Litla prentsmiðjan
Ísafirði 1902–1907
Skúli Thoroddsen fór með prentverkið með sér til Bessastaða 1901 þegar hann flutti þangað búferlum frá Ísafirði, þ. e. stóru hraðpressurnar sem hann keypti 1892 og 1898. Í bókinni 400 ára saga prentlistarinnar á Íslandi eftir Klemens Jónsson sem kom út 1930, segir: „Í kosningahríðinni 1902 flutti hann [Skúli] litla pressu og letur vestur á Ísafjörð og kallaði Litlu prentsmiðjuna. Prentaði hann í henni lítið blað, Sköfnung. Ætlaðist hann til að þessi litla prentsmiðja yrði kyrr vestra, svo hægt væri að grípa til hennar, ef á þyrfti að halda“. Eftir þessari orðanna hljóðan hefur Skúli átt þriðju pressuna sem auðvelt var að flytja með sér. Í Litlu prentsmiðjunni vann Magnús Ólafsson (1875–1967) einn alla tíð meðan Skúli átti hana.
Prentsmiðja Þjóðólfs
Reykjavík 1902–1906
Hannes Þorsteinsson (1860–1935) þjóðskjalavörður og ritstjóri Þjóðólfs keypti Glasgow-Prentsmiðjuna af Einari Benediktssyni skáldi 16. ágúst 1899. Heimild fyrir þessu er auglýsing frá Einari á forsíðu Þjóðólfs 18. ágúst þetta ár. Glasgow-Prentsmiðja var staðsett í húsi Einars, Glasgow, neðst við Vesturgötuna, en hún var nefnd áfram þessu nafni Glasgow-Prentsmiðja þó Hannes hafi keypt hana og væri eigandi hennar, og virðist hann leigja húsnæðið alveg fram í september 1902, en þá flutti hann loksins prentsmiðjuna í nýtt húsnæði sitt í Austurstræti 3, skv. auglýsingu í Þjóðólfi 5. september 1902. Var hún þá frá þeim tíma nefnd Prentsmiðja Þjóðólfs í blaðinu Þjóðólfur, uns hún var lögð niður og sameinuð Prentsmiðjunni Gutenberg árið 1906.
Prentsmiðja Reykjavíkur
Reykjavík 1902–1904
Þorvarður Þorvarðsson (1869–1936) prentari stofnaði þessa prentsmiðju 1902. Hún var stundum nefnd Reykjavíkurprentsmiðja eftir samnefndu blaði sem Þorvarður byrjaði að gefa út um aldamótin og var það þá prentað fyrst í Aldar-prentsmiðju en frá 28. júní 1902 var farið að prenta það í prentsmiðju Þorvarðar. Hann seldi síðan blaðið til kaupmanna í Reykjavík og Jón Ólafsson gerðist ritstjóri þess. Þorvarður var fyrsti formaður Hins íslenska prentarafélags 1897–1898. Árið 1904 seldi hann prentsmiðju sína til nýs hlutafélags sem hann stofnaði ásamt fleiri prenturum en það hlaut nafnið Hlutafélagið Gutenberg.
Prentsmiðja Vestfirðinga
Ísafirði 1901–1919
Prentsmiðja Vestfirðinga starfaði á Ísafirði 1901–1918 og var hún einnig oft nefnd Prentsmiðja „Vestra“, en Vestri var blað sem var gefið út á sömu árum. Ritstjóri var Kristján Hans Jónsson (1875–1913). Hann var prentari og lærði prentun bæði hjá Stefáni Runólfssyni (1863–1936) á Ísafirði og hjá honum í Aldarprentsmiðju Lárusar Halldórssonar (1875–1918) í Reykjavík. Kristján flutti aftur til Ísafjarðar og tók við forstöðu Prentsmiðju Vestfirðinga og um leið ritstjórn Vestra. Hann keypti síðan hvort tveggja, prentsmiðjuna og blaðið 1905, en á næsta ári seldi hann Arngrími Fr. Bjarnasyni helming hennar og áttu þeir hana saman þar til Kristján H. Jónsson lést 1913. Þá keypti Kristján Jónsson frá Garðsstöðum hlut nafna síns og þeir Arngrímur ráku hana saman til 1918, að Arngrímur flutti úr bænum. Kristján keypti þá prentsmiðjuna einn, en seldi hana síðan til Reykjavíkur 1919.
Prentsmiðja Þjóðviljans
Bessastöðum 1901–1915
Þegar Skúli Thoroddsen hafði gefið út Þjóðviljann unga og Þjóðviljann í 15 ár vestur á Ísafirði flutti hann til Bessastaða 1899 og hóf þar búskap. Hann lét reisa nýtt prenthús á Bessastöðum og það var byrjað að prenta Þjóðviljann þar 11. júlí 1901. Skúli hafði úrvalsmenn í prentsmiðju sinni og má þar nefna Jón Baldvinsson (1882–1938) verkalýðsfrömuð, þingmann og ráðherra.
Það sem var sérstaklega eftirtektarvert í útgáfu prentsmiðjunnar var letrið sem hún hafði yfir að ráða. Það var ekki ósvipað letrinu í Prentsmiðju Sigmundar Guðmundssonar sem áður er getið og talið var marka tímamót. Prentsmiðja Skúla var síðan seld Félagsprentsmiðjunni 1916 skömmu áður en hann lést. Talið er að á Bessastöðum hafi verið prentaðir 48 prentgripir, þar af um tíu rímur og voru fimm þeirra eftir Sigurð Breiðfjörð (1798–1846) skáld.
Aldar-prentsmiðja (Lárus Halldórsson)
Reykjavík 1901–1907
Lárus Halldórsson (1851–1908) Fríkirkjuprestur stofnaði mánaðarritið Fríkirkjuna 1899 og gaf það út í þrjú og hálft ár. Fyrstu þrjú blöðin, janúar–mars, voru prentuð í Prentverki Jóns Ólafssonar, en þá var prentsmiðjan seld Davíð Östlund, sænskum aðventista, sem prentaði ritið þar til árið 1901, að séra Lárus Halldórsson keypti prentsmiðjuna af Davíð. Hann ræður þá til sín faglærðan prentara frá Ísafirði, Stefán Runólfsson (1863–1936) sem varð forstjóri hennar næstu tvö árin.
Á þessum árum var Aldar-prentsmiðjan eina nótnaprentsmiðja landsins, og þegar Davíð seldi Lárusi prentsmiðjuna og fór austur á Seyðisfjörð varð allt nótnaletrið eftir hjá Lárusi. Davíð kom svo aftur til Reykjavíkur 1904 og stofnaði Prentsmiðju Frækorna.
Prentsmiðja Seyðisfjarðar
Seyðisfirði 1901–1904
Davíð Östlund (1870–1931) prentari og trúboði flutti frá Reykjavík til Seyðisfjarðar árið 1901 og keypti Prentsmiðju Bjarka sem prentaði samnefnt blað. Þorsteinn Gíslason (1867–1938) skáld tók við ritstjórn blaðsins í nóvember 1901 af Þorsteini Erlingssyni skáldi. Davíð Östlund breytti nafni prentsmiðjunnar í Prentsmiðju Seyðisfjarðar við kaupin en upphaflega var þetta Prentsmiðja Skuldar sem Jón Ólafsson keypti til Eskifjarðar 1877. Frækorn sem Davíð gaf út var áður prentað í Aldar-prentsmiðju en síðan í Prentsmiðju Seyðisfjarðar 1903–1904 og loks í Prentsmiðju Frækorna.
Prentsmiðja Norðurlands
Akureyri 1901–1903
Oddur Björnsson (1865–1945) prentari og prentsmiðjustjóri kom með nýja prentsmiðju til Akureyrar frá Danmörku árið 1901. Sama árið var byrjað að gefa þar út blaðið Norðurland og Einar (Kvaran) Hjörleifsson (1859–1938), skáld og rithöfundur, var ráðinn ritstjóri þess.
Árið 1904 var nafni prentsmiðjunnar breytt í Prentsmiðju Odds Björnssonar, en prentun blaðsins hélt þar áfram til 1920 er það hætti að koma út. Einar hætti sem ritstjóri 1904 og í stað hans var ráðinn bróðir hans, Sigurður Hjörleifsson (1862–1936) læknir, og var hann ritstjóri til 1912 og síðan Jón Stefánsson til 1920.
Prentsmiðja Arnfirðings
Bíldudal 1901–1902
Pétur J. Thorsteinsson (1854–1929) stórútgerðarmaður á Bíldudal var svili Skúla Thoroddsens (1859–1916) sýslumanns í Ísafjarðarsýslu. Konur þeirra Ásthildur og Theodóra voru systur. Pétur stofnaði blaðið Arnfirðing á Bíldudal og kom á fót prentsmiðju þar, sem nefndist eftir blaðinu og hét Prentsmiðja Arnfirðings.
Hann hafði útvegað sér prentpressu frá Birni Jónssyni, eiganda Ísafoldar og nýtt letur frá útlöndum. Hann réð síðan Þorstein Erlingsson (1858–1914) skáld sem ritstjóra, en hann hafði verið ritstjóri Bjarka á Eskifirði árin á undan. Tilgangur Péturs með þessu var að efla menningu á suðurhluta fjarðanna og bæta í skarð Þjóðviljans, sem nú var fluttur til Bessastaða með Skúla Thoroddsen.
Arnfirðingur kom fyrst út í nóvember 1901 og var í svipuðu broti og Fréttablaðið er í dag eða 41 x 28,5 sm, sem sýnir að pressan hefur verið nokkuð stór. Hann var aðeins prentaður á Bíldudal til 10. júlí 1902, alls 22 tölublöð, en eftir það var hann prentaður í Félagsprentsmiðjunni í Reykjavík þar til hann hætti að koma út í janúar 1903.