Prentsmiðja Sveins Oddssonar
Reykjavík 1914–1915
Sveinn Oddsson (1883–1959) prentari fór vestur um haf 1903 og vann þar við prentun í um áratug. Hann kom heim aftur 1913 og keypti þá stuttu seinna (1914), ásamt Gunnari Sigurðssyni (1888–1962) lögfræðingi frá Selalæk, prentsmiðju Davíðs Östlunds. Rak Sveinn hana um tíma en hvarf aftur vestur um haf í maí 1915. Prentsmiðjan var þá seld Þorkeli Þ. Clementz vélfræðingi. Það bar til nýlundu þegar Sveinn kom frá Bandaríkjunum að hann hafði með sér bifreið, sem var sú fyrsta hér á landi sem var nothæf til flutninga. Hafði hann þá fastar ferðir austur fyrir fjall.
Prentsmiðja Suðurlands
Eyrarbakka 1910–1917
Ýmsir aðilar í Árnessýslu og víðar stofnuðu hlutafélag um rekstur prentsmiðju árið 1910. Það var nefnt Dægradvöl, en aðalhvatamaður að stofnun þess var Oddur Oddsson (1867–1938) á Eyrarbakka. Þeir vildu hefja útgáfu blaðs sem gæti orðið vettvangur fyrir hagsmunamál sveitanna á Suðurlandi. Þessir aðilar keyptu Prentsmiðju Hafnarfjarðar sem var upphaflega gamla Aldar-prentsmiðjan. Hún var flutt austur 19. maí 1910 og sett niður í kjallara hússins Nýjabæjar á Eyrarbakka og nefnd Prentsmiðja Suðurlands. Prentararnir Jón Helgason (1877–1961) og Karl H. Bjarnarson (1875–1957) höfðu starfrækt þessa prentsmiðju í Hafnarfirði frá 1907 og fluttust þeir með henni á Eyrarbakka.
Um svipað leyti var stofnað annað félag á Eyrarbakka, Prentarafélag Árnessýslu, og átti það að standa vörð um héraðsmál og landsmál. Það stofnaði fljótlega vikublaðið Suðurland og kom fyrsta tölublað þess út 10. júní 1910. Ritstjóri var Oddur Oddsson, en Karl H. Bjarnarson prentari tók við ritstjórn seinna á árinu. Blaðið kom nokkuð reglulega út fyrstu árin, en fjárhagurinn var erfiður og það skiptist oft um ritstjóra og prentara. Jón Helgason fór aftur til Reykjavíkur 1913 og Karl árið eftir. Árið 1915 kom blaðið ekki út í nokkra mánuði.
Prentsmiðjan var síðan flutt í kjallara hússins Skjaldbreið og Þorfinnur Kristjánsson prentari ráðinn til vinnu þetta ár. Útgáfustjórnin ákvað þá um haustið 1915 að hætta útgáfu blaðsins um áramótin 1916. Þorfinnur tók þá blaðið og prentsmiðjuna á leigu og Suðurland hóf göngu sína á ný 18. janúar 1916. Hann sá um allt sjálfur, rekstur prentsmiðjunnar og útgáfu blaðsins og var ritstjóri þess, en hafði öðru hvoru dreng sér til aðstoðar. Þetta var mikil vinna og Þorfinni tókst að halda þessu gangandi til 8. janúar 1917 er síðasta blaðið af Suðurlandi kom út. Þorfinnur hætti þá rekstri prentsmiðjunnar og útgáfu blaðsins og flutti til Kaupmannahafnar.
Rekstur Prentsmiðju Suðurlands hélt þó áfram um sinn og var nú skipt um nafn á blaðinu. Gestur Einarsson á Hæli sem hafði keypt blaðið Suðurland árið 1916 keypti nú blaðið Þjóðólf sem var elsta blað á Íslandi og hóf útgáfu þess að nýju og fyrsta blaðið af 64. árg. Þjóðólfs var prentað 30. mars 1917 í Prentsmiðju Suðurlands á Eyrarbakka.
Blaðið var svo prentað þar áfram það ár, alls 28 blöð, það síðasta 10. des. 1917. Þá varð prentsmiðjan pappírslaus vegna erfiðra samgangna í fyrri heimsstyrjöldinni. Sumar heimildir segja að prentsmiðjan hafi nú verið flutt til Reykjavíkur og ekkert hafi verið prentað þar eftir þetta (Helgakver 1976, Einar Torfason). Hins vegar segir í nýfundinni heimild (Sunnudagur fylgirit Þjóðviljans 30. tbl. 5. 12. 1965, Prentsmiðjustjóri á Eyrarbakka) að Gestur Einarsson hafi ráðið Harald Jónsson (1888–1976) prentara sem prentsmiðjustjóra hjá Prentsmiðju Suðurlands í júlí 1917 og að hann hafi unnið þar fram í mars 1918. (Stéttartal bókagerðarmanna I., bls. 324). Þá samdi Gestur við Prentsmiðjuna Gutenberg í Reykjavík um prentun Þjóðólfs og kom fyrsta blaðið út þar 23. mars 1918. Það er því nokkuð öruggt að prentsmiðjan hefur ekki verið flutt til Reykjavíkur í þetta skipti, en að öllum líkindum verið aðgerðarlaus á Eyrarbakka frá því Haraldur Jónsson hætti þar í mars 1918 og þar til hún er flutt að Haga í Flóa í júní 1919 og skiptir um nafn og heitir Prentsmiðja Þjóðólfs eftir það.
Prentsmiðja Magnúsar Ólafssonar
Ísafirði 1907–1915
Magnús Ólafsson (1875–1967) prentari virðist hafa verið með eigin prentsmiðju og unnið eitthvað við prentun áfram eftir að hann hætti sem prentsmiðjustjóri í Prentsmiðju Þjóðviljans unga 1901 þar sem hann lærði. Í æviregistri hans í Stéttartali bókagerðarmanna stendur að hann hafi rekið eigin prentsmiðju 1901–1908. En hann var líka verslunarstjóri, formaður á vélbáti nokkur ár og átti hlut í útgerð með öðrum. Prentstörf stundaði hann þó jafnan öðrum þræði, stendur í Prentsmiðjusögu Vestfirðinga (1937).
Árið 1907 varð Litla prentsmiðjan eign Magnúsar Ólafssonar prentsmiðjustjóra. Prentaði hann mest ýmsa smáprentun en líka nokkur rit, svo sem: Fyrirlestur um Kristján Jónsson Fjallaskáld, eftir Guðmund Guðmundsson skáld, 1908 og Bifreiðin, þýddar sögur, eftir sama, 1909. Eins var blaðið Haukur prentað hjá Magnúsi 1906 að hluta og 1907–1909. Magnús var eini prentarinn í prentsmiðjunni, en hann tók einn nema, Guðbjart Ásgeirsson, sem var þar í tvö ár en kláraði ekki námið. Ólafur sonur hans vann þar líka nokkuð.
Magnús vann í Félagsprentsmiðjunni í Reykjavík 1912–1914 og flutti prentsmiðju sína til Reykjavíkur 1913, í því skyni að selja hana þar, ef hægt væri. Af því varð þó ekki og var hún flutt aftur vestur. Árið 1916 keyptu nokkrir menn á Ísafirði prentsmiðju Magnúsar og hófu útgáfu blaðsins Njörður, en prentsmiðjan var látin heita Prentsmiðja Njarðar.
Prentsmiðja Hafnarfjarðar
Hafnarfirði 1907–1910
Jón Helgason (1877–1961) prentari og Karl H. Bjarnarson (1875–1957) keyptu Aldar-prentsmiðjuna í Reykjavík af séra Lárusi Halldórssyni Fríkirkjupresti 25. ágúst 1907 og fluttu hana til Hafnarfjarðar. Nefndu þeir hana Prentsmiðju Hafnarfjarðar. Hóf Karl þar prentnám hjá Jóni 1. október 1907, en þeir starfræktu prentsmiðjuna saman til 1910 þegar þeir seldu hana til Eyrarbakka og fluttu þangað sjálfir búferlum í maí sama ár. Þar lauk Karl námi sínu. Jón Helgason hafði hins vegar meiri reynslu af prentun. Hann lærði í Félagsprentsmiðjunni og fór síðan til Noregs og vann þar í tvö ár. Var þá í Prentsmiðju Seyðisfjarðar hjá Davíð Östlund um tíma. Gerðist þá einn af stofnendum Prentsmiðju Gutenbergs í Reykjavík og vann þar þangað til hann keypti Aldar-prentsmiðjuna með Karli H. Bjarnarsyni 1907.
Prentsmiðja Austurlands
Eskifirði 1907–1908
Prentsmiðja Thors E. Tuliniusar fékk nú nýtt nafn og var kölluð Prentsmiðja Austurlands því blaðið Austurland hóf göngu sína á Eskifirði í ágústmánuði 1907 og var prentað þar. Ritstjóri og útgefandi var Björn Jónsson yngri (1854–1920) prentari og ritstjóri á Akureyri, sem oft var kenndur við blaðið Fróða. Ekki er vitað hver hvatinn var að þessu eða hverjir stóðu að baki Birni. Í árslok segir þó í blaðinu að Thor E. Tulinius (1860–1932) eigandi prentsmiðjunnar hafi lánað félagi manna prentverkið en ekkert er sagt hvaða menn þetta voru.
Sænski prentarinn Axel M. Ström (1876–1948) sem prentaði Dagfara annaðist líka prentun Austurlands, og er nafn hans á öftustu blaðsíðu neðst í hægra horni fyrir neðan nafn Björns Jónssonar sem skráður er ábyrgðarmaður blaðsins. Þetta hefur Axel gert á þeim blöðum sem hann hefur prentað, en það er frá 2. tbl. 10. ágúst 1907 og til 27. tbl. 22. maí 1908 eða alls 27 tölublöð.
Austurland kom einungis út fram á árið 1908, alls 36 tölublöð auk eins aukablaðs. Prentsmiðjan stóð síðan ónotuð á Eskifirði til ársins 1910, en þá keypti Davíð Östlund prentverkið eftir að prentsmiðja hans brann í Reykjavík. Eftir þetta hefur ekki verið starfrækt prentsmiðja á Eskifirði.
Prentsmiðja Dagfara
Eskifirði 1905–1907
Árið 1905 festi kaupmaðurinn og framkvæmdamaðurinn Thor Erlendur Tulinius (1860–1932) kaup á nýrri og vandaðri prentsmiðju með hraðpressu frá Þýskalandi og lét setja hana upp í Schiöthshúsi á Eskifirði. Tilgangurinn var aðallega sá að hefja blaðaútgáfu. Prentari var ráðinn Axel Martin Ström (1876–1948) sem var sænskur maður.
Blaðið fékk nafnið Dagfari og var ritstjóri og eigandi þess Ari J. Arnalds (1872–1957) lögfræðingur og kom blaðið út þrisvar í mánuði og var í svipuðu broti og Austri. Í forsíðugrein 1. tbl. Dagfara sagði að blaðið mundi hafa sömu stefnu í stjórnmálum og landvarnarmenn en þeir börðust fyrir því að auka frelsi, réttindi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar.
Nýlunda var að blaðið birti öðru hverju myndir og í fyrsta tölublaði birtist mynd af Dr. Emil Behring (1854–1917) með grein um nýja lækningu við barnaveiki.
Halldór Stefánsson rithöfundur hóf prentnám í Prentsmiðju Dagfara á Eskifirði 15. mars 1906, en hætti svo um tíma og lauk síðan prentnámi sínu í Prentsmiðju Austra á Seyðisfirði 1912. Þegar fram í sótti fór ekki alveg saman stefna eiganda blaðsins, Ara J. Arnalds, og eiganda prentsmiðjunnar Thors E. Tuliníusar. Thor þótti Dagfari of frjálslyndur og sagði því upp prentsmiðjusamningnum. Hann taldi blaðið hættulegt og óhæfilegt gagnvart Dönum.
Dagfari varð því ekki langlífur og kom ekki út nema í eitt ár. Prentsmiðjan stóð nú verkefnalaus á Eskifirði fram í ágúst 1907, en þá var farið að gefa þar út nýtt blað sem hét Austurland og var prentað í prentsmiðju Thors E. Tuliniusar. Prentsmiðjan fékk þá nýtt nafn og var kölluð Prentsmiðja Austurlands.
Prentsmiðja Odds Björnssonar
Akureyri 1904–1995
Prentsmiðja Odds Björnssonar hét fyrst Prentsmiðja Norðurlands en nafninu var breytt 1904. Seinna breyttist það í Prentverk Odds Björnssonar en var oft kallað POB og var stofnað til hliðar við Bókaforlag Odds Björnssonar, sem starfaði frá 1887. Oddur lauk prentnámi í Reykjavík 1884 og stundaði síðan framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Hann vann þar við prentun hjá prentsmiðjunum Ísak Koohns, S.L. Møller og J.H. Schultz til ársins 1901, en fluttist þá til Akureyrar og stofnaði þar prentsmiðju. Oddur var fyrstur allra íslenskra atvinnurekenda til að taka upp átta stunda vinnudag. Hann var kjörinn heiðursborgari Akureyrar 1935.
Prentsmiðja Odds var fyrst í Aðalstræti 17 á Akureyri, síðan í Hafnarstræti 90 og Hafnarstræti 88b. Flutti síðan að Tryggvabraut 18 árið 1977. Jakob Kristjánsson fyrsti vélsetjarinn á Íslandi starfaði í P.O.B. frá 1901 til 1909 og aftur frá 1946 þar til hann lét af störfum vegna aldurs.
Prentsmiðjan Gutenberg
Reykjavík 1904–1930
Prentarar (HÍP) stofnuðu Hlutafélagið Gutenberg 12. ágúst 1904 og keyptu Prentsmiðju Reykjavíkur af Þorvarði Þorvarðssyni prentara, sem síðan var ráðinn forstjóri hinnar nýju prentsmiðju. Prentarar byggðu síðan hús undir prentsmiðjuna í Þingholtsstræti 6.
En hver var undirrótin að stofnun hlutafélagsins? Hið íslenzka prentarafélag var stofnað 4. apríl 1897 og allan þann tíma sem liðinn var, höfðu þeir ekki náð samningum við prentsmiðjueigendur.
Hinar prentsmiðjurnar í bænum urðu að sjá af starfsmönnum sínum og tæmdust bókstaflega. Björn í Ísafold, sem rak stærstu prentsmiðjuna og fleiri prentsmiðjueigendur vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Þeir voru búnir að standa alltof lengi á móti sanngjörnum kröfum prentara og stóðu nú frammi fyrir alvöru lífsins. Prentarar unnu skipulega að undirbúningi, söfnuðu peningum á allan mögulegan máta m.a. með tombólum og skemmtunum og áttu þó nokkuð fé í sjóðum þegar til stofnunar Gutenbergs kom. Starfsmenn Gutenbergs náðu mjög fljótlega forystu um góð vinnubrögð í íslenskum prentsmiðjum.
Prentsmiðja Frækorna
Reykjavík 1904–1914
Davíð Östlund flutti aftur frá Seyðisfirði til Reykjavíkur árið 1904 og rak þar Prentsmiðju Frækorna til ársins 1914. Hann fór síðan til Ameríku árið eftir og vann þar jöfnum höndum við prentverk og ritstörf. Prentsmiðja Frækorna var stundum nefnd Prentsmiðja D. Östlunds. Hún var til húsa í kjallaranum að Þingholtsstræti 23. Fyrsta blaðið af Frækornum sem þar er prentað, er merkt V, 7, 15. apríl. 1904.
Prentsmiðjan brann til kaldra kola þann 22. janúar árið 1910. Vélar, pappír og letur eyðilagðist allt, en Davíð var ekki af baki dottinn. Hann endurnýjaði vélakostinn og byrjaði að prenta að nýju eftir rúma tvo mánuði. Hann keypti til viðbótar Eskifjarðarprentsmiðjuna sem Thor E. Tulinius (1860–1932) hafði keypt 1906 (Iðnsaga Austurlands, 1989). Þetta var hraðpressa sem síðan endaði í Vestmannaeyjum 1917, þegar Gísli J. Johnsen (1881–1965) kaupmaður keypti prentsmiðju Þ.Þ. Clementz þangað.
Prentsmiðja Þorv. Þorvarðssonar
Reykjavík 1904–1905
Þorvarður Þorvarðsson (1869–1936) prentari stofnaði Prentsmiðju Reykjavíkur 1902, en seldi hana síðan Hlutafélaginu Gutenberg 1904. Hann virðist samt halda áfram að prenta og gefa út blöð og bækur í sinni eigin prentsmiðju sem bar heitið Prentsmiðja Þorv. Þorvarðssonar. Hann stofnaði blaðið Nýja Ísland þetta ár 1904 — Blað fyrir alþýðu, alvarlegs og skemmtandi efnis. Á titilblaði 1. árgangs þessa blaðs er sagt að það sé prentað í Prentsmiðju Þorv. Þorvarðssonar, en 2. og 3. árgangur er prentaður í Prentsmiðjunni Gutenberg 1905 og 1906.