Mennta- og menningarráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir tilkynnti Prentsögusetri með pósti dags. 22. desember sl. að ráðuneytið hefði ákveðið að veita félaginu myndarlegan styrk til að ganga frá húsnæði þess í Gestastofu Skálholts. Þessi styrkur gerir það að verkum að nú er hægt að hefjast handa við framkvæmdir á staðnum. Til þess að undirbúa þær framkvæmdir mætti sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup staðarins, á fund með stjórn Prentsöguseturs 14. janúar sl. til skrafs og ráðagerða.
Auk þessa hefur félagið einnig fengið góðan styrk frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi til að hefja hönnun sýningar í Gestastofu, frá Seðlabankanum til stuðnings Gömlu prentsmiðjunni og Kaupfélagi Skagafjarðar til starfsemi sinnar.
Ástæða er til að þakka þessum aðilum rausnarskapinn. Þetta þýðir að Prentsögusetur getur hafist handa við að koma upp aðstöðu fyrir starfsemi sína.
Myndina sem hér fylgir tók Grímur Kolbeinsson, ritari Pss, á stjórnarfundinum í gær. Frá vinstri: Tryggvi Þór Agnarsson gjaldkeri, við borðsendann Haukur Már Haraldsson formaður, þá sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti og Hjörtur Guðnason varaformaður Pss.
Það er ekki á neinn hallað þótt því sé haldið fram að tvímenningarnir Svanur og Heimir eigi einna stærstan þátt í að Prentsögusetur var stofnað, komst á fót ef svo má segja. Báðir hafa verið haldnir þeirri ástríðu að safna gömlum tækjum, halda til haga því sem tæknilega verður „úrelt“ en geymir sögu þróunarinnar þótt ný þrep í þróunarsögunni komi til. Heimir lagði t.d. Prentsögusetri til prentsmiðjuna sína, sem hann hafði starfrækt um áratugaskeið og gengur nú undir nafninu Gamla prentsmiðjan, í Brynjuportinu að Laugavegi 29B. Þar er elsta prentvélin frá árinu 1903 og myndi ganga enn ef henni væri stungið í samband.
Við áhugamenn um varðveislu prentsögunnar eigum því þessum tveimur heiðursmönnum skuld að gjalda. Kosning þeirra sem heiðursfélaga er lítill þakklætisvottur fyrir frábært starf.
Myndirnar sem hér birtast tók Tryggvi Þór Agnarsson, gjaldkeri Prentsöguseturs.
Á myndinni eru flestir stjórnarmenn Prentsöguseturs (Katrín Jónsdóttir átti ekki heimangengt) með Sveinbirni; frá vinstri Grímur Kolbeinsson, Haukur Már Haraldsson, Þór Agnarsson, Sveinbjörn Hjálmarsson, Bjarni Jónsson og Hjörtur Guðnason. Það var Margrét, eiginkona Sveinbjarnar sem tók myndina.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherrra, heimsótti Prentsögusetur – Gömlu prentsmiðjuna í dag. Móðir Lilju, Guðný Kristjánsdóttir, var einnig með í för en hún er prentsmiður. Að auki voru með í för Gísli Hauksson og Rúnar Leifsson. Við þökkum þeim öllum fyrir ánægjulega heimsókn og þann áhuga sem þau sýna okkur.
Svanur Jóhannesson er sonur Jóhannesar úr Kötlum. Hann er rúmlega níræður og gaf nú á dögunum út Prentsmiðjubókina þar sem hann fjallar um prentsögu Íslands í máli og myndum. Iðan tók hann tali og fékk að fræðast betur um bókina og aðdraganda hennar.
Prentvél fyrir samhangandi pappírsflæði, árgerð 1958. Kemur frá prentsmiðjunni Odda. Gefandi: Þorgeir Baldursson. Þarna er verið að koma henni fyrir í langtímageymslu.
Aðalfundur Prentsöguseturs var haldinn 4. júní sl., eftir ítrekaðar frestanir vegna covid-19 vírussins. Fundurinn var haldinn í Húsi félaganna við Stórhöfða.
Á fundinum var gerð grein fyrir starfi síðasta árs, sem var talsvert mikið, þótt óneitanlega yrði að hægja á ýmsu vegna aðstæðna. Nú er ljóst að þótt fjós og hlaða Skálholtsstaðar yrðu ekki aðsetur safns á vegum Prentsöguseturs, þá er það staðfastur vilji Skálholtsstaðar að setrið verði hluti af ásýnd staðarins til frambúðar. Verið er að breyta svokölluðu Gestahúsi á staðnum og þar er reiknað með Prentsögusetri í tengslum við verðmætt safn gamalla bóka sem þar verður sett upp. Bókasafnið og safn Prentsöguseturs verða samtengd og mynda þannig eina heild.
Einnig voru samþykktar breytingar á lögum félagsins, þar sem t.d. félögum, félagasamtökum og fyrirtækjum er gert kleift að verða félagsmenn með ákveðnum skilyrðum. Einnig var embætti spjaldskrárritara stofnað og Svanur Jóhannesson kjörinn í það. Þá var bætt við lögin bráðabirgðagrein um að Prentsögusetur skuli sjá um rekstur Gömlu prentsmiðjunnar að Laugavegi 29b. Aðalfundur skuli kjósa sex manna framkvæmdastjórn til a sjá um daglegan rekstur, en tekjur Gömlu prentsmiðjunnar skuli ganga til Prentsöguseturs. Hugmyndin er að Gamla prentsmiðjan verði sjálfbær í rekstri en afgangur tekna eftir greiðslu kostnaðar muni ganga til Prentsöguseturs.
Á fundinum viku þeir Heimir Br. Jóhannesson formaður og Svanur Jóhannesson gjaldkeri úr stjórninni, eftir að hafa starfað þar frá upphafi. Nýr formaður var kjörinn Haukur Már Haraldsson, en hann var fyrsti formaður félagsins, en vék til hliðar fyrir tveimur árum vegna anna. Aðrir í stjórn og varastjórn eru, í stafrófsröð, Bjarni Jónsson, Grímur Kolbeinssn, Hjörtur Guðnason, Katrín Jónsdóttir, Tryggvi Þór Agnarsson og Þór Agnarsson.
Í framkvæmdastjórn Gömlu prentsmiðjunnar voru kosin Ágúst Guðjónsson, Baldvin Heimisson, Haukur Már Haraldsson, Heimir Br. Jóhannsson, Katrín Jónsdóttir og Sófus Guðjónsson.
Fyrsti fundur nýrrar stjórnar verður haldinn á miðvikudag í næstu viku.
Iðan fræðslusetur heimsótti Prentsögusetur á dögunum í podcast/þáttaröð sinni Augnablik í iðnaði. Haukur Már Haraldsson í stjórn Prentsöguseturs varð fyrir valinu sem viðmælandi í þetta skiptið og fræðir okkur um Prentsögusetur og hvað það er að vera setjari.
Aðalfundur Prentsöguseturs 2020 verður haldinn fimmtudaginn 4. júní nk. að Stórhöfða 31 og hefst kl. 16:30. Fundarsalurinn er á þriðju hæð og gengið inn í húsið Stórhöfðamegin. Þegar liggja fyrir tillögur að lagabreytingum og er félagsmönnum bent á að hafi þeir hug á að leggja til breytingar á lögunum á aðalfundinum þurfa tillögur þar að lútandi að hafa borist stjórn félagsins minnst viku fyrir fundinn. Í þessu tilfelli í síðasta lagi 28. maí.