Prentstofa Vilhelms Stefánssonar
Vestmannaeyjum 1933–1934
Vilhelm Stefánsson (1891–1954) prentari stofnaði prentstofu í Vestmannaeyjum snemma árs 1933. Vilhelm hóf nám í prentun í Félagsprentsmiðjunni í Reykjavík 1906 og vann þar svo áfram og í fleiri prentsmiðjum til 1927. Þá stofnaði hann Hólaprentsmiðju í Reykjavík ásamt Guðmundi J. Guðmundssyni (1899–1959) prentara og ráku þeir hana saman til ársins 1928. Þá seldu þeir prentsmiðjuna til Hafnarfjarðar og Guðmundur fór þangað en Vilhelm flutti til Vestmannaeyja.
Í Stéttartali bókagerðarmanna (1997) er sagt að hann hafi verið yfirprentari í Vestmannaeyjum 1929–1934. Öllum heimildum ber líka saman um að Vilhelm hafi verið prentari í Eyjum þessi ár. Hann hefur því að líkindum fyrst verið í Prentsmiðju Gísla J. Johnsen eða í Prentsmiðju Vestmannabraut 30 hjá Ólafi Magnússyni eftir að hann tók hana á leigu og svo áfram í Prentsmiðju Víðis og í Eyjaprentsmiðjunni hf eftir að hún var stofnuð í lok ársins 1930.
Það er til nokkuð greinargóð lýsing á því hvernig prentstofa Vilhelms varð til í ritgerð Jóh. Gunnars Ólafssonar sem birtist í Helgakveri (1976). Þar segir: „Hann var prentari hjá Eyjaprentsmiðjunni hf., en fór þaðan í fússi í marsmánuði 1932. Þá hætti Víðir að koma út, og varð alllangt hlé á útgáfu hans.“. Það kemur líka fram í greininni að hann tók með sér handpressu og nokkuð af letri. Tæki og tól voru því af skornum skammti og hann gat aðeins sinnt smáprenti. Það er hægt að tímasetja þetta nokkru nánar því síðasta blað Víðis kom út 19. mars 1932. Blaðið kom svo ekki út aftur fyrr en eftir tæpt ár eða 24. febrúar 1933, þegar Magnús Jónsson tók við ritstjórn þess.
Prentstofu Vilhelms Stefánssonar var komið fyrir í skúr við suðurgafl Þingholts, neðst við Kirkjuveg. Þingholt stóð við Heimagötu 2a, en var alltaf skráð við Kirkjuveg 5. Það var eitt af þeim húsum sem fór undir hraun í eldgosinu 1973.
Eins og fyrr segir þá byrjaði Vilhelm ekki starfsemi sína fyrr en snemma árs 1933 og það fyrsta sem vitað er til að hann hafi prentað er Erfiljóð eftir Hallfreð (Höf. Magnús Jónsson) um Guðrúnu Þ. Jónsdóttur, sem andaðist 5. febrúar 1933.
Ennfremur voru þarna prentaðir tveir litlir pésar sem vitað er um: Frá tanga að tindastól eftir Ísleif Högnason, 20 bls. og kápa, sem kom út um miðjan júní 1933, (aðeins 4 eintök til í söfnum) og Ölgræðgi ráðgjafanna. Smásaga úr Vestmannaeyjum, 16 bls., kostnaðarmaður og (höfundur) var H.(araldur) Sigurðsson. [1933]. — 2. útg. aukin og endurbætt kom út stuttu seinna eftir að hin seldist upp. (aðeins 2 eintök til í söfnum).
Vilhelm Stefánsson flutti síðan frá Vestmannaeyjum og var stuttan tíma í Hafnarfirði en síðan (frá 1935) vann hann lengi í Félagsprentsmiðjunni og síðustu árin var hann verkstjóri í Ísafoldarprentsmiðju.
Kassagerð Reykjavíkur
Reykjavík 1932–2001
Kassagerð Reykjavíkur var stofnuð árið 1932 og var fyrsta umbúðafyrirtækið á Íslandi. Stofnendur voru trésmiðirnir Kristján Jóhann Kristjánsson (1893–1969) og Vilhjálmur Bjarnason, en seinna urðu afkomendur Kristjáns eigendur þess. Agnar (1925–1988) sonur hans var lengi forstjóri og síðan synir hans Leifur (1948–2001) og Kristján Jóhann (1946–2002). Gunnar Árnason (1912–1983) var tæknilegur framkvæmdastjóri um skeið en hann kom inn í fyrirtækið með litla öskjugerð sem hét Askja sem hann átti ásamt fleirum.
Kassagerð Reykjavíkur var fyrst til húsa á horni Vitastígs og Skúlagötu en flutti seinna inn á Kleppsveg. Kassagerð Reykjavíkur og Umbúðamiðstöðin sameinuðust árið 2000 undir nafninu Kassagerðin hf. en Prentsmiðjan Oddi eignaðist síðan Kassagerðina að fullu árið 2001.
Fjölritun Finnboga Jónssonar
Akureyri 1932–1947
Finnbogi Jónsson (1904–1964) póstmaður starfrækti fjölritunarstofu á Akureyri um skeið jafnframt vinnu sinni hjá póstinum. Það sem hann fjölritaði voru aðallega nótur. Finnbogi var ættaður úr Húnavatnssýslu en í Íslendingabók er hann sagður póstur á Akureyri 1930. Í nafnlausu handriti úr gögnum Björgvins Guðmundssonar tónskálds um starfsemi Kantötukórs Akureyrar er sagt að Finnbogi hafi fjölritað allar nótur fyrir kórinn 1932–1933 og í frásögninni árið eftir er hans getið sem nýliða í tenórhópi kórsins.
Í Símaskránni 1939 er Finnbogi skráður á Oddeyrargötu 19 á Akureyri og er sagður póstþjónn, en í skránni 1947–1948 er hann til heimilis að Ægisgötu 11 og þá titlaður póstfulltrúi. Ýmislegt fleira fjölritaði Finnbogi m.a.: Nótur við lög Björgvins Guðmundssonar, Tvö prelúdíum 1932, Jónsmessunótt við ljóð Ingveldar Einarsdóttur 1932, Framleiðsluvörur KEA og SÍS með teikningum Jörundar Pálssonar 1935, Sálmasöngsbók (viðbætir) sem þeir söfnuðu og bjuggu undir prentun, Björgvin Guðmundsson, Páll Ísólfsson og Sigurður Birkis og Kirkjuráð Íslands gaf út 1946 og bókina Landshlutar og merkisstaðir eftir Steindór Steindórsson frá Hlöðum 1947.
Á seinni árum ævi sinnar flutti Finnbogi Jónsson á suðvesturhorn landsins og gerðist póstmeistari í Hafnarfirði en þar mun hann ekki hafa stundað fjölritun svo vitað sé.
Ríkisprentsmiðjan Gutenberg
Reykjavík 1930–1992
Prentsmiðjan Gutenberg í Þingholtsstræti 6 var hlutafélag sem stofnað var af prenturum árið 1904. Ríkissjóður Íslands keypti síðan fyrirtækið, bæði húseign, vélar og tæki árið 1929 og tók Ríkisprentsmiðjan Gutenberg til starfa í byrjun árs 1930. Fyrsti forstjóri prentsmiðjunnar eftir að ríkið keypti hana var Steingrímur Guðmundsson (1891–1981) sem var prentlærður maður og hafði unnið í mörg ár við prentun í Danmörku, meðal annars í prentsmiðju Gyldendals, áður en hann tók við nýja starfinu.
Starfsmenn Gutenbergs voru um 40 talsins á þessum árum, en þegar fyrirtækið flutti í ný húsakynni í Síðumúla árið 1975 hafði þeim fjölgað um helming. Gutenberg prentaði mest fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir, en líka fyrir félög og einstaklinga, t.d. biblíuþýðingu Haraldar Níelssonar, Orðabók Sigfúsar Blöndals, skýrslur Hagstofunnar og útgáfu Fornritafélagsins.
Prentsmiðjan var gerð að hlutafélagi 1991 og síðan seld Steindórsprenti árið eftir og nafninu breytt í Steindórsprent-Gutenberg. Prentsmiðjan Oddi keypti síðan þá prentsmiðju aldamótaárið 2000.
Eyjaprentsmiðjan hf.
Vestmannaeyjum 1930–1945
Í lok ársins 1930 keyptu nokkrir menn úr Sjálfstæðisflokknum Prentsmiðju Gísla J. Johnsens af þrotabúi hans og jafnframt Prentsmiðju Vikunnar af Steindóri Sigurðssyni prentara. Varð þá til Eyjaprentsmiðjan hf. — Þar var prentuð ljóðabók Steindórs Sigurðssonar, Skóhljóð og var hún fyrsta bókin sem prentuð var í Vestmannaeyjum. Steindór fluttist um þetta leyti til Noregs til þess að verða rithöfundur á norska tungu.
Fyrsta blaðið af Víði, sem merkt var Eyjaprentsmiðjunni hf var prentað þar 13. desember 1930 og var þá Guðmundur Eggerz ritstjóri. Á miðju sumri 1931 tók Sigurður S. Scheving við og ritstýrði blaðinu til 19. mars 1932. Þá varð um árshlé á útgáfunni, en Magnús Jónsson (1875–1946) á Sólvangi gerðist þá ritstjóri, 23. febrúar 1933, og var hann lengst ritstjóri blaðsins. Hann var faðir Ólafs sem stofnaði Víði 1928 og hélt uppi merki sonarins. Margir fleiri voru ritstjórar Víðis m.a. Einar Sigurðsson (1906–1977) ríki, útgerðarmaður, en alls komu út 25 árgangar af blaðinu. Mörg fleiri blöð en Víðir voru prentuð í Eyjaprentsmiðjunni, þótt það blað væri þar ávallt burðarásinn. Má þar nefna t.d. blaðið Hamar, en ritstjóri og eigandi þess var Guðlaugur Br. Jónsson (1895–1966), en hann hafði að einkunnarorðum „Menning, frelsi og réttlæti“. Það komu þó aðeins 9 tbl. út af því blaði.
Magnús Jónsson var eigandi Víðis, en prentsmiðjan var í raun eign Sjálfstæðisflokksins, eða einstaklinga í honum. Útgáfan tók fjörkipp um hverjar kosningar, en aldrei kom til mála að prenta blöð fyrir aðra flokka. Árið 1934 var prentsmiðjan flutt frá Vestmannabraut 30 í Dagsbrúnarfjósið, sem Gunnar Ólafsson (1864–1961) kaupmaður hafði látið betrumbæta, en hann var þá orðinn eigandi Dagsbrúnar. Þorsteinn Einarsson (1911–2001) kennari við Gagnfræðaskólann, varð þá framkvæmdastjóri fyrirtækisins og keypti hann m.a. nýtt letur og tæki til smáprents. Það var alltaf eitthvað um smáprent að ræða á milli þess sem blöðin komu út. Eyjaprentsmiðjan var nú rekin þangað til á miðju sumri 1939 og var síðasta blað Víðis sem þar var prentað dags. 5. júlí 1939. Hann var síðan prentaður í ýmsum prentsmiðjum í Reykjavík.
Árið 1941 keypti Ingólfur Guðjónsson (1917–1996) prentari frá Oddsstöðum prentsmiðjuna, og keypti hann þá fyrstu setjaravélina sem kom til Vestmannaeyja. Hún var af þýskri gerð og hét Typograph. Þá var aftur byrjað að prenta Víði í Eyjaprentsmiðjunni og var það 23. maí 1941. En þetta sama ár keypti Samkomuhúsið prentsmiðjuna og var hún þá flutt í kjallara Nýja-Bíós við Vestmannabraut. Þar var hún rekin þangað til í júní 1945 og var síðasta tölublað Víðis prentað þar 22. júní 1945 og þar með var lokið merkum áfanga í prentsögu Vestmannaeyja.
Prentsmiðja Geislans eða Prentsm. Ing. 19
Reykjavík 1929–
Upp úr hreyfingu Williams Millers (1782–1849) babtistaprests í Ameríku var Kirkja sjöunda dags aðventista stofnuð árið 1863. Kirkjan starfar nú í 209 löndum af þeim 236 sem skráð eru hjá Sameinuðu þjóðunum. Meðlimir eru um 14 milljónir í dag. Trú þeirra fjallar um spádóma kirkjunnar um endurkomu Jesú Krists.
Aðventistahreyfingin barst hingað til lands með sænska trúboðanum og prentaranum Davíð Östlund 1897. Hann keypti fyrst Aldar-prentsmiðju Jóns Ólafssonar 1899 en seldi hana aftur 1901. Þar byrjaði hann að prenta blaðið Frækorn og boðaði þar fagnaðarerindið, en upp frá því var prentsmiðja hans kölluð Prentsmiðja Frækorna. Fluttist hann þá til Seyðisfjarðar og keypti Prentsmiðju Bjarka og rak hana til 1904. Þá hvarf hann aftur til Reykjavíkur og setti þar upp Prentsmiðju Frækorna. Hún brann til kaldra kola 1910 en Davíð Östlund endurnýjaði hana og rak áfram til 1913. Hann fluttist síðan til Ameríku árið 1915.
Þá varð hlé á prentun hjá aðventistum til 1930. Þeir reistu Aðventkirkjuna í Ingólfsstræti 19 árið 1926 ásamt félagsheimili. Hún var teiknuð af sænska arkitektinum Valdemar Johansson (1883–1955). Síðan keyptu þeir prentvél frá Bandaríkjunum og var prentsmiðjan nefnd Prentsmiðja Geislans. Hún var líka nefnd Prentsmiðjan Ingólfsstræti 19 en yfirleitt stóð bara Prentsm. Ing. 19 á prentgripum þaðan. Prentsmiðjan var í kjallara kirkjunnar og var prentað þar nýtt blað aðventista sem hét Bræðrabandið. Þá kom út bókin Frá ræðustóli náttúrunnar eftir E.G. White, en hún var prentuð í Prentsmiðju Geislans 1929.
Magnús Helgason (1896–1976) frá Vestmannaeyjum sá um prentunina í fyrstu en hann var ekki faglærður. Þá var fenginn þangað útlendur maður að nafni Abrahamsen og var hann við prentun á fyrri helmingi síðustu aldar eða um miðja öldina. Englendingur að nafni Reg Burgess sá um prentunina í nokkur ár eftir 1960. Þórður Ingvi Sigurðsson (1930–1998) prentari vann þar oft í ígripum, en stöðugt frá apríl 1970 og til 1973. Þá var ráðinn þangað Sigurður Jóhann Þorsteinsson (1946–) prentari og vann hann þar frá 1973–1981. Á þessum árum var fengin ný stensil-fjölritunarvél í prentsmiðjuna en notuð ritvél til setningar í stað setningarvélar. Bræðrabandið kom út í 50 ár en þá var skipt um nafn á því og heitir það Aðventfréttir í dag. Þeir gáfu svo út fleiri blöð eins og Ljós og sannleikur 1935–1936, en það var líka stundum prentað í Herbertsprenti. Aðvent Æskan kom út 1948 og Viljinn — Blað Aðventæskunnar. Öll þessi blöð voru prentuð í Prentsm. Geislans eða Prentsm. Ing. 19. Starfsemin í Reykjavík var flutt um 1990 í nýtt húsnæði að Suðurhlíð 36.
Herbertsprent
Reykjavík 1929–1959
Herbert Sigmundsson (1883-1931) prentari stofnaði Herbertsprent 1929 og var það til húsa í Bankastræti 3, húsi sem faðir hans Sigmundur Guðmundsson prentari hafði byggt fyrir prentsmiðju sína árið 1880.
Eftir lát Herberts tók sonur hans Haukur við rekstri prentsmiðjunnar og var hann prentsmiðjustjóri frá 1931-1959. Hann gerðist síðan kaupsýslumaður.
Steinhús prentsmiðjunnar í Bankastræti hefur lengi verið eitt af kennileitum miðbæjar Reykjavíkur. Í auglýsingu í Tímariti iðnaðarmanna frá 1936, 5. tbl. stendur: Herbertsprent – Bankastræti 3 (næsta hús fyrir ofan Stjórnarráðið).
Prentsmiðja Víðis
Vestmannaeyjum 1929–1930
Eins og frá er sagt í skrifum mínum um Prentsmiðjuna Vestmannabraut 30 þá var nafni prentsmiðjunar breytt frá og með 6. tbl. Víðis, 21. desember 1929, og hún þá nefnd Prentsmiðja Víðis. Þetta var þó ekki einhlítt því ég er með undir höndum eintök af tímaritinu Blómið, sem Þorsteinn Þ. Víglundsson gaf út og 4. eintak þess sem var gefið út í október 1929 er sagt prentað í Prentsmiðju Víðis í Vestmannaeyjum.
Það hefur því verið eitthvað á reiki með prentsmiðjunafnið eins og Jóhann Gunnar Ólafsson segir líka í grein sinni í Helgakveri Rv. 1976. Þar stendur á bls. 90: „Meðan prentsmiðjan var í Viðey var hún ýmist nefnd Prentsmiðjan Vestmannabraut 30, Prentsmiðja Víðis eða Eyjaprentsmiðjan og síðan Eyjaprentsmiðjan hf.“. Hér mætti líka bæta við nafninu Víðisprentsmiðjan, en það var hún nefnd í blaðinu Víði frá 12. júlí 1930 til 29. nóvember 1930.
Þetta tímabil í sögu prentsmiðjunnar varir ekki nema í tæpt ár, en það verða ýmsar afdrifaríkar breytingar. Ólafur Magnússon hættir sem ritstjóri Víðis í lok febrúar 1930, en 4. nóvember þetta ár lést hann á Vífilsstaðahæli. Við ritstjórastarfinu tók Guðmundur Eggerz (1873–1957) fyrrverandi alþingismaður. Um sama leyti er smáfrétt í blaðinu Víði, þar sem sagt er frá því að Gísli J. Johnsen konsúll hafi framselt bú sitt til gjaldþrotaskipta.
Í grein Jóh. G. Ólafssonar í Helgakveri segir síðan á bls. 90: „Í lok ársins 1930 höfðu nokkrir menn keypt prentsmiðjuna af þrotabúi Gísla J. Johnsens og stofnuðu um hana hlutafélag, sem þó var ekki skrásett fyrr en 5. október 1932. Um sömu mundir keyptu þeir Prentsmiðju Vikunnar af Steindóri Sigurðssyni prentara, og steyptu þessum prentsmiðjum saman.“ Með þessum kaupum var nú hringnum lokað. Báðar stofnprentsmiðjurnar í Eyjum, Prentsmiðja Vestmannaeyja, sem Gísli J. Johnsen keypti 1917 og Prentsmiðja Guðjónsbræðra, sem Guðjón Ó. Guðjónsson kom með til Vestmannaeyja 1926 voru nú sameinaðar, þ.e.a.s. eldri hluti prentsmiðju Guðjóns Ó. Hinn hlutinn fór til Hólaprentsmiðjunnar í Reykjavík.
Við vitum ekki hverjir þessir „nokkrir menn“ voru, sem sameinuðu prentsmiðjurnar, nema það, að þarna voru sjálfstæðismenn að verki, sbr. grein Jóh. G. Ólafssonar á bls 94 í Helgakveri, en þeir eru ekki nafngreindir. Þetta varð til þess að nú þurftu „kommarnir“ að fara upp á land til að fá prentun sinna blaða eða að taka upp fjölritun á ný.
Prentsmiðja Jóns Helgasonar
Reykjavík 1928–1960
Jón Helgason (1877-1961) prentari var áður búinn að koma talsvert við sögu. Hann rak fyrst Prentsmiðju Hafnarfjarðar, fluttist síðan með hana til Eyrarbakka og kom á fót Prentsmiðju Suðurlands. Þá stofnaði hann Prentsmiðju Ljósberans (Jesúprent) 1925 og var hún til húsa að Bergstaðastræti 27. Árið 1928 breytti svo Jón nafni hennar í Prentsmiðju Jóns Helgasonar og rak hana til 1952, að Baldur sonur hans tók við rekstrinum þar til prentsmiðjan var seld árið 1960.
Prentsmiðja Ásgeirs Guðmundssonar
Reykjavík 1928–1934
Ásgeir Guðmundsson (1893-1975) prentari hóf prentnám í Prentsmiðju Suðurlands á Eyrarbakka og lauk því þar. Hann flutti síðan til Reykjavíkur og vann bæði í Ísafoldarprentsmiðju og Prentsmiðjunni Acta. Ásgeir var frá störfum í þrjú ár vegna veikinda, en stofnaði þá litla prentsmiðju, Prentsmiðju Ásgeirs Guðmundssonar, sem hann starfrækti til ársins 1934.