Gjöf til Prentsöguseturs

Sveinbjörn Hjálmarsson, gjarnan kenndur við Umslag hf., afhenti Prentsögusetri í dag veggspjald frá heimsókn leturhönnuðarins Adrians Frutiger árið 1987. Frutiger er einn þekktasti leturhönnuður samtímans. Hann teiknaði fjölmörg letur af ýmsum gerðum, en meðal þeirra frægustu eru steinskriftarletrin Univers og Frutiger. Frutiger-letrið var sérstaklega hannað fyrir Charles de Gaulle flugvöllinn í París með það að markmiði að það sæist vel í þoku eða mistri.

Á myndinni eru flestir stjórnarmenn Prentsöguseturs (Katrín Jónsdóttir átti ekki heimangengt) með Sveinbirni; frá vinstri Grímur Kolbeinsson, Haukur Már Haraldsson, Þór Agnarsson, Sveinbjörn Hjálmarsson, Bjarni Jónsson og Hjörtur Guðnason. Það var Margrét, eiginkona Sveinbjarnar sem tók myndina.