstu lútersku biskuparnir gengu ötullega fram í því að útrýma kaþólskum minjum og þá ekki síst bókum frá þeim tíma.
Fyrir því eru gögn að bækur þær sem Jón biskup hafði látið prenta hafi horfið alveg á mjög skömmum tíma. Við líflát hans 1550 átti Hólastóll sautján eintök af Brevarium Holense, en 19 árum síðar voru aðeins tvö eintök eftir. Annað dæmi um þögnina í kringum upphaf prentverksins eru orð Björns Jónssonar annálaritara á Skarðsá. Hann ól allan sinn aldur í Skagafirði og hefði því átt að geta aflað sér nákvæmra upplýsinga um prentsmiðjuna. En hann getur hennar fyrst árið 1543 og þá á þessa leið:
„Um þann tíma heldur Jón prestur Matthíasson staðinn Breiðabólstað í Vesturhópi. / Hann hafði hingað í land fyrst allra manna prentsmiðju og hóf prentverk á Breiðabólstað á dögum biskups Jóns.“
Björn virðist því hvorki hafa vitað hvenær á dögum Jóns biskups prentverkið var hafið né heldur hvar.
Prentsmiðja á Hólum 1530-1535
Hvað sem líður vangaveltum um upphafsárið, þá er það hins vegar óumdeilt að sá sem fyrstur kom til landsins með prentsmiðju var Jón Matthíasson, venjulega kallaður sænski eða svenski í íslenskum heimildum. Þeir prentgripir sem til eru og prentaðir voru með tækjum Jóns sænska styðja þá tilgátu að hann hafi verið farandsveinn. Þeir bera þess vitni að letur hafi verið af skornum skammti og prentþröngin (pressan) lítil.
Prentþröngin hefur ekki tekið nema tvær litlar fjórblöðungssíður af einu pappírsstærð þessara tíma, 34×42 sm heil örk. Þó hefur ekki verið unnt að prenta á nema hálfa örkina og líklega í tveimur „dráttum“ sem svo var kallað: Þegar helmingur arkar var kominn undir fergið dró prentarinn sveifina að sér og prentaði á örkina fremri síðu í opnu; færði svo forminn innar og prentaði á hinn helminginn í öðrum drætti. Þegar þannig hafði verið prentað á allt upplagið var hin hliðin á örkinni prentuð með sama hætti.
Ekki hefur verið nema ein stærð af meginmálsletri en tvær gerðir. Þó ekki nema hástafir af annarri. Letrið sem hann kom með var gotneskt af gerðinni Schwabacher (Sváfalækjarletur það var þýskt að uppruna, kennt við smábæinn Schwabach er stendur við samnefnda á skammt frá Nurnberg.
Fyrstu árin er talið víst að prentsmiðjan hafi verið á Hólum; þar hafi hún að minnsta kosti verið árið 1534. Það ár er talin prentuð sú eina bók sem vitað er með vissu að hafi verið prentuð að Hólum. Það var Breviarium Holense, latnesk bænabók eða handbók presta. Síðasta eintak þeirrar bókar sem vitað er um átti Árni Magnússon, en það eyðilagðist í brunanum mikla í Kaupmannahöfn árið 1728. Grunnavíkur-Jón sá bókina hjá Árna og skrifaði upp titil bókarinnar og niðurlag (kólófón). Sagði hann hana prentaða á Hólum 1534 og að prentun hennar hafi lokið 1. maí það ár.
Eins og fyrr er sagt er ekki vitað með vissu um aðrar bækur prentaðar af Jóni sænska á Hólum. Fregnir eru þó til af fleirum, án þess að öruggt megi teljast. Þannig eru heimildir fyrir
„fjórum guðspjallamönnum, sem biskup Jón gamli á Hólum lét útlega og þrykkja, sem hans formáli útvísar ef þar finnst nokkurt exemplar af.“
Annars staðar er getið um „guðspjallabók í 4to fyrir Jón Arason“. Hér gæti verið um sömu bókina að ræða, en frásagnir þessar eru óljósar og erfitt að gera sér grein fyrir því hvort fótur er fyrir þeim. Auk þess gæti orðalagið „lét útleggja og þrykkja“ eins þýtt að Jón biskup hafi látið prenta bókina í prentsmiðjunni á Breiðabólstað. Fleiri frásagnir eru til um bækur sem Jón biskup á að hafa látið prenta á Hólum, en lítið þykir á þeim byggjandi.
Jón Matthíasson hinn svenski
Séra Jón Matthíasson hinn svenski var vel lærður maður. Hann var mikill latínumaður og er sagður hafa samið þau bréf á latínu fyrir nafna sinn biskup Arason sem vanda þurfti til, til dæmis bannfæringarbréf yfir séra Gísla Jónssyni presti í Selárdal, síðar Skálholtsbiskupi. Þótt engin vissa sé fyrir, hefur því verið haldið fram að prentverk sitt hafi hann fengið í heimanmund með fyrri eiginkonu sinni, er látin hafi verið áður en hann réðst til Íslandsferðar.
Einnig hefur þess verið getið til, að hann hafi yfirgefið föðurland sitt Svíþjóð vegna þess að hann hafi ekki getað sætt sig við lúterska trú, sem komst á þar í landi um 1527. Þetta er þó heldur ósennilegt því það vafðist lítt eða ekki fyrir honum að skipta um sið þegar lúterskan nam land í Hólastifti. Hann var árum saman prestur í lúterskum sið og prentaði lútersk rit fyrir Ólaf biskup.
Farandsveinar í prentverki erlendis
Þegar prentlistin var að ryðja sér til rúms í Evrópu var það algengt að prentarar ferðuðust um með tól sín og tæki og sinntu iðn sinni; prentuðu eitt og annað smávegis fyrir þá sem þess óskuðu. Þeir stönsuðu þá mislengi á hverjum stað, eftir því hversu mikið var fyrir þá að gera. Um það leyti sem séra Jón Matthíasson fluttist til landsins voru margir prentarar enn farandsveinar, eins og það var nefnt. Þeir fóru borg úr borg með litla pressu, letur af einni eða fleiri stærðum og gerðum, ofurlítið af skrauti á borð við forstafi og bókahnúta, dálítið af línolíu og furusóti til að sjóða úr svertu og nokkuð af pappír. Í lok 15. aldar höfðu til dæmis verið hátt í þrjátíu þýskir prentsveinar í Rómaborg. Met í slíku flakki átti Hinrik frá Köln, sem fór prentandi um næstum endilangan Ítalíuskaga. Stundum settust þessir iðnsveinar að á einhverjum stað í lengri eða skemmri tíma.
Prentarar voru á þessum tíma yfirleitt leturgrafarar, skrifarar, lærðir á latneskt mál og önnur klerkleg fræði. Hafa verið leiddar að því líkur að fundi séra Jóns Matthíassonar hafi borið saman við séra Jón Arason á leið hins síðarnefnda til Hamborgar. Geta menn sér þess til að Jón Arason hafi séð í prentlistinni hentugt vopni í baráttu sinni vegna embættis síns og trúar. Verið getur að kynnin við Jón sænska hafi kveikt þessa hugmynd með biskupnum nývígða, en einnig að hann hafi fengið hana á ferð sinni um Norðurlönd.
Breiðabólstaður 1535–1562
Ekki er að fullu ljóst hve lengi prentsmiðja var rekin að Hólum að þessu sinni, en vitað er að árið 1535 var séra Jóni Matthíassyni veittur Breiðabólstaður í Vesturhópi, þar sem hann þjónaði til dauðadags. Mjög líklegt er að hann hafi farið með prentsmiðjuna með sér, enda hefur hann væntanlega átt hana sjálfur. Grunnavíkur-Jóni, sem ólst upp í nágrenninu, segist svo frá, að árið 1750 hafi vallgrónar rústir prentsmiðjuhússins enn sést við lækinn sunnan við bæinn.
Hér má geta þeirrar skemmtilegu tilviljunar, að það var á Breiðabólstað, sem rituð var fyrsta bókin sem vitað er til að hafi verið rituð á íslenska tungu. Það var lögbókin Hafliðaskrá, rituð veturinn 1117–18. Prentsmiðjan á Breiðabólstað virðist hafa verið atkvæðalítil það sem eftir lifði kaþólsks síðar á Íslandi. Ekki er vitað um nema þrjár bækur prentaðar á Breiðabólstað á þessum árum meðan prentsmiðjan var þar; allar prentaðar eftir siðskiptin norðanlands, en þau komust á í kjölfar lífláts Jóns biskups og sona hans árið 1550.
Um séra Jón Matthíasson er það vitað að hann tók hinn nýja sið og hélt áfram að þjóna Hólastól sem prestur á Breiðabólstað. Eftirmaður Jóns Arasonar á Hólastóli og jafnframt fyrsti lúterski biskupinn til að sitja þar nyrðra var Ólafur Hjaltason. Hann ríkti stutt, frá 1552 til 59. Hann hefur nokkuð verið í skugganum af eftirmanni sínum, þegar bókaútgáfu ber á góma, en hlýtur þó að teljast brautryðjandi í bókaútgáfu á Íslandi í lúterskum sið. Elst þeirra þriggja bóka sem vitað er um að prentaðar hafi verið á Breiðabólstað meðan hann sat biskupsstól er Passio, eftir Antonius Corvinus í þýðingu Odds Gottskálkssonar, talin prentuð 1559. Eitt eintak er til af þessari bók, í Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn og er hún elsta bók prentuð á Íslandi, sem enn er til. Þá er Catechismus, gjarnan kennd við Justus Jonas en þýdd á íslensku af Oddi Gottskálkssyni og loks Guðspjallabók Ólafs biskups Hjaltasonar. Þær eru báðar prentaðar 1562.
Hólar 1572–1589
Séra Jón Matthíasson lést árið 1567 og var brauðið þá veitt ungum presti, Guðbrandi Þorlákssyni. Hann var þá nýkominn frá námi við háskólann í Kaupmannahöfn og talinn lærðastur maður á Íslandi. Einnig hafði hann um skeið verið skólameistari Í Skálholti. Þegar séra Guðbrandur kom að Breiðabólstað varð fyrir honum ónotuð prentsmiðja og aðgerðarlaus prentari. Sá var Jón yngri, sonur Jóns Matthíassonar. Hann hafði numið prentlistina af fóður sínum og erft prentverkið eftir hann.
Guðbrandur var ekki lengi þjónandi prestur í Vesturhópi. Hann var kvaddur til biskupsembættis á Hólum eftir lát Ólafs Hjaltasonar 1570, vígður biskupsvígslu árið eftir og kom heim sama sumarið til að taka við stólnum. Líklegt er að Guðbrandur hafi kynnst prentverki að einhverju leyti meðan hann dvaldist við nám í Kaupmannahöfn og áttað sig á því hve mikið gagn mætti hafa af því til eflingar trúar og mennta. Því þarf engan að undra þótt hann kallaði Jón prentara fljótlega til Hóla með letur sitt og tæki og hæfi bókaútgáfu. Er talið hugsanlegt að biskup hafi haft prentsmiðjuna á leigu fyrstu árin.
Margt er óljóst um starfsemi prentsmiðjunnar og rekstur tvo fyrstu áratugina á Hólum siðbótarinnar. Hún var orðin lasburða, og prentþröngin bilaði fljótlega svo illa að ekki var hægt að gera við hana. Jón prentari var þá sendur til Kaupmannahafnar, þar sem hann vann um tíma í prentsmiðju háskólans og kom heim með nýja þröng. Var þá hafist handa við útgáfustarf og rak hver bókin aðra næstu árin.
Fyrsta bókin sem Guðbrandur biskup lét prenta var Lífsins vegur, eftir Niels Hemmingsen, þýdd af biskupi sjálfum. Hún kom út árið 1575. Árið eftir voru þrjár bækur prentaðar á Hólum: Ein kristileg og stutt undirvísan, eftir Johannes Pfeffinger, Catechismus, eftir Pétur Palladius og Bænabók. Aðrar merkar bækur eru Lögbók Íslendinga (Jónsbók) 1578 og Biblían 1584. Það er merkilegt við Undirvísan, Bænabók og Catechismus að þær hafa blaðsíðutal fyrstar íslenskra bóka.
Guðbrandsbiblía
Biblían frá 1584 er án efa frægasta verk Guðbrands biskups, enda við hann kennd enn þann dag í dag og nefnd Guðbrandsbiblía. Þykir bókin ein mesta gersemi íslenskrar prentsögu. Hún var prentuð í 500 eintökum; 250 þeirra batt inn útlendur bókbindari að nafni Jurin, sem Guðbrandur réð hingað til lands, 120 eintök voru send til Kaupmannahafnar til bands en þau 130 eintök sem þá voru eftir munu hafa verið bundin af Jóni Arngrímssyni, sem lærði bókband af Jurin.
Allmikið er af prentvillum í Guðbrandsbiblíu og hafa sumar þeirra verið leiðréttar með því að strika í lesmálið með penna og þrykkja síðan leiðréttingar á spássíu eða ofan við lesmálslínu. Af þessu leiðir að sennilega eru engin tvö eintök af Guðbrandsbiblíu eins. Í eftirmála biblíunnar kemst Guðbrandur svo að orði að hann hafi „ordit optast einsamall at yfirlesa, corrigera, vtleggja“.
Guðbrandsbiblía er fyrsta myndskreytta bókin prentuð á Íslandi. Lengi var tilhneiging til þess hér á landi að eigna Guðbrandi gerð þessara mynda, sem og gerð upphafsstafa og titil umgerðar, enda er hann sagður hafa verið skurðhagur maður. Trúin á hlut biskups hefur þó farið minnkandi eftir því sem rannsóknir hafa aukist. Samanburður virðist leiða í ljós að myndamótin hafi verið fengin úr þýskum og dönskum biblíuútgáfum. Enda má ráða af orðum hans sjálfs í eftirmála að hann hafi útvegað myndirnar en ekki tekist að fá allar þær „fígúrur“ sem hann vildi:
„Giarna villda eg hafa laated med þryckia allar þær Figurur / sem Historiunne Heilagrar Biblíu til heyra / Enn eg hef ecke kunnad þær ad faa.“
Í Biskupasögum Jóns Halldórssonar segir svo um Guðbrandsbiblíu: „Og svo að þessi biblíuþrykking væri bæði sem langgæðust og prýðilegust, þá þyrmdi hann (þ.e. Guðbrandur) hvorki sjálfum sér eða nokkrum kostnaði, lét þrykkja hana á tilvalinn pappír real, fékk til láns frá Hamborg fígúrur eða stykkin, sem til ljósari skilnings og prýði eru í hans biblíu, svo sem eru myndir vitnisburðar tjaldbúðarinnar, hennar verkfæra, Aaronis skrúða, sáttmálsarkarinnar, Salomonis musteris og annars þessháttar.“
Um prentsveina Guðbrands er ekki vitað að öðru leyti en því að hann notaði skólapilta við setjarastörf. Þannig er þess getið að Vigfús Jónsson „prinna“ á Siglunesi hafi verið í Hólaskóla og „skipaður í prenthús“. Hann hengdi sig 1586 í Hólakirkju, hjá altarinu þar sem biskup gerði kvöldbæn sína og messu. Það var Guðbrandur sem fann Vigfús og er auðséð að frásagnir af atburðinum eiga að skiljast svo, að hann hafi hengt sig vegna skikkunar til starfa í prenthúsinu.Hverjir unnu við prentverkið?
Jón Jónsson var prentari hjá Guðbrandi biskupi til dauðadags (1616). Sjá nánar um hann á eftir. Eftir það tók Brandur sonur hans við aðalprentstörfum. Hann setti aldrei nafn sitt á þær bækur sem hann prentaði og er talið að það hafi verið vegna þess að hann nam ekki list sína erlendis og hafi því ekki þóst vera jafningi föður síns. „Þó var hann vel æfður og duglegur prentari, en eigi af Guðbrandi vel þokkaður,” segir Jón sýslumaður Jakobsson.
Þá er vitað að Björn Jónsson frá Draflastöðum í Þingeyjarsýslu vann við setningu að Hólum á áratugnum 1610–20.
Erlendur Guðmundsson (um 1560–1641). Hann starfaði við setningu biblíunnar hjá Guðbrandi 1584 og var þá námssveinn í Hólaskóla. Starfslaunin voru ein biblía. Ekki er til þess vitað að hann hafi lagt stund á prentverk eftir það.
Guðmundur Finnsson (um 1570-um 1620). Hóf prentnám að Hólum um aldamótin 1600. Sigldi svo og gerðist prentari í Hamborg, um 1610 að því talið er. Eftir það er ekkert um hann vitað.
Brandur Jónsson (?-1630). Hóf prentnám að Hólum hjá föður sínum, tók við prentsmiðjunni að honum látnum og rak hana til dauðadags. (Sjá hér á undan.) Samhliða prentverkinu bjó hann að Ási í Hjaltadal.
Jón Jónsson (um 1540–1616). Sonur Jóns svenska og nam prentverk hjá föður sínum á Breiðabólstað. Erfði prentsmiðjuna að föður sínum látnum. Þegar Guðbrandur Þorláksson gerðist eftirmaður föður hans á Breiðabólstað hefur hann kynnst Jóni yngra. Eftir að sr. Guðbrandur varð síðan biskup fór Jón utan til frekara náms fyrir áeggjan hans 1574–75. Síðan var hann aftur ytra 1577–78 að afla smiðjunni nýrra tækja. Eftir heimkomuna tók hann til óspilltra mála við prentverkið og var aðalprentari að Núpufelli og Hólum til dauðadags. Talið er að Guðbrandur biskup hafi keypt prentsmiðjuna af Jóni og verið einkaeigandi hennar eftir 1593. Um nemendur Jóns og samstarfsmenn liggja litlar eða engar heimildir fyrir. Þó er til dæmis sagt að hann hafi prentað biblíuna með sjö sveinum; líklega hafa þeir flestir verið skólasveinar.
Núpufell 1589-1593
Nú kemur að einni ráðgátunni í prentsögu landsins og hefur ekki enn fundist óyggjandi ráðning þar á. Árið 1589 er Summaria yfir það Nýja testamentið „þrykkt á Núpufelli í Eyjafirði af Jóni Jónssyni“. Tveimur árum síðar er Summaria yfir það Gamla testamentið „þrykkt á Núpufelli af Jóni Jónssyni“.
Þetta hefur vakið upp spurningar um það, hvort prentsmiðjur hafi verið tvær hér á landi á þessum árum; á Hólum og Núpufelli. Eða var Hólaprentsmiðja flutt að Núpufelli, starfrækt þar í nokkur ár og flutt síðan aftur að Hólum?
Menn greinir á um þetta atriði; engum hefur tekist að sýna óyggjandi fram á annaðhvort. Meistari Hallbjörn Halldórsson prentari hefur haldið því fram að prentsmiðjurnar hafi verið tvær; eftir prentun Biblíunnar hafi Hólaprenti verið skipt í tvennt; eignarhluti Jóns prentara verið fluttur að Núpufelli en hluti biskups orðið eftir á Hólum. Síðar hafi svo biskup keypt aftur hluta Jóns og sameinað prentsmiðjurnar á Hólum á nýjan leik. Aðrir, eins og Klemens Jónsson og Páll Eggert Ólason, telja að aðeins sé um eina prentsmiðju að ræða og hún hafi verið flutt frá Hólum að Núpufelli, líklega árið 1589.
Til eru tvær bækur frá 1589; Ein ný psalmabók, prentuð á Hólum og Summarían sem fyrr er nefnd. Þetta gæti bent til þess að smiðjurnar hafi verið tvær, en þó þarf svo ekki að vera. Sálmabókin gæti hafa verið prentuð snemma árs og prentverkið síðan flutt að Núpufelli og Summarían prentuð undir árslok. Báðar bækurnar eru prentaðar með sama letri.
Vitað er að Jón prentari Jónsson fékk konungsjörðina Núpufell til ábúðar árið 1578 og var hugmyndin upphaflega sú að hann hefði þar prentverk og prentaði þær bækur sem biskup vildi. Átti þetta fyrirkomulag að létta launagreiðslum til Jóns af biskupi. Ekkert varð af flutningi prentverksins til Núpufells á þessum tíma. Þótt Jón ræki búskap á Núpufelli sat hann hins vegar á Hólum og hefur að lokum þótt örðugt að sinna búskap sínum svo vel væri úr slíkri fjarlægð.
Líklegt er að Guðbrandur biskup hafi verið búinn að kaupa hlut í prentsmiðjunni þegar hér var komið, en ætla má að Jóni hafi tekist að fá biskup til að samþykkja flutning smiðjunnar heim til sín, hinsvegar hefur biskupi áreiðanlega fljótt fundist það óhagræði mikið að hafa prentverkið svo fjarri sér. Því er líklegt að hann hafi keypt hlut Jóns í prentsmiðjunni af honum og flutt hana aftur til Hóla. Svo mikið er víst að þótt Jón héldi áfram að sjá um prentverkið á Hólum til dauðadags 1616 setti hann aldrei nafn sitt á þær bækur sem prentaðar voru á Hólum. Prentsmiðjan hefur því verið í eigu Guðbrands en Jón verið ráðinn til að sjá um starfsemi hennar.
Hólar 1593-1685
Í sálmabókinni 1589 var dálítið af söngnótum, en árið 1594 var prentuð fyrsta íslenska messusöngsbókin, og var hún með nótnaprenti á flestum síðum. Þetta var Graduale eða Grallarinn, eins og bókin hefur verið nefnd, ugglaust ein nafnkunnasta söngbók sem gefin hefur verið út hér á landi. Það segir sitt að Grallarinn var alls prentaður 19 sinnum, með ýmsum breytingum að sjálfsögðu. Það var ekki fyrr en árið 1801 að ný messusöngsbók var prentuð; það var svonefnd Leirgerður sem Magnús Stephensen lét prenta í Leirárgörðum. Þó var Grallarinn víða notaður í kirkjum landsins fram á miðja 19. öld.
Af öðrum merkum bókum þessa tímabils prentverksins á Hólum má nefna Calendarium. Íslenskt rím, prentað 1597. Talið er að Arngrímur Jónsson hinn lærði hafi átt einna mestan þátt í þessu kveri, en þó mun Guðbrandur biskup einnig hafa komið þar nokkuð við sögu. Í bókinni eru 45 almanaksvísur ortar af séra Ólafi Guðmundssyni í Sauðanesi; þar er ugglaust þekktust vísan Ap, jún, sept, nó, sem þarna er í sinni upprunalegu mynd.
Önnur bók er Eintal sálarinnar eftir Martin Møller, þýdd úr þýsku af Arngrími lærða. Þessi bók var lengi ein vinsælasta hugvekjubók á Íslandi, en þykir merkust fyrir þau áhrif sem hún þykir hafa haft á Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Árið 1609 lét svo Guðbrandur biskup prenta Nýja testamentið í litlu broti. Útgáfa þessi var gerð fyrir þá sem ekki treystu sér til að kaupa stóru biblíuna frá 1584.
Guðbrandur og Vísnabókin
Guðbrandur biskup þóttist, með útgáfu Grallarans og Sálmabókarinnar, hafa komið kirkjusöng landsmanna í viðunandi horf. Þó fannst honum ekki nóg að gert, þar sem alþýðan víða um land var enn rammkaþólsk í anda en hafði þar fyrir utan mestar mætur á veraldlegum kveðskap, rímum og danskvæðum sem að mati kirkjunnar embættismanna gerðu lítið annað en að ýta undir léttúð og andvaraleysi. Biskupi var ljóst að Sálmabókin hans myndi ekki vinna bug á rímum og kaþólskum kvæðum sem fólk fór með á vökunni eða við vinnu sína. Því brá hann á það ráð að fá bestu skáld landsins til að yrkja andleg ljóð undirfornum og alþýðlegum bragarháttum, til notkunar í heimahúsum, m. a. biblíurímur.
Varð þessi kveðskapur meginundirstaðan í Vísnabókinni 1612; Ein Ny Wiisna Bok, og gerir biskup grein fyrir hlutverki bókarinnar í formála. Fyrirferðamestur skálda er þar sr. Einar Sigurðsson í Heydölum sem orti nær allan fyrri part bókarinnar. En í henni er ekki einvörðungu kveðskapur siðbótarskálda. Þar er einnig að finna mörg kaþólsk helgikvæði, því eins og Guðbrandur orðaði það sjálfur: „Í þeim blinda páfadómi hafa margir haft góða og sanna kynning á almáttugum guði.“ Frægast þessara kvæða er efalaust Lilja Eysteins Ásgrímssonar, sem ort var um 1360 en prentuð þarna í fyrsta sinn. Kvæðinu er þó breytt í prentuninni og meðal annars öllu því sleppt sem minnt gæti á Maríudýrkun.
Þá eru í bókinni tvö kvæði eftir sjálfan Jón Arason, þann hálshöggna Hólabiskup, og loks er að nefna hið merka kvæði Skáld-Sveins Heimsósóma. Árangur af útgáfu Vísnabókarinnar mun ekki hafa orðið sá er Guðbrandur stefndi að. Guðlausar rímur og annar sá veraldlegur kveðskapur sem alþýða manna hafði skemmt sér við um langan aldur hélt áfram að lifa góðu lífi með þjóðinni. Vísnabókin var aðeins einu sinni endurprentuð og þá ekki fyrr en árið 1748 og nefndist Sú gamla vísnabók.
Útgáfa feðganna Þorláks og Gísla
Eftir lát Guðbrands biskups tók dóttursonur hans Þorlákur Skúlason við biskupsdómi. Hann tók einnig við rekstri prentsmiðjunnar og rak hana næstu 25 árin. Á þeim tíma voru prentaðar um þrjátíu bækur á Hólum, en margt af því voru endurprentanir. Kunnust útgáfubóka Þorláks biskups er biblía sú sem við hann er kennd, Þorláksbiblía. Prentun hennar tók sjö ár, 1637–44, og er hún til með tvenns konar titilblöðum, sínu með hvoru ártalinu, 1637 og 1644. Er eldra ártalið gert við upphaf prentunarinnar en hið síðara er útgáfuárið. Þorlákur breytti nokkuð eldri þýðingum dönskum við þessa útgáfu og segist sjálfur hafa gert það á þann hátt er hann taldi guði þóknanlegan:
„Er nu þesse Islendska Biblia Vtgeingen j annad sinn a Prent, epter þeirre fyrre Editione, vtan huad sumstadar hefur vered Ordum vmskipt, edur so Greinum, epter þeirre Dönsku Biblíu og Versione Lutheri, epter þui sem eg hefe meint fyrer Gude hentugast og riettast vera, so sem giör sía ma, ef Textarner eru saman borner. Huar med eg hefe aungrar Fordilldar viliad mier leita, Enn sijdur neitt rangt jnn setia.“
Ánægja með þessar breytingar er þó ekki almenn; Jón Halldórsson segir í Biskupasögum II:
„Og svo sem flestum mun ei falla svo létt, án sérlegs athuga, að útleggja úr dönsku á íslensku, svo engan keim dragi af dönskunni vegna skyldsemi þessara tungumála, svo fram koma og í þessari biblíuútleggingu sumstaðar nokkrir danismi eða dönsk orð.“
Í Þorláksbiblíu eru einungis fjórar tréskurðarmyndir og höfðu þær allar birst áður í Passionall, bók sem prentuð var á Hólum 1598.
Gísli sonur Þorláks tók við biskupsdómi að föður sínum látnum árið 1656 og sat til dauðadags árið 1685. Á þeim tíma lét hann prenta milli fjörutíu og fimmtíu bækur, að miklu leyti endurprentaðar guðsorðabækur. Merkast prentverka Gísla biskups er án efa fyrsta útgáfa af Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, 1666. Ekki eru sálmarnir þó gefnir út sérstaklega heldur prentaðir aftan við sjö píslarsálma sr. Guðmundar Erlendssonar í Felli. Aftan við Passíusálmana er svo prentaður sálmurinn „Allt eins og blómstrið eina (Um dauðans óvissan tíma)“. Gísli biskup þótti ekki mikill skörungur á stóli og gekk prentverkið mjög úr sér um daga hans. Við andlát hans urðu þau þáttaskil að það fluttist um skeið til Skálholts. Síðasta bókin sem prentuð var á Hólum fyrir flutninginn var líkprédikun yfir Gísla sjálfum og mun það hafa verið í fyrsta skipti, sem slík útfararminning var prentuð hér á landi.
Skálholt og Hlíðarendi 1685-1703
Um miðja 17. öld hafði Brynjólfur biskup Sveinsson í hyggju að koma upp prentverki í Skálholti og leitaði leyfis konungs fyrir því. Brynjólfur var mikill aðdáandi íslenskra fornrita og er ekki talið fráleitt að hann hafi einkum hugsað til þess að geta gefið út slík rit. Úr þessari ráðagerð Brynjólfs varð þó ekki, einkum vegna andspyrnu Þorláks biskups á Hólum, sem sá hugsanlegan keppinaut í hinni nýju prentsmiðju. Málið féll því niður að sinni og fyrstu íslensku fornritin voru prentuð í Uppsölum í Svíþjóð, en ekki í Skálholti. En draumur Brynjólfs biskups um prentun fornrita í Skálholti rættist í tíð eftirmanns hans, þótt í litlu væri. Þórður Þorláksson, sem tók við biskupsstóli af Brynjólfi, fékk prentsmiðjuna á Hólum flutta suður um heiðar til Skálholts árið 1685. Þá var um leið gerð úttekt á prentverkinu og var lýsing á ástandi þess heldur dapurleg.
Fornsögurnar sem Þórður biskup lét prenta í Skálholti voru Landnáma (Sagan landnama Vm fyrstu bygging Islands af Nordmönnum), Kristni saga (Christendoms Saga Hliodande um þad hvornenn Christen Tru kom fyrst a Island, at forlage þess haloflega Herra, Olafs Tryggvasonar Noregs Kongs) og Íslendingabók (Schedæ Ara Prestz Froda Vm Island), allar preyntaðar árið 1688. Á árunum 1689-90 var svo Ólafs saga Tryggvasonar (Saga þess Haloflega Herra Olafs Tryggvasonar Noregs Kongs) prentuð í tveimur bindum. Þessi fjögur rit eru fyrstu fornritin sem prentuð eru á Íslandi, en eins og fyrr er sagt voru fyrstu afrekin á því sviði unnin í Svíþjóð. Eftir prentunina í Skálholti varð síðan næstum sjötíu ára hlé á slíkri útgáfu. Sennilega hafa bækurnar verið nokkuð dýrar og selst dræmt, enda var vel til þeirra vandað. Einnig kann að hafa skipt hér máli að Þórður biskup missti fljótlega heilsu.
Þórður lét prenta meira en fornsögur. Gronlandia (Grænlands saga) eftir Arngrím lærða var að heita má af svipuðum toga og fornsögurnar; upphaflega rituð á latínu en þýdd á íslensku af Einari Eyjólfssyni sýslumanni. Þá má nefna að í Skálholtsprentsmiðju voru í fyrsta sinn prentuð tíðindi af Alþingi; titillinn er: Alþyngis Booken hafande jnne ad hallda þad sem giördest og frammfoor jnnann Vebanda aa almennelegu Öxaraar-Þinge Anno 1696. Þessi fyrstu Alþingistíðindi voru aðeins 28 síður að stærð, en mjór er mikils vísir. Alþingisbækur (eða Lögþingsbækur) voru prentaðar flest ár fram að því að Alþingi var lagt niður um árið 1800. Árið 1845, eftir að Alþingi hafði verið endurreist, hófst prentun á gjörðum þess á nýjan leik og nefndust Tíðindi frá alþingi, nú heita ritin Alþingistíðindi og eru gefin út í hundruðum blaðsíðna á ári hverju.
Þórður biskup lést 16. mars 1697 og fór þá prentsmiðjan undir stjórn sona hans tveggja, Þorláks skólameistara í Skálholti og Brynjólfs, sem síðar varð sýslumaður að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Þorlákur var raunar sjálfur orðinn helsjúkur er faðir hans lést og andaðist fáum mánuðum síðar. Brynjólfur var á hinn bóginn aðeins á unglingsaldri, sextán ára og varð aldrei mikill garpur þótt hann ætti eftir að auðgast vel. Raunar var hann hvorki talinn lærður né vitmaður og talið efalaust að honum hefði orðið ofraun að reka prentsmiðjuna.
Prentverkið lá nú niðri um nokkurt skeið. En árið 1699 flutti ekkja Þórðar með Brynjólfi syni sínum að Hlíðarenda og tóku þau prentsmiðjuna með sér. Brynjólfur leitaði staðfestingar konungs á því að hann fengi að halda einkaleyfi föður síns til prentsmiðjureksturs og bókaútgáfu og fékk það 26. apríl 1701. Þá hafði hann í hyggju að hefja prentsmiðjurekstur og réð til sín Martein Arnoddsson prentara, en ekkert varð úr þessari fyrirætlan. Urðu málalok þau að við þinglausnir 1703 reið Björn Hólabiskup Þorleifsson austur að Hlíðarenda og keypti prentsmiðjuna. Samningur þar um var gerður 1. ágúst og greiddi biskup fimm hundruð Jóakimsdali fyrir prentverkið sem var flutt norður þá um sumarið á sextán hestum.
Prentarar að Hólum og í Skálholti
Nokkrir þeirra sem unnu við prentverkið á Hólum fylgdu prentsmiðjunni suður til Skálholts, þegar hún var seld þangað. Hér fara á eftir upplýsingar um þá sem vitað er að unnu á þessum stöðum:
Halldór Ásmundsson (um 1600–1667 eða 68). Hóf prentnám að Hólum hjá Brandi Jónssyni og fór að námi loknu utan til Þýskalands, þar sem hann framaðist enn frekar í prentlistinni. Vann meðal annars í Danzig í mörg ár. Halldór hafði í hyggju að ílengjast ytra, en Þorlákur Skúlason Hólabiskup fékk hann til að koma heim og taka við prentverkinu á Hólum, sem legið hafði niðri frá andláti Brands Jónssonar 1630. Halldór var prentari á Hólum á árunum 1634–66. 1635 fékk biskup jörðina Núpufell handa honum, en lengst af bjó hann þó að Ingveldarstöðum í Hjaltadal.
Henrik Kruse (f. í Danmörku, d. 1699). Uppruni er ókunnur, en um líkt leyti var við Háskólaprentsmiðjuna í Kaupmannahöfn prentari með sama ættarnafn; gæti verið um skyldleika að ræða þótt óvíst sé. Kom til Íslands 1668 og virðist þá hafa verið vel menntaður, því hann er kallaður „academus“. Hann var aðalprentarinn á Hólum 1668–77. Þá varð hlé á störfum hans við prentsmiðjuna. Hann fór utan 1679 en kom aftur til landsins 1685 og þá til að vinna við hina nýuppsettu prentsmiðju í Skálholti. Þar var hann til 1688, er hann fór utan. Hann kom svo enn til Íslands 1699, en lést skömmu síðar.
Jón Brandsson (fæðingar- og dánarár ókunn). Er prentari á Hólum 1664–67 og sennilegt að hann hafi verið þar fyrir og eftir þessi ár. Freistandi væri að telja hann son Brands prentara Jónssonar, en sá er hængur þar á, að Jón sonur Brands var prestur en ekki prentari.
Jón Snorrason (1646–eftir 1723). Hóf prentnám á Hólum hjá Henrik Kruse um 1668 og var yfirprentari þar 1677–85. Hætti um tíma eða hefur flust suður og verið undirmaður hjá Henrik Kruse, en þegar hann hættir og deyr 1689 tekur Jón við og er yfirprentari í Skálholti 1689–97, þegar prentsmiðjan er lögð niður. Þegar hún var flutt að Hlíðarenda fylgdi Jón henni ekki og kom ekki við prentverk eftir það.
Styr Þorvaldsson (1649–eftir 1729). Hóf prentnám að Hólum og vann þar sem setjari í nokkur ár. Hann er þar sem slíkur árið 1684 og búinn að vera eitthvað áður. Síðan fluttist hann með prentverkinu til Skálholts og vann enn að setningu um hríð. Fyrir 1703 er hann byrjaður búskap að Syðri-Reykjum í Biskupstungum og er þar bóndi fram yfir 1729. Stundaði mikið afskriftir gamalla skjala fyrir Árna Magnússon. [Ef telja mætti að Styr hafi verið setjari allan tíma prentverksins í Skálholti, léti nærri að vitað væri um alla prentara sem þar unnu.]
Þórður Jónsson (Fæðingar- og dánardægur ókunn.) Sonur Jóns Brandssonar prentara á Hólum og ókunnrar konu hans. Þórður vinnur við prentverk að Hólum 1666, sennilega sem drengur við nám og er ekki fyrr getið. Heimildir skortir fyrir því hve lengi hann starfar að prentverkinu.
Hólar 1703–1799
Þetta tímabil Hólaprentsmiðju er í heild talið ómerkara en önnur í íslenskri prentsmiðjusögu, enda flestir Hólabiskupar á 18. öld fremur litlir skörungar. Það þykir því hafa verið óheppileg ráðstöfun að prentsmiðjan skyldi flutt norður aftur, einkum í ljósi þess að Skálholtsbiskupar á sama tíma voru meiri lærdómsmenn og líklegri til að koma á prent nýtilegum ritum. En hvað sem slíkum vangaveltum líður var vel tekið á móti tækjakosti prentverksins þegar norður kom. Reist var prentstofa, hið sæmilegasta hús í sex stafgólfum með fimm glergluggum og kakalofnum.
Það fyrsta sem prentað var að Hólum að þessu sinni var lofkvæði í tilefni af endurheimt prentsmiðjunnar, eftir séra Magnús Illugason á Húsavík. Árið eftir kom út söguleg útgáfa af Passíusálmunum, hin sjötta í röðinni. Björn biskup og prestar hans höfðu gert tvær breytingar á texta séra Hallgríms og þóttu þær síst til bóta. Urðu breytingarnar biskupi til vafasams heiðurs og reis upp mikill úlfaþytur.
Björn gaf út fleiri bækur en fáar merkar. Helst er að nefna Lögbók Íslendinga (Jónsbók), sem hann lét prenta tvisvar, 1707 og 1709. Árið 1709 kom upp eldur í prentsmiðjunni og urðu þar nokkrar skemmdir á tækjakosti. Hann var enda talinn úr sér genginn árið eftir, þegar Björn biskup lést. Eftir það var prentsmiðjan í eigu ekkju biskups, Þrúðar Þorsteinsdóttur, en hún var af ætt Guðbrands biskups, eins og aðrir þeir sem til þess tíma höfðu haft yfirráð yfir prentverkinu.
Steinn Jónsson
Við biskupsdómi eftir Björn Þorleifsson tók Steinn Jónsson, hægur maður og rólyndur. Eftir nokkurn ágreining um kaupverð keypti hann prentverkið af maddömu Þrúði á sama verði og maður hennar hafði goldið fyrir það á sínum tíma. Steini þóttu þetta vondir kostir, því honum þótti prentsmiðjan léleg og vildi láta slá af verðinu.
Prentsmiðjurekstur Steins biskups þótti með lítilli reisn eins og annar embættisrekstur hans. Merkasta rit hans er Vídalínspostilla, prentuð í tveimur hlutum 1724 og 26. Hana lét hann endurprenta í tvígang. Þá lét hann prenta nýja útgáfu af biblíunni, svonefnda Steinsbiblíu. Sú útgáfa þótti ekki góð; hún var óvandaðri en fyrri biblíur jafnt hvað frágang snerti og mál, sem var mjög dönskuskotið. Titill var eingöngu prentaður í svörtu, engar myndir voru í lesmálinu og stóru upphafsstafirnir sem prýtt höfðu fyrri biblíuútgáfur voru horfnir.
Engar jaðargreinar eru í Steinsbiblíu eins og voru í hinum fyrri, en tilvitnanir í aðra biblíustaði eru víða settir með smærra letri inn í meginmálið, sem spillir áferðinni á síðunum. Letur er annað en á fyrri biblíum og bæði slitið og óhreint, svo víða fellur það illa saman. En þrátt fyrir þessa galla er Steinsbiblía ekki meðal þess lélegasta að frágangi sem prentað var hér á átjándu öld. Fyrir utan þessar tvær bækur gaf biskup út nokkrar guðsorðabækur eftir sjálfan sig og aðra, auk endurprentana eldri rita.
Skúli Magnússon
Við andlát Steins biskups 3. desember 1739 var prentsmiðjan orðin aflóga, enda virðist hann ekki hafa aflað sér nýrra tækja í stað þeirra sem gengu úr sér. Að venju var gerð úttekt á biskupsstóli eftir andlát biskups og er þar að finna rækilega lýsingu á högum prentverksins; flest letur eru orðin slitin og sum ónothæf. Svo lítið var til af þeim flestum að varla hrökk til þess að setja eina örk. Pressunni er svo lýst af Halldóri Eiríkssyni prentara, að hún sé „forrotin og fordjörfuð“ og „skrúfan í henni aldeilis sundurgliðnuð“. Segir Halldór að þótt hann vildi væri öldungis ómögulegt að vinna nokkurt verk af einhverri alúð með slíkum og þvílíkum verkfærum.
Eftir lát Steins biskups var enginn biskup vígður til stólsins um nokkurt skeið, heldur tók Ludvig Harboe við sem staðarhaldari. Hann skipaði Skúla Magnússon ráðamann prentsmiðjunnar. Skúli var um þessar mundir sýslumaður Skagfirðinga en varð síðar landfógeti. Hann gekk til verka af röggsemi og dugnaði sem síðar á lífsleiðinni átti eftir að afla honum bæði vina og óvildarmanna; hann aflaði prentsmiðjunni nýrra, fegurri og fjölbreyttari leturfanga, mittel, cicero og corpus 1744. Einnig lét hann prenta allt árið, í stað þess að nýta í það veturinn einan eins og tíðkast hafði og nota sumarið til búskaparverka. Skúli lét prenta ýmsar bækur, jók upplög þeirra og lækkaði verðið að sama skapi. Auk þess brá hann á það nýmæli að auglýsa bækur sínar í Alþingisbókunum og má til þess rekja upphaf bókaauglýsinga á Íslandi.
Um þetta leyti lét Marteinn Arnoddsson af starfi prentara en við starfi hans tók Halldór Eiríksson, sem fyrr er nefndur. Hann hafði starfað í Kaupmannahöfn og Þýskalandi, en kom heim til starfa í prentsmiðjunni að Hólum vegna beiðni Skúla. Halldór taldi sig að vísu ekki bera það úr býtum sem honum bæri eftir langa og kostnaðarsama ferð hingað til lands frá Danzig. Í bréfi segist hann hafa yfirgefið sína „condition“ þar, að bréflegri beiðni Skúla og reist til Kaupinhafnar
„og þar antekið sér, saavidt mögulega ske kynni, þá commission sýslumanns um nýjar skriftir [letur] til Hólaprentverks, reist síðan með þeim til Íslands, hver reisa frá Danzig til Kh., uppihald þar nær tvo mánuði og kostur hingað yfir hafið sig hafi kostað ærna peninga“,
sem hann óskaði að fá endurgreidda. Skúli vildi greiða honum sama kaup og Marteinn hafði haft, það er frítt fæði og;
„camers með tilhlýðanlegri uppvartningu, 6 exemplaría frí af sérhverju, sem þrykktist og í kaup 6 hdr. [hundruð] á landsvísu í peningum eða öðrum þægilegum aurum.“
Þetta þótti Halldóri hins vegar ekki sanngjarnt því Marteinn hefði aðeins prentað yfir veturinn en Skúli vildi að „prentverkið brúkist árið um kring án uppihalds”. Samningar tókust með þeim í ágúst 1744 um að Halldór skyldi fá fyrrgreind fríðindi og 10 hdr. á landsvísu í peningum og þægilegum aurum fyrir alla virka daga ársins. 10 hundruð á landsvísu virðast hafa samsvarað 45 ríkisdölum.
Meðal þess sem til var ætlast af Halldóri var að hann skyldi kenna ungmennum prentiðn. Hann á hinn bóginn gerði þær kröfur að handrit sem í prentsmiðjuna kæmu og unnið skyldi eftir „séu rétt og accurate skrifuð og að hin sömu blífi við prentverkið, nær afþrykkt eru, til bevísningar, hvort þau í nokkru við þrykkinguna affærð verið hafi“. Hann vildi einnig að gert yrði við prentsmiðjuna og „nær það skeður, tilbýður hann sig, fyrst hingað kominn sé, til að þjóna í henni Guði og sínu fóðurlandi, svo lengi sem til endist“. Fyrsta bókin sem Halldór prentaði var Krossskólasálmar. Hún var prentuð með nýja letrinu sem hann hafði komið með að utan.
Halldór Brynjólfsson
Þegar Halldór biskup Brynjólfsson tók við Hólastóli haustið 1746 lét Skúli af stjórn prentverksins og biskup tók við. Halldór var raunar fremur talinn skrafhreifinn en framkvæmdasamur og átti auk þess stutta setu á biskupsstóli; andaðist haustið 1752. Prentsmiðjunni hnignaði nokkuð í tíð hans. Þó lét hann prenta nokkrar bækur og er kunnust þeirra Sú gamla vísnabók, 1748. Hún var, eins og fyrr er getið, að stofni til endurprentun vísnabókar Guðbrands biskups frá 1612, en aukin nokkrum nýrri kvæðum og formála Halldórs biskups.
Björn Markússon
Að Halldóri biskupi gengnum tók Björn Markússon, varalögmaður og sýslumaður Skagafjarðarsýslu, við umsjón prentsmiðjunnar og hafði hana á hendi í nokkur ár. Árið 1755 gaf hann út fyrstu útgáfu af nokkrum veraldlegum kvæðum og sálmum Hallgríms Péturssonar, Hallgrímskver, eins og bókin er venjulega nefnd. Hún náði fljótlega miklum vinsældum og var endurprentuð oft á komandi árum.
Björn tók upp þráðinn um útgáfu íslenskra fornrita og lét prenta tvö bindi þeirra 1756; Ágætar fornmannasögur (Agiætar Fornmanna Sögur, Eru aa Þryck Wtgeingnar, Ad Forlage Biörns Marcussonar) og Nokkra margfróða söguþætti Íslendinga (Nockrer Marg-Frooder SöguÞætter Íslendinga; Til Leifelegrar Skemtunar Og Dægra-Stittingar. Þessa Lands Innbyggiurum aa Prent settir, ad Forlage Biörns Marcussonar). Í bókum þessum voru birtar fjórtán sögur og frásöguþættir, en þær eru óneitanlega fátæklegri að allri útgerð en sögurnar frá Skálholti.
Björn afrekaði það einnig að gefa út tvær fyrstu skáldsögurnar sem prentaðar voru á íslenska tungu og gefnar út hér á landi. Þetta voru sögurnar Þess svenska Gústav Landkróns og þess engelska Bertholds fábreytilegir Róbínsons eður lífs og ævisögur (Þess Svenska Gustav Landkrons Og Þess Engelska Bertholds Faabreitileger Robinsons, Edur Lijfs Og Æfe Sögur). Sögur þessar voru þýddar úr dönsku af sr. Þorsteini Ketilssyni á Hrafnagili. Eins og nafnið bendir til voru báðar sögurnar af rót frásagnarinnar af Róbinson Krúsó, eftir Daniel Defoe. Voru slíkar frásagnir mjög í tísku í bókmenntum Evrópu um þessar mundir.
Hallar undan fæti
Ekki varð framhald á þessari útgáfustarfsemi frá Hólastóli. Prentsmiðjan var enn einu sinni komin af fótum fram; prentstofan hrörleg og eini setjarinn sem völ var á var áttrætt og óverkfært gamalmenni. Á árabilinu 1760-63 var ekkert prentað og voru jafnvel uppi um það ráðagerðir að flytja prentsmiðjuna í burtu frá staðnum. Sagt er að Skúli Magnússon, sem þá var orðinn landfógeti, hafi viljað fá hana til Reykjavíkur. Árið 1763 vildu Sveinn Sölvason lögmaður, Björn Markússon, Ólafur Stefánsson, síðar stiftamtmaður og fleiri aðilar fá prentsmiðjuna í sínar hendur með vissum skilmálum. Það mál gufaði þó upp eins og ósk Skúla.
Starfsmennirnir
Um mannahald í prentverkinu kemst Halldór Eiríksson svo að orði að það sé „mannlaust af þeim sem nokkuð í því kunni fyrir utan setninguna, er þeir geti annast sá aldraði maður Jón Jónsson setjari og Marteinn, er geti sett lítið eitt“. Jón þessi Jónsson hafði 12 ríkisdali í árslaun. Annar Jón Jónsson var einnig setjari þarna, kallaður yngri og hafði 4 ríkisdali í árslaun. Þá var í prentverkinu Jón Ólafsson „trykker“; hann hefur að líkindum lært hjá Marteini Arnoddssyni en ekki siglt utan til fullnumustu og því ekki verið álitinn fullgildur til að stjórna prentsmiðjunni. Hann hafði 8 ríkisdali í árslaun. Loks var drengur í prentsmiðjunni (iðnnemi).
Prentarar á tímabilinu
Pétur Jónsson (1744–92). Hóf sennilega prentnám að Hólum 1759 og unnið eftir það sem setjari þegar á þurfti að halda. Hann var yfirprentari 1774–81, er hann hætti störfum við prentverk vegna deilna við biskup um jarðnæði.
Guðmundur J[ónsson] Skagfjörð (1758–1844). Hóf prentnám hjá Pétri Jónssyni að Hólum 1772 og vann hjá honum sem setjari eftir að námi lauk. Þegar Pétur hvarf frá Hólum varð Guðmundur yfirprentari og var það til 1782. Árið 1783–84 var hann í Hrappsey. Um haustið 1784 sigldi hann til Kaupmannahafnar og var þar við prentstörf til 1787, við góðan orðstír sem mikill starfsmaður. (Sjá frekar í umfjöllun um prentsmiðjuna í Leirárgörðum.)
Jón Ólafsson (1708–eftir 1784). Hóf prentnám hjá Marteini Arnoddssyni að Hólum og vann þar fram yfir 1743. Hætti þá um tíma prentverki og hefur að líkindum stundað búskapinn einan. Gerist síðan yfirprentari að Hólum 1770–75. Hætti þá vegna fótbrots og sinnti ekki prentverki eftir það.
Markús Þorláksson (1729–eftir 1815). Ekki er hægt að sjá hvenær hann hefur nám, en árið 1765 skrifar hann undir úttekt Hólastóls og 1768 hefur hann kaup á staðnum. Gæti staðist að hann hafi þá verið orðinn setjari einhvern hluta ársins. 1791 er hann setjari á Hólum og yfirprentari 1796–97. Eftir það verður ekki séð að hann hafi stundað prentverk, en bóndi var hann víða og hreppstjóri það sem eftir lifði ævinnar.
Oddur Hákonarson (1729–?). Hóf prentnám að Hólum 1744, eftir að hafa verið þar í fjósi árið áður. Er við prentnámið til 1745, en eftir það er ekki víst um afdrif hans að öðru leyti en því að hann er hættur við prentverk fyrir 1756.
Þorlákur Londeman (fyrir 1690–1720). Vann sem setjari að Hólum 1705 og mörg ár eftir það; til dæmis er hann þar 1717 og lést þar 1720.
Önundur Gunnlaugsson (1756–1834). Lærði prentverk að Hólum og vann þar um stund sem setjari. 1798 er hann þar enn. Það ár eru hann og Jón Jónsson prentari, ásamt Þorkeli Ólafssyni stiftprófasti, kvaddir til að meta prentsmiðjuna.
Björn Gottskálksson (1765–1852). Hóf prentnám hjá Pétri Jónssyni að Hólum 1781 og var þar í eitt ár, en þá var prentverkið lagt niður um tíma. Næsta haust, 1783, fór hann enn að vinna við prentstörf og var í Hrappsey næsta ár. (Sjá frekar í kafla um Hrappseyjarprentsmiðju.)
Úttekt á Hólaprentsmiðju 1741
Að Steini biskupi látnum var gerð úttekt á Hólastóli haustið 1741. Þar í er ítarleg lýsing á prentverkinu, þar sem segir svo um ástand húsa og búnaðar:
Prenthúsið var í 6 stafgólfum, eitt stafgólf alþiljað undir bita. Camers með rúmi og borði. 8 gluggar á öllu húsinu.
„Prentverkið að viðverandi bókþrykkjaranum, Marteini Arnoddssyni, setjaranum Jóni Jónssyni, samt mr. Jóni Egilssyni og Jóni Ólafssyni, sem nokkur næstliðin ár hafa prentverkinu þjónað, besigtað.
a. Stærsta letur hefur ei, verið brúka nema til að setja titla, og er því ei svo mikið, að eitt heilt eða heilt ark kunni af því að setjast. Að öðru er letrið gott og vel brúkandi.
b. Bergsletur, og svo til titla brúkað, ekki heldur til heils eða hálfs arks, brúkanlegt.
c. Biblíuletur hið gamla til heils arks, mjög slitið og óbrúkandi.
d. Antiqua af sama letri, latínskt sem biblíuletur, vel brúkandi.
e. Miðletur meira, að miklu leyti complet til eins arks; mjög slitið en þó brúkandi í viðlögum.
f. Miðletur minna er fallið áður en mag. Steinn viðtók.
g. Latínuletur, sem fylgir miðletri minna, gagnlegt, en til eins arks.
h. Cursiv, ekki complet til eins arks, en þó vel brúkandi.
i. Smæsta letur, að mestu complet til eins arks, brúkanlegt.
k. Latínuletur, fylgjandi smæstu letri, kallað „þræll“ hvergi nærri til eins arks, en þó brúkandi.
l. Tvö nótnaköst [kassarJ, smærri og stærri, bæði saman fullkomin til grallarans, vel brúkandi.
m. Almanaks-kast, aldrei brúkað í tíð Steins biskups.
n. Lítið kast með aðskiljanlegum „rauskum” (röschen, smárósum), vel brúkanlegt.
o.p. Lítið kast með aðskiljanlegum upphafsstöfum, t. a. m. úr Ólafs kóngs sögu. Þar næst ýmsir bókatitlar, svo sem „Biblía“ „Landnama“, „Graduale“ ennfremur mark Hólastaðar, HH, og líkbörur, tíu finalar og hnútar, allt þetta úr tré.
r. Ýmsar dýramyndir úr tini, svo sem flugdreki, kýr, tígris, leo, köttur, svín, hestur, hrútur, hundur, og margar fleiri, er hlýða þeim gamla Passional, Biblíunni og Skálholtsbókum. [Líklegt er talið að Þórður biskup hafi skorið flestar þessara mynda út og er mikið af þeim á Þjóðminjasafninu.]
Pressan sjálf með koparhellu og kopardigli, bengillinn allur af járni með tré á skaftinu; höfuðið er með fjórum járnspöngum. Pressan er með fjórum skrúfunöglum og sex lokunöglum. Deckel og remichen af járni með 4 lömum, en undir tvær gænger af járni og rundsel með járnsveif. Pressan er að öllu leyti vel brúkanleg.
Járnrammi með nýjum skrúfunöglum, vel brúkanlegur. Eitt farfaborð. Pressuklæði 5; tvö bulluskinn. Matrice-stokkurinn úr eik með 8 skúffum, letrin geymd þar í pungum. Álag gert 126 rdl. eða 31 hdr. 60 ál.“
Úttekt frá árinu 1791
Skömmu eftir að Sigurður Stefánsson var sestur að biskupsstóli, lét hann yfirlíta og rannsaka prentverksins ástand. Það var gert 26.–29. sept. 1791 af „fyrrum bókþrykkjara” Pétri Jónssyni, setjara Markúsi Þorlákssyni og mr. Birni Gottskálkssyni, „allir „jafnvanir við bókþrykkirí“. Prentstofan var 14 1/2 x 5 1/8 al. og 3 álnir undir bita, fjalagólf í allri stofunni, 4 gluggakistur á annarri hlið, hvar allir gluggarnir eru hreint útbrotnir, að undanteknum parti af einum. Gólfið er mjög slitið og þilin léleg. Innar af stofunni var lítið herbergi, heldur lélegt. Eldiviðarhús: Stoðir eru fúnar, en aðrir viðir nýtilegir. Eldhús, Göng léleg. „Allir veggir og þök nefndra húsa eru óstæðilegir og ónýtir. Pressan uppistandarar og króna eru af sterkum, gömlum og gallalausum eikartrjám, samt pressuhöfuðið af nýrri eik.“ Hún er yfir höfuð talin brúkanleg. Skriftirnar (þ. e. letrið) voru: a) grove mittel fractur nr. 1, lítið brúkaður og „meinast kunna duga til setningar 2 örkum í senn; b) grove Cicero fractur nr. 1, hálfslitinn, til 2 arka; c) langt corpus fractur nr. 1, að mestu nýtt, álízt til 2 arka; d) secunda fractur, er ný, en tekur ei stórt yfir 1/16 [ark]; e) dobbel cicero latínsk til 1/10 ark, og defect; f) cicero latinsk, lítið brúkuð, 1/3; g) Cicero Svabak, nýr til 1/4 ark; h) corpus Svabak, nýr, til 1/2 ark. – Nokkuð lítið til aritmethica, heilt og brotið tal.“ Þar að auki ýmis áhöld og verkfæri.
Gísli Magnússon
Árið 1765 var brugðið á það ráð að fá Gísla biskupi Magnússyni prentsmiðjuna til umsjár. Var talið að tekjur af henni myndu nema 200 ríkisdölum á ári og voru þeir reiknaðir biskupi til launa. Vafasamt er þó að miklar fúlgur hafi runnið í vasa hans úr sjóðum prentsmiðjunnar; um þessar mundir var árferði afleitt, fjárkláði, eldgos og önnur óáran herjaði á landsmenn. Efnahagur var því ekki slíkur að hann leyfði bókakaup í neinum mæli. Einnig var þess ekki langt að bíða að í fyrsta sinn kæmi til sögunnar keppinautur, Hrappseyjarprentsmiðja þeirra Ólafs Ólavíusar og Boga Benediktssonar.
En Gísli biskup var dugandi maður. Í ævisögu hans, Sigurkransi, sem prentuð var á Hólum 1779, árið sem hann lést, kemur fram að hann hafi látið byggja nýtt prentsmiðjuhús og;
„innkeypti hvað eftir annað nýjan stíl fyrir nokkur hundruð ríkisdala, svo að það er nú [1779] í besta standi sem það hefur í langan tíma verið.“
Hann lét samtals prenta um sextíu bækur á þeim fjórtán árum sem hann stjórnaði prentsmiðjunni; má þar nefna fjórar endurprentanir af fyrrnefndu Hallgrímskveri og Nokkur ljóðmæli (Þorlákskver) Þorláks Þórarinssonar.
Líður að lokum
Við fráfall Gísla biskups má heita að ferli Hólaprentsmiðju sé í raun lokið, þótt enn skrimti hún með harmkvælum í nokkur ár. Þarna hjálpuðust að afleitar ytri aðstæður í landinu; fátækt og hörmungar almennings vegna móðuharðinda og annarrar ódöngunar héldust í hendur við dugleysi og heilsubrest biskupa þeirra sem sátu stólinn. Nokkur áranna var ekkert prentað og lítt merkilegt það sem prentað var á annað borð.
Árið 1789 var prentsmiðjan sett í forsjá amtmanns og samhliða komu upp ráðagerðir um að bæta hag hennar. Þær fyrirætlanir strönduðu hins vegar á því að ekki tókst að afla þess fjár sem slíkar framkvæmdir kröfðust. Í bréfi Björns prentara Gottskálkssonar 1790 er prentsmiðjunni lýst svo:
„Hér standa prenthúsin gluggalaus, veggirnir signir niður frá þakinu, stílkössum samanhlaðið og slegið fyrir allt í öðrum endanum, pressan skemmd og fordjörfuð, rammarnir ryðgaðir og svívirtir.“
Ári síðar hafði sýnilega ekkert verið gert til að bæta ástandið, því í álitsgerð um prentsmiðjuna segir:
„Gluggarnir eru hreint útbrotnir, að undanteknum parti úr einum.“
Enn hallaði undan fæti. Árið 1794 var svo komið að veita varð prentsmiðjunni í Hrappsey leyfi til að prenta guðsorðabækur í viðlögum og þremur árum síðar var Hólaprentsmiðja endanlega svipt einkaleyfi sínu til slíkrar útgáfu. Guðsorðabækur voru í raun það eina bókakyns sem almenningur keypti og með missi einkaleyfisins brustu raunverulega síðustu stoðirnar undir tilveru prentsmiðjunnar.
Síðasti biskupinn á Hólum, Sigurður Stefánsson, reyndi að vísu að spyrna við fótum með því að prenta nokkrar bækur, en það var um seinan. Lestina rak Verðung (Dánarminning) Sigurðar biskups sjálfs; hún var síðasta bók prentuð á Hólum, árið 1799. Verðung Sigurðar var alkunn fyrir hvað ártöl í henni voru röng; „með þessari háðung endaði hinn loflegi ferill Hólaprentsmiðju eftir liðugra 200 ára starf,“ segir Klemens Jónsson. Þann 14. júní sama ár gaf konungur til þess leyfi að prentsmiðjan á Hólum yrði lögð niður. Hús hennar og áhöld skyldu afhent Landsuppfræðingarfélaginu með vissum skilmálum, sem raunar var aldrei fullnægt. Eignirnar voru metnar á 55 ríkisdali og 57 skildinga.
Hrappsey 1773–1795
Á árunum í kringum 1770 var Ólafur Ólavíus, ungur íslenskur menntamaður, í Kaupmannahöfn. Hann hafði stundað nám við háskóla borgarinnar án þess þó að ljúka neinu prófi, þar eð áhugi hans var nokkuð á víð og dreif þótt hann beindist aðallega að náttúrufræði og hagnýtum búvísindum. Ólafur hafði um þetta leyti ritað bækur um garðyrkju, verslun og fiskveiðar, auk þess sem hann hafði gefið út Rímur af Þorsteini uxafæti eftir Árna Böðvarsson (1771) og Málu (1772). Það var í fyrsta skipti sem síðarnefnda bókin birtist á íslensku.
Hinn 5. janúar 1772 sótti Ólafur um leyfi til stjórnarinnar, til þess að stofna prentsmiðju í Skálholtsbiskupsdæmi. Hugmynd hans var að prenta ýmsar bækur veraldlegs efnis, fornar og nýjar á íslensku og öðrum tungumálum; kennslubækur og fleira. Í byrjun júní þetta ár var honum veitt leyfið og náði það til alls konar rita, gamalla og nýrra, sem nánar var kveðið á um í leyfisbréfinu. Þó var Ólafi bannað að prenta guðfræðirit, kennslubækur og orðabækur, því slíkar bækur voru ætlaðar Hólaprentsmiðju til prentunar. Var honum gert að greiða 100 ríkisdali árlega til Skálholtsdómkirkju þegar prentsmiðjan hefði starfað í nokkur ár.
Leitað ásjár Boga í Hrappsey
Þegar á reyndi brást Ólafi Ólavíusi fé til prentsmiðjukaupa. Hann leitaði þá til auðmannsins Boga Benediktssonar í Hrappsey um lán og var veitt það. Næsta sumar kom Ólafur til landsins með prentsmiðju á Stykkishólmsskipi og hafði með sér tvo prentara, „bókþrykkjara og stílsetjara“. Menn telja nú að Ólafur hafi ætlað að setja prentverk sítt niður á Vestfjörðum, en gengið losaralega frá þeim málum, þannig að þegar til Stykkishólms kom var smiðjan vegalaus. Var nú enn leitað til Boga í Hrappsey. Hann flutti prentsmiðjuna heim til sín í Hrappsey og reisti yfir hana vandað hús. Því næst var hafin prentun.
Í október 1773 kom fyrsta ritið út; fyrsta tölublaðið af nýju tímariti, Islandske Maaneds Tidender. Þar er elsta tímarit á Íslandi og í raun upphaf íslenskrar blaðamennsku. Ástæða þess að blaðið var ritað á dönsku var sú, að Ólafur Ólavíus hafði safnað allmörgum áskrifendum að bókum prentsmiðjunnar í Danmörku og þýddi lítið að senda þeim íslenskar bækur, sem þeir gátu vafalaust ekki lesið. Hins vegar er danskan sem ritið er skrifað á mjög léleg. Letrið í þremur fyrstu heftunum er latneskt (rómverskt), sem var mjög óvenjulegt hér á landi á þessum tíma, nema þá helst á sumum latínutextum. Í þau hefti sem á eftir komu var notað gotneskt letur.
Annaðhvort er, að eitthvað hafi fyrirætlanir Ólafs Ólavíusar verið á reiki á þessum tíma, eða að þeir Bogi hafa ekki átt skap saman. Áður en ár var liðið frá uppsetningu prentsmiðjunnar lét Ólafur af stjórn prentsmiðjunnar og 10. júlí 1774 seldi hann Boga hlut sinn í henni og hvarf af landi brott til Kaupmannahafnar. Hann kom ekki framar nálægt prentsmiðjunni, en þeim Hrappseyjarmönnum lágu eftir þetta þung orð til hans ef þeir minntust hans að einhverju.
„…af lærdóms sökum…“
Bogi var nú einn eigandi prentsmiðjunnar. Hann var ekki skólagenginn og raunar lítt hneigður til bóka. Því átti hann erfitt með að stjórna slíkri starfsemi svo sem verðugt var. Segir í ævisöguágripi Boga í Feðgaævum, að hann vildi ekki skipta sér af;
„lærdóms sökum við prentverkið…, þar sem hann vissi hvílíkri hótfyndni og hleypidómum það var undirorpið, einkum af þeim sem þar höfðu á einna minnst vit.“
Bogi fékk þá til liðs við sig Magnús Ketilsson, sýslumann á Skarðsströnd. Magnús var ágætlega menntaður maður og atfylgjumaður um flest mál sem ofarlega voru á baugi með samtíð hans. En hann var búsettur allfjarri prentsmiðjunni og hafði að auki umsvifamiklum embættisstörfum og stórbúskap að sinna. Því urðu ekki þau not af samvinnu þeirra Boga sem vonir stóðu til.
Prentsmiðjan virðist þrátt fyrir þetta hafa gengið bærilega fyrstu árin. Hinsvegar varð aldrei af henni neinn ágóði og aldrei greiddi hún áskilið tillag sitt til Skálholtsdómkirkju. Var það raunar gefið eftir að lokum. Síðustu tíu árin var lítið annað prentað í Hrappsey en Lögþingsbækurnar. Þótt reynt væri að fá prentleyfið rýmkað svo það næði einnig til guðsorðabóka kom það fyrir ekki. Það hafðist ekki fram fyrr en eftir að Bogi hafði látið prentsmiðjuna frá sér og hún var farin að freista fyrirmanna landsins.
Peningsfellir og harðindi
Erfiðleikar Hrappseyjarprentsmiðju stöfuðu aðallega af tregðu manna til bókakaupa, erfiðleikum við dreifingu þeirra og harðindum. Um þverbak keyrði svo í hallærinu eftir Skaftárelda;
„þegar peningsfellir og harðindi gerðu fólk öreiga og svo kjarklaust, að [það] hvorki gat né vildi bækur kaupa, var þessi drift [þ. e. prentverksins] ekki teljandi, enda var þá lítt mögulegt hér vestra að gera út bókalestir vegna hestafæðar… Lærðan mann til að skrifa bækur og standa fyrir þeirra útgáfu og réttritun var ekki auðvelt að fá, ekki heldur góð og áreiðanleg handrit af fornsögum til að prenta.“
– segir sonarsonur og alnafni Boga bónda í Feðgaævum.
Þegar halla tók undan fæti í rekstri prentsmiðjunnar reyndi Bogi hvað hann gat að losa sig við hana með einhverjum ráðum. Bauð hann hana til kaups, en enginn vildi sinna slíkum tilboðum. Loks kom þó þar árið 1793 eða 94 að Bogi seldi eða afhenti prentsmiðjuna tengdasyni sínum, Birni Gottskálkssyni. Um þær mundir var nýstofnað hér á landi Landsuppfræðingarfélagið og stóðu margir af helstu mönnum landsins að því. Nokkrir félagsmanna höfðu samtök um að kaupa letur og tækjakost Hrappseyjarprentsmiðju og fluttu hana suður að Leirárgörðum. Þremur árum síðar seldu þeir hana félaginu.
Merkustu gripir prentsmiðjunnar
Hrappseyjarprentsmiðja var starfrækt í tuttugu ár og má raunar segja að þau hafi ekki nýst nema til hálfs. Þó skildi hún eftir sig spor í sögunni, því með henni var í fyrsta sinn farið út af götu hinnar eilífu guðsorðarollu, sem runnið hafði linnulítið frá prentsmiðjum biskupsstólanna tveggja í tvær aldir. Nú fengu menn í hendur fjölbreyttari bókakost, þar sem fjallað var um hagnýt dægurmál, svo sem búfræði og lögfræði, auk margs konar fróðleiks og skemmtunar. Það var skiljanlegt að fólk áttaði sig ekki á þessu fyrr en eftir að fyrirtækið hafði verið starfrækt um nokkurt skeið og þá dundu Móðuharðindin yfir.
Merkustu gripir prentsmiðjunnar í Hrappsey eru: Islandske Maaneds-Tidender; af þeim komu út þrír árgangar, 1773–76 og var sá síðasti raunar prentaður í Kaupmannahöfn. Ritstjóri og aðalhöfundur ritsins var allan tímann Magnús Ketilsson. Annálar Björns á Skarðsá (1774–75); bókin var gefin út í tveimur mismunandi gerðum; í annarri þeirra var íslenskur texti með latneskri þýðingu andspænis í opnu. Hin gerðin var á íslensku eingöngu og í einu bindi. Annálarnir eru meðal þess merkasta sem prentað var í Hrappsey. Lagasafn (Forordninger) I-II, 1776-78. Útgefandi var Magnús Ketilsson. Verkið var þriggja binda og var síðasta bindið prentað í Kaupmannahöfn 1787. Heimskringla (Landafræði), 1779; Norsk lög sama ár, Atli (eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn, helzt um jarðar- og kvikfjárrækt, atferð og ágóða, með andsvari gamals bónda, samanskrifað fyri fátækis frumbýlinga, einkanlega þá, sem reisa bú á eyðijörðum) 1780. Atli er einkennilegt rit í samtalsformi, skrifað af séra Birni Halldórssyni í Sauðlauksdal. Tímatalsregisturs ágrip (mannkynssaga) eftir Halldór Jakobsson sýslumann 1781, Sagan af Egli Skallagrímssyni 1782 og Ármanns saga sama ár.
Til nýjunga má einnig telja það að 1774 var gefið út Tullinskvæði, safn þýðinga Jóns Þorlákssonar á ljóðum eftir C. B. Tullin. Rímur af Úlfari sterka voru gefnar út 1775; þær voru fyrstu rímur um veraldlegt efni sem prentaðar voru hérlendis og urðu mjög vinsælar. Loks má nefna Búnaðarbálk Eggerts Ólafssonar, sem hann segir vera „Nokkrar hugleiðingar framsettar í ljóðum“. Bókin er sett úr gotnesku letri, eins og háttur var, en neðanmálsskýringar eru með latínuletri, sem ekki var notað í öðrum íslenskum bókum frá Hrappsey. Enda er ekki til þ í letrinu heldur notað th í staðinn.
„…sem þeim eru ofvaxnir og þeir kunna ekkert til“
Sérstaks eðlis meðal prentgripa frá Hrappsey er lítið kver sem prentað var árið 1786. Það heitir Tanke om det Rappsöiske Bogtrykkerie og þykir líklegt að höfundurinn sé fyrrgreindur Magnús sýslumaður Ketilsson. Í kverinu eru raktir örðugleikar prentsmiðjunnar og er allur texti á dönsku nema hvað síðast í bókinni stendur á íslensku:
„Þetta skrif eins velþenkjandi manns er þrykt öllum til viðvörunar, að ei láti sig yfirtala að grípa inn í þá hluti sem þeim eru ofvaxnir og þeir kunna ekkert til.“
Prentarar í Hrappsey
Guðmundur Ólafsson (1755–1826). Hóf prentnám í Hrappsey 1773 og vann þar sem prentari 1777–80. Prentaði það sem Móberg setti. Eftir 1780 átti hann ekki við prentverk, en var eftir sem áður kallaður prentari til dauðadags.
Guðmundur J[ónsson] Skagfjörð (1758–1844). Sjá sérstaka umfjöllun í næsta kafla.
Jón Jónsson (1779–18141 Hóf prentnám sennilega í Hrappsey, en er svo síðast yfirprentari á Hólum 1797–98 og hefur þá fátt verið um menn, þegar 19 ára piltur er gerður að yfirprentara. Eftir lát Sigurðar Stefánssonar biskups fluttist hann suður á Snæfellsnes og kemur ekki við prentverk eftir það.
Magnús Móberg (1748–1806). Fæddur í Svíþjóð en hóf prentnám að einhverju marki í Berlín og síðan í Kaupmannahöfn, þar sem hann starfaði lengi. Til Íslands kom hann 1773 að tilhlutan Eiríks Hoffs. Var setjari í Hrappsey 1773–80. Eftir það vann hann oftast einn í Hrappseyjarprentsmiðju til 1794, en eftir það í Leirárgörðum til 1804. Þá hætti hann prentverki vegna heilsuleysis og sjóndepurðar. Fluttist þá að Staðarfelli til Boga Benediktssonar og dó þar.
Björn Gottskálksson (1765–1852). Sjá nánar í sérstökum ramma.
Björn Gottskálksson
Björn Gottskálksson hóf prentnám hjá Pétri Jónssyni að Hólum 1781 og var þar í eitt ár, en þá var prentverkið lagt niður um tíma. Næsta haust, 1783, fór hann enn að vinna við prentstörf og var í Hrappsey næsta ár. Þá varð hann að hætta vegna harðinda og kulda við prentverkið. Vann síðan hjá Boga í Hrappsey við prentstörf og sem bústjóri til 1788, að hann fór til Kaupmannahafnar með Sigurði Stefánssyni prófasti að Helgafelli, en Sigurður var að sækja þangað biskupsvígslu. Í ferðinni kynnti Björn sér lítillega bókband, en við það hafði hann einnig fengist í Hrappsey. Eftir vígsluna varð Sigurður biskup á Hólum. Fór Björn með honum norður og gerðist reikningshaldari og staðarráðsmaður til 1792, að hann hélt aftur til Hrappseyjar. Var ráðsmaður að Innra-Hólmi 1794–1803. Árið 1795 keypti hann með öðrum prentverkið í Hrappsey fyrir 400 ríkisdali. Kaupendurnir voru, auk Björns sem keypti fjórðung í fyrirtækinu, þeir Ólafur Stephensen stiftamtmaður, Hannes Finnsson biskup, Stefán Thorarensen amtmaður, Magnús Stephensen lögmaður, Stephan Stephensen lögmaður og Markús Magnússon prófastur; þeir keyptu allir áttunda hluta. Prentsmiðjuna settu þeir félagar niður að Leirárgörðum. Árið 1798 eignaðist Björn allt prentverkið, en seldi það 1. september sama ár Landsuppfræðingarfélaginu og hætti þar með afskiptum af prentverki. Eftir þetta stundaði hann búskap að Hvanneyri og Hrappsey með þeim árangri að hann var, árið 1824, sæmdur stærsta verðlaunabikar danska landbúnaðarfélagsins úr silfri fyrir framúrskarandi dugnað við jarðrækt. Hann varð dannebrogsmaður 1. ágúst 1829.
Leirárgarðar og Beitistaðir 1795-1819
Hinn 19. júní 1794 stofnuðu nokkrir af fyrirmönnum þjóðarinnar félag, sem oftast er nefnt Landsuppfræðingarfélagið. Stofnunin fór fram á Öxarárþingi, mest fyrir atbeina Magnúsar lögmanns Stephensens. Hann var ákafur fylgjandi upplýsingarstefnunnar og lá margt á hjarta. Um þessar mundir lá starfsemi beggja prentsmiðja landsins niðri að mestu og Magnús sá að við svo búið mátti ekki standa.
Upphaflega hugmyndin var sú, að félagið nyti stuðnings af Hrappseyjarprentsmiðju við bókaútgáfu sína, enda var hinn nýi eigandi hennar, Björn Gottskálksson, einn stofnenda þess. Magnús Stephensen var hins vegar framkvæmdastjóri félagsins og í reynd einráður um starfsemi þess er tímar liðu. Hann bjó um þessar mundir á Leirá í Borgarfirði og var miklum erfiðleikum bundið fyrir hann að hafa prentsmiðjuna svo fjarri heimili sínu sem vestur í Hrappsey.
Því var það ráð tekið árið 1795 að flytja prentsmiðjuna suður að Leirárgörðum, sem er næsti bær við Leirá. Því hefur verið haldið fram að ástæða þess að smiðjunni var ekki komið fyrir á Leirá hafi verið kvensemi Guðmundar Skagfjörðs [Schagfjörð] prentara; Magnús hafi verið uggandi vegna hennar og ekki viljað hafa hann á bæ sínum. Prentsmiðjan fékk nú aukin réttindi til bókaútgáfu; mátti prenta bækur um hvaða efni sem var, jafnframt því sem Hólaprentsmiðja var svipt einkaleyfi sínu. Landsuppfræðingarfélagið hóf nú mikla bókaútgáfu í anda upplýsingarstefnunnar og var mörgum tekið vel af almenningi, sem í fyrsta sinn átti nú kost á fræðsluefni um aðskiljanleg málefni hins daglega lífs.
Forsvarsmenn Hólaprentsmiðju reyndu að klóra í bakkann með aukinni bókaútgáfu til að hressa upp á slakt gengi prentsmiðjunnar, en urðu að láta í minni pokann. Svo virðist sem þeim hafi ekki skilist að sá einhæfi bókakostur sem þeir buðu upp á höfðaði ekki til samtíðarinnar. Því fór svo að 1799 var prentsmiðjan á Hólum seld Landsuppfræðingarfélaginu og flutt að Leirárgörðum, þar sem hún var sameinuð því prentverki sem fyrir var.
Einráður skynsemistrúarmaður
Fyrstu árin í starfi Landsuppfræðingarfélagsins og eftir að prentsmiðjan kom að Leirárgörðum studdist Magnús að ýmsu leyti við annarra manna ráð um stjórnun prentsmiðjunnar. Á þessum tíma var mikill völlur á félaginu og talið að um skeið hafi félagsmenn verið 1200. En brátt fór hann að gerast einráður. Því hefur síðar verið haldið fram, að um aldamótin hafi
„öll innlend prentsmiðjustjórn [verið] komin í hendur eins leikmanns, um 25 árum eftir að hrundið var prentsmiðjueinveldi biskups, er áður hafði varað í tæplega hálfa þriðju öld.“
Magnús réð lengst af einn öllu um bókaútgáfu á vegum félagsins, sem aldrei hélt neina fundi og gerði litla grein fyrir fjárreiðum sínum. Eiginlega má segja að upp úr aldamótunum 1800 hafi félagið sem slíkt verið úr sögunni. Þótt nokkrir vinir og vandamenn Magnúsar teldust enn vera félagar, létu þeir hann einan um öll ráð og framkvæmdir.
Um vinsældir bóka þeirra sem prentaðar voru að Leirárgörðum valt á ýmsu. Sumum var vel tekið af almenningi, svo sem Sumargjöf, Kvöldvökum og Minnisverðum tíðindum, en öðrum verr. Einkum voru það bækur Magnúsar sjálfs sem seldust illa. Hann var framfaramaður í anda upplýsingarstefnunnar og raunar langt á undan samtíð sinni hér á landi í flestum efnum. Hann var eindreginn skynsemistrúarmaður og hafnaði með öllu útskúfunarkenningu kirkjunnar. Takmark hans var að vekja athygli lesenda sinna á sjónarmiðum þeim og framförum sem ofarlega voru á baugi í norðanverðri Evrópu. Hann réðst harkalega gegn afturhaldi, hjátrú og vanþekkingu, en brýndi menn til framfara og menningarviðleitni eftir bestu fyrirmyndum erlendra þjóða. En hann skorti lag og þolinmæði, fór stundum fram með óþarflegri hörku og óbilgirni, sem hlaut að vekja andstöðu. Magnús var enda ákaflega skapríkur og þoldi illa mótlæti. Þar á ofan átti hann alltaf erfitt með að rita íslensku.
Harðastar deilur urðu um Sálmabókarútgáfu Magnúsar. Kirkjunnar mönnum þótti hún í full miklum skynsemistrúaranda, enda má segja að fjandanum hafi verið úthýst af blöðum hennar og þótti ýmsum það mikill missir. Af þessu risu illvígar deilur í lausu máli og bundnu og oft á tíðum höggvið stórt.
Guðmundur Skagfjörð var yfirprentari á Leirárgörðum og síðar á Beitistöðum. Árið 1799 fékk hann konunglegt leyfi til að reka prentsmiðjuna með þeim mannafla sem hann taldi nauðsynlegan, en þótt hann væri þannig á pappírunum æðsti yfirmaður hennar, var það Magnús Stephensen sem réð því sem máli skipti í rekstrinum. Aldamótaárið 1800 voru Landsuppfræðingarfélaginu veitt þau hlunnindi að mega flytja inn pappír og annað sem prentverkið þurfti ókeypis með póstduggu eða fálkaskipi.
Erfiðleikar
Þrátt fyrir þetta fór að dofna yfir útgáfunni á árunum upp úr aldamótunum. Hluti skýringarinnar kann að vera sú að árið 1803 flutti Magnús búferlum að Innra-Hólmi og síðan til Viðeyjar þremur árum síðar. Þar með varð öll umsjá hans með prentverkinu torveldari og óhægt um vik að fást við bókaútgáfu undir þeim kringumstæðum.
Um svipað leyti hófust langvinnar styrjaldir í álfunni, sem færðu Magnúsi ærin störf önnur en bókaútgáfu. Siglingar tepptust að miklu leyti, pappír skorti og peningar urðu verðlausir. Allt þetta sagði skiljanlega til sín í minnkandi bókaútgáfu. Þó var eitthvað prentað öll árin.
Við þær raunir sem upptök sín áttu erlendis bættist svo að í miklum vatnavöxtum tvö ár í röð 1805 og 6 flæddi Leirá uppá bakka sína og inn í prentsmiðjuhúsið. Skemmdist það mjög verulega, auk þess sem pappír eyðilagðist og upplög bóka sem þar voru geymdar.
Með tímanum bættist það við erfiðleika við prentsmiðjureksturinn að Guðmundur prentari, sem bjó á Beitistöðum, neitaði að vinna að prentverkinu nema smiðjan yrði flutt heim til hans. Hann var eini faglærði prentarinn á öllu landinu á árunum 1806–19. Þetta með öðru varð til þess að árin 1811 og 1812 var aðeins prentað eitt kver hvort ár. Þar með var í raun lokið prentun að Leirárgörðum, því 1813–15 var ekkert prentað hér á landi svo vitað sé. Varð loks ofan á árið 1815 að smiðjan var flutt að Beitistöðum.
Fjölbreytt útgáfa
Eftir því sem næst verður komist voru 100 bækur og bæklingar prentaðir í Leirárgörðum. Sú fyrsta var Sumargjöf handa börnum (1795), þýdd úr þýsku af séra Guðmundi Jónssyni á Ólafsvöllum. Meðal annarra merkra bóka frá prentsmiðjunni má nefna Kvöldvökur I og II (1796–97), eftir Hannes biskup Finnsson. Þær voru vinsælasta og áhrifaríkasta rit upplýsingarstefnunnar á Íslandi og var skipt með dagsetningum í hæfilega vökulestra.
Minnisverð tíðindi I-III (1796-1808) var fréttatímarit um innlend og erlend málefni, fyrsta tímarit á íslenska tungu. Má segja að það hafi verið upphaf samfelldrar prentunar slíkra frétta, sem síðan hefur ekki fallið niður. Fréttir ritsins ná til áranna 1795–1804. Ein af nýstárlegri bókum frá Leirárgörðum var Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur (1800), sem gefið var út undir nafni Mörtu Maríu Stephensen, mágkonu Magnúsar. Raunverulegur höfundur kversins var hins vegar Magnús sjálfur, sem fékk hana til að gangast við verkinu þar sem það hæfði betur búsýslu hennar en lögmannsins. Sama gildir um formála bókarinnar; hann reit Magnús en undir nafni Stefáns bróður síns, eiginmanns Mörtu Maríu.
Messusöngs- og Sálmabók (1801) er sú bókin frá Magnúsi sem olli mestri ólgu. Hún var prentuð í þremur lítið eitt mismunandi gerðum útgáfuárið, samtals um 4.300 eintök. Andstæðingar hennar nefndu bókina Leirgerði, en hlutlausara nafn á henni er Aldamótabókin. Henni var ætlað að leysa af hólmi eldri messusöngsbækur (grallara) og sálmabækur sem enn bjuggu að gerð Guðbrands biskups. Er í bókinni mjög brugðið frá eldri bókum um val sálma og aðallega höfð að fyrirmynd dönsk sálmabók. Af 330 sálmum eru aðeins 100 gamlir; hinir eru ýmist frumortir eða þýddir úr dönsku.
Aðalásteytingarefnið var að Magnús fór yfir sálmana og breytti þeim eftir eigin höfði, þar á meðal sálmum séra Jóns Þorlákssonar og er deila þeirra fræg síðan. Eftirmæli 18. aldar eftir Magnús sjálfan voru prentuð tvívegis 1806; hið fyrra sinnið með blaðsíðutölum sem væri hún framhald af Öðru bindi Minnisverðra tíðinda, en í síðara skiptið í smærra broti og sérstöku blaðsíðutali þótt sama sátur væri notað. Loks má nefna Tilraun um manninn ( 1798) eftir Alexander Pope í þýðingu Jóns Þorlákssonar skálds, Kennslubók í sagnfræði (1804) eftir Galletti í þýðingu Jóns Espólíns og Heimskringla Snorra Sturlusonar (í tveimur heftum 1804).
Fjögur ár á Beitistöðum
Eins og fyrr segir var ekkert prentað í Leirárgörðum síðustu ár prentsmiðjunnar þar. Árið 1815 var hún flutt að Beitistöðum í sömu sveit, þar sem Guðmundur Skagfjörð bjó. Var reist sérstakt hús yfir prentsmiðjuna og kostaði það 272 ríkisdali og 48 skildinga silfurverðs. Hófst prentun árið 1816. Fimmtán bækur voru prentaðar í nýja húsinu, áður en hún var enn flutt. Magnús Stephensen var eins og áður segir fluttur í Viðey við Reykjavík á þessum tíma og undi því illa að hafa prentsmiðjuna svo fjarri sér. Hún var því flutt til Viðeyjar 1819, en prenthúsið á Beitistöðum var selt Magnúsi Stephensen á uppboði fyrir 100 ríkisdali og flutt til Viðeyjar.
Af bókum frá Beitistöðum má helstar nefna Garðyrkjufræðikver (1816) eftir Bjarna Arngrímsson og fyrsta hálfa annan árganginn af Klausturpóstinum, sem byrjaði að koma út 1818. Alls komu út níu árgangar af Klausturpóstinum, sá síðasti 1826. Það var Magnús Stephensen sem samdi ritið að mestu leyti einn og ekki ólíklegt að hin mánaðarlega útkoma þess hafi mjög ýtt undir flutning prentsmiðjunnar til Viðeyjar. Klausturpósturinn var merkisrit sem flutti greinar um margvísleg efni og er mun fjölbreyttara en Minnisverð tíðindi; innlent efni skipar öndvegi en ekki erlendar fréttir eins og í því riti.
Prentsmiðjureksturinn
„Greina má þann tíma, sem prentsmiðjan var undir stjórn Magnúsar Stephensen, í tvö nokkurn veginn jafnlöng tímabil og ber hvort þeirra sín einkenni. Fyrra tímabilið nær frá 1795 til 1812, er prentun fellur niður í Leirárgörðum, en hið síðara frá 1816, er prentun hefst á Beitistöðum, til dauða Magnúsar.
Mun meiri gróska og fjölbreytni er í bókaútgáfu fyrra tímabilsins, einkum áranna 1796–1800, en ekkert þeirra voru prentuð færri en 10 kver. Mest var prentað 1798 og 1800, hér um bil jafnmikið að arkatölu bæði árin. Langmest ber þó á þýddum ritum í anda upplýsingarstefnunnar, en einkum hinnar nýju guðfræði. Það jók á fjölbreytni bókanna fyrstu árin hve margir lögðu þar hönd að, en eftir að sundur dró með aðstandendum útgáfunnar má segja, að Minnisverð tíðindi standi upp úr bókakostinum.
Síðara tímabilið er að flestu leyti ómerkara hinu fyrra. Verkefnaval prentsmiðjunnar er þá miklu fátæklegra og að jafnaði ráðist í minna hverju sinni. Talsvert er um endurprentun guðsorðabóka frá fyrra tímabilinu. Af ritum Magnúsar Stephensens sjálfs setja nú lagarit meira svip á bókakostinn en áður, en ekki síst fjöldi æviminninga og grafskrifta, er eykst að mun. /…/
Leturgerðir prentsmiðjunnar voru að stofni hinar sömu og verið höfðu í Hrappsey og á Hólum. Öðru hverju var þó fengin nokkur viðbót, en langmest árið 1824, um leið og keypt var ný pressa til prentsmiðjunnar og var það letur fyrst notað á Nýja testamentinu 1825-27.
Á nær öllum bókum, sem útkomu á því tímabili prentsmiðjusögunnar, sem hér ræðir um, var notað gotneskt letur, eins og áður hafði tíðkast. Latínuletur var þó til, enda hafði svo verið í Hrappsey og á Hólum. Einkum er það notað í grafskriftum og erfiljóðum og skólaboðsritum Bessastaðaskóla, en boðsritið 1832, Ólafs drápa Tryggvasonar, er eina kverið, sem prentað var með latínuletri eingöngu. Stöku sinnum bregður því einnig fyrir innan um gotneskt letur til auðkennis. Árið 1828 var prentað í Viðey sýnishorn þeirra leturgerða er prentsmiðjan átti þá.“
(Magnús Stephensen og bókmenntastarfsemi hans; meistaraprófsritgerð Ólafs Pálmasonar, 1963.)
Starfsmenn prentverksins á Leirárgörðum og Beitistöðum
Guðmundur J[ónsson] Skagfjörð. Sjá sérstaka rammagrein.
Jóhannes L[árus] Lynge (1780-1834). Hóf prentnám í Leirárgörðum 1. október 1798 og vann þar til ágústloka 1803. Þá hætti hann að vinna við prentverk og gerðist bóndi að Hurðarbaki í Svínadal til ársins 1823 er hann fluttist á Skipaskaga. Árin 1824 og 25 vann hann við prentverk í Viðey, en eftir það bjó hann á Akranesi og átti ekki meira við prentverk.
Magnús Móberg – Sjá ramma um Hrappseyjarprentara.
Matthías Sigurðsson [Sívertsen] (1800–1864). Hóf prentnám á Beitistöðum hjá Guðmundi Skagfjörð 1817. Fluttist með prentverkinu til Viðeyjar og lauk þar námi um Jónsmessu 1820. Þá hætti hann prentverki og sneri sér að búskap norður í Hrútafirði.
Guðmundur Skagfjörð
Guðmundur Jónsson Skagfjörð gerðist yfirprentari í prentsmiðjunní í Leirárgörðum, þegar hún var flutt þangað 1795. Vinnusamningur við Guðmund er dagsettur 19. maí 1795 og skyldi hann samkvæmt honum hafa 80 ríkisdala árslaun. Árið 1798 tók Landsuppfræðingarfélagið við prentverkinu og urðu þá kjör Guðmundar þau að hann fékk sömu peningaupphæð á ári, en auk þess ókeypis húsnæði, ljós, hita og jarðnæði með bókbindurunum í Vestri-Leirárgörðum. Frá 1. júní 1802 fékk hann síðan 20 ríkisdala uppbót.
Árið 1804 var svo komið að Guðmundur taldi sig ekki geta framfleytt sér af prentverkinu einu. Hann hóf því búskap í Belgsholti það ár og flutti síðar að Beitistöðum. Eftir að Magnús Móberg hvarf frá starfi var Guðmundur eini iðnlærði prentarinn á landinu í nokkur ár, eða til 1820.
Árið 1806 breytti Leirá farvegi sínum með þeim afleiðingum að prenthúsið hrundi. Guðmundur gaf þá kost á því að halda áfram prentverki gegn því að prentsmiðjan yrði flutt heim til hans að Beitistöðum, því hann neitaði að hætta búskap. Það var þó ekki fyrr en 1814 að prentsmiðjan var flutt að Beitistöðum. Þaðan var hún svo flutt 1819 til Viðeyjar, þar sem Guðmundur var yfirprentari til 1831, auk þess sem hann gegndi öðrum störfum sem síðar verður getið.
Viðey 1819–1844
Ekki varð nein breyting á rekstri prentsmiðjunnar við flutninginn í Viðey. Magnús hafði enn alla stjórn á hendi, en hann var nú farinn að nálgast sextugt og tekinn að þreytast. Auk þess var honum margt andstætt, meðal annars hófust málaferli um rekstur prentsmiðjunnar og stjórn Landsuppfræðingarfélagsins.
Stiftsyfirvöldum var falið að leita tillagna félagsstjórnar um endurbætur á hvoru tveggja, útgáfustarfinu og innra starfi félagsins. Skyldi leitað leiða til að starfsemi prentsmiðjunnar svaraði til þarfa almennings fyrir gagnlegan bókakost, miðað við menningarstig þjóðarinnar, smekk hennar og viðhorf í trúarlegum efnum, eins og það er orðað í bréfi yfirvalda.
Málastappi þessu lauk þannig, að félaginu var formlega slitið 19. júlí 1827 og jafnframt skorað á stiftsyfirvöld að taka við rekstri prentsmiðjunnar og flytja hana á brott úr Viðey. Þau voru hinsvegar öldungis óviðbúin slíkum vanda og neituðu að taka við prentsmiðjunni. Lýsti þá Magnús Stephensen því yfir í ágústmánuði sama ár, að ekki væri annað til ráða en að hann tæki við stjórn prentsmiðjunnar fyrst um sinn. Var það látið gott heita.
Vafstur og vangaveltur
Nú komu ýmsar ráðagerðir upp. Hinu íslenska bókmenntafélagi var boðið að taka við prentsmiðjunni og bókaleifum Landsuppfræðingarfélagsins og gekk það að tilboðinu, með nokkrum skilyrðum. Málið var því sent stjórnvöldum í Kaupmannahöfn, þar sem skilyrðin skyldu skoðuð, en þar dagaði málið uppi af einhverjum ástæðum. Einnig komu upp raddir um að flytja prentverkið frá Viðey að Bessastöðum, aðrar um að flytja það að Rauðará við Reykjavík, en úr hvorugu varð.
Málið lá nú í salti í nokkur ár og var prentsmiðjan aðgerðarlítil á meðan. En með konungsskipan 28. september 1831 var Magnúsi Stephensen skipað að láta prentsmiðjuna af hendi með áhöldum og efni, ásamt eigum Landsuppfræðingarfélagsins og bókasafni. Skyldu stiftsyfirvöld veita hvoru tveggja viðtöku.
Segir í konungsboðinu að prentsmiðjuna beri að skoða sem þjóðareign og megi hún framvegis njóta allra útgáfuréttinda og einkaleyfa sem hún hafði áður haft. Loks er stiftsyfirvöldum heimiluð 1000 ríkisdalalántaka úr almenna framkvæmdasjóðnum til að koma prentsmiðjunni undir þak og láta hana taka til starfa, en veð skyldi sjóðurinn hafa í öllum eignum hennar.
Hinu íslenska bókmenntafélagi var nú boðin prentsmiðjan, en það vildi ekki sinna boðinu. Tvö tilboð bárust um að taka hana á leigu og var annað frá Magnúsi. Málinu lauk svo að þann 19. september 1832 var stiftsyfirvöldum veitt leyfi til að leigja Magnúsi prentsmiðjuna til fimm ára, en jafnframt var þeim gert skylt að fylgjast með rekstrinum og hamla gegn einræði hans í bókavali.
Samningurinn varð þó ekki annað en nafnið eitt, því Magnús andaðist stuttu síðar, 17. mars 1833. Fyrsta árið eftir dauða hans var prentsmiðjan rekin á kostnað dánarbúsins og var þá sagt á titilblöðum bóka að þær séu gefnar út á kostnað erfingja Magnúsar Stephensens. Eftir þetta ár var prentsmiðjan leigð Ólafi Stephensen, syni Magnúsar, til tíu ára (1834–1844).
Til Reykjavíkur
Er líða tók að lokum leigutíma Ólafs Stepensens var farið að huga að framtíð stiftsprentsmiðjunnar, eins og þá var farið að nefna hana. Stiftsyfirvöld sneru sér enn til Reykjavíkurdeildar Bókmenntafélagsins og spurðu hvort hún hefði áhuga á prentverkinu en svars er ekki getið. Ólafur æskti þess hins vegar á sama tíma að fá leigusamning sinn framlengdan um að minnsta kosti fimm ár, frá fardögum 1844 að telja.
Stjórnin svaraði þessu tilboði 2. maí 1843 og taldi ekki tímabært að taka ákvörðun í málinu. Málum væri þannig komið að Alþingi, sem stofnsett hafði verið 2. mars sama ár, skyldi koma saman í fyrsta sinn á fardögum 1845. Þá var gert ráð fyrir að prentun myndi aukast mjög vegna útgáfu kjörskráa og umræðna. Því var talið viðbúið að gera þyrfti tækjakost prentsmiðjunnar fullkomnari en hann var og jafnvel gæti þurft að kaupa hraðpressu til þess að Alþingistíðindi kæmust út eins fljótt og auðið var.
Það hefur að líkindum verið vegna þessa bréfs sem stiftsyfirvöld sneru sér enn á ný til bókmenntafélagsdeildarinnar í Reykjavík og buðu henni prentsmiðjuna til umráða. Því boði var hafnað. Ólafur Stephensen afturkallaði nú umsókn sína og stiftsyfirvöld áttu úr vöndu að ráða. T. A. Hoppe stiftsamtmaður hélt fram þeirri skoðun að nauðsynlegt væri að flytja prentsmiðjuna til Reykjavíkur vegna Alþingis, jafnvel þótt það þýddi að hún stæði aðgerðarlaus frá fardögum 1844 til jafnlengdar næsta árs. Steingrímur Jónsson biskup taldi hins vegar að prentsmiðjan mætti ekki standa verklaus; semja yrði við Ólaf eða einhvern annan um reksturinn í eitt ár eða tvö til viðbótar.
Vandræðaástand þetta endaði þannig að haldið var opinbert uppboð á prentverkinu 29. febrúar 1844. Tvö tilboð bárust; annað frá Ólafi Stephensen upp á átta ríkisdala leigu, hitt frá Carl F. Siemsen kaupmanni í Reykjavík. Hann bauð sex ríkisdali og að flytja fyrirtækið til Reykjavíkur og reka það þar. Þetta þótti lélegt boð, ekki síst með tillíti til þess að Ólafur hafði greitt 160 ríkisdala leigu árlega og fyrra tilboð hans hafði gert ráð fyrir þeirri leigu áfram. Því var hvorugu tilboðinu tekið og ákveðið að flytja prentsmiðjuna heldur til Reykjavíkur. Það var gert 20. júlí 1844 og var hún upp frá því ýmist kölluð prentsmiðja landsins eða Landsprentsmiðjan.
Nokkrar bækur prentaðar í Viðey
Meðal þeirra bóka sem prentaðar voru í Viðey má nefna Ræður Hjálmars á Bjargi, 1820. Þetta rit er sett fram í formi fimm ræðna, sem Hjálmar bóndi á Bjargi þylur yfir börnum sínum. Ræðurnar fjalla um stéttskiptingu þjóðfélagsins, tíund, skatt, búskap og hjúahald. Bókin er að mestu frumsamin af Magnúsi og er ein merkasta bók hans; hún hlaut enda ágætar viðtökur og seldist 710 eintaka upplag hennar á þremur mánuðum. Einnig má nefna Rannsókn Íslands gildandi laga um legorðsmál, 1821. Þetta var síðasta lagarit Magnúsar, sem þýddi ritið einnig á dönsku og ætlaði að fá það gefið út á þeirri tungu. Af því varð þó ekki.
Helgidagapredikanir I–II, 1822; samanteknar af Árna Helgasyni (gjarnan nefndar Árnapostilla). Bók þessi varð svo vinsæl að hún var endurprentuð í Viðey 1839. Boðsrit Bessastaðaskóla (eða Skólahátíð, eins og þau voru nefnd til 1840) voru prentuð í Viðey árlega frá 1828. Ritin höfðu að geyma útgáfur, þýðingar og fræðilegar ritgerðir kennara Bessastaðaskóla og eru í hópi allra merkustu rita á sinni tíð. Þarna birtist til dæmis á árunum 1829-1840 lausamálsþýðing Sveinbjarnar Egilssonar á Odysseifskviðu Hómers. Boðsritin komu út með litlum hléum allt til ársins 1895.
Passíusálmarnir voru prentaðir alls sex sinnum í Viðey og Biblían einu sinni, 1841; það var sjötta útgáfa hennar. Rímur voru engar prentaðar í Viðey meðan Magnús hélt þar um stjórnvöl, enda var hann lítill rímnavinur; hins vegar voru margar rímur prentaðar eftir lát hans. Síðasta bók sem prentuð var í Viðey er Ágrip af merkisatburðum mannkynssögunnar, útlagt, aukið og kostað af Páli Melsteð, 1844.
Ari Sæmundsson. Lærði í Viðey og fékk sveinsbréf 2. júlí 1823. Vann þar til 1. október sama ár en var síðan neitað um vinnu þar þótt hann sækti ítrekað um hana. Guðmundur J. Skagfjörð var faktor fyrir prentsmiðjuna í Viðey öll þau ár sem hann starfaði þar. Hann sá um reikninga prentsmiðjunnar og bókasölu frá 10. október 1807. Á fundi í Landsuppfræðingarfélaginu í Viðey 25. og 26. september 1828 voru lagðir fram reikningar þess. Var þá fyrirskipuð endurskoðun á fjárhag og fjármálastjórn og er þar ýmislegt einkennilegt. Til dæmis spurðu endurskoðendur um bókaleifar, þar eð þeim fannst vanta á birgðirnar. Því svaraði Skagfjörð svo, að „rottur og fúi hafi eyðilagt mikið af bókum”. Þá svara endurskoðendur: „Að rottur og fúi hafi gjöreytt bókum upp á 610 ríkisdali og 58 skildinga vantar öll skilríki fyrir.“Starfsmenn í Viðey
Egill Jónsson (1817–77). Var talinn prentdrengur í Viðey í manntali 1835. Sennilega er um að ræða sama Egil Jónsson er 1841–44 nam bókband á staðnum og var fyrsti bóhbindari í Reykjavík; stofnaði stofu 1844.
Egill Pálsson (1822–?). Var bókbindari í Viðey 1840–43. Stundaði síðan iðn sína samhliða búskap á jörð sinni Múla í Biskupstungum.
Einar Þórðarson (1818–1905). Hóf nám í Viðey 1836 og fór utan til frekara náms 1839. Kom aftur heim tveimur árum síðar og hóf störf í Viðey á nýjan leik. Flutti með prentsmiðjunni til Reykjavíkur og varð síðar eigandi hennar í tíu ár, er hann seldi hana Birni Jónssyni ritstjóra 18. maí 1886. Þá hafði hann verið í hálfa öld við prentverk.
Jón Jónsson (1816–1905). Hóf prentnám í Viðey 1. júní 1831 og er talinn setjari þar 1835 og 1840. Gerði hlé á prentstörfum og var meðal annars ráðsmaður á Ytra-Hólmi 1855–58. Tók til við prentverk á nýjan leik 1864 og vann við það meðan sjón entist, en hann var orðinn alblindur og óverkfær 1887.
Jón Ólafsson (1826–81). Vann við prentverk í Viðey á síðustu árum prentsmiðjunnar þar. Hætti síðan til 1857–59, er hann er talinn prentari í Landsprentsmiðjunni hjá Einari Þórðarsyni. Síðar var gripið til hans í viðlögum einstaka sinnum, en aðalstarf hans var sjómennska.
Jón Vigfússon (1817–46). Hóf prentnám hjá Helga Helgasyni í Viðey 1836. Talinn fullgildar setjari þar 1839–44 og síðan í Reykjavík til 5. október 1845.
Rottur og fúi
Þegar Guðmundur Skagfjörð hætti prentstörfum árið 1831 voru honum veittir 100 ríkisdalir í silfri í eftirlaun, vegna góðs starfs og langrar þjónustu. Bjó hann síðan heima í Melhúsum á Seltjarnarnesi til dauðadags. Hann er sagður hafa verið athafnamaður mikill, léttlyndur á efri árum, stríðinn og orðhagur. Magnús Stephensen hafði miklar mætur á Guðmundi sem samstarfsmanni við prentsmiðjuna, vegna gáfna hans og gamanyrða, þótt honum að vísu þætti kvensemi hans meiri en góðu hófi gegndi.