Prentsmiðja Hafnarfjarðar
Hafnarfirði 1928–1934
Hafnarfjarðarprentsmiðjan gamla var stofnuð 1928 og var keypt til hennar Hólaprentsmiðjan, sem þeir stofnuðu árið áður, félagarnir Vilhelm Stefánsson og Guðmundur J. Guðmundsson. Guðmundur flutti með henni til Hafnarfjarðar og vann þar til 1933. Seinna var prentsmiðjan seld til Reykjavíkur og sameinuð Víkingsprenti.
Prentsmiðja Vikunnar
Vestmannaeyjum 1928–1930
Haustið 1928 tók Steindór Sigurðsson (1901–1941), prentari og rithöfundur, prentsmiðjuna á Helgafellsbraut 19 á leigu og hóf útgáfu á vikublaðinu Vikunni. Fyrsta tölublaðið kom út 4. nóvember 1928 og var Steindór skráður ritstjóri þess. Prentsmiðjan var nefnd Prentsmiðja Vikunnar.
Í Ávarpi til Vestmannaeyinga sem birtist í blaðinu, var m.a. sagt að blaðið mundi ekki skipa sér í ákveðinn stjórnmálaflokk heldur „verða Vestmannaeyjablað fyrir Vestmannaeyinga“. Þetta gekk ekki eftir, því Jafnaðarmannafélag Vestmannaeyja tók við útgáfu blaðsins, frá og með 4. tölublaði og varð Andrés J. Straumland meðritstjóri. Steindór rak samt prentsmiðjuna áfram, en Andrés átti að sjá um pólitíkina í blaðinu.
Síðan hefur það líklega verið í júlí 1929 sem Steindór ákveður að kaupa prentsmiðjuna og honum tekst að semja við Ísleif Högnason og lánardrottna hans í Landsbankaútibúinu á Selfossi og er hann orðinn prentsmiðjueigandi í byrjun ágúst. Hann gekkst síðan fyrir því að prentsmiðjan var flutt úr húsi Ísleifs á Helgafellsbraut 19 í gamalt timburhús hálft, að Sólheimum við Njarðargötu, sem hann leigði af Helga Benediktssyni. Andrés var síðast skráður sem meðrítstjóri Steindórs 12. nóvember 1929, en eftir það var Steindór einn ritstjóri og útgefandi blaðsins þangað til það hætti að koma út. Alls komu út 54 tölublöð af Vikunni. Síðasta blaðið var dagsett 13. apríl 1930 og var það 6. tbl. 2. árgangs.
Í bók sinni Eitt og annað um menn og kynni, Akureyri, PHJ, 1948, segir Steindór m.a. frá sölu prentsmiðju sinnar á bls. 91: „Nokkru fyrir hátíðar (1930) hafði ég selt prentsmiðju mína með allverulegum hagnaði, svo eigin fjárráð mín voru allnokkur um þessar mundir.“ Það voru Sjálfstæðismenn sem festu kaup á Prentsmiðju Vikunnar og sameinuðu hana Eyjaprentsmiðjunni.
Prentsmiðjan Vestmannabraut 30
Vestmannaeyjum 1928–1929
Haustið 1928 byrjaði cand. phil. Ólafur Magnússon (1903–1930) að undirbúa útgáfu vikublaðsins Víðis í Vestmannaeyjum og kom 1. tölublaði út 17. nóvember 1928. Það var prentað í Prentsmiðju Gísla J. Johnsen, en Ólafur tók prentsmiðju hans síðan á leigu og lét flytja hana að Vestmannabraut 30. Það var húsið Viðey, sem var byggt árið 1922, en prentsmiðjan var sett upp á miðhæð hússins og var þar í tveimur herbergjum. Ólafur keypti nokkuð af nýju letri til hennar og lét breyta pressunni þannig að hún gekk nú fyrir rafmagni.
Á árinu 1929 kom Vilhelm Stefánsson (1891–1954) prentari að blaðinu og er sagt frá því í fyrsta tölublaði Þjálfa, sem kom út í maí 1932, að hann hafi stofnað til sýningar á framleiðslu prentsmiðjunnar í glugga bókabúðar Þórðar og Óskars. „Hefur sýningin vakið eftirtekt því margt er þar mjög laglega gert. Þegar tekið er tillit til þess hve prentsmiðjan er illa búin að nauðsynlegustu tækjum, má það teljast undravert hve vel hefur tekist að gera ýmsar prentanir, sem líta má á sýningunni.“ (bls. 6).
Ólafur Magnússon lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1923 og nam læknisfræði við Háskóla Íslands en varð að hætta námi vegna heilsubrests. Hann var berklaveikur, en ritstýrði samt blaðinu Víði allt þar til hann lagðist inn á Vífilsstaðaspítala í mars 1930. Í grein sem sonarsonur hans, Ólafur F. Magnússon (1952–) læknir, ritaði í Morgunblaðið á 100 ára afmæli hans 3. maí 2003 segir: „Allt sem hann skrifaði í blaðið ritaði hann við hné sér í rúminu og las þar allar prófarkir og leiðrétti með sama hætti.“ Ólafur Magnússon var ritstjóri Víðis frá 17. nóvember 1928 til og með 23. febrúar 1930, en nokkrum dögum síðar fór hann á Vífilsstaði.
Fyrsta tölublaðið af Víði var prentað í Prentsmiðju G. J. Johnsen, en frá 2. tbl. 1928, var það prentað í Prentsmiðjunni Vestmannabraut 30 og svo áfram meðan hún hét því nafni, en það var til 18. desember 1929, alls 56 blöð. Þá varð nafnbreyting á prentsmiðjunni og hún var nefnd Prentsmiðja Víðis frá og með sjötta tölublaði 21. desember 1929. Ekki er neins getið í blaðinu um þessa nafnbreytingu og ekki er vitað um ástæðuna. Líklegast er að nafn blaðsins hafi verið orðið svo ríkt í hugum fólks að það hafi verið talið réttara að færa nafn þess yfir á prentsmiðjuna, en þetta skeði um tveimur mánuðum áður en Ólafur lét af störfum sem ritstjóri Víðis.
Prentsmiðjan Helgafellsbraut 19
Vestmannaeyjum 1928
Prentsmiðja Eyjablaðsins, sem þeir fóstbræður Ísleifur Högnason, Haukur Björnsson og Jón Rafnsson ráku um tíma, var til húsa að Helgafellsbraut 19. Það var íbúðarhús Ísleifs Högnasonar (Bolsastaðir). Eyjablaðið hætti að koma út 9. júlí 1927 og hefur þá verið lítið um verkefni fyrir prentsmiðjuna það sem eftir lifði ársins, nema kannski eitthvert smáprent sem ekki hefur varðveist.
Þá hóf göngu sína nýtt blað sem bar nafnið Huginn og er ritstjóri þess og ábyrgðarmaður talinn Sigurður Guðmundsson (1900–1984).
Í blaðhaus Hugins segir að það sé frétta- og auglýsingablað fyrir Vestmannaeyjar. Í ávarpsorðum á forsíðu er tíunduð stefna blaðsins, að blaðið sé óháð öllum stjórnmálaflokkum en ætli að flytja fréttir og fróðleik sem almenning varðar, einkum innanbæjarmál. Þá er talið óheppilegt að í jafn stórum bæ og Vestmannaeyjar eru skuli ekkert blað koma út. Sagt er að það sé víst eini bærinn á Norðurlöndum sem telur yfir 3000 íbúa og ekkert blað hefir.
Á öðrum stað í blaðinu á bls. 3 er tilkynning frá útgefendum sem eru Árni Guðlaugsson og Sigurður Guðmundsson um að þeir hafi tekið á leigu prentsmiðjuna á Helgafellsbraut 19 og þeir ætli að reka hana fyrst um sinn með sama fyrirkomulagi og áður. Talin er upp alls konar smáprentun sem prentsmiðjan geti tekið að sér og að tekið sé á móti verkefnum á Skólavegi 32 og í prentsmiðjunni. — Fyrir ofan tilkynninguna, á sömu síðu, er auglýsing um vönduð hljóðfæri með skrautlegum ramma frá Sigurði Guðmundssyni á Skólavegi 32. Þarna er víst um sama mann að ræða og sama heimilisfang og á afgreiðslu blaðsins. Í 15. tölublaði er sagt frá því, í tilkynningu frá útgefendum, að prentsmiðjan hætti nú störfum vegna þess að hún hafi verið leigð öðrum aðilum.
Fjölritunarstofa Daníels Halldórssonar
Reykjavík 1927–2001
Daníel Halldórsson (1891-1940) stofnaði þessa fjölritunarstofu 1927 og rak hana að Hafnarstræti 15 til dánardægurs. Þá tók ekkja hans Guðrún Ágústa Guðlaugsdóttir (1892-1948) við rekstrinum til ársins 1947 er sonur þeirra Ívar Daníelsson (1920-) tók við. Árið 1961 var fjölritunarstofan flutt að Ránargötu 19.
Ívar rak stofuna með annarri vinnu til ársins 1969, en í janúar það ár var stofnað sameignarfélag fjölskyldunnar um fyrirtækið og tók þáverandi kona hans Þorbjörg Tryggvadóttir (1922-2007) við daglegum rekstri, en Ívar varð stjórnarformaður. Árið 1985 var ráðist í að kaupa húsnæði í Skeifunni 6 og ráku síðan dóttir Ívars og Þorbjargar, Guðrún Ína og maður hennar Kristinn Valdimarsson, stofuna til ársins 2001, að Prentmet keypti hana.
Fjölritunarstofa Pjeturs G. Guðmundssonar
Reykjavík 1927–1947
Pjetur G. Guðmundsson (1879-1947) rak fjölritunarstofuna fyrst heima hjá sér á Fjólugötu 25, en síðan að Lækjargötu 6a. Pjetur var bókbindari að iðn og einn ötulasti forystumaður verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Hann stóð að stofnun Dagsbrúnar og Bókbindarafélagsins, sem var stofnað 1906 á heimili hans að Laugavegi 18 og hann var formaður þess í nokkur ár. Hann sat einnig í stjórn Alþýðusambands Íslands um skeið og var þar ritari.
Pjetur G. Guðmundsson var faðir Þorsteins Péturssonar sem vann lengi hjá Fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík.
Hólaprentsmiðjan
Reykjavík 1927–1928
Það voru prentararnir Vilhelm Stefánsson (1891-1954) og Guðmundur J. Guðmundsson (1899-1959) sem stofnuðu Hólaprentsmiðjuna í mars 1927. Prentsmiðjan var til húsa í Hafnarstræti 18. Þeir auglýstu í Alþýðublaðinu 1. mars 1927, bls. 3, að prentsmiðjan mundi leysa af hendi bæði ódýrt, fljótt og vel alls konar smáprentun, sem síðan er talin upp:
Grafskriftir – Erfiljóð – Brúðkaupsljóð – Trúlofunarkort – Nafnspjöld – Borðseðlar – Þakkarkort – Kranzborðar – Happdrættismiðar – Aðgöngumiðar – Söngskrár – Sýningarskrár – Gluggaauglýsingar – Lyfseðlar – Bréfhausar – Umslög – Víxlar – Ávísanir.
Þeir félagarnir seldu síðan prentsmiðjuna 1928 til Hafnarfjarðar og Guðmundur fylgdi henni þangað (Prentsmiðja Hafnarfjarðar), en Vilhelm flutti til Vestmannaeyja og var yfirprentari hjá Prentsmiðju Gísla J. Johnsens til 1934.
Fjölritunarstofan Óðinn
Reykjavík 1927
Í bókinni Prentsmiðjueintök sem kom út 2015 er getið um þessa fjölritunarstofu, en lítið sem ekkert var vitað um hana annað en það að Bogi Ólafsson kennari við Menntaskólann í Reykjavík lét fjölrita þar bók eftir sig, sem sagt er frá og heitir: Stutt ágrip af enskri bókmenntasögu. Nú hefur aðeins bæst við þekkingu okkar. Við fundum annað rit sem þar var fjölritað sem heitir Gallus 2. Þar segir að Fjölritunarstofan Óðinn sé til húsa að Bergþórugötu 45. Í Gegni stendur að Gallus sé skólablað Menntaskólans í Reykjavík.
Á bakhlið ritsins er teikning sem auðsjáanlega á að vera Halldór Kiljan Laxness. Textinn undir myndinni hljóðar svo: „Hirðvefari vor — hinn mikli „fræbúðingur“ frá Kasmír, sem vjer birtum af mynd, „af eintómum prakkaraskap“. Vefarinn mikli frá Kasmír kom fyrst út 1927 og er því líklegt að þetta rit komi líka út sama ár.
Skólablað Menntaskólans kom fyrst út 1926, en hét þá Pottlok Gallusar 1. Það er fjölritað í Fjölritunarstofu Pjeturs G. Guðmundssonar, en í Gegni segir að Pottlok komi út 1926–1927.
Norðfjarðarprentsmiðja
Norðfirði 1927
Verkalýðsfélag Norðfjarðar hóf útgáfu á prentuðu blaði 1926 sem hét Jafnaðarmaðurinn. Það var prentað í prentsmiðju Sigurðar Þ. Guðmundssonar á Seyðisfirði. Ritstjóri var Jónas Guðmundsson (1898–1973) en hann var helsti forystumaður verkamanna á Norðfirði á þessum árum. Erfitt var að halda úti blaði á þennan hátt með prentsmiðjuna í öðrum firði svo Jónas og samherjar tóku sig til og réðust í prentsmiðjukaup 1927.
Þeir keyptu Norðanfaraprentsmiðjuna gömlu sem Skapti Jósepsson fékk frá Akureyri til Prentsmiðju Austra á Seyðisfirði 1895. Þetta var handsnúin pressa með heljarstóru svinghjóli. Hún var yfir 50 ára gömul og mjög slitin eins og kom á daginn. Jónas réð Vigfús Guttormsson (1900–1984) til starfa strax eftir að gengið var frá kaupunum. Hann var ekki lærður prentari en hafði verið prentnemi í Prentsmiðju Austra á Seyðisfirði árið 1917.
Prentsmiðjunni var komið fyrir í Gamla Templarahúsinu á Norðfirði og mikil bjartsýni ríkti um starfrækslu Norðfjarðarprentsmiðju, en það nafn var henni gefið. En vonbrigðin urðu mikil þegar farið var að setja hana upp. Þá kom í ljós að valsar hennar voru mjög slitnir og þegar blaðið var prentað var útkoman afar léleg. Letrið var sums staðar dauft en skýrt og greinilegt á öðrum stöðum.
Alls voru prentuð í vélinni átta tölublöð af Jafnaðarmanninum og kom síðasta blaðið út 30. júlí 1927. Ekki er vitað til þess að þessi fyrsta prentsmiðja á Norðfirði hafi prentað neitt annað en Jafnaðarmanninn. Afdrif prentsmiðjunnar voru þau að hún var tekin niður og flutt upp á efsta loft í svokölluðu Hafnarhúsi og þar var hún látin grotna niður og endaði á haugunum árið 1941.
Alþýðuprentsmiðjan
Reykjavík 1926–1956–1986
Alþýðuflokkurinn stofnaði Alþýðuprentsmiðjuna 1926 til þess að prenta Alþýðublaðið og ýmislegt fleira fyrir flokkinn og almenning. Prentsmiðjustjóri 1926–1935 var Hallbjörn Halldórsson, næst Guðmundur J. Guðmundsson 1936–1940, þá tók við Guðmundur Kristjánsson 1940–1945 og síðan Jóhannes Zoëga Magnússon.
Árið 1956 var prentsmiðjunni skipt upp í tvær prentsmiðjur og Prentsmiðja Alþýðublaðsins sett upp að Hverfisgötu 8–10 og prentaði hún Alþýðublaðið eingöngu. Hinn hlutinn var settur upp að Vitastíg 10 í húsnæði með Alþýðubrauðgerðinni, en sölubúð hennar var í húsi á samliggjandi lóð að Laugavegi 61. Jóhannes Zoëga Magnússon (1907–1957) var fyrsti prentsmiðjustjóri hennar, en hann lést árið eftir að henni var komið á fót. Þá varð Ragnar Þ. Guðmundsson (1921–1984) setjari prentsmiðjustjóri til ársins 1967, en Ágúst K. Guðmundsson (1913–1980) prentari tók við af honum og var prentsmiðjustjóri til 1978. Þá tók Einar Einarsson við og var prentsmiðjustjóri þar til hún hætti 1986.