Prentsmiðja Eyjablaðsins
Vestmannaeyjum 1926–1927
Guðjónsbræður, þeir Guðjón og Þorbjörn, seldu Ísleifi Högnasyni og Verkamannafélaginu Drífanda hluta af prentsmiðju sinni í desember 1926. Prentsmiðjan var þá flutt í íbúðarhús Ísleifs Högnasonar að Helgafellsbraut 19 (Bolsastöðum). Fyrsta blaðið sem merkt var þessari prentsmiðju kom út 19. desember 1926 og var það 14. tbl. Eyjablaðsins. Vilhjálmur S. Vilhjálmsson blaðamaður var áfram ábyrgðarmaður blaðsins og hafði með höndum afgreiðslu þess, en ritstjórn önnuðust sömu menn og áður: Ísleifur Högnason, Haukur Björnsson og Jón Rafnsson.
Vilhjálmur S. Vilhjálmsson tók síðan við ritstjórn blaðsins í janúar 1927 og er til viðtals daglega á Vestmannabraut 3. Hann er síðan áfram ritstjóri og ábyrgðarmaður þar til hann flutti úr Eyjum, en síðasta blað hans kemur út 6. mars.
Þá er Jón Rafnsson ábyrgðarmaður blaðsins þar til það hætti að koma út 9. júlí þetta sama ár. Allir þessir menn áttu eftir að marka sín spor í sögu verkalýðshreyfingarinnar. Vilhjálmur gerðist blaðamaður við Alþýðublaðið og var brautryðjandi viðtalsformsins í íslenskri blaðamennsku og var þetta hans frumraun. Ekki er vitað hver tók við prentun blaðsins eftir að Guðjón Ó. hætti í desember 1926.
Prentsmiðja Guðjónsbræðra
Vestmannaeyjum 1926
Guðjón Ó. Guðjónsson (1901–1992) prentari keypti Eyrarbakkaprentsmiðju árið 1926 og setti hana upp að Laufásvegi 15 í Reykjavík. Var byrjað að prenta í henni þar í febrúar það ár. Prentsmiðjan hafði legið ónotuð í nokkur ár, en síðast hafði verið prentað í henni blaðið Þjóðólfur í Landsbankahúsinu á Selfossi um 1920. Guðjón lagfærði hana og jók tækjabúnað verulega.
Um þessar mundir var gerð svohljóðandi samþykkt á fundi í Verkamannafélaginu Drífanda í Vestmannaeyjum:
„Verkamannafjel. „Drífandi“ ákveður að gefa út vikublað hjer í Eyjunum og felur stjórn sinni að sjá um útgáfu og alla tilhögun þess fyrst um sinn“.
Í framhaldi af þessu fór stjórn félagsins þess á leit við bræðurna Guðjón Ó. Guðjónsson og Þorbjörn Guðjónsson (1891–1974) bónda og formann í Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, en þeir áttu prentsmiðjuna saman, að þeir flyttu prentsmiðjuna til Vestmannaeyja. Frá þessu er sagt í 1. tbl. Eyjablaðsins 26. september 1926.
Prentsmiðjan var sett upp að Heimagötu 22 og var hún kölluð Prentsmiðja Guðjónsbræðra. Alls voru prentuð þar 13 tölublöð. Í október kom Vilhjálmur S. Vilhjálmsson blaðamaður til Eyja og tók að sér rekstur blaðsins og afgreiðslu. Hann var ábyrgðarmaður þess meðan hann dvaldi í Eyjum, fram í mars 1927. Síðasta blað af Eyjablaðinu, sem prentað var í Prentsmiðju Guðjónsbræðra, var prentað þar 12. desember 1926. Fyrst var afgreiðsla blaðsins í sama húsi og prentsmiðjan, Heimagötu 22, en frá 6. tbl. 25. október var afgreiðslan flutt að Heimagötu 20 (Carlsbergi).
Það sem er merkilegast við þessa útgáfu er litprentunin á forsíðu blaðsins, en þetta mun líklega vera fyrsta íslenska blaðið sem prentað er í tveimur litum. Undirtitillinn, Málgagn alþýðu í Vestmannaeyjum í rauðu sem undirstrikar líka að þetta eru allt blóðrauðir bolsar sem margir urðu seinna þjóðkunnir menn. Rauði liturinn gerir blaðið miklu líflegra og meiri líkindi eru til þess að menn kaupi það.
Prentsmiðja Ljósberans
Reykjavík 1925–1928
Jón Helgason prentari kom áður við sögu þegar hann flutti með Prentsmiðju Hafnarfjarðar til Eyrarbakka og kom þar á fót Prentsmiðju Suðurlands ásamt fleirum. Þar byrjaði hann að gefa út Heimilisblaðið sem kom út samfellt í 70 ár. Jón flutti fljótlega til Reykjavíkur aftur og vann í Félagsprentsmiðjunni og Gutenberg þar sem Heimilisblaðið var prentað um tíma. Hann stofnaði síðan barnablaðið Ljósberann 1921 og var það prentað fyrsta árið í Gutenberg en svo í Prentsmiðjunni Acta. Þá urðu straumhvörf í lífi Jóns og hann stofnaði Prentsmiðju Ljósberans 1925 og voru þá bæði blöðin prentuð þar eftir það. Þessu nafni hélt prentsmiðjan til ársins 1928 að nafninu var breytt í Prentsmiðju Jóns Helgasonar. Er nánar sagt frá henni síðar.
Prentsmiðja Guðjóns Guðjónssonar
Reykjavík 1925–1926
Guðjón Ó. Guðjónsson (1901–1992) nam prentun í Ísafoldarprentsmiðju, og vann þar að námi loknu til 1925. Þá festi hann kaup á gamalli prentsmiðju, sem verið hafði í geymslu í nokkur ár (líklega í Reykjavík) og setti hana upp að Laufásvegi 15. Guðjón jók tækjabúnað hennar verulega og var byrjað að prenta í henni í febrúar 1926.
Þetta var gamla Aldar-prentsmiðja Jóns Ólafssonar ritstjóra, sem seinna var Prentsmiðja Suðurlands á Eyrarbakka, en síðast hafði blaðið Þjóðólfur verið prentað í henni, í Landsbankahúsinu á Selfossi í janúar 1920.
Prentsmiðja Sigurðar Þ. Guðmundssonar
Seyðisfirði 1924–1934
Sigurður Þorsteinn Guðmundsson (1899–1958) prentari vann í Prentsmiðju (prentsmiðjufélags) Austurlands á Seyðisfirði frá 1919. Hann tók reksturinn yfir 1924 og rak prentsmiðjuna sem einkafyrirtæki til ársins 1934. Fyrstu árin störfuðu að jafnaði tveir menn í prentsmiðjunni en eftir 1928 var Sigurður oftast eini fasti starfsmaðurinn. Prentsmiðjan átti í rekstrarerfiðleikum frá upphafi og átti heimskreppan mikla þar mikinn þátt í. Fór svo að lokum að hann seldi hana Angantý Ásgrímssyni (1904–1947) prentara sem tók þá við rekstrinum.
Prentsmiðja G.J. Johnsen
Vestmannaeyjum 1924–1930
Gísli J. Johnsen kaupmaður og konsúll hélt áfram eignarhaldi sínu á prentsmiðjunni en reksturinn var erfiður. Hann hafði nú ekki lengur ritstjóra á borð við Pál Bjarnason eða Pál V.G. Kolka. Eina leiðin var að prentarinn sinnti báðum störfum. Eftir að blaðið Skjöldur hætti að koma út, um mitt ár 1924 byrjaði Valdimar Brynjólfsson Hersir (1891–1936) prentari að gefa út blað sem hann nefndi Þór. Þetta var þriðja tilraunin með blað í Vestmannaeyjum, en hinar misheppnuðust. Fyrsta blaðið kom út 6. ágúst 1924 og segir í grein frá ritstjóra að blaðið „muni að mestu leyti feta í fótspor fyrirrennara sinna Skeggja og Skjaldar í öllum opinberum málum…“.
En erfitt reyndist að reka þessa prentsmiðju því markaðurinn var svo lítill, að það reyndist illmögulegt. Þór kom ekki út nema í tæpt ár og kom síðasta blaðið 30. apríl 1925. Þá hóf Valdimar enn á ný útgáfu blaðs sem hann nefndi Skeggja og taldi vera 4. árgang gamla Skeggja. Fyrsta blaðið kom út 12. júní 1926. Í auglýsingu frá blaðinu segir að Skeggi sé blað frjálslyndra manna í Vestmannaeyjum, komi út vikulega og kosti árgangurinn 5 kr.
Síðasta blað Skeggja kom út 19. febrúar 1927. Varð þá nokkurt hlé á starfsemi prentsmiðjunnar. Ólafur Magnússon tók hana á leigu í nóvember 1928 og hóf að gefa út blaðið Víði en lést ári seinna. Gísli J. Johnsen varð síðan gjaldþrota 1930 og nokkrir menn í Eyjum keyptu prentsmiðjuna af þrotabúi hans.
Prentsmiðja Alþýðublaðsins
Reykjavík 1923–1956–1972
Forsaga málsins er sú að Alþýðublaðið fyrra kom fyrst út 1. janúar 1906, árið viðburðaríka þegar Dagsbrún var stofnuð 28. janúar og Bókbindarafélagið 11. febrúar. Ritstjóri Alþýðublaðsins var Pétur G. Guðmundsson bókbindari og verkalýðsfrömuður, en frumkvæðið að útgáfu Alþýðublaðsins átti hins vegar Ágúst Jósefsson prentari. Alþýðublaðið var prentað í Prentsmiðjunni Gutenberg, sem þá var nýstofnuð (1904) Þetta blað kom aðeins út í rúmt ár, því síðasta blaðið kom út 7. apríl 1907.
Alþýðublaðið seinna kom hins vegar fyrst út 29. október 1919 og var þá líka prentað í Prentsmiðjunni Gutenberg til 1923. Þá var það að Hallgrímur Benediktsson prentari leigði þeim prenturunum og Alþýðuflokksmönnunum, Guðmundi J. Guðmundssyni (1899–1959) og Tómasi Albertssyni (1896–1955) prentsmiðju sína að Bergstaðastræti 19. Prentvélin þar hafði verið keypt til landsins árið 1879 til Ísafoldar og var fyrsta svokallaða hraðpressan á landinu. Þarna var blaðið prentað þar til Prentsmiðja Alþýðublaðsins tók til starfa í Alþýðuhúsinu á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu 1926. Hún hét reyndar Alþýðuprentsmiðjan, en var stofnuð til að prenta Alþýðublaðið og prentsmiðjustjórinn var enginn annar en Hallbjörn Halldórsson (1888–1959), sá mæti prentari.
Árið 1956 var prentsmiðjunni skipt í sundur og Prentsmiðja Alþýðublaðsins sem var staðsett í Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu 8–10 prentaði Alþýðublaðið eingöngu. Hinn helmingurinn fór upp á Vitastíg 10 og prentaði fyrir flokkinn og allan almenning. Prentmyndagerð Alþýðublaðsins var sett á stofn 1958 en starfaði aðeins til 1959 og var þá seld til Jóns Stefánssonar, Páls Finnbogasonar og Stefáns Gylfa Valdimarssonar. Hún var síðan verið rekin undir ýmsum nöfnum og af ýmsum eigendum: Prentmyndagerð J&G, Nýja prentmyndagerðin og síðast Prentmyndastofan.
Á sínum tíma var Alþýðuhúsið við Hverfisgötu reist fyrir samskotafé og áheit frá verkamönnum og alþýðufólki í Reykjavík. Þá var þarna til húsa Alþýðusamband Íslands, Alþýðuflokkurinn og Alþýðublaðið, allt á sama stað. Árið 1968 hætti Alþýðuflokkurinn að vera formlegur rekstraraðili Alþýðublaðsins. Þetta voru erfið rekstrarár fyrir flokksblöðin og 1972 var Blaðaprent stofnað með sameiginlegri prentsmiðju að Síðumúla 14. Eftir að Blaðaprent hætti að prenta blaðið var Alþýðublaðið prentað í Odda á tímabili og síðast í Ísafoldarprentsmiðju, en það hætti að koma út 1998.
Prentsmiðja Vesturlands
Ísafirði 1923–1933
Prentsmiðja þessi var keypt ný frá Englandi 1923 af Herbert Sigmundssyni prentsmiðjustjóra Ísafoldarprentsmiðju. Blaðið Vesturland hóf þá göngu sína og var Sigurður Kristjánsson (1885–1968) ritstjóri þess. Stofnað var hlutafélag um prentsmiðjukaupin og söfnuðust um 25.000 kr.
Aðalforgöngumenn voru: Björn Magnússon símstjóri, Jón Auðunn Jónsson (1878–1953) alþm. og Sigurður Kristjánsson kennari og alþingismaður. Prentfélag Vestfjarða hf er skrifað fyrir blaðinu Vesturlandi fyrstu árin, en í janúar 1926 var nafninu breytt í Prentsmiðju Vesturlands. Blaðið var svo prentað þar til 24. des. 1932 en þá varð hlé á útgáfunni í hálft ár og kemur það ekki út fyrr en í júní 1933 og er þá prentað í Prentsmiðju Njarðar en síðan hjá Prentstofunni Ísrún. Þetta var stór hraðpressa, allmikil prentáhöld, og mikil og margbreytt letur, en það vantaði alla íslensku stafina í það, og fengust þeir ekki þótt reynt væri. Varð því bráðlega að kaupa ný letur til prentsmiðjunnar. Aðalvél prentsmiðjunnar var knúin með raforku og var það fyrsta rafknúna vélin í bænum. Í prentsmiðjunni störfuðu þessir prentarar: Júlíus Sigurðsson (1894–1960), Magnús Ástmarsson (1909–1970), Jón Hjörtur Finnbjarnarson (1909–1977) og Einar Ágúst Bjarnason (1889–1930).
Prentsmiðja Ágústs Sigurðssonar
Reykjavík 1922–2000
Ágúst Sigurðsson (1873–1943) prentari stofnaði þessa prentsmiðju 23. júní 1922 og vann þar alla tíð meðan heilsan entist. Sonur hans Henrik Wilhelm (1905–1966) lærði prentun hjá föður sínum og tók við sem prentsmiðjustjóri 1959. Prentsmiðjan var fyrst til húsa í Pósthússtræti 11, þar sem Hótel Borg er núna, en þegar það var byggt var hún flutt í Austurstræti 12, en síðan í Mjóstræti 6 árið 1951. Tveir synir Henriks lærðu prentun og tóku við af föður sínum þegar hann lést 1966. Ragnar Jóhannes (1940–2018) og Þórður Ágúst (1942–) en Þórður sá um reksturinn einn eftir að bróðir hans flutti til Noregs 1989.
Prentsmiðjan PÁS þjónaði mörgum fyrirtækjum og stofnunum í miðbæ Reykjavíkur í gegnum árin, eins og LR, Jes Zimsen, Nóa-Siríus, Ásgeiri Sigurðssyni o.fl. Á níunda og tíunda áratugnum urðu miklar tæknibreytingar og var prentsmiðjan þá lögð niður 1. ágúst aldamótaárið 2000.
Prentsmiðjan á Bergstaðastræti 19
Reykjavík 1920–1940
Á seinustu árum Hallgríms Benediktssonar prentara, sem stofnaði prentsmiðju á þessum stað um 1920 og nefndi Prentsmiðju Hallgríms Benediktssonar, var hætt að nota það nafn, en hún nefnd Prentsmiðjan á Bergstaðastræti 19.
Hallgrímur keypti Prentsmiðju Hauks á Ísafirði um 1920 og þar með gömlu Ísafoldarhraðpressuna og flutti hana til Reykjavíkur og setti hana upp í Bergsstaðastræti 19. Hann starfrækti hana til dánardægurs 1940. Hallgrímur stundaði blaðamennsku, útgáfustarfsemi og verslun jafnframt prentstörfum. Hallgrímur vann í Prentsmiðju Þorvarðar Þorvarðssonar í eitt ár, en gerðist svo einn af stofnendum Gutenbergs. Þar var hann verkstjóri fyrsta árið sem hún starfaði.