Í gær, föstudaginn 21. febrúar var Gamla prentsmiðjan við Laugaveg formlega opnuð sem safn, vísir að starfsemi Prentsöguseturs. Þennan dag, 21. febrúar, voru liðin fimm ár frá stofnun Prentsöguseturs.

Allnokkrir gestir voru viðstaddir opnunina og voru undirtektir þeirra undantekningarlaust mjög góðar; gestir fundu jafnvel í loftinu gamalkunnan ilm af prentsvertu og pappír. „Maður fær nostalgíukast,“ sagði einn gamall prentari. Og atburðurinn komst í fréttatíma sjónvarps Rúv.

Hér eru nokkrar myndir sem Hjörtur Guðnason tók við opnunina.

 

Verið er að ganga þannig frá prentsmiðju Bókamiðstöðvarinnar að Laugavegi 29, að hún geti verið til sýnis fyrir almenning. Fyrsta skref Prentsöguseturs, vísir að öðru meira. Hér eru tveir fyrstu formenn félagsins, Haukur Már Haraldsson og Heimir Br. Jóhannsson við inngang smiðjunnar undir skilti Prentsöguseturs.

Fyrir um það bil mánuði skruppu nokkur úr stjórn Prentsöguseturs austur í Skálholt, skoðuðu aðstæður undir leiðsögn Kristjáns Björnssonar vígslubiskups og ræddum við hann um hugsanlega samvinnu Pss og Skálholtsstaðar. Þær samræður voru sérlega jákvæðar og vingjarnlegar. Í ljós kom mikill áhugi sr. Kristjáns á málefninu og í framhaldi af því skrifaði formaður Prentsöguseturs, Heimir Br. Jóhannsson formleg bréf til Skálholtsfélagsins og vígslubiskupsins. Nú er árangurinn kominn í ljós.
Á lokadegi Skálholthátíðar  21. júlí sl., kynnti sr. Kristján Björnsson vígslubiskup formlega vilja biskupsstóls, Skálholtsstaðar, til samvinnu við Prentsögusetur. Setrið verður með aðstöðu í fjósinu, sem nú er laust til starfsemi eftir að kúabúskapur var lagður þar niður. Þetta eru mjög merk tíðindi og fagnaðarefni fyrir okkur sem unnið höfum að framgangi Prentsöguseturs. Þeir Haukur Már Haraldsson, Svanur Jóhannesson og Þorsteinn Veturliðason mættu til fundarins fyrir hönd stjórnar Prentsöguseturs. Nú er bara að bretta upp ermar og láta drauminn rætast. Fjósið í Skálholti, þar sem Oddur Gottskálksson kúldraðist og þýddi Nýja testamentið á íslensku við ylinn frá kúnum. Hvar ætti Prentsögusetur fremur heima?

Aðalfundur Prentsöguseturs var haldinn síðastliðinn laugardag. Formaður sagði frá framkvæmdum um fyrirhugaða sýningu á Laugavegi 29 og las upp yfirlit yfr helstu vélar og tæki sem þar eru og er verið að koma fyrir. Ennfremur hafa safninu borist margar góðar gjafir. Fjárhagsleg staða félagsins er góð og voru reikningar samþykktir samhljóða. Einnig smávægilegar lagabreytingar. Félagsgjöld verða óbreytt eða kr. 3000. Formaðurinn. Heimir Br. Jóhannsson, var endurkosinn og í stjórn voru þessi kosin: Svanur Jóhannesson, Sófus Guðjónsson, Katrín Jónsdóttir, Haukur Már Haraldsson, Hjörtur Guðnason og Þorsteinn Veturliðason.

Aðalfundur Prentsöguseturs 2019 verður haldinn laugardaginn 4. maí nk. kl. 13.00.
Fundurinn fer fram í matsal á 1. hæð, Stórhöfða 31, Grafarvogsmegin.

Dagskrá samkvæmt félagslögum:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til afgreiðslu
4. Lagabreytingar
5. Ákvörðun félagsgjalds
6. Kosning formanns
7. Kosning fjögurra annarra stjórnarmanna og tveggja til vara
8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
9. Önnur mál

* Guðmundur Oddur Guðmundsson, GODDUR, heldur erindi og myndasýningu um Sigmund Guðmundsson prentlistamann, en nú er yfirstandandi sýning á prentgripum hans í Þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík.

Athygli er vakin á eftirfarandi lið 8. greinar laga Prentsöguseturs:
„Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist til stjórnar eigi síðar en viku fyrir aðalfund.“

F.h. stjórnar Prentsöguseturs.

Heimir Br. Jóhannsson, formaður

Eins og fram kemur í fundargerð stjórnarfundar Prentsöguseturs frá 9. október hef ég vikið til hliðar sem formaður Prentsöguseturs. Ástæðan er sú, að ég hef tekið að mér ansi tímafrekt verkefni sem gæti þar að auki orðið til þess að ég gæti þurft að dvelja nokkuð erlendis. Um er að ræða bókarskrif, sem ég ætla þó ekki að fara nánar út í hér.

Rétt er að taka fram að hér er ekki um að ræða skilnað minn og Prentsöguseturs. Hreint ekki. Ég hef sagt stjórnarmönnum að til mín megi leita ef lítið liggur við. En ég vil ekki þjást af samviskubiti vegna aðgerðarleysis sem leiðir af öðru verkefni.

Við starfi formanns tekur Heimir Br. Jóhannsson, sem verið hefur varaformaður Prentsöguseturs frá stofnun og Sófus Guðjónsson úr varastjórn félagsins tekur sæti varaformanns.

Stjórninni óska ég allra heilla í starfi sínu.

Haukur Már Haraldsson.

Mættir: Haukur Már Haraldsson, Heimir Br. Jóhannsson, Baldvin Heimisson, Þórleifur Friðriksson, og Þóra Elfa Björnsson.  Svanur Jóhannesson og Sófus Guðjónsson voru fjarverandi.

 

 1. Haukur Már óskaði eftir að stíga til hliðar sem formaður félagsins þar sem hann hefði tekið að sér tímafrekt verkefni sem hefði í för með sér dvöl erlendis um tíma. Að auki þætti honum sem hann hefði ekki sinnt félaginu sem skyldi að undanförnu. Þórleifur sagði afleitt að hann færi úr stjórninni og spurði hvort HMH gæti ekki bara frestað formennsku um sinn? HMH taldi nokkur tormerki á því, skilvirkara væri að aðrir bæru baggann. Nokkur umræða um þetta og þarf að ræða endanlega á öðrum fundi þar sem tvo stjórnarmenn vantaði á þennan stjórnarfund.

 

 1. Heimir sagði búið að flytja dót af efri hæð í prentsmiðju hans og verið væri að losa kjallarann. Þrýsti á að félagið geri leigusamning um húsnæðið vegna sýningarhalds. Nokkur umræða um framkvæmd, t.d. hversu háa leigu félagið þyrfti að greiða, hver mun gæta sýningarinnar, hver greiðir laun og hverjum ? Opnunartími? Aðstaða, skráning muna og saga þeirra? Ekki kom út úr þessu endanleg niðurstaða.

 

 1. Þórleifur sagðist hafa á ferðalagi erlendis fyrir stuttu kynnst sveitarstjórnarmanni í Árborg sem sýndi prentsögusetri áhuga og vildi vita meira, t.d. um stærð sýningarsvæðis, hvort hægt væri að spinna slíkt saman við Bókabæina austanfjalls o.fl. Samþykkt að Þórleifur hafi samband við þennan aðila og athugi flöt á málinu.

 

 1. Eftir nokkra umræðu var borin upp tillaga um að formaður víki í hálft ár og var það samþykkt. Við það munu Sófus eða Baldvin sem eru varamenn færast í aðalstjórn í varaformannssæti.

 

5). Önnur mál. Spjall og umræður um rekstur prentsýningar og fleira slíku tengt.

 

Fleira ekki skráð.

 

Þóra Elfa Björnsson skráði.

 

Fundurinn var haldinn að Stórhöfða 31. Fjórtán fundarmenn mættir

 

DAGSKRÁ

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Skýrsla stjórnar lögðfram
 3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
 4. Lagabreytingar
 5. Ákvörðun félagsgjalds
 6. Kosning formanns
 7. Kosning fjögurra annarra stjórnarmanna og tveggja til vara
 8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 9. Jens Halldórsson prentmyndasmiður segir frá vinnubrögðum, prentmyndastofum og fleira frá fyrri tíð
 10. Önnur mál.

 

1) Formaður setti fundinn sem er fjórði aðalfundur Prentsögusetursins. Hann stakk upp á Sæmundi Árnasyni sem fundarstjóra og Þóru Elfu Björnsson sem fundarritara og var það samþykkt.

2) Skýrsla stjórnar. Formaður, Haukur Már, sagði fjóra stjórnarfundi hafa verið haldna á árinu auk óformlegs spjalls og margra símtala, tölvupósta  o.fl.. Formaður hafði hitt Ísólf Gylfa Pálmason, sveitarstjóra á Hvolsvelli vegna hugmynda um að Prentsögusetur yrði opnað þar í samvinnu við fleiri atriði eða sýningar. Allt viðmót var jákvætt nema fé liggur ekki fyrir. Þá sagði formaður að Gónhóll á Eyrarbakka væri mjög líklega úr sögunni sem sýningarstaður en við munum geta geymt þar eitthvað áfram þá muni sem þegar eru þar í geymslu. Formaður og gjaldkeri höfðu setið fund með tveimur forráðamönnum Árborgar á Selfossi á dögunum, vegna hins nýja/gamla fyrirhugaða miðbæjar þar, með hugmynd um að Prentsögusetri með sýningu og lifandi vinnu væri ætlaður þar staður. Þetta er á fyrsta viðræðustigi, virðist þurfa all nokkurt fé, bæði til að koma í gang og til rekstursins. Félagið vantar meira geymsluhúsnæði meðan leitað er úrræða. Þá gat formaður þess að á  næstunni muni verða hægt að opna vísi að safni í Bókamiðstöð (prentsmiðju) Heimis Br. Jóhannsonar við Laugaveg með ýmsum munum úr rekstri Heimis. Þá þakkaði formaður samstarfið, einnig ábendingar og velvilja á árinu og minnti á vefsetur PSS.

3) Reikningar félagsins.  Gjaldkerinn, Svanur Jóhannesson, fór yfir helstu liði reikninga ársins 2017 sem höfðu verið yfirfarnir og samþykktir af endurskoðendum félagsins. Peningaeign í lok ársins er kr. 1.419.827. Reikningarnir voru bornir upp og samþykktir.

4) Svanur lýsti för sinni á kynningarfund með Leo Árnasyni og Guðjóni Arngrímssyni  á Selfossi þar sem unnið er með hugmynd um nýjan/gamlan miðbæ. Þar verða byggð hús í sömu mynd og önnur sem hafa eyðilagst í bruna eða af tímans tönn á ýmsum stöðum á landinu. Tryggður hefur verið reitur undir þennan kjarna húsa og verða þau leigð út til ýmis konar starfsemi. Lobby hótels var nefnt sem hugsanlegur sýningarstaður fyrir gamla prentsýningu. Spurt var úr sal hvort hægt yrði að bjóða upp á prentsmiðjurekstur samhliða sýningu og var svara það væri allt í athugun. Heimir sagði þetta gott og gilt en aðsókn yrði örugglega alltaf best ef stofnunin væri í Reykjavík. Ný stjórn félgsins mun funda um þessi mál og fleiri í sama tilgangi.

5) Lagabreytingar. Engar lagabreytingatillögur höfðu borist.

7) Félagsgjald. Samþykkt var að gjaldið verði óbreytt eða kr. 3000.

8) Kjör formanns. Ekki kom mótframboð við sitjandi formann og var Haukur Már Haraldsson klappaður í embættið.

9) Kosning fjögurra annarra stjórnarmanna og tveggja til vara. Bjargey Gígja Gísladóttir gaf ekki kost á sér áfram en stungið var upp á Sófusi Guðjónssyni, ekki voru aðrar breytingar og var þetta samþykkt.

10) Skoðunarmenn reikninga voru klappaðir til áframhaldandi starfa.

11) Jens Halldórsson prentmyndasmiðursagði af starfinu í faginu, ýmsum tækjum og aðferðum, ógleymdum vinnufélögum og minnisstæðum samferðamönnum og var þetta lifandi og skemmtileg frásögn.

Önnur mál  a) Guðmundur Oddur, prófessor við LHÍ, er var gestur á fundinum bað um orðið, sagðist vera að safna fróðleik um sögu fjölföldunar á Íslandi, hefði fengið ríflegan styrk til þess og væri nú að spýta í lófana. Sagði vanta þætti um sögu prentunar frá því hún fluttist úr Viðey, sagðist gjarnan vilja koma á fund hjá félaginu og segja frá og fræðast á móti.

Þá þakkaði formaður gestum góða fundarsetu og sleit fundi.

 

Ritari: Þóra Elfa Björnsson

 

 

Á aðalfundi Prentsöguseturs 18. mars í fyrra var kjörin fimm manna stjórn félagsins og tveir í varastjórn. Sá sem hér stendur, Haukur Már Haraldsson, var kosinn formaður í sérstakri kosningu og þau Heimir Jóhannesson varaformaður, Þóra Elfa Björnsson ritari, Svanur Jóhannesson gjaldkeri og Þórleifur V. Friðriksson meðstjórnandi. Þau Bjargey Gígja Gísladóttir og Baldvin Heimisson voru kosin í varastjórn.

Þá voru þeir Ólafur Stoltsenwald og Simon Knight kjörnir skoðunarmenn reikninga.

Sú vinnuregla hefur tíðkast að varamenn í srjórn eru boðaðir á stjórnarfundi.

 

Fundir

Frá síðasta aðalfundi hafa verið haldnir fjórir stjórnarfundir. Samskipti stjórnarmanna hafa þó verið mun meiri. Við ræðum mikið saman í síma, ráðum ráðum okkar yfir kaffibolla með fólki sem við höldum að geti ráðið okkur heilt eða við spjöllum saman með netpósti.

Sem dæmi má nefna að ég átti fund með sveitarstjóranum á Hvolsvelli, Ísleifi Gylfa Pálmasyni í endaðan júní um hugsanlega aðkomu Prentsöguseturs í það safnaumhverfi sem hefur þróast þar á staðnum. Eiginlega má segja að sveitarstjórinn hafi boðið mér í opinbera heimsókn á Hvolsvöll, þar sem hann kynnti sýndi mér starfseminni og kynnti mig fyrir öllum safnstjórum á staðnum. Hann var reyndar býsna jákvæður í garð hugsanlegs samstarfs. Hvolsvöllur er þó í það lengsta frá höfuðborgarsvæðinu fyrir minn smekk, en ég tel þó að við verðum að hafa augun opin fyrir öllum möguleikum sem upp kunna að koma. Ekki síst þar sem ljóst virðist vera að hugmyndin um setrið á Eyrarbakka virðast úr sögunni í upprunalegri mynd.

Rétt er þó að ítreka það hér að við höfum verið fullvissuð um að þau tæki sem eru í geymslu í Gónhóli á Eyrarbakka séu og verði örugg og megi vera í húsnæðinu þar eftir okkar þörfum.

Þá má einnig nefna að við Svanur Jóhannesson gjaldkeri fórum á fimmtudaginn á fund með tveimur af forystufólki Árborgar á Selfossi, þeim Ástu og Kristjáni. Þar ræddum við um möguleika Prentsöguseturs á aðstöðu í nýjum gömlum miðbæ Selfoss, sem framkvæmdir hefjast við í næsta mánuði. Á fundinum kom fram að uppbyggingin sú byggist á fjárhagslegum bakhjörlum þeirra sem þar verða gjaldgengir. Ég tel reyndar að ástæða sé til að skoða þetta mál betur og þá jafnvel í samstarfi við t.d. Samtök iðnaðarins, Menntamálaráðuneytið og jafnvel skoða hvort stærstu prentsmiðjur landsins væru hugsanlega til í að stofna formlegan fjárhagslegan bakhjarl Prentsöguseturs í þessu skyni.

 

Húsnæðismálin

eru satt að segja mjög erfið. Okkur vantar ekki tæki, þeim fjölgar í sífellu og nú er svo komið að við erum að verða uppiskroppa með geymslurými. Til að geta þegið þau tæki sem okkur er sífellt að bjóðast tókum við á leigu bílskúr við Rósarima í Grafarvogi og hann er að fyllast. En það er ljóst að við getum ekki bætt við okkur leiguhúsnæði. Höfum ekki efni á því.

Þannig að það er ljóst að húsnæðismálin eru það sem við verðum að leggja aukna áherslu á í komandi framtíð. Þau hafa vissulega verið efst á blaði hingað til, en betur má ef duga skal.

Um nokkurt skeið hefur verið til umræðu í stjórn Prentsöguseturs að opna eins konar mini-safn í húsnæði Bókamiðstöðvarinnar við Laugaveg, þar sem Heimir, varaformaður okkar, hefur safnað gömlum vélum og tækjum. Stefnt er að því að það verði opnað í byrjun sumars. Þetta er sérstakt fagnaðarefni.

 

Vefsvæðið

Að lokum er ástæða til að minna á vefsvæði Prentsöguseturs, www.prentsögusetur.is. Og ekki síður að þakka Páli Svanssyni fyrir hans vinnu í þágu hans. Eins og þig flest vitið er þar rakin prentsaga Íslands, hér á landi og erlendis, þ.e.a.s. þær prentsmiðjur sem helst prentuðu fyrir Íslendinga. Einnig einstök fyrirtæki frá upphafi til 21. aldar.

Ég vil þakka hér í lokin meðstjórnarmönnum mínum samstarfið á liðnum árum. Mikill samhugur hefur verið innan þessa hóps og áhuginn á málefninu ómældur.

Á sama hátt er ástæða til að þakka þann áhuga sem félagsmenn – og reyndar einstaklingar utan þess – hafa sýnt Prentsögusetri, með símhringingum, ábendingum um tæki og fyrirspurnum.

 

Aðalfundur Prentsöguseturs 2018 verður haldinn laugardaginn 10. mars nk. kl. 13:00.
Fundurinn fer fram í matsal á 1. hæð, Stórhöfða 31, Grafarvogsmegin.

Dagskrá samkvæmt lögum félagsins:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Skýrsla stjórnar lögð fram
 3. Reikningar lagðir fram til afgreiðslu
 4. Lagabreytingar
 5. Ákvörðun félagsgjalds
 6. Kosning formanns
 7. Kosning fjögurra annarra stjórnarmanna og tveggja til vara
 8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 9. Önnur mál

Athygli er vakin á eftirfarandi lið 8. greinar laga Prentsöguseturs:
„Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist til stjórnar eigi síðar en viku fyrir aðalfund.“

Fh. stjórnar Prentsöguseturs.
Haukur Már Haraldsson, formaður