Prentverk Akraness
Akranesi 1942–1945
Ólafur B. Björnsson (1895–1959) og fleiri komu á fót prentsmiðju á Akranesi árið 1942 og voru keyptar vélar af Vilhjálmi Svan Jóhannssyni prentara sem stuttu áður (1. maí 1942) hafði stofnað prentsmiðju í Reykjavík undir sínu nafni. Vilhjálmur Svan var ráðinn prentsmiðjustjóri og varð einn af eigendum. Í október 1945 var ákveðið að selja prentsmiðjuna til Reykjavíkur í Hrappseyjarprent sem þá hafði verið stofnuð og var blaðið Akranes o.fl. prentað þar um tíma. Vélarnar sem keyptar voru af Vilhjálmi voru m.a. gömul setjaravél og gamla „hraðpressan“ frá 1879 úr Ísafold sem nú stendur uppgerð í Árbæjarsafni. Kom hún til Vilhjálms frá Prentsmiðju Hallgríms Benediktssonar, en þangað kom hún frá Vestra prentsmiðjunni á Ísafirði.
Prentsmiðja Vilhjálms S. Jóhannssonar
Reykjavík 1942
Vilhjálmur Svan Jóhannsson (1907–1990) prentari lærði prentun á Akureyri hjá Prentsmiðju Odds Björnssonar. Hann fluttist til Reykjavíkur 1928 og vann í Ísafold til 1942. Stofnaði þá prentsmiðju í Skerjafirði, en seldi hana sama ár Prentverki Akraness. Vilhjálmur kom að stofnun fleiri prentsmiðja í Reykjavík, m.a. Hrappseyjarprents og Prentfells.
Lithoprent
Reykjavík 1938–1972
Einar Þorgrímsson (1896–1950) offsetprentari og Guðmundur Ágúst Jóhannsson (1899–1981) prentari stofnuðu Lithoprent í maí 1938. Þeir félagarnir höfðu kynnst í Bandaríkjunum þar sem þeir dvöldu um skeið, Einar við háskólanám en Guðmundur við prentun.
Þetta var fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem notaði hina nýju tækni, offsetprentun, sem var að ryðja sér til rúms erlendis. Guðmundur var fagmaðurinn í fyrirtækinu en Einar var forstjórinn. Þeir áttu ekki skap saman svo leiðir þeirra skildu eftir tæpt ár, en Einar var forstjóri til dánardægurs 1950. Jakob Hafstein (1914–1982) var síðan framkvæmdastjóri frá 1951–1963, en á þeim árum var prentuð þar 2. útgáfa af Guðbrandsbiblíu sem var í sjálfu sér þrekvirki alveg eins og þegar biblían var prentuð á Hólum hjá Guðbrandi biskupi.
Síðasti forstjóri fyrirtækisins var Þorgrímur Einarsson (1920–2007), sonur Einars Þorgrímssonar, en Þorgrímur var fyrsti lærlingurinn í offsetprentun á Íslandi. Rekstri fyrirtækisins var hætt á árinu 1972 er það varð gjaldþrota.
Prentstofa JHG
Reykjavík 1938–1939
Jón Helgi Guðmundsson (1906–1952) prentari stofnaði prentsmiðju 1938 og nefndi hana Prentstofu JHG. Hann starfrækti hana í um það bil eitt ár, en seldi hana þá Guðmundi Kristjánssyni prentara sem stofnaði þá Prentsmiðjuna Rún. Vann Jón síðan nokkra mánuði í Steindórsprenti en gerðist þá ritstjóri Vikunnar og gegndi því starfi til dánardægurs.
Prentsmiðjan Edda
Reykjavík og Kópavogi 1936–1994
Prentsmiðjan Edda var stofnuð 1936 þegar nýtt hlutafélag keypti Prentsmiðjuna Acta sem hafði starfað frá árinu 1919. Aðalhvatamaðurinn að stofnun hennar var Sigurður Jónasson (1896–1965) forstjóri og bæjarfulltrúi í Reykjavík, en hluthafarnir voru alls þrettán.
Prentsmiðjan Edda var til húsa í Edduhúsinu að Lindargötu 9a í 44 ár eða til ársins 1982 að hún var flutt í nýtt húsnæði að Smiðjuvegi 3 í Kópavogi.
Hluthöfunum fjölgaði ört eftir stofnfundinn og urðu flestir 50 að tölu.
Fyrsta árið var Óskar Jónsson (1893–1944), prentsmiðjustjóri, en þá tók við Eggert P. Briem (1898–1947) til 1942, Eysteinn Jónsson ráðherra (1906–1993) til 1947, Þorsteinn Thorlacius (1886–1970) til 1960, Stefán Jónsson (1904–1995) til starfsloka í kringum 1980 og Þorbergur Eysteinsson (1940–) eftir að starfsemin flutti í Kópavog.
Undir það síðasta var Prentsmiðjan Edda orðin eign Sambands íslenskra samvinnufélaga að mestu, en það átti 91% hlutabréfa þegar hún sameinaðist G. Ben prentstofu árið 1994.
Víkingsprent
Reykjavík 1935–1991
Þessi prentsmiðja var stofnuð 1935 af þremur prenturum, þeim Birni Jónssyni (1895–1967), Stefáni Björnssyni (1905–1987) og Guðjóni Einarssyni Long (1905–2003). Þeir seldu síðan prentsmiðjuna árið 1939 samnefndu hlutafélagi og var Björn Jónsson prentsmiðjustjóri þar áfram til 1952.
Prentsmiðjan var þá í Garðastræti 15–17, í húsakynnum Ragnars Jónssonar í Smára (1904–1984) sem var eigandi prentsmiðjunnar og kallaði hann það Unuhús á titilblaði útgáfubóka sinna, en hið eiginlega Unuhús var þar við hliðina.
Haraldur Gíslason (1917–1999) var framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar í mörg ár, en hún var flutt um þetta leyti í Bókfellshúsið að Hverfisgötu 78. Prentsmiðjan var þar á þriðju hæðinni en hafði einnig aðstöðu bæði í kjallara hússins og á fjórðu hæð, en lyfta var á milli. Hörður Óskarsson (1923–2008) prentari var prentsmiðjustjóri. Síðast var Víkingsprent flutt á Veghúsastíg 7 þar sem Helgafell, bókaútgáfa Ragnars, var til húsa.
Seint á níunda áratugnum keypti Prentsmiðja GuðjónÓ hf (Sigurður Nordal) Víkingsprent og Umslag og var Sveinbjörn Hjálmarsson (1950–) ráðinn sem framkvæmdastjóri beggja fyrirtækjanna og voru þau rekin þar saman í þrjú ár.
Sveinbjörn keypti síðan Umslag 1991 og vélar Víkingsprents. Af þeim gaf hann blýsetningarvél, öll gömul tæki, letur o.fl. til Árbæjarsafns. Víkingsprent var síðan lagt niður en Umslag var rekið áfram í húsnæðinu að Veghúsastíg 7 þar til það var flutt árið 1997 í núverandi húsnæði að Lágmúla 5, bakhús.
Steindórsprent
Reykjavík 1934–1992
Steindór S. Gunnarsson (1889–1948) prentari stofnaði Steindórsprent árið 1934 ásamt fleirum, m.a. Kristjáni A. Ágústssyni (1898–1967) og Einari Jónssyni (1899–1965).
Steindór var prentsmiðjustjóri en að honum látnum tók við Hrólfur Benediktsson (1910–1976) prentari. Steindórsprent var fyrst til húsa í Aðalstræti 4, en seinna í Tjarnargötu 4 í Miðbæ Reykjavíkur. Það var síðan flutt í austurhluta borgarinnar og var staðsett við Ármúla þegar það keypti Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg 1992. Steindór Hálfdánarson (1945–) prentari var síðasti framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Nafninu var þá breytt í Steindórsprent-Gutenberg.
Prentstofan Ísrún
Ísafirði 1933–1990
ónas Tómasson (1881–1967) tónskáld keypti Prentsmiðju Vesturlands og Njarðarprentsmiðjuna 1933 og stofnaði Prentstofuna Ísrúnu og var forstjóri hennar til 1948. Magnús Ólafsson (1875–1967) prentari var prentsmiðjustjóri í Ísrúnu 1934–1950. Sigurður Jónsson (1919–2012) prentari, sem hóf þar nám í prentun 1938, tók við af Magnúsi og var prentsmiðjustjóri árin 1950–1986. Í Prentstofunni Ísrúnu var Bárður Guðmundsson (1871–1952) bókbandsmeistari og þar lærði bókband Engilbert Ingvarsson (1927–) bóndi að Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd, nú á Hólmavík.
Prentsmiðjan Viðey
Reykjavík 1933–1990
Prentararnir Bjarni J. Jóhannesson (1877–1951) og Guðmundur Gunnlaugsson (1882–1968) stofnuðu Prentsmiðjuna Viðey 1. október 1933. Guðmundur seldi Bjarna sinn hlut 1936, en Bjarni rak hana áfram til æviloka 1951. Þá tóku við rekstrinum Runólfur (1908–1973), sonur hans og tengdasonur Guðmundur Á. Jónsson (1904–1978). Þeir starfræktu prentsmiðjuna til 1961, en þá keypti hana Þráinn Þórhallsson (1931–) prentari og rak hana í 10 ár á sama stað og hún hafði verið, að Túngötu 5 í Reykjavík. Þráinn byggði síðan hús að Þverholti 15 og rak prentsmiðjuna þar til 1990, en þá var hún sameinuð Prentsmiðju GuðjónÓ hf að Þverholti 13.
Prentsmiðjan Dögun
Reykjavík 1933–1935
Stefán Ögmundsson (1909–1989) prentari stofnaði Prentsmiðjuna Dögun í Reykjavík og rak hana árin 1933–1935. Hann seldi þá prentsmiðjuna til hlutafélags er hætti störfum skömmu síðar en Prentsmiðja Jóns Helgasonar keypti vélarnar.
Prentsmiðjan Dögun prentaði bæklinga af ýmsum gerðum og blöð fyrir vinstri hreyfingu verkalýðsstéttarinnar svo sem Rauða fánann, Sovétvininn o.fl. Stefán starfaði í ýmsum prentsmiðjum Reykjavíkur og var einn af stofnendum Prentsmiðjunnar Hóla og vann þar 1942–1944. Ennfremur einn af stofnendum Prentsmiðju Þjóðviljans og vann þar 1944–1958 og prentsmiðjustjóri frá 1948.
Stefán var formaður Hins íslenska prentarafélags um tíma, varaforseti Alþýðusambands Íslands 1942–1948 og formaður Menningar- og fræðslusambands alþýðu, MFA, frá stofnun 1969 og sat í bókasafnsnefnd HÍP frá 1945–1980 og síðan FBM 1981 – dd. 1989. Stefán var heiðursfélagi HÍP og síðar FBM frá 1980.