Í gær, föstudaginn 21. febrúar var Gamla prentsmiðjan við Laugaveg formlega opnuð sem safn, vísir að starfsemi Prentsöguseturs. Þennan dag, 21. febrúar, voru liðin fimm ár frá stofnun Prentsöguseturs.

Allnokkrir gestir voru viðstaddir opnunina og voru undirtektir þeirra undantekningarlaust mjög góðar; gestir fundu jafnvel í loftinu gamalkunnan ilm af prentsvertu og pappír. „Maður fær nostalgíukast,“ sagði einn gamall prentari. Og atburðurinn komst í fréttatíma sjónvarps Rúv.

Hér eru nokkrar myndir sem Hjörtur Guðnason tók við opnunina.

 

Fyrir um það bil mánuði skruppu nokkur úr stjórn Prentsöguseturs austur í Skálholt, skoðuðu aðstæður undir leiðsögn Kristjáns Björnssonar vígslubiskups og ræddum við hann um hugsanlega samvinnu Pss og Skálholtsstaðar. Þær samræður voru sérlega jákvæðar og vingjarnlegar. Í ljós kom mikill áhugi sr. Kristjáns á málefninu og í framhaldi af því skrifaði formaður Prentsöguseturs, Heimir Br. Jóhannsson formleg bréf til Skálholtsfélagsins og vígslubiskupsins. Nú er árangurinn kominn í ljós.
Á lokadegi Skálholthátíðar  21. júlí sl., kynnti sr. Kristján Björnsson vígslubiskup formlega vilja biskupsstóls, Skálholtsstaðar, til samvinnu við Prentsögusetur. Setrið verður með aðstöðu í fjósinu, sem nú er laust til starfsemi eftir að kúabúskapur var lagður þar niður. Þetta eru mjög merk tíðindi og fagnaðarefni fyrir okkur sem unnið höfum að framgangi Prentsöguseturs. Þeir Haukur Már Haraldsson, Svanur Jóhannesson og Þorsteinn Veturliðason mættu til fundarins fyrir hönd stjórnar Prentsöguseturs. Nú er bara að bretta upp ermar og láta drauminn rætast. Fjósið í Skálholti, þar sem Oddur Gottskálksson kúldraðist og þýddi Nýja testamentið á íslensku við ylinn frá kúnum. Hvar ætti Prentsögusetur fremur heima?

Aðalfundur Prentsöguseturs 2019 verður haldinn laugardaginn 4. maí nk. kl. 13.00.
Fundurinn fer fram í matsal á 1. hæð, Stórhöfða 31, Grafarvogsmegin.

Dagskrá samkvæmt félagslögum:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til afgreiðslu
4. Lagabreytingar
5. Ákvörðun félagsgjalds
6. Kosning formanns
7. Kosning fjögurra annarra stjórnarmanna og tveggja til vara
8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
9. Önnur mál

* Guðmundur Oddur Guðmundsson, GODDUR, heldur erindi og myndasýningu um Sigmund Guðmundsson prentlistamann, en nú er yfirstandandi sýning á prentgripum hans í Þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík.

Athygli er vakin á eftirfarandi lið 8. greinar laga Prentsöguseturs:
„Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist til stjórnar eigi síðar en viku fyrir aðalfund.“

F.h. stjórnar Prentsöguseturs.

Heimir Br. Jóhannsson, formaður