Ásprent
Akureyri 1975–1995 og 2006–
Samruni við Ásprent:
POB 1995
Stíll og Alprent 2003
Límmiðar Norðurlands og Prenttorg 2005
Stell 2006
Árni Sverrisson (1944–) prentari stofnaði prentsmiðjuna Ásprent á Akureyri árið 1975 og rak hana til ársins 1979. Þá keyptu prentsmiðjuna hjónin Rósa Guðmundsdóttir (1947–) og Kári Þórðarson (1945–) prentari. Prentsmiðjan var fyrst til húsa í Kaupvangsstræti og síðan í Brekkugötu. Árið 1988 var Ásprent flutt að Glerárgötu 28, þar sem fyrirtækið er rekið enn í dag.
Árið 1995 keypti Ásprent, Prentverk Odds Björnssonar (POB) en það var stofnað 1901. Starfsemi POB var þá flutt á Glerárgötu 28. Árið 2003 sameinuðust fyrirtækin Stíll og Ásprent undir nafninu Ásprent-Stíll hf, og Rósa og Kári hættu að reka fyrirtækið og seldu sína hluti. Synir þeirra þrír, Þórður (1965–), Ólafur (1968–) og Alexander (1975–) áttu 50% í fyrirtækinu á móti þeim og héldu áfram þátttöku. Sama ár var Alprent sameinað Ásprenti-Stíl. Þá voru fyrirtækin Límmiðar Norðurlands og Prenttorg sameinuð fyrirtækinu 2005 og fluttu einnig á Glerárgötu 28. Árið 2006 keypti það prentstofuna Stell á Akureyri, en hún var stofnuð 1989 af Halli Jónasi Stefánssyni (1961–) offsetprentara á Akureyri.
Margskonar prentun er framkvæmd í Ásprenti og má m.a. nefna: stafræna prentun, offsetprentun, límmiðaprentun og útfararskrár. Þá er boðið upp á alls konar skiltagerð, sandblástursfilmur, strigaprentun, stórprentun og bílamerkingar. Þá sér Ásprent einnig um grafíska hönnun og umbrot á ýmis konar prentverkum og myndvinnslu.
Ásprent-Stíll hlaut vottun norræna umhverfismerkisins Svansins árið 2017 og er það 35. fyrirtækið sem hlýtur Svansvottun á Íslandi og það fyrsta á Akureyri. Í dag er Ásprent í eigu KEA og þriggja starfsmanna, þeirra G. Ómars Péturssonar (1964–), Halls Jónasar Stefánssonar (1961–) og Einars Árnasonar (1955–). Framkvæmdastjóri er G. Ómar Pétursson.
Skákprent
Reykjavík 1975–1997
Skákprent var stofnað af Jóhanni Þóri Jónssyni (1941–1999) árið 1975, en hann var mikill áhugamaður um skák. Hann gaf m.a. út tímaritið Skák og ritstýrði því í nær 35 ár, frá árinu 1962–1997. Jóhann Þórir var framkvæmdastjóri Skákprents í nær aldarfjórðung. Hann gaf út fjölda bóka á sinni tíð, en prentsmiðjan rann inn í G. Ben-Eddu um 1997.
Steinholt
Reykjavík 1974–
Baldur Magnús Stefánsson (1928–) prentsetjari stofnaði prentsmiðjuna Steinholt árið 1974 og rak hana til 2003 að Ármúla 42 í Reykjavík. Var þá prentun aflögð en Egill Brynjar Baldursson (1957–) setjari, sonur Baldurs, hélt áfram við setningu og umbrot undir nafni Steinholts, að Melgerði 1 í Reykjavík.
Baldur lærði prentun í Hólum og tók sveinspróf 1950. Hann vann síðan í Eddu til 1966, en fór þá til Kaupmannahafnar og starfaði þar sem vélsetjari í 1 ár. Kom þá heim og vann í Lithoprenti í 1 og ½ ár, en fór síðan að vinna í Prenthúsi Hafsteins Guðmundssonar til 1974 að hann stofnaði sína eigin prentsmiðju, Steinholt.
Prenttækni
Reykjavík og Kópavogi 1973–
Gunnar Maggi Árnason (1940–2003) prentari, kona hans Stefanía Flosadóttir (1940–) og Einar Egilsson (1942–) bókbindari stofnuðu prentsmiðjuna Prenttækni 1973. Fyrstu árin var hún til húsa í Miðbæ, Háaleitisbraut 58–60 í Reykjavík, en var síðan flutt að Auðbrekku 4 í Kópavogi. Gunnar Maggi keypti þá hlut Einars í fyrirtækinu, en Einar Egilsson snéri sér að bókbandinu og keypti Félagsbókbandið og rak það áfram ásamt Leifi Gunnarssyni bókbindara.
Tveimur til þremur árum síðar var Prenttækni flutt í eigið húsnæði að Vesturvör 11a í Kópavogi og þar rak Gunnar Maggi prentsmiðjuna til dánardægurs. Dóttir hans Margrét Gunnarsdóttir er nú framkvæmdastjóri og hefur rekið prentsmiðjuna síðan. Í febrúar 2016 hlaut Prenttækni vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum og var það í þrítugasta sinn sem það var veitt á Íslandi.
Prisma
Hafnarfirði 1973–1997
Prentsmiðjan Prisma var stofnuð árið 1973 af prentsmiðunum Baldvini Halldórssyni (1944–) og Ólafi Þorbirni Sverrissyni (1948–) og konum þeirra beggja. Fyrirtækið var staðsett í Hafnarfirði. Þeir félagarnir voru báðir lærðir í offsetgreinum, Ólafur í offsetljósmyndun og Baldvin í offsetmynda- og plötugerð. Prisma keypti Hafnarprent árið 1978 og voru fyrirtækin sameinuð í húsnæði Prisma við Reykjavíkurveg. Árið 1998 sameinuðust Prisma og Prentbær.
Prentsmiðjan Skuggsjá
Reykjavík 1973–1976
Oliver Steinn Jóhannesson (1920–1985) bóksali og bókaútgefandi stofnaði Prentsmiðjuna Skuggsjá árið 1973 og rak hana á Langholtsvegi í Reykjavík fram til ársins 1976. Þar unnu m.a. prentararnir Jón Áskels Óskarsson (1944–) sem vann þar frá 1973–1976 og Þorsteinn Björnsson (1945–2011) vann þar frá 1973.
Oliver Steinn var við verslunarstörf, m.a. í Bókaverslun Ísafoldar um ellefu ára skeið. Hann hóf síðan mikilvirka bókaútgáfu, Skuggsjá, og stofnaði Bókabúð Olivers Steins í Hafnarfirði þar sem hann byggði stórt hús yfir starfsemina við aðalgötu bæjarins. Þegar Oliver Steinn hætti prentsmiðjurekstri sínum voru prentvélarnar seldar til Víkurprents.
Héraðsprent
Egilsstöðum 1972–
Í september 1972 flutti Þráinn Skarphéðinsson (1937–) prentari til Egilsstaða ásamt konu sinni Gunnhildi Ingvarsdóttur (1953–) prentsmið sem var fædd og uppalin þar í sveit. Þráinn flutti með sér litla prentsmiðju sem hann hugðist starfrækja þar með annarri vinnu, en aðeins Nesprent á Norðfirði var starfandi á Austurlandi á þessum tíma og hafði svo verið á undanförnum tveimur áratugum.
Fyrstu árin var prentsmiðjan í 30 fm bílskúr að Lagarási 8, en verkefnin jukust fljótt og árið 1976 var flutt í 60 fm bílskúr að Tjarnarbraut 13 þar sem Þráinn og Gunnhildur höfðu reist sér íbúðarhús. Jafnframt var vélakosturinn bættur og þau keyptu Intertype setningarvél og Johannesberg blaða- og bókapressu. Á sama tíma fóru þau að prenta Austra, blað framsóknarmanna, sem var vikublað og Þingmúla, blað sjálfstæðismanna og önnur blöð sem komu út óreglulega.
Árið 1977 keyptu Héraðsprent og Austri vél í sameiningu til myndamótagerðar og var það í fyrsta sinn sem slík vél var sett upp á Austurlandi. Húsnæðið að Tjarnarbraut 13 var orðið of lítið og byggt var nýtt prentsmiðjuhús að Tjarnarbraut 21. Flutt var inn í nýja húsið 1982 og voru þá vélar og tæki endurnýjuð. Keypt var setningartölva, stór offsetprentvél, filmuvinnslutæki og rafknúinn skurðarhnífur. Með þessum breytingum var blýprentun lögð niður í Héraðsprenti. Fyrsta blaðið sem var tölvusett og offsetprentað á Austurlandi var blaðið Gálgás, blað Alþýðubandalagsins en það kom út 23. nóvember 1982.
Lengst af var Þráinn Skarphéðinsson eini fagmenntaði starfsmaðurinn í Héraðsprenti því það gekk erfiðlega að fá þá til starfa austur á land. Ýmsir prentarar og setjarar komu þó, en helst á sumrin og voru þá stuttan tíma í einu.
Gunnhildur fór snemma að starfa í prentsmiðjunni, en hóf þar síðan nám í prentsmíði og lauk því 1996. Austurríkismaðurinn Bernhard Josef Trauner (1956–) starfaði þar 1982–1985, en hann var menntaður „lithographer“. Í dag vinna átta manns í Héraðsprenti og meirihlutinn fagmenn. Fyrirtækið hefur enn flutt sig um set og er nú staðsett að Miðvangi 1 á Egilsstöðum. Það hefur nú yfir að ráða nýjustu tækni sem völ er á: Heidelberg GTO offsetprentvél og annarri Speedmaster 74 fjögurra lita, ennfremur stafræna prentvél, Canon Imagepress C6010S, sem er sú eina sinnar tegundar á landinu. Héraðsprent gefur út Dagskrána á Austurlandi. Fyrirtækið fékk Svansvottun 2016.
Silkiprent
Reykjavík og Hafnarfirði 1972–
Silkiprent var stofnað árið 1972 af Sveinbirni Sævari Ragnarssyni (1944–) og er það elsta fána- og skiltagerð landsins. Fyrirtækið var fyrstu sjö árin í húsnæði við Lindargötu, en þá var flutt í stærri húsakynni að Skipholti 35. Á þessum tíma jókst starfsemin svo hratt að innan skamms var keypt 550 fm húsnæði að Vagnhöfða 14. Þar var rekin alhliða skiltagerð eins og umferðarskilti, bílamerkingar og ýmis konar fánaprentun og silkiprentun magvíslegra hluta. Þá unnu hjá fyrirtækinu 12–14 manns. Enn stækkaði fyrirtækið og þegar fór að líða að aldamótum var keypt 25 m löng vél til að silkiprenta fána og flutt var í 1000 fm húsnæði við Dvergshöfða 27 í Reykjavík.
Þá kom lægð í markaðinn, smákreppa gekk yfir og varð að minnka fyrirtækið og það var flutt til Hafnarfjarðar og leigt húsnæði við Melabraut. Þar var starfsemin rekin í 3–4 ár. Þá var keypt 300 fm húsnæði að Grandatröð 3b í Hafnarfirði og hélt fyrirtækið þar áfram í 4–5 ár. Það húsnæði var síðan selt árið 2015 og 200 fm húsnæði keypt að Kistumel 14, sem er í hverfinu Esjumelar og tilheyrir það Reykjavík. Þar heldur starfsemin áfram og aðaláherslan er lögð á alls konar fánagerð og prentun á þá. Stofnandinn Sveinbjörn Ragnarsson er nú eini starfsmaðurinn.
Prentrún
Reykjavík 1970–2019
Jónas Karlsson (1941–) nam setningu í Prentsmiðju Þjóðviljans 1958–1962. Hann vann síðan hjá Prentsmiðju Þjóðviljans, Ísafold, Prentsmiðju Alþýðublaðsins, Prentun og Leiftri. Þá stofnaði hann prentsmiðjuna Prentrúnu árið 1970, við sameiningu prentsmiðjanna Prentunar og Ásrúnar og hefur Jónas verið framkvæmdastjóri hennar síðan. Prentrún var fyrst til húsa að Laugavegi 178 en flutti að Funahöfða 10 í Reykjavík árið 1978 og þar var hún staðsett í rúm 40 ár.
Jónas Karlsson setjari var síðasti nemi Stefáns Ögmundssonar sem var prentsmiðjustjóri Þjóðviljans á þeim árum. Hann segist mikið hafa lært af meistara sínum og þeim öðrum sósíalistum sem hann vann fyrir. Hann prentaði t.d. ávallt tímaritið Rétt, Einars Olgeirssonar (1902–1993) og fleiri rit sósíalista. Það mætti líka minnast á bókaútgáfu flokksins sem Jónas var stór hluthafi í, en það var Minnisbókin Fjölvís. Stofnendur hennar voru Ingi R. Helgason (1924–2000), Halldór Jakobsson (1917–2008) og Eiður Bergmann (1915–1999). Hún hefur ávallt átt miklum vinsældum að fagna og hefur komið út í meira en 60 ár. Árið 2015 sameinuðust fyrirtækin Fjölvís og Prentrún en árið 2019 var starfseminni hætt og fyrirtækið lagt niður.
Formprent
Reykjavík 1970–2016
Kristinn Ingvar Jónsson (1940–) prentari og prentsmiðjustjóri nam prentun í Félagsprentsmiðjunni 1957–1961 og vann þar síðan til 1966. Var í Plastprenti til 1970, en stofnaði þá prentsmiðjuna Formprent. Kristinn byrjaði með prentsmiðjuna í litlum bílskúr að Sogavegi 118 í Reykjavík, en flutti stuttu seinna í húsnæði við Eiríksgötu. Um 1973 keypti Kristinn stóra Roland einslita prentvél af þrotabúi Lithoprents og leigði síðan húsnæðið sem það hafði verið í við Lindargötu og þar var Formprent til ársins 1979. Þá keypti hann gamla Bókfellshúsið að Hverfisgötu 78, bæði jarðhæðina, kjallarann, 2. hæð og bakhúsið og þar rak hann Formprent alla tíð þar til það hætti árið 2016, en þá seldi hann allt húsið undir hótelrekstur Reykjavík Residence.
Formprent var meðalstór prentsmiðja og störfuðu þar um átta til níu manns þegar flest var. Þeir voru með Roland einslita prentvél og aðra 4ja lita af sömu gerð. Seinna var keypt Heidelberg GTO prentvél og um tíma voru þar starfræktar rúlluprentvélar fyrir samhangandi pappír. Þar unnu lengi prentararnir Rudolf Nielsen (1950–) og Björn Árnason (1946–).