Ísafoldarprentsmiðja
Reykjavík 1877–
Björn Jónsson (1846-1912), ritstjóri Ísafoldar fékk leyfi til prentsmiðjureksturs 1876 og stofnaði Ísafoldarprentsmiðju þann 16. júní 1877. Sigmundur Guðmundsson var ráðinn yfirprentari, en prentsmiðjan var til húsa á heimili Björns, í svokölluðu Doktorshúsi á Ránargötu 13 í Reykjavík. Þetta var sama árið og Prentsmiðja Einars Þórðarsonar hóf störf. Var með því rofin rúmlega 100 ára einokun þessarar starfsemi á Suðvesturlandi.
Samkeppni varð strax mikil á milli prentsmiðjanna og fór svo að Einar seldi Birni Jónssyni prentsmiðju sína 1886. Björn fékk hingað fyrstu hraðpressuna árið 1879 til þess að prenta blaðið Ísafold, en hún er nú varðveitt í Árbæjarsafni.
Björn Jónsson var prentsmiðjustjóri til 1909, en þá tók Ólafur Björnsson (1884-1919), sonur hans, við og rak hana til 1916.
Árið 1917 var byrjað að prenta Morgunblaðið og sá prentsmiðjan um það í 25 ár. Herbert Sigmundsson (1883-1931) var prentsmiðjustjóri til 1929 og Gunnar Einarsson (1893-1975) til 1955 en þá tók við Pétur (1912-1987) sonur Ólafs. Jón Kristjánsson (1929-) prentari var prentsmiðjustjóri 1972-1976. Ísafoldarprentsmiðja stendur því á gömlum merg.
Fljótlega var byggt hús yfir prentsmiðjuna í Austurstræti 8 og Austurstræti 10 var keypt og síðan var byggt í Þingholtsstræti 5. Nýir eigendur, Leó E. Löve (1943-) o.fl. komu að rekstri prentsmiðjunnar árið 1982.
1994 kom Frjáls fjölmiðlun inn í reksturinn og þá voru jafnframt keyptar húseignir við Þverholt 9 og Brautarholt 1. Sá rekstur gekk ekki upp. Frjáls fjölmiðlun fór síðan í þrot árið 2002. Upp úr þrotabúinu voru stofnuð hlutafélög um DV og Fréttablaðið, en Kristþór Gunnarsson (1960-) og Kjartan Kjartansson (1955-) prentari keyptu Ísafoldarprentsmiðju og var prentsmiðjan flutt í Garðabæ. Í dag er Fréttablaðið prentað þar, mest lesna dagblað á Íslandi.
Árið 2006 var síðan flutt í 7000 fm nýtt húsnæði, að Suðurhrauni 1 þar í bæ. Í nóvember 2010 hlaut Ísafoldarprentsmiðja vottun Svansins – Norræna umhverfismerkisins.

Jón Ólafsson.
Prentsmiðjan Skuld
Eskifirði 1877–1880
Jón Ólafsson (1850-1916) ritstjóri og skáld var oft búinn að lenda í útistöðum við yfirvöld vegna skrifa sinna og þegar hér var komið sögu var hann tvisvar búinn að flýja til útlanda vegna þess. Fyrst samdi hann og lét prenta skammabækling um Benedikt Gröndal skáld. Síðan orti hann kvæðið Íslendingabrag sem olli miklu uppnámi í stjórnarherbúðum þegar það birtist í blaðinu Baldri. Þá gaf hann út blaðið Göngu-Hrólf í Reykjavík, en fyrir skrif hans í það var hann dæmdur í háar fjársektir og blaðið var bannað. Jón fór fyrst til Noregs en seinna til Norður-Ameríku og dvaldist þar til ársins 1875.
Hann kom síðan aftur til Íslands og fór til Eskifjarðar og gat þar ekki án blaðs verið og vantaði þá prentsmiðju. Þá fékk hann bróður sinn Pál Ólafsson skáld til að sækja um prentsmiðjuleyfi og fékk Páll það 27. maí 1876.
Jón fór þá til Kaupmannahafnar og keypti prentsmiðju sem hann kom sjálfur með siglandi á skonnortunni Sophie til Eskifjarðar árið eftir, sumardaginn fyrsta, 19. apríl 1877. Þetta var fyrsta prentvélin sem kom til Austurlands.
Blað Jóns hét Skuld, en Skuld var ein þriggja örlaganorna (sú sem ræður framtíðinni) og prentsmiðjan var skírð eftir blaðinu og hét Prentsmiðjan Skuld. Fyrsta blaðið var prentað 8. maí 1877. Skuld var fyrsta blaðið á Íslandi sem var myndskreytt, 23. júní 1880 og var myndin af Kristjáni konungi IX.
Árið 1880 var fjárhagur blaðsins orðinn það slæmur að blaðið hætti að koma út á Eskifirði og var síðasta blaðið prentað þar 16. október 1880. Jón sigldi þá af landi brott og prentarinn sem hann hafði komið með frá Kaupmannahöfn, Þ. Þ. Clementz, fór með honum. Prentsmiðjan Skuld var síðan ónotuð á Eskifirði í þrjú ár, en var þá seld til Seyðisfjarðar.
Prentsmiðja Einars Þórðarsonar
Reykjavík 1876–1886
Einar Þórðarson hafði verið forstöðumaður Landsprentsmiðjunnar um tuttugu ára skeið þegar hann lagði fram tilboð um að kaupa prentsmiðjuna og allt sem henni fylgdi miðað við þann 1. júlí 1875. Þetta var samþykkt bæði af Alþingi og staðfest af konungi og fékk Einar afsal fyrir prentsmiðjunni 29. desember sama ár.

Björn Jónsson eldri.
Prentsmiðja Norðanfara
Akureyri 1875–1886
Björn Jónsson eldri (1802-1886) á Akureyri hætti prentsmiðjurekstri í Prentsmiðju Norður-og Austurumdæmisins á Akureyri 1875, en Skafti Jósefsson (1839-1905) tók hana á leigu og gaf út blaðið Norðlingur. Björn sótti um nýtt leyfi til konungs fyrir prentsmiðju þar og fékk það. Stofnaði hann þá Prentsmiðju Norðanfara. Voru þá næstu 10 árin starfandi tvær prentsmiðjur á Akureyri þar til Björn Jónsson eldri lést 1886 en þá keypti Björn Jónsson yngri (1854-1920) þá prentsmiðju og var þá aftur aðeins ein prentsmiðja á Akureyri þar til Prentsmiðja Norðurlands, Odds Björnssonar var stofnuð árið 1901.
Prentsmiðja Norður- og Austurumdæmisins
Akureyri 1852-1879
Árið 1852 var stofnuð prentsmiðja á Akureyri sem hét Prentsmiðja Norður- og Austurumdæmisins, stundum nefnd Norðra-prentsmiðjan. Hafði þá ekki verið starfrækt prentsmiðja á Norðurlandi í um hálfa öld eða síðan prentsmiðjan á Hólum var sameinuð prentsmiðjunni í Leirárgörðum árið 1799.
Aðalhvatamaðurinn að stofnun þessarar prentsmiðju var Björn Jónsson eldri (1802-1886). Prentsmiðjuleyfið var dagsett 14. apríl 1852, en prentun hófst ekki fyrr en í febrúar 1853. Þetta var sjálfseignarfyrirtæki og hafði farið fram fjársöfnun, en gefendur voru hátt á annað þúsund. Helgi Helgason var yfirprentari frá upphafi og fram til 1861. Prentsmiðjan prentaði fyrsta málgagn Norðlendinga, Norðra, og var það meginritið sem prentað var þennan tíma. Bókaútgáfan var frekar fátækleg og bar vitni um erfiða tíma þessara ára. Voru helst prentuð og gefin út sálma- og bænakver, svo og rímur og ljóð.
Vegna rekstrarerfiðleika var ákveðið að leigja Sveini Skúlasyni (1824-1888) prentsmiðjuna og var hann forstöðumaður hennar 1856-1862. Hann hafði fengið Norðra til eignar, en svo illa gekk reksturinn að hann afsalaði sér honum og sagði upp leigusamningnum um prentsmiðjuna.
Björn Jónsson eldri tók þá prentsmiðjuna á leigu, breytti nafni blaðsins í Norðanfara, en allt fór á sömu leið og skuldir urðu svo miklar að leita varð eftir stuðningi ýmissa aðila til að greiða þær upp.
Skafti Jósefsson (1839-1905) tók nú prentsmiðjuna á leigu og fór að gefa út nýtt blað sem hét Norðlingur. Allt sat hins vegar við hið sama og fyrr, lítið prentað annað en hið nýja blað Skafta. Það var síðan á fundi 30. ágúst 1878 að prentsmiðjustjórnin ákvað að selja prentsmiðjuna. Kaupandinn var Björn Jónsson yngri (1854-1920) og salan fór fram þann 21. júní 1879.
Prentsmiðja Louis Klein
Kaupmannahöfn 1852-1883
Það er ekki mikið af heimildum til um Louis Klein prentara í Kaupmannahöfn. Þó má finna í upplýsingum úr manntali í Kaupmannahöfn að hann hefur átt heima í Store Kjöbmagergade 65, var fæddur 1810, giftur og átti tvær dætur.
Prentsmiðja Louis Klein var starfandi um og eftir miðja 19. öld á þeim tíma þegar Landsprentsmiðjan starfaði í Reykjavík. Hann hafði þó nokkur viðskipti við Íslendinga og á meðal helstu íslenskra bóka sem prentaðar voru hjá Klein má nefna: Þúsund og ein nótt, Mjallhvít, Sagan af Karla-Magnúsi, Hugleiðingar eftir J. P. Mynster biskup á Sjálandi, Æfiminningar Halldórs Bjarnasonar, Ferðasaga úr Noregi og Ljóðmæli Jóns Þorleifssonar prests á Ólafsvöllum.
Margar af þessum bókum gaf Páll Sveinsson (1818-1874) bókbindari út, en hann hafði mikil samskipti við prentsmiðju Louis Klein. Páll fór ungur til Kaupmannahafnar til að læra bókband, ílentist þar og vann mikið að útgáfu íslenskra bóka í Kaupmannahöfn alla sína tíð. Louis Klein studdi kórstarf á meðal prentara í Kaupmannahöfn, ásamt tveimur öðrum þekktum prentsmiðjueigendum safnaði hann fé til píanókaupa fyrir söngfélag þeirra.
Á sjötta áratug 19. aldar vann danskur prentari hjá Louis Klein. Hann hét Christian Sørensen (1818-1861), en hann fann upp setjaravél (Tacheotyp) og fékk gullverðlaun á Heimssýningunni í París 1855. Sørensen reyndi að koma vélinni í framleiðslu í Frakklandi en það mistókst. Hann snéri þá aftur heim til Danmerkur og fékk vinnu með tvær vélar sínar hjá Prentsmiðju Louis Klein við að setja blaðið Fædrelandet. Þetta mistókst líka en Sørensen varð samt sem áður heimsfrægur maður fyrir uppfinningu sína.

Horft norður Aðalstræti. Prentsmiðja landsins var í Bergmannsstofu, fremst til hægri. Fjær vinstra megin götunnar bjó Jón Guðmundsson ritstjóri Þjóðólfs í Aðalstræti 6, tvílyftu timburhúsi með lágu þaki, við hlið Fjalakattarins sem snýr gafli að götunni. Ljósm. Sigfús Eymundsson – Þjóðminjasafn Íslands.

Einar Þórðarson.
Landsprentsmiðjan
Reykjavík 1844–1875
Prentsmiðja landsins sem Ólafur Stephensen dómsmálaritari hafði haft á leigu í Viðey í 10 ár (1834-1844) var flutt til Reykjavíkur sumarið 1844. Ólafur vildi halda starfseminni áfram í Viðey en stiftsyfirvöldum þótti tilboð hans óaðgengilegt. Mestu réði þó að ákveðið var að endurreisa Alþingi í Reykjavík og þótti staðsetning prentsmiðjunnar því ekki hentug í Viðey.
Prentsmiðjan var nefnd Landsprentsmiðjan en stundum stóð á titilblöðunum Prentsmiðja landsins eða Prentsmiðja Íslands. Henni var komið fyrir í svonefndri Bergmannsstofu við Aðalstræti, rétt norðan við gamla kirkjugarðinn. Starfsemin var ekki viðamikil lengi framan af, þrátt fyrir prentun Tíðinda frá Alþingi og annars sem sú stofnun þarfnaðist. Var þó um mikla aukningu að ræða frá því sem verið hafði í Viðey.
Helgi Helgason yfirprentari í Viðey flutti með prentsmiðjunni til Reykjavíkur og gegndi sömu stöðu þar til ársins 1849. Gengið var þannig frá málum að prentsmiðjan var starfrækt sem sérstakt fyrirtæki með sjálfstæðu reikningshaldi undir umsjón yfirvalda. Helgi lærði prentun í Viðey hjá Guðmundi Skagfjörð sem lengst allra hafði stundað iðn sína í mörgum fyrri prentsmiðjum landsins allt frá Hólum. Helgi flutti síðan til Akureyrar og gerðist yfirprentari í Prentsmiðju Norður- og Austurumdæmisins.
Einar Þórðarson prentari tók við af Helga, en hann var útnefndur ráðsmaður prentsmiðjunnar 1852. Árið 1855 gerðu yfirvöld samning við hann um stjórn prentsmiðjunnar, en þó undir yfirumsjón þeirra varðandi hin útgefnu rit. Stóðu málin með þeim hætti þar til hann keypti prentsmiðjuna í lok ársins 1876.

Søren Lauritz Møller.

Johan Valdemar Møller.
Prentsmiðja S. L. Møller
Kaupmannahöfn 1827-1983
Prentsmiðja S. L. Møller á rætur sínar að rekja til íslenska prentarans Þorsteins Rangels Einarssonar (1757-1826). Þorsteinn nam prentiðn hjá Hartvig Godiches Enkes Bogtrykkeri í Kaupmannahöfn og fékk sveinsbréf árið 1780. Hann vann síðan í nokkrum prentsmiðjum, m.a. í Vaisenhuset og hjá Schultz en fór að vinna hjá Seidelin árið 1797.
Hann varð forstjóri þar árið 1805 eftir að Seidelin missti prentverkið vegna málaferla og rak hann það sem slíkur til ársins 1811. Þá keypti hann prentverkið og rak það til 1825 að hann seldi það vegna heilsuleysis í hendur syni sínum Einari Mogens Sophus Rangel (1784-1843) og stjúpsyni Søren Lauritz Møller ( – 1872). Þeir Einar og Søren sömdu svo um það að Søren tæki við forráðum fyrirtækisins og var opinber stofndagur þess 9. febrúar 1827.
Eftir að S. L. Møller hafði fengið í hendur leyfisbréfið fyrir rekstrinum lánaði Hið íslenska bókmenntafélag honum 800 ríkisdali sem hann notaði að hluta til að borga Rangel stjúpföður sínum vegna samnings um framfærslu og að hluta til reksturs prentsmiðjunnar. Prentun á íslenskum ritum sem Þorsteinn Rangel útvegaði fyrirtækinu í hálfa öld var mjög mikilvæg fyrir rekstur þess og íslenskir setjarar voru ávallt með í starfseminni.
Johan Valdemar Møller tók við af föður sínum 1872, en hann var ekki faglærður prentari. Hann fékk því L. E. Thomsen prentara sem meðeiganda og þeir skiptu með sér verkum þannig að Møller sá um skrifstofuna og setjara–salinn en Thomsen um verkstjórn í prentsal. Árið 1899 fór L. E. Thomsen út úr fyrirtækinu. Keypt var nýtt húsnæði í Hestemöllestræti 5 og flutt þangað 1904. Synir J. V. Møller, þeir Henning og Max tóku við fyrirtækinu 1918.
Fyrirtækið dafnaði vel og starfsemin jókst, svo keypt var hentugra húsnæði að Rosenorns Allé 29 og prentsmiðjan flutt þangað 1929. Á þessum tíma höfðu þar um 100 manns atvinnu. Síðan eru liðin um 80 ár. Í dag er fyrirtækið S. L. Møller Grafisk rekið á Malmmosevej 9 A í Holte í Danmörku og það er samband á milli þess og Prentsmiðju S. L. Møller sem stofnuð var 1827. Steen Lasse Møller sem stýrir þessu nýja fyrirtæki náði að vera þar í fimmtu kynslóð áður en það var lagt niður 1983. Fyrirtæki hans S. L. Møller Grafisk vinnur nú að grafískri framleiðslu og ráðgjöf.

Magnús Stephensen.

Ólafur Stephensen.
Viðeyjar Klaustur
Viðey 1819-1844
Prentsmiðjan í Viðey var eina prentsmiðjan á Íslandi um langt skeið og má segja að Magnús Stephensen hafi verið einvaldur í bókaútgáfu á sinni tíð. Þekktasta og stærsta bókin sem prentuð var í klaustrinu í Viðey var kennd við eyjuna og nefnd í daglegu tali Viðeyjarbiblía og kom út árið 1841. Guðmundur Jónsson Skagfjörð (1758-1844) var ráðinn yfirprentari í Viðey frá stofnun prentsmiðjunnar og gegndi því starfi til 1830. Eftirmaður hans var Helgi Helgason (1807-1862) og var hann yfirprentari í Viðey þar til prentsmiðjan var flutt til Reykjavíkur og fluttist hann með henni þangað. Einar Þórðarson (1818-1888) nam prentiðn í Viðey og fluttist líka með prentsmiðjunni til Reykjavíkur.
Magnús Stephensen sem upphaflega bjó að Leirá flutti síðar að Innra–Hólmi en þaðan til Viðeyjar árið 1813. Hann keypti eyjuna 1817 með öllum þeim eignum er henni fylgdu, en hún hafði verið eign Danakonungs frá siðaskiptum. Prentsmiðjan flutti frá Leirárgörðum að Beitistöðum árið 1814 en fylgdi síðan með Magnúsi til Viðeyjar 1819.
Bókbandið fylgdi hins vegar fyrst með Magnúsi að Innra-Hólmi 1807 og var starfrækt þar til 1819 en var síðan flutt með prentsmiðjunni til Viðeyjar 1819.* Ólafur Stephensen, sonur Magnúsar, fékk síðan prentsmiðjuna leigða árið 1834, ári eftir lát föður síns. Bókaútgáfa var meiri á hans tímabili en hjá föður hans, sem var störfum hlaðinn alla tíð. Ólafur var ritari við Landsyfirréttinn og hlaut því nafnbótina „sekreter“, sem kom fram á titilblöðum margra útgáfubóka hans. Hann bjó í Viðey til æviloka 1872.
*Sigurþór Sigurðsson: Bókband og bókbindarar á Íslandi. (Óútgefið í eigin handriti)