Fundurinn var haldinn að Stórhöfða 31. Fjórtán fundarmenn mættir

 

DAGSKRÁ

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögðfram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning formanns
  7. Kosning fjögurra annarra stjórnarmanna og tveggja til vara
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  9. Jens Halldórsson prentmyndasmiður segir frá vinnubrögðum, prentmyndastofum og fleira frá fyrri tíð
  10. Önnur mál.

 

1) Formaður setti fundinn sem er fjórði aðalfundur Prentsögusetursins. Hann stakk upp á Sæmundi Árnasyni sem fundarstjóra og Þóru Elfu Björnsson sem fundarritara og var það samþykkt.

2) Skýrsla stjórnar. Formaður, Haukur Már, sagði fjóra stjórnarfundi hafa verið haldna á árinu auk óformlegs spjalls og margra símtala, tölvupósta  o.fl.. Formaður hafði hitt Ísólf Gylfa Pálmason, sveitarstjóra á Hvolsvelli vegna hugmynda um að Prentsögusetur yrði opnað þar í samvinnu við fleiri atriði eða sýningar. Allt viðmót var jákvætt nema fé liggur ekki fyrir. Þá sagði formaður að Gónhóll á Eyrarbakka væri mjög líklega úr sögunni sem sýningarstaður en við munum geta geymt þar eitthvað áfram þá muni sem þegar eru þar í geymslu. Formaður og gjaldkeri höfðu setið fund með tveimur forráðamönnum Árborgar á Selfossi á dögunum, vegna hins nýja/gamla fyrirhugaða miðbæjar þar, með hugmynd um að Prentsögusetri með sýningu og lifandi vinnu væri ætlaður þar staður. Þetta er á fyrsta viðræðustigi, virðist þurfa all nokkurt fé, bæði til að koma í gang og til rekstursins. Félagið vantar meira geymsluhúsnæði meðan leitað er úrræða. Þá gat formaður þess að á  næstunni muni verða hægt að opna vísi að safni í Bókamiðstöð (prentsmiðju) Heimis Br. Jóhannsonar við Laugaveg með ýmsum munum úr rekstri Heimis. Þá þakkaði formaður samstarfið, einnig ábendingar og velvilja á árinu og minnti á vefsetur PSS.

3) Reikningar félagsins.  Gjaldkerinn, Svanur Jóhannesson, fór yfir helstu liði reikninga ársins 2017 sem höfðu verið yfirfarnir og samþykktir af endurskoðendum félagsins. Peningaeign í lok ársins er kr. 1.419.827. Reikningarnir voru bornir upp og samþykktir.

4) Svanur lýsti för sinni á kynningarfund með Leo Árnasyni og Guðjóni Arngrímssyni  á Selfossi þar sem unnið er með hugmynd um nýjan/gamlan miðbæ. Þar verða byggð hús í sömu mynd og önnur sem hafa eyðilagst í bruna eða af tímans tönn á ýmsum stöðum á landinu. Tryggður hefur verið reitur undir þennan kjarna húsa og verða þau leigð út til ýmis konar starfsemi. Lobby hótels var nefnt sem hugsanlegur sýningarstaður fyrir gamla prentsýningu. Spurt var úr sal hvort hægt yrði að bjóða upp á prentsmiðjurekstur samhliða sýningu og var svara það væri allt í athugun. Heimir sagði þetta gott og gilt en aðsókn yrði örugglega alltaf best ef stofnunin væri í Reykjavík. Ný stjórn félgsins mun funda um þessi mál og fleiri í sama tilgangi.

5) Lagabreytingar. Engar lagabreytingatillögur höfðu borist.

7) Félagsgjald. Samþykkt var að gjaldið verði óbreytt eða kr. 3000.

8) Kjör formanns. Ekki kom mótframboð við sitjandi formann og var Haukur Már Haraldsson klappaður í embættið.

9) Kosning fjögurra annarra stjórnarmanna og tveggja til vara. Bjargey Gígja Gísladóttir gaf ekki kost á sér áfram en stungið var upp á Sófusi Guðjónssyni, ekki voru aðrar breytingar og var þetta samþykkt.

10) Skoðunarmenn reikninga voru klappaðir til áframhaldandi starfa.

11) Jens Halldórsson prentmyndasmiðursagði af starfinu í faginu, ýmsum tækjum og aðferðum, ógleymdum vinnufélögum og minnisstæðum samferðamönnum og var þetta lifandi og skemmtileg frásögn.

Önnur mál  a) Guðmundur Oddur, prófessor við LHÍ, er var gestur á fundinum bað um orðið, sagðist vera að safna fróðleik um sögu fjölföldunar á Íslandi, hefði fengið ríflegan styrk til þess og væri nú að spýta í lófana. Sagði vanta þætti um sögu prentunar frá því hún fluttist úr Viðey, sagðist gjarnan vilja koma á fund hjá félaginu og segja frá og fræðast á móti.

Þá þakkaði formaður gestum góða fundarsetu og sleit fundi.

 

Ritari: Þóra Elfa Björnsson

 

 

Á aðalfundi Prentsöguseturs 18. mars í fyrra var kjörin fimm manna stjórn félagsins og tveir í varastjórn. Sá sem hér stendur, Haukur Már Haraldsson, var kosinn formaður í sérstakri kosningu og þau Heimir Jóhannesson varaformaður, Þóra Elfa Björnsson ritari, Svanur Jóhannesson gjaldkeri og Þórleifur V. Friðriksson meðstjórnandi. Þau Bjargey Gígja Gísladóttir og Baldvin Heimisson voru kosin í varastjórn.

Þá voru þeir Ólafur Stoltsenwald og Simon Knight kjörnir skoðunarmenn reikninga.

Sú vinnuregla hefur tíðkast að varamenn í srjórn eru boðaðir á stjórnarfundi.

 

Fundir

Frá síðasta aðalfundi hafa verið haldnir fjórir stjórnarfundir. Samskipti stjórnarmanna hafa þó verið mun meiri. Við ræðum mikið saman í síma, ráðum ráðum okkar yfir kaffibolla með fólki sem við höldum að geti ráðið okkur heilt eða við spjöllum saman með netpósti.

Sem dæmi má nefna að ég átti fund með sveitarstjóranum á Hvolsvelli, Ísleifi Gylfa Pálmasyni í endaðan júní um hugsanlega aðkomu Prentsöguseturs í það safnaumhverfi sem hefur þróast þar á staðnum. Eiginlega má segja að sveitarstjórinn hafi boðið mér í opinbera heimsókn á Hvolsvöll, þar sem hann kynnti sýndi mér starfseminni og kynnti mig fyrir öllum safnstjórum á staðnum. Hann var reyndar býsna jákvæður í garð hugsanlegs samstarfs. Hvolsvöllur er þó í það lengsta frá höfuðborgarsvæðinu fyrir minn smekk, en ég tel þó að við verðum að hafa augun opin fyrir öllum möguleikum sem upp kunna að koma. Ekki síst þar sem ljóst virðist vera að hugmyndin um setrið á Eyrarbakka virðast úr sögunni í upprunalegri mynd.

Rétt er þó að ítreka það hér að við höfum verið fullvissuð um að þau tæki sem eru í geymslu í Gónhóli á Eyrarbakka séu og verði örugg og megi vera í húsnæðinu þar eftir okkar þörfum.

Þá má einnig nefna að við Svanur Jóhannesson gjaldkeri fórum á fimmtudaginn á fund með tveimur af forystufólki Árborgar á Selfossi, þeim Ástu og Kristjáni. Þar ræddum við um möguleika Prentsöguseturs á aðstöðu í nýjum gömlum miðbæ Selfoss, sem framkvæmdir hefjast við í næsta mánuði. Á fundinum kom fram að uppbyggingin sú byggist á fjárhagslegum bakhjörlum þeirra sem þar verða gjaldgengir. Ég tel reyndar að ástæða sé til að skoða þetta mál betur og þá jafnvel í samstarfi við t.d. Samtök iðnaðarins, Menntamálaráðuneytið og jafnvel skoða hvort stærstu prentsmiðjur landsins væru hugsanlega til í að stofna formlegan fjárhagslegan bakhjarl Prentsöguseturs í þessu skyni.

 

Húsnæðismálin

eru satt að segja mjög erfið. Okkur vantar ekki tæki, þeim fjölgar í sífellu og nú er svo komið að við erum að verða uppiskroppa með geymslurými. Til að geta þegið þau tæki sem okkur er sífellt að bjóðast tókum við á leigu bílskúr við Rósarima í Grafarvogi og hann er að fyllast. En það er ljóst að við getum ekki bætt við okkur leiguhúsnæði. Höfum ekki efni á því.

Þannig að það er ljóst að húsnæðismálin eru það sem við verðum að leggja aukna áherslu á í komandi framtíð. Þau hafa vissulega verið efst á blaði hingað til, en betur má ef duga skal.

Um nokkurt skeið hefur verið til umræðu í stjórn Prentsöguseturs að opna eins konar mini-safn í húsnæði Bókamiðstöðvarinnar við Laugaveg, þar sem Heimir, varaformaður okkar, hefur safnað gömlum vélum og tækjum. Stefnt er að því að það verði opnað í byrjun sumars. Þetta er sérstakt fagnaðarefni.

 

Vefsvæðið

Að lokum er ástæða til að minna á vefsvæði Prentsöguseturs, www.prentsögusetur.is. Og ekki síður að þakka Páli Svanssyni fyrir hans vinnu í þágu hans. Eins og þig flest vitið er þar rakin prentsaga Íslands, hér á landi og erlendis, þ.e.a.s. þær prentsmiðjur sem helst prentuðu fyrir Íslendinga. Einnig einstök fyrirtæki frá upphafi til 21. aldar.

Ég vil þakka hér í lokin meðstjórnarmönnum mínum samstarfið á liðnum árum. Mikill samhugur hefur verið innan þessa hóps og áhuginn á málefninu ómældur.

Á sama hátt er ástæða til að þakka þann áhuga sem félagsmenn – og reyndar einstaklingar utan þess – hafa sýnt Prentsögusetri, með símhringingum, ábendingum um tæki og fyrirspurnum.

 

Aðalfundur Prentsöguseturs 2018 verður haldinn laugardaginn 10. mars nk. kl. 13:00.
Fundurinn fer fram í matsal á 1. hæð, Stórhöfða 31, Grafarvogsmegin.

Dagskrá samkvæmt lögum félagsins:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til afgreiðslu
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning formanns
  7. Kosning fjögurra annarra stjórnarmanna og tveggja til vara
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  9. Önnur mál

Athygli er vakin á eftirfarandi lið 8. greinar laga Prentsöguseturs:
„Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist til stjórnar eigi síðar en viku fyrir aðalfund.“

Fh. stjórnar Prentsöguseturs.
Haukur Már Haraldsson, formaður

Kæru félagar í Prentsögusetri.
Stjórn setursins sendir ykkur sínar bestu jóla- og nýársóskir.

Á aðalfundi Prentsöguseturs 19. mars á síðasta ári var kosin fimm manna stjórn Prentsöguseturs og tveir í varastjórn. Haukur Már Haraldsson var kosinn formaður í sérstakri kosningu, Heimir Jóhannsson varaformaður, Þóra Elfa Björnsson ritari, Svanur Jóhannesson gjaldkeri og Þórleifur V. Friðriksson meðstjórnandi. Í varastjórn voru kosin þau Bjargey Gígja Gísladóttir og Baldvin Heimisson. Starfsreglan hefur verið að varastjórnarmenn eru ævinlega boðaðir á stjórnarfundi.
Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir þeir Simon Knight og Ólafur Stolzenwald.

Fundir
Frá síðasta aðalfundi hafa verið haldnir sjö stjórnarfundir. En samskipti stjórnarmanna hafa verið mun meiri. Við tölum mikið saman í síma, ráðum ráðum okkar yfir kaffibolla eða á fundum með utanaðkomandi fólki sem við höldum að geti ráðið okkur heilt í málefnum setursins. Þannig héldum við Þóra Elfa fund með sveitarstjóra og fleiri yfirmönnum sveitarfélagsins Hellu, um hugsanlegt samstarf um húsnæði fyrir Prentsögusetur þar á staðnum. Okkur var vel tekið og við fundum fyrir nokkrum áhuga þeirra sem við ræddum við. Húsnæðið sem var til umræðu hefði verið tilvalið til sýningahalds og lagergeymslu, en það var auðfundið að fulltrúar sveitarfélagsins töldu það ekki hafa fjárhagslega burði til að leiða málið til lykta.
Í annan stað ræddum við Þóra Elfa við Þóru Björk Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Safnaráðs um hvaða kröfur Prentsögusetur þyrfti að uppfylla til að geta orðið gjaldgengt í Safnasjóði. Í ljós kom að það var talsvert og við þurfum að vinna að því á komandi ári.

Húsnæðismálin
eru í svipaðri stöðu og þau voru fyrir ári. Við höfum gengið út frá því að setrið verði til húsa að Gónhóli á Eyrarbakka. Það húsnæði er í uppbyggingu, en síðustu fréttir eru þær að mjög hafi slegið í bakseglin þar. Vegna erfiðleika – aðallega fjárhagslegra – megi gera ráð fyrir að ekki verði hægt að opna fyrr en eftir fimm ár. Þegar við lögðum af stað í þessa vegferð gerðum við ráð fyrir – samkvæmt samráði við eigendur húsnæðisins – að eftir þrjú ár gætum við opnað fyrstu sýningu Prentsöguseturs. Nú eru liðin tvö ár og það segir sig sjálft að fimm ár í viðbót er ekki ásættanlegur dráttur. Þannig að við þurfum að líta í kringum okkur. Við höfum verið í sambandi við sviðsstjóra eigna- og umsýslusviðs hjá Reykjavíkurborg, Hrólf Jónsson. Í gær áttum við Þóra Elfa og Þórleifur V. fund með honum og Óla Jóni Hertevig um hugsanlegan möguleika á geymsluhúsnæði fyrir okkur. Þetta var jákvæður fundur og talið hugsanlegt að við gætum fengið inni með tæki og tól í Toppstöðinni í Elliðaárdal. Einnig var Álfsnesið nefnt í því sambandi, en þótti hæpnara. Óli Jón var settur í að skoða málið og mun setja sig í samband við okkur þegar möguleikarnir liggja fyrir. Það er reyndar spurning hvort einnig ætti að leita hófanna hjá borginni um safnhúsnæði, þótt sjálfur vildi ég helst að það væri við hringveg 1 í Suðurlandskjördæmi. Við nefndum þann möguleika á fundinum í gær, en það er Borgarsögusafn sem sér um slík málefni og Hrólfur bauðst til að hafa samband við forstöðumann þess og spyrjast fyrir.

Við í stjórninni munum halda þessu máli vakandi.

Rétt er að geta þess að við höfum verið fullvissuð um að tæki sem komin eru á Eyrarbakka séu og verði örugg og megi vera þar eftir okkar þörfum.

Tækjasöfnun
Það verður ekki annað sagt en að talsverður áhugi sé á varðveislu gamalla tækja úr prentiðnaði. Tæki og tól til setningar og umbrots, prentunar og bókbands hafa verið boðin Prentsögusetri. Í rauninni er það aðeins húsnæðisleysið sem hefur hamlað okkur. Við stöndum raunverulega frammi fyrir þeim möguleika að einhverjum af þessum tækjum verði hreinlega hent, því þau eru fyrir. Sums staðar, eins og hjá Prentmeti, er gömlum tækjum safnað í gáma og þar megum við láta greipar sópa að vild.
Við höfum fengið nokkuð af tækjum hjá Þjóðminjasafninu, tækjum sem hafa verið í góðu geymsluhúsnæði. Á sínum tíma tók Þjóðminjasafnið við alls kyns tækjum og tólum úr hinum ýmsu starfsgreinum hér á landi með það fyrir augum að setja á stofn iðnsögusafn. Þær áætlanir virðast hafa verið lagðar til hliðar og safnið bað okkur beinlínis að taka við því sem heyrði til prentiðnaði. Þau tæki eru nú á Eyrarbakka.
Ágætt dæmi um að orðspor Prentsöguseturs hefur breiðst út er símhringing sem ég fékk fyrir tæpum mánuði. Þar var í símanum ljósmyndari sem ásamt fleirum slíkum var í sameiginlegu húsnæði, þar sem m.a. tækja var högghnífur sem myndasmiðirnir höfðu notað til að klippa karton. Hann spurði hvort ég væri ekki í prentsögueitthvað. Ég jánkaði því og þá bauð hann okkur þennan hníf að gjöf; hann væri plássfrekur og hægt að leysa hann af með smærra og meðfærilegra tæki.

Vefsvæði Prentsöguseturs
er komið í notkun. Vefsvæðið er verk Páls Svanssonar og var hugmyndin á bak við það kynnt á aðalfundinum í fyrra. Á vefnum er rakin prentsaga Íslands hér á landi og erlendis, – þ.e. þær prentsmiðjur í Danmörku sem helst prentuðu fyrir íslendinga. Einnig einstök fyrirtæki frá upphafi til 21. aldar. Byrjað er að skrá þá gripi sem setrinu hafa borist, bækur, myndir og tæki og tól til setningar, umbrots, prentunar og bókbands. Það er nokkuð tímafrekt starf sem verður haldið áfram.
Ég vil eindregið hvetja ykkur til að skoða vefinn og ekki síður að hafa samband við Pál Svansson, vefstjóra, ef þið hafið athugasemdir eða uppástungur. – Það er full ástæða til þess hér að þakka Páli fyrir óeigingjarnt starf við vefsvæðið.

Starfshópur um hugmyndafræði
Stjórnin ákvað að setja á stofn eins konar starfshóp um það hvernig hugmyndafræðin að baki Prentsöguseturs skuli koma fram í starfseminni þegar þar að kemur. Ákveðið var að fá í hópinn tvo einstaklinga utan stjórnar sem eins konar kjarna og einn stjórnarmann sem tengilið við stjórnina.. Í hópnum eru þær Málfríður Finnbogadóttir bókasafnsfræðingur, Katrín Jónsdóttir prentsmiður og Þórleifur V. Friðriksson sem tengiliður við stjórn. Aukinheldur hefur Þóra Elfa h setið fundi hópsins. Hópurinn hefur komið allnokkrum sinnum saman og hér á eftir ætla þau að skýra frá umræðum sínum og þeim helstu atriðum sem þar hafa fram komið.

Ég vil hér í lokin þakka meðstjórnarmönnum mínum samstarfið á liðnum árum. Mikill samhugur hefur verið innan þessa hóps og áhuginn á málefninu ómældur.
Á sama hátt er ástæða til að þakka þann áhuga sem félagsmenn – og reyndar einstaklingar utan þess – hafa sýnt Prentsögusetri, með símhringingum, ábendingum um tæki og fyrirspurnum.

Aðalfundur Prentsöguseturs var haldinn 18. mars sl. í matsal Grafíu að Stórhöfða 31.
Á dagskránni voru lögbundin aðalfundarstörf, skýrsla stjórnar, reikningar félagsins, lagabreytingar, kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga.

Sæmundur Árnason var kjörinn fundarstjóri og Þóra Elfa Björnsson fundarritari.

Í skýrslu stjórnarinnar kom m.a. fram að stjórnin á í viðræðum við yfirmenn eigna- og umsýslusviðs Reykjavíkurborgar um hugsanlegt geymslupláss fyrir þau tæki sem eru í eigu setursins. Skýrslan er birt í heild sinni hér á fréttasvæðinu.

Á fundinum gerðu þær Katrín Jónsdóttir og Málfríður Finnbogadóttir grein fyrir umræðum í Hugmyndafræðihópnum sem svo hefur verið kallaður. Þær gerðu það á skemmtilegan hátt með myndskreyttum samtalsþætti í stað venjulegrar ræðu.

Sérstakur gestur fundarins var Svavar Gestsson, fyrrum blaðamaður, ritstjóri, þingmaður, ráðherra og sendiherra. Hann lýsti á skemmtilegan hátt kynnum sínum og samskiptum,– og samstarfi – við starfsmenn Prentsmiðju Þjóðviljans í gamla daga. Sýndi meðal annars þróun í vinnslu blaðsins með dæmum.

Stjórnarkjörið fór svo að fráfarandi stjórn var endurkjörin:
Haukur Már Haraldsson, formaður. Kosinn sérstaklega.
Heimir Br. Jóhannsson, varaformaður.
Þóra Elfa Björnsson, ritari.
Svanur Jóhannesson, gjaldkeri.
Þórleifur V. Friðriksson, meðstjórnandi.
Bjargey Gígja Gísladóttir, varastjórn.
Baldvin Heimisson, varastjórn.

Félagslegir endurskoðendur voru kosnir Ólafur Stolzenwald og Simon Knight.

Í tilefni Dags íslensks prentiðnaðar hjá Iðunni þann 5. febrúar sl. var kynningarbæklingur útbúinn, til að gera grein fyrir því sem verið hefur á dagskrá stjórnar Prentsöguseturs síðasta árið.

Þau merkisskref voru stigin þriðjudaginn 24. maí sl. að fyrstu tækin voru flutt í geymsluhúsnæði á Eyrarbakka. Þar með höfðum við loksins tekið formlega við nokkrum þeirra tækja sem Prentsögusetri höfðu verið gefin. Við höfum þurft að telja eigendur gamalla tækja á að hinkra aðeins með að henda þeim, þar sem aðstæður hafa ekki leyft okkur að taka við þeim. En nú erum við semsagt komin með geymslu.

Þessi fyrstu tæki eru ljóssetningarvélar, bókapressur, falshöggvél, prófarkapressa og heftivélar. Auk smávalsa, leturhaka og fylgihluta.
Framundan er að taka við fleiri gömlum tækjum; Intertype setjaravél bíður okkar, sem og gyllingarvél, brotvél og prentvélar.

Við í stjórn Prentsöguseturs erum vitaskuld himinlifandi, erum búin að bíða eftir þessu í liðlega ár, pirrast smávegis stundum þegar málin hafa virst ætla að stranda. En nú er þeim tíma væntanlega lokið.
Þeir sem hafa í fórum sínum eða vita um öldruð tæki til bókagerðar, hvort sem er fyrir setningu, umbrot, skeytingu, ljósmyndum, prentmótagerð, prentun eða bókband, mega gjarnan setja sig í samband við okkur í stjórn Prentsöguseturs.

Fyrsti aðalfundur Prentsöguseturs var haldinn laugardaginn 19. mars. Auk venjulegra aðalfundarstarfa ræddi Páll Baldvin Baldvinsson við fundarmenn um kynni sín af bókagerðarmönnum. Hann er sonur Baldvins Halldórsonar leikara og setjara og kynntist því faginu frá barnæsku. Í ljós kom reyndar að hann hafði ekkert nema gott um fagmenn í bókiðngreinum að segja, eftir áralanga reynslu við ritstjórn, blaðamennsku og önnur ritstörf. Hann hlaut einmitt Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrr á þessu ári.
Einnig kynnti Páll Svansson nethönnuður heimasíðu Prentsöguseturs – www.prentsögusetur.is – sem er á lokaskrefum hönnunar, og vakti mikla hrifningu fundarmanna.

Þá afhenti Hjörtur Guðnason gjafir til Prentsöguseturs frá afkomendum Magnúsar Sigurðar Magnússonar prentara, systkinunum Jóhönnu Jóhannsdóttur Thorlacius og Þorkeli Jóhannessyni og mökum þeirra, Ólafi Þ. Thorlacius og Veru Tómasdóttur.
Gjafirnar voru bóklistaverkið Prentlistin fimm hundruð ára [handlýst og skrýdd teikningum Hafsteins Guðmundssonar], innbundið eintak af Íslensku prentaratali 1530–1950 og loks ljósmynd af Magnúsi Sigurði við prentvél í prentsmiðjunni Gutenberg. Prentsögusetur færir gefendum kærar þakkir fyrir rausnarskapinn.

Kosningar í embætti fóru svo, að Haukur Már Haraldsson var endurkjörinn formaður og aðrir í aðalstjórn Heimir Jóhannsson, Svanur Jóhannesson, Þóra Elfa Björnsson og Þórleifur V. Friðriksson. Í varastjórn voru kjörin þau Bjargey Gígja Gísladóttir og Baldvin Heimisson. Félagslegir skoðunarmenn reikninga voru kjörnir þeir Ólafur Stoltzenwald og Simon Knight.

Í dag var Dagur prentiðnaðarsins. Það var Iðan fræðslusetur sem hélt þennan dag í húsakynnum sínum. Prentsögusetur greip tækifærið til að kynna sig og markmið sín. M.a. vorum við með lítinn handrokk og prentaðar voru inntökubeiðnir fyrir setrið. Einnig kynntum við í fyrsta sinn „gardínu“ þar sem markmið Prentsöguseturs eru kynnt.