,

Nýr formaður, tveir heiðursfélagar

Aðalfundur Prentsöguseturs var haldinn 4. júní sl., eftir ítrekaðar frestanir vegna covid-19 vírussins. Fundurinn var haldinn í Húsi félaganna við Stórhöfða.

Á fundinum var gerð grein fyrir starfi síðasta árs, sem var talsvert mikið, þótt óneitanlega yrði að hægja á ýmsu vegna aðstæðna. Nú er ljóst að þótt fjós og hlaða Skálholtsstaðar yrðu ekki aðsetur safns á vegum Prentsöguseturs, þá er það staðfastur vilji Skálholtsstaðar að setrið verði hluti af ásýnd staðarins til frambúðar. Verið er að breyta svokölluðu Gestahúsi á staðnum og þar er reiknað með Prentsögusetri í tengslum við verðmætt safn gamalla bóka sem þar verður sett upp. Bókasafnið og safn Prentsöguseturs verða samtengd og mynda þannig eina heild.

Einnig voru samþykktar breytingar á lögum félagsins, þar sem t.d. félögum, félagasamtökum og fyrirtækjum er gert kleift að verða félagsmenn með ákveðnum skilyrðum. Einnig var embætti spjaldskrárritara stofnað og Svanur Jóhannesson kjörinn í það. Þá var bætt við lögin bráðabirgðagrein um að Prentsögusetur skuli sjá um rekstur Gömlu prentsmiðjunnar að Laugavegi 29b. Aðalfundur skuli kjósa sex manna framkvæmdastjórn til a sjá um daglegan rekstur, en tekjur Gömlu prentsmiðjunnar skuli ganga til Prentsöguseturs. Hugmyndin er að Gamla prentsmiðjan verði sjálfbær í rekstri en afgangur tekna eftir greiðslu kostnaðar muni ganga til Prentsöguseturs.

Á fundinum viku þeir Heimir Br. Jóhannesson formaður og Svanur Jóhannesson gjaldkeri úr stjórninni, eftir að hafa starfað þar frá upphafi. Nýr formaður var kjörinn Haukur Már Haraldsson, en hann var fyrsti formaður félagsins, en vék til hliðar fyrir tveimur árum vegna anna. Aðrir í stjórn og varastjórn eru, í stafrófsröð, Bjarni Jónsson, Grímur Kolbeinssn, Hjörtur Guðnason, Katrín Jónsdóttir, Tryggvi Þór Agnarsson og Þór Agnarsson.

Í framkvæmdastjórn Gömlu prentsmiðjunnar voru kosin Ágúst Guðjónsson, Baldvin Heimisson, Haukur Már Haraldsson, Heimir Br. Jóhannsson, Katrín Jónsdóttir og Sófus Guðjónsson.

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar verður haldinn á miðvikudag í næstu viku.