Fundargerð aðalfundar Prentsöguseturs 10. mars 2018

 

Fundurinn var haldinn að Stórhöfða 31. Fjórtán fundarmenn mættir

 

DAGSKRÁ

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögðfram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning formanns
  7. Kosning fjögurra annarra stjórnarmanna og tveggja til vara
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  9. Jens Halldórsson prentmyndasmiður segir frá vinnubrögðum, prentmyndastofum og fleira frá fyrri tíð
  10. Önnur mál.

 

1) Formaður setti fundinn sem er fjórði aðalfundur Prentsögusetursins. Hann stakk upp á Sæmundi Árnasyni sem fundarstjóra og Þóru Elfu Björnsson sem fundarritara og var það samþykkt.

2) Skýrsla stjórnar. Formaður, Haukur Már, sagði fjóra stjórnarfundi hafa verið haldna á árinu auk óformlegs spjalls og margra símtala, tölvupósta  o.fl.. Formaður hafði hitt Ísólf Gylfa Pálmason, sveitarstjóra á Hvolsvelli vegna hugmynda um að Prentsögusetur yrði opnað þar í samvinnu við fleiri atriði eða sýningar. Allt viðmót var jákvætt nema fé liggur ekki fyrir. Þá sagði formaður að Gónhóll á Eyrarbakka væri mjög líklega úr sögunni sem sýningarstaður en við munum geta geymt þar eitthvað áfram þá muni sem þegar eru þar í geymslu. Formaður og gjaldkeri höfðu setið fund með tveimur forráðamönnum Árborgar á Selfossi á dögunum, vegna hins nýja/gamla fyrirhugaða miðbæjar þar, með hugmynd um að Prentsögusetri með sýningu og lifandi vinnu væri ætlaður þar staður. Þetta er á fyrsta viðræðustigi, virðist þurfa all nokkurt fé, bæði til að koma í gang og til rekstursins. Félagið vantar meira geymsluhúsnæði meðan leitað er úrræða. Þá gat formaður þess að á  næstunni muni verða hægt að opna vísi að safni í Bókamiðstöð (prentsmiðju) Heimis Br. Jóhannsonar við Laugaveg með ýmsum munum úr rekstri Heimis. Þá þakkaði formaður samstarfið, einnig ábendingar og velvilja á árinu og minnti á vefsetur PSS.

3) Reikningar félagsins.  Gjaldkerinn, Svanur Jóhannesson, fór yfir helstu liði reikninga ársins 2017 sem höfðu verið yfirfarnir og samþykktir af endurskoðendum félagsins. Peningaeign í lok ársins er kr. 1.419.827. Reikningarnir voru bornir upp og samþykktir.

4) Svanur lýsti för sinni á kynningarfund með Leo Árnasyni og Guðjóni Arngrímssyni  á Selfossi þar sem unnið er með hugmynd um nýjan/gamlan miðbæ. Þar verða byggð hús í sömu mynd og önnur sem hafa eyðilagst í bruna eða af tímans tönn á ýmsum stöðum á landinu. Tryggður hefur verið reitur undir þennan kjarna húsa og verða þau leigð út til ýmis konar starfsemi. Lobby hótels var nefnt sem hugsanlegur sýningarstaður fyrir gamla prentsýningu. Spurt var úr sal hvort hægt yrði að bjóða upp á prentsmiðjurekstur samhliða sýningu og var svara það væri allt í athugun. Heimir sagði þetta gott og gilt en aðsókn yrði örugglega alltaf best ef stofnunin væri í Reykjavík. Ný stjórn félgsins mun funda um þessi mál og fleiri í sama tilgangi.

5) Lagabreytingar. Engar lagabreytingatillögur höfðu borist.

7) Félagsgjald. Samþykkt var að gjaldið verði óbreytt eða kr. 3000.

8) Kjör formanns. Ekki kom mótframboð við sitjandi formann og var Haukur Már Haraldsson klappaður í embættið.

9) Kosning fjögurra annarra stjórnarmanna og tveggja til vara. Bjargey Gígja Gísladóttir gaf ekki kost á sér áfram en stungið var upp á Sófusi Guðjónssyni, ekki voru aðrar breytingar og var þetta samþykkt.

10) Skoðunarmenn reikninga voru klappaðir til áframhaldandi starfa.

11) Jens Halldórsson prentmyndasmiðursagði af starfinu í faginu, ýmsum tækjum og aðferðum, ógleymdum vinnufélögum og minnisstæðum samferðamönnum og var þetta lifandi og skemmtileg frásögn.

Önnur mál  a) Guðmundur Oddur, prófessor við LHÍ, er var gestur á fundinum bað um orðið, sagðist vera að safna fróðleik um sögu fjölföldunar á Íslandi, hefði fengið ríflegan styrk til þess og væri nú að spýta í lófana. Sagði vanta þætti um sögu prentunar frá því hún fluttist úr Viðey, sagðist gjarnan vilja koma á fund hjá félaginu og segja frá og fræðast á móti.

Þá þakkaði formaður gestum góða fundarsetu og sleit fundi.

 

Ritari: Þóra Elfa Björnsson