Rausnarlegir styrkir til Prentsöguseturs

Mennta- og menningarráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir tilkynnti Prentsögusetri með pósti dags. 22. desember sl. að ráðuneytið hefði ákveðið að veita félaginu myndarlegan styrk til að ganga frá húsnæði þess í Gestastofu Skálholts. Þessi styrkur gerir það að verkum að nú er hægt að hefjast handa við framkvæmdir á staðnum. Til þess að undirbúa þær framkvæmdir mætti sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup staðarins, á fund með stjórn Prentsöguseturs 14. janúar sl. til skrafs og ráðagerða.

Auk þessa hefur félagið einnig fengið góðan styrk frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi til að hefja hönnun sýningar í Gestastofu, frá Seðlabankanum til stuðnings Gömlu prentsmiðjunni og Kaupfélagi Skagafjarðar til starfsemi sinnar.

Ástæða er til að þakka þessum aðilum rausnarskapinn. Þetta þýðir að Prentsögusetur getur hafist handa við að koma upp aðstöðu fyrir starfsemi sína.

Myndina sem hér fylgir tók Grímur Kolbeinsson, ritari Pss, á stjórnarfundinum í gær. Frá vinstri: Tryggvi Þór Agnarsson gjaldkeri, við borðsendann Haukur Már Haraldsson formaður, þá sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti og Hjörtur Guðnason varaformaður Pss.