Heiðursfélagarnir fengu skjölin sín

Á aðalfundi Prentsöguseturs 4. júní sl. voru tveir af helstu frumherjum félagsins kjörnir heiðursfélagar þess; Heimir Brynjúlfur Jóhannsson prentari og prentsmiðjustjóri og Svanur Jóhannesson bókbindari. Það var svo fyrst þann 29. ágúst sl. að þeir fengu heiðursskjölin afhent í skemmtilegri veislu í Miðdal, Laugardal. Þar komu saman nokkrir núverandi og fyrrverandi stjórnarliðar ásamt nokkrum mökum og snæddu dýrindis margrétta málsverð sem Baldvin Heimisson setjari sá um að elda. Hann er vel að merkja með ráðherrabréf sem matsveinn.

Það er ekki á neinn hallað þótt því sé haldið fram að tvímenningarnir Svanur og Heimir eigi einna stærstan þátt í að Prentsögusetur var stofnað, komst á fót ef svo má segja. Báðir hafa verið haldnir þeirri ástríðu að safna gömlum tækjum, halda til haga því sem tæknilega verður „úrelt“ en geymir sögu þróunarinnar þótt ný þrep í þróunarsögunni komi til. Heimir lagði t.d. Prentsögusetri til prentsmiðjuna sína, sem hann hafði starfrækt um áratugaskeið og gengur nú undir nafninu Gamla prentsmiðjan, í Brynjuportinu að Laugavegi 29B. Þar er elsta prentvélin frá árinu 1903 og myndi ganga enn ef henni væri stungið í samband.

Við áhugamenn um varðveislu prentsögunnar eigum því þessum tveimur heiðursmönnum skuld að gjalda. Kosning þeirra sem heiðursfélaga er lítill þakklætisvottur fyrir frábært starf.

Myndirnar sem hér birtast tók Tryggvi Þór Agnarsson, gjaldkeri Prentsöguseturs.