Aðalfundur 2016

Fyrsti aðalfundur Prentsöguseturs var haldinn laugardaginn 19. mars. Auk venjulegra aðalfundarstarfa ræddi Páll Baldvin Baldvinsson við fundarmenn um kynni sín af bókagerðarmönnum. Hann er sonur Baldvins Halldórsonar leikara og setjara og kynntist því faginu frá barnæsku. Í ljós kom reyndar að hann hafði ekkert nema gott um fagmenn í bókiðngreinum að segja, eftir áralanga reynslu við ritstjórn, blaðamennsku og önnur ritstörf. Hann hlaut einmitt Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrr á þessu ári.
Einnig kynnti Páll Svansson nethönnuður heimasíðu Prentsöguseturs – www.prentsögusetur.is – sem er á lokaskrefum hönnunar, og vakti mikla hrifningu fundarmanna.

Þá afhenti Hjörtur Guðnason gjafir til Prentsöguseturs frá afkomendum Magnúsar Sigurðar Magnússonar prentara, systkinunum Jóhönnu Jóhannsdóttur Thorlacius og Þorkeli Jóhannessyni og mökum þeirra, Ólafi Þ. Thorlacius og Veru Tómasdóttur.
Gjafirnar voru bóklistaverkið Prentlistin fimm hundruð ára [handlýst og skrýdd teikningum Hafsteins Guðmundssonar], innbundið eintak af Íslensku prentaratali 1530–1950 og loks ljósmynd af Magnúsi Sigurði við prentvél í prentsmiðjunni Gutenberg. Prentsögusetur færir gefendum kærar þakkir fyrir rausnarskapinn.

Kosningar í embætti fóru svo, að Haukur Már Haraldsson var endurkjörinn formaður og aðrir í aðalstjórn Heimir Jóhannsson, Svanur Jóhannesson, Þóra Elfa Björnsson og Þórleifur V. Friðriksson. Í varastjórn voru kjörin þau Bjargey Gígja Gísladóttir og Baldvin Heimisson. Félagslegir skoðunarmenn reikninga voru kjörnir þeir Ólafur Stoltzenwald og Simon Knight.