Kæru félagar í Prentsögusetri.
Stjórn setursins sendir ykkur sínar bestu jóla- og nýársóskir.
Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir þeir Simon Knight og Ólafur Stolzenwald.
Fundir
Frá síðasta aðalfundi hafa verið haldnir sjö stjórnarfundir. En samskipti stjórnarmanna hafa verið mun meiri. Við tölum mikið saman í síma, ráðum ráðum okkar yfir kaffibolla eða á fundum með utanaðkomandi fólki sem við höldum að geti ráðið okkur heilt í málefnum setursins. Þannig héldum við Þóra Elfa fund með sveitarstjóra og fleiri yfirmönnum sveitarfélagsins Hellu, um hugsanlegt samstarf um húsnæði fyrir Prentsögusetur þar á staðnum. Okkur var vel tekið og við fundum fyrir nokkrum áhuga þeirra sem við ræddum við. Húsnæðið sem var til umræðu hefði verið tilvalið til sýningahalds og lagergeymslu, en það var auðfundið að fulltrúar sveitarfélagsins töldu það ekki hafa fjárhagslega burði til að leiða málið til lykta.
Í annan stað ræddum við Þóra Elfa við Þóru Björk Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Safnaráðs um hvaða kröfur Prentsögusetur þyrfti að uppfylla til að geta orðið gjaldgengt í Safnasjóði. Í ljós kom að það var talsvert og við þurfum að vinna að því á komandi ári.
Húsnæðismálin
eru í svipaðri stöðu og þau voru fyrir ári. Við höfum gengið út frá því að setrið verði til húsa að Gónhóli á Eyrarbakka. Það húsnæði er í uppbyggingu, en síðustu fréttir eru þær að mjög hafi slegið í bakseglin þar. Vegna erfiðleika – aðallega fjárhagslegra – megi gera ráð fyrir að ekki verði hægt að opna fyrr en eftir fimm ár. Þegar við lögðum af stað í þessa vegferð gerðum við ráð fyrir – samkvæmt samráði við eigendur húsnæðisins – að eftir þrjú ár gætum við opnað fyrstu sýningu Prentsöguseturs. Nú eru liðin tvö ár og það segir sig sjálft að fimm ár í viðbót er ekki ásættanlegur dráttur. Þannig að við þurfum að líta í kringum okkur. Við höfum verið í sambandi við sviðsstjóra eigna- og umsýslusviðs hjá Reykjavíkurborg, Hrólf Jónsson. Í gær áttum við Þóra Elfa og Þórleifur V. fund með honum og Óla Jóni Hertevig um hugsanlegan möguleika á geymsluhúsnæði fyrir okkur. Þetta var jákvæður fundur og talið hugsanlegt að við gætum fengið inni með tæki og tól í Toppstöðinni í Elliðaárdal. Einnig var Álfsnesið nefnt í því sambandi, en þótti hæpnara. Óli Jón var settur í að skoða málið og mun setja sig í samband við okkur þegar möguleikarnir liggja fyrir. Það er reyndar spurning hvort einnig ætti að leita hófanna hjá borginni um safnhúsnæði, þótt sjálfur vildi ég helst að það væri við hringveg 1 í Suðurlandskjördæmi. Við nefndum þann möguleika á fundinum í gær, en það er Borgarsögusafn sem sér um slík málefni og Hrólfur bauðst til að hafa samband við forstöðumann þess og spyrjast fyrir.
Við í stjórninni munum halda þessu máli vakandi.
Rétt er að geta þess að við höfum verið fullvissuð um að tæki sem komin eru á Eyrarbakka séu og verði örugg og megi vera þar eftir okkar þörfum.
Tækjasöfnun
Það verður ekki annað sagt en að talsverður áhugi sé á varðveislu gamalla tækja úr prentiðnaði. Tæki og tól til setningar og umbrots, prentunar og bókbands hafa verið boðin Prentsögusetri. Í rauninni er það aðeins húsnæðisleysið sem hefur hamlað okkur. Við stöndum raunverulega frammi fyrir þeim möguleika að einhverjum af þessum tækjum verði hreinlega hent, því þau eru fyrir. Sums staðar, eins og hjá Prentmeti, er gömlum tækjum safnað í gáma og þar megum við láta greipar sópa að vild.
Við höfum fengið nokkuð af tækjum hjá Þjóðminjasafninu, tækjum sem hafa verið í góðu geymsluhúsnæði. Á sínum tíma tók Þjóðminjasafnið við alls kyns tækjum og tólum úr hinum ýmsu starfsgreinum hér á landi með það fyrir augum að setja á stofn iðnsögusafn. Þær áætlanir virðast hafa verið lagðar til hliðar og safnið bað okkur beinlínis að taka við því sem heyrði til prentiðnaði. Þau tæki eru nú á Eyrarbakka.
Ágætt dæmi um að orðspor Prentsöguseturs hefur breiðst út er símhringing sem ég fékk fyrir tæpum mánuði. Þar var í símanum ljósmyndari sem ásamt fleirum slíkum var í sameiginlegu húsnæði, þar sem m.a. tækja var högghnífur sem myndasmiðirnir höfðu notað til að klippa karton. Hann spurði hvort ég væri ekki í prentsögueitthvað. Ég jánkaði því og þá bauð hann okkur þennan hníf að gjöf; hann væri plássfrekur og hægt að leysa hann af með smærra og meðfærilegra tæki.
Vefsvæði Prentsöguseturs
er komið í notkun. Vefsvæðið er verk Páls Svanssonar og var hugmyndin á bak við það kynnt á aðalfundinum í fyrra. Á vefnum er rakin prentsaga Íslands hér á landi og erlendis, – þ.e. þær prentsmiðjur í Danmörku sem helst prentuðu fyrir íslendinga. Einnig einstök fyrirtæki frá upphafi til 21. aldar. Byrjað er að skrá þá gripi sem setrinu hafa borist, bækur, myndir og tæki og tól til setningar, umbrots, prentunar og bókbands. Það er nokkuð tímafrekt starf sem verður haldið áfram.
Ég vil eindregið hvetja ykkur til að skoða vefinn og ekki síður að hafa samband við Pál Svansson, vefstjóra, ef þið hafið athugasemdir eða uppástungur. – Það er full ástæða til þess hér að þakka Páli fyrir óeigingjarnt starf við vefsvæðið.
Starfshópur um hugmyndafræði
Stjórnin ákvað að setja á stofn eins konar starfshóp um það hvernig hugmyndafræðin að baki Prentsöguseturs skuli koma fram í starfseminni þegar þar að kemur. Ákveðið var að fá í hópinn tvo einstaklinga utan stjórnar sem eins konar kjarna og einn stjórnarmann sem tengilið við stjórnina.. Í hópnum eru þær Málfríður Finnbogadóttir bókasafnsfræðingur, Katrín Jónsdóttir prentsmiður og Þórleifur V. Friðriksson sem tengiliður við stjórn. Aukinheldur hefur Þóra Elfa h setið fundi hópsins. Hópurinn hefur komið allnokkrum sinnum saman og hér á eftir ætla þau að skýra frá umræðum sínum og þeim helstu atriðum sem þar hafa fram komið.
Ég vil hér í lokin þakka meðstjórnarmönnum mínum samstarfið á liðnum árum. Mikill samhugur hefur verið innan þessa hóps og áhuginn á málefninu ómældur.
Á sama hátt er ástæða til að þakka þann áhuga sem félagsmenn – og reyndar einstaklingar utan þess – hafa sýnt Prentsögusetri, með símhringingum, ábendingum um tæki og fyrirspurnum.
Á dagskránni voru lögbundin aðalfundarstörf, skýrsla stjórnar, reikningar félagsins, lagabreytingar, kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga.
Sæmundur Árnason var kjörinn fundarstjóri og Þóra Elfa Björnsson fundarritari.
Í skýrslu stjórnarinnar kom m.a. fram að stjórnin á í viðræðum við yfirmenn eigna- og umsýslusviðs Reykjavíkurborgar um hugsanlegt geymslupláss fyrir þau tæki sem eru í eigu setursins. Skýrslan er birt í heild sinni hér á fréttasvæðinu.
Á fundinum gerðu þær Katrín Jónsdóttir og Málfríður Finnbogadóttir grein fyrir umræðum í Hugmyndafræðihópnum sem svo hefur verið kallaður. Þær gerðu það á skemmtilegan hátt með myndskreyttum samtalsþætti í stað venjulegrar ræðu.
Sérstakur gestur fundarins var Svavar Gestsson, fyrrum blaðamaður, ritstjóri, þingmaður, ráðherra og sendiherra. Hann lýsti á skemmtilegan hátt kynnum sínum og samskiptum,– og samstarfi – við starfsmenn Prentsmiðju Þjóðviljans í gamla daga. Sýndi meðal annars þróun í vinnslu blaðsins með dæmum.
Stjórnarkjörið fór svo að fráfarandi stjórn var endurkjörin:
Haukur Már Haraldsson, formaður. Kosinn sérstaklega.
Heimir Br. Jóhannsson, varaformaður.
Þóra Elfa Björnsson, ritari.
Svanur Jóhannesson, gjaldkeri.
Þórleifur V. Friðriksson, meðstjórnandi.
Bjargey Gígja Gísladóttir, varastjórn.
Baldvin Heimisson, varastjórn.
Félagslegir endurskoðendur voru kosnir Ólafur Stolzenwald og Simon Knight.
Í tilefni Dags íslensks prentiðnaðar hjá Iðunni þann 5. febrúar sl. var kynningarbæklingur útbúinn, til að gera grein fyrir því sem verið hefur á dagskrá stjórnar Prentsöguseturs síðasta árið.
Þessi fyrstu tæki eru ljóssetningarvélar, bókapressur, falshöggvél, prófarkapressa og heftivélar. Auk smávalsa, leturhaka og fylgihluta. Framundan er að taka við fleiri gömlum tækjum; Intertype setjaravél bíður okkar, sem og gyllingarvél, brotvél og prentvélar.
Við í stjórn Prentsöguseturs erum vitaskuld himinlifandi, erum búin að bíða eftir þessu í liðlega ár, pirrast smávegis stundum þegar málin hafa virst ætla að stranda. En nú er þeim tíma væntanlega lokið. Þeir sem hafa í fórum sínum eða vita um öldruð tæki til bókagerðar, hvort sem er fyrir setningu, umbrot, skeytingu, ljósmyndum, prentmótagerð, prentun eða bókband, mega gjarnan setja sig í samband við okkur í stjórn Prentsöguseturs.
Einnig kynnti Páll Svansson nethönnuður heimasíðu Prentsöguseturs – www.prentsögusetur.is – sem er á lokaskrefum hönnunar, og vakti mikla hrifningu fundarmanna.
Kosningar í embætti fóru svo, að Haukur Már Haraldsson var endurkjörinn formaður og aðrir í aðalstjórn Heimir Jóhannsson, Svanur Jóhannesson, Þóra Elfa Björnsson og Þórleifur V. Friðriksson. Í varastjórn voru kjörin þau Bjargey Gígja Gísladóttir og Baldvin Heimisson. Félagslegir skoðunarmenn reikninga voru kjörnir þeir Ólafur Stoltzenwald og Simon Knight.
Í dag var Dagur prentiðnaðarsins. Það var Iðan fræðslusetur sem hélt þennan dag í húsakynnum sínum. Prentsögusetur greip tækifærið til að kynna sig og markmið sín. M.a. vorum við með lítinn handrokk og prentaðar voru inntökubeiðnir fyrir setrið. Einnig kynntum við í fyrsta sinn „gardínu“ þar sem markmið Prentsöguseturs eru kynnt.
Fréttasafn
Aðalfundur Prentsöguseturs 2020 verður haldinn fimmtudaginn 4. júní nk. að Stórhöfða 31 og hefst kl. 16:30. Fundarsalurinn er á þriðju hæð og gengið inn í húsið Stórhöfðamegin. Þegar liggja fyrir tillögur að lagabreytingum og er félagsmönnum bent á að hafi þeir hug á að leggja til breytingar á lögunum á aðalfundinum þurfa tillögur þar að […]
20. maí sl. komu nemendur Waldorfskólans Sólstafir í heimsókn í Gömlu prentsmiðjuna. Hressir og kátir krakkar sem höfðu verið í lestrarátaki í skólanum og vildu fræðast frekar um það, hvernig bók verður til.
Á stjórnarfundi Prentsöguseturs sl. fimmtudag var ákveðið að fresta aðalfundi félagsins enn, nú til laugardagsins 6. júní.
Ákveðið hefur verið að fresta aðalfundi Prentsöguseturs. Fundurinn hafði verið ákveðinn 28. mars, en eftir að stjórnvöld settu á samkomubann var einsýnt að honum yrði að fresta. Gengið er út frá að fundurinn verði haldinn 25. apríl, en það gæti frestast. Fer eftir þróun krúnuvírusins. Fundurinn verður boðaður með góðum fyrirvara, þegar aðstæður lagast.
Í gær, föstudaginn 21. febrúar var Gamla prentsmiðjan við Laugaveg formlega opnuð sem safn, vísir að starfsemi Prentsöguseturs. Þennan dag, 21. febrúar, voru liðin fimm ár frá stofnun Prentsöguseturs. Allnokkrir gestir voru viðstaddir opnunina og voru undirtektir þeirra undantekningarlaust mjög góðar; gestir fundu jafnvel í loftinu gamalkunnan ilm af prentsvertu og pappír. „Maður fær nostalgíukast,“ […]