AÐALFUNDUR PRENTSÖGUSETURS
árið 2023 verður haldinn í Húsi fagfélaganna Stórhöfða 31, Reykjavík, Grafarvogsmegin, fimmtudaginn 23. mars nk. kl. 16.30.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf skv. 8. grein laga félagsins.

Athygli er vakin á að tillögur um lagabreytingar þurfa að hafa borist stjórn félagsins í síðasta lagi viku fyrir aðalfund.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á fundinn.

Stjórn Prentsöguseturs

Aðalfundur Prentsöguseturs var haldinn miðvikudaginn 23. mars sl. í Húsi félaganna, að Stórhöfða 31. Aðalfundarstörf voru hefðbundin, samkvæmt lögum félagsins. Á fundinum var kjörinn heiðursfélagi Prentsöguseturs, Þóra Elfa Björnsson, setjari.

Boðað er til aðalfundar Prentsöguseturs miðvikudaginn 23. mars kl. 16.00 að Stórhöfða 31, 110 Reykjavík.

Dagskrá samkvæmt 8. grein laga félagsins.

Vakin er athygli á því að tillögur til lagabreytinga þurfa að hafa borist til stjórnar eigi síðar en viku fyrir aðalfund.

Stjórn Prentsöguseturs

10. júní sl. var Prentsögusetri veittur einnar milljón króna styrkur úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra. Markmið sjóðsins er að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf. Alls bárust 29 umsóknir í ár og hlutu þrjú verkefni styrk úr sjóðnum.

Prentsögusetur hlaut eina milljón króna fyrir verkefnið „Þróun bókagerðar á Íslandi 1535-1877.“ Verkefnið felst í sýningu á tækjum til bókagerðar; setning, prentun, bókband. Sýnd verða smærri tæki á sýningarstað, en á myndum, teikningum og hreyfimyndum verður gerð grein fyrir þróuninni. Skálholtsstaður og Prentsögusetur vinna sameiginlega að þessu verkefni og gert er ráð fyrir að fyrsti hluti safnsins verði tilbúinn til sýninga síðar á þessu ári.

Aðrir styrkþegar voru Skáldaskinna ehf og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir.

Skáldaskinna ehf. hlaut 1,6 milljóna króna styrk fyrir verkefnið skáld.is. Vefurinn Skáld.is er tileinkaður konum og skrifum þeirra en hann var settur á laggirnar árið 2015 og opnaður almenningi árið 2017. Tilgangurinn er að safna saman upplýsingum um íslenskar kvennabókmenntir á einn stað og halda þar utan um ævi og verk íslenskra skáldkvenna og rithöfunda. Ennfremur er lögð áhersla á að halda úti lifandi umræðu og umfjöllun um samtímabókmenntir, útgáfu og viðburði tengda íslenskum kvennabókmenntum.

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir hlaut 1,4 milljóna króna styrk fyrir verkefnið „Blómaskeið íslenska tangósins á 20. öldinni.“ Verkefnið felst í að skrásetja einstakt blómaskeið í tónsmíðum á Íslandi þar sem viðfangsefnið voru tangóar, en skeiðið hófst á árunum eftir seinni heimsstyrjöld og varði fram á seinni hluta 20. aldar. Þessi þáttur íslenskrar tónlistarhefðar er menningararfleifð sem vert er að halda utanum og veita verðskuldaða athygli með nýjum útsetningum og aukinni spilun.
Úthlutunarnefndina skipa Hildur Traustadóttir, fulltrúi bankaráðs Seðlabanka Íslands, og er hún jafnframt formaður nefndarinnar, Páll Magnússon, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Aðalfundur Prentsöguseturs var haldinn fimmtudaginn 6. maí sl. Hér á eftir er að finna skýrslu formanns, reikninga félagsins og fundargerð aðalfundar. Einnig nokkrar myndir sem Grímur Kolbeinsson tók á fundinum.

Fréttabréf og útgáfa Prentsöguseturs1. tbl - 1. árg.

Október 20201. tbl - 2. árg.

Apríl 20211. tbl - 3. árg.

Ágúst 20221. tbl - 4. árg.

Mars 2023Prentsögusetur

2003 – ritgerð í Háskóla Íslands. Menningartengd ferðaþjónusta.

Mennta- og menningarráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir tilkynnti Prentsögusetri með pósti dags. 22. desember sl. að ráðuneytið hefði ákveðið að veita félaginu myndarlegan styrk til að ganga frá húsnæði þess í Gestastofu Skálholts. Þessi styrkur gerir það að verkum að nú er hægt að hefjast handa við framkvæmdir á staðnum. Til þess að undirbúa þær framkvæmdir mætti sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup staðarins, á fund með stjórn Prentsöguseturs 14. janúar sl. til skrafs og ráðagerða.

Auk þessa hefur félagið einnig fengið góðan styrk frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi til að hefja hönnun sýningar í Gestastofu, frá Seðlabankanum til stuðnings Gömlu prentsmiðjunni og Kaupfélagi Skagafjarðar til starfsemi sinnar.

Ástæða er til að þakka þessum aðilum rausnarskapinn. Þetta þýðir að Prentsögusetur getur hafist handa við að koma upp aðstöðu fyrir starfsemi sína.

Myndina sem hér fylgir tók Grímur Kolbeinsson, ritari Pss, á stjórnarfundinum í gær. Frá vinstri: Tryggvi Þór Agnarsson gjaldkeri, við borðsendann Haukur Már Haraldsson formaður, þá sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti og Hjörtur Guðnason varaformaður Pss.

Á aðalfundi Prentsöguseturs 4. júní sl. voru tveir af helstu frumherjum félagsins kjörnir heiðursfélagar þess; Heimir Brynjúlfur Jóhannsson prentari og prentsmiðjustjóri og Svanur Jóhannesson bókbindari. Það var svo fyrst þann 29. ágúst sl. að þeir fengu heiðursskjölin afhent í skemmtilegri veislu í Miðdal, Laugardal. Þar komu saman nokkrir núverandi og fyrrverandi stjórnarliðar ásamt nokkrum mökum og snæddu dýrindis margrétta málsverð sem Baldvin Heimisson setjari sá um að elda. Hann er vel að merkja með ráðherrabréf sem matsveinn.

Það er ekki á neinn hallað þótt því sé haldið fram að tvímenningarnir Svanur og Heimir eigi einna stærstan þátt í að Prentsögusetur var stofnað, komst á fót ef svo má segja. Báðir hafa verið haldnir þeirri ástríðu að safna gömlum tækjum, halda til haga því sem tæknilega verður „úrelt“ en geymir sögu þróunarinnar þótt ný þrep í þróunarsögunni komi til. Heimir lagði t.d. Prentsögusetri til prentsmiðjuna sína, sem hann hafði starfrækt um áratugaskeið og gengur nú undir nafninu Gamla prentsmiðjan, í Brynjuportinu að Laugavegi 29B. Þar er elsta prentvélin frá árinu 1903 og myndi ganga enn ef henni væri stungið í samband.

Við áhugamenn um varðveislu prentsögunnar eigum því þessum tveimur heiðursmönnum skuld að gjalda. Kosning þeirra sem heiðursfélaga er lítill þakklætisvottur fyrir frábært starf.

Myndirnar sem hér birtast tók Tryggvi Þór Agnarsson, gjaldkeri Prentsöguseturs.